Dökk sýn á samtímann
Morgunblaðið, laugardagur 31. ágúst 2024.
Anne Applebaum (60 ára) er bandarískur sagnfræðingur og blaðamaður. Auk þess að vera ríkisborgari í Bandaríkjunum, þar sem hún er nú dálkahöfundur fyrir tímaritið The Atlantic, hefur Applebaum ríkisborgararétt í Póllandi. Hún er gift utanríkisráðherra landsins, Radoslaw Sikorski. Þau kynntust í umrótinu sem varð við hrun Sovétríkjanna og gengu í hjónaband árið 1992.
Anne Applebaum
Anne Applebaum kynnti sér sovésk málefni bæði sem sagnfræðingur og blaðamaður og árið 2004 hlaut hún bandarísku Pulitzer-verðlaunin fyrir bók sína um Gúlagið. Þar segir hún sögu sovésku fangabúðanna og lýsir lífinu í þeim með vísan til heimilda sem opnuðust í Rússlandi eftir að kommúnistunum var vikið af valdastóli.
Hún skapaði sér nokkra sérstöðu meðal blaðamanna og dálkahöfunda á Vesturlöndum á tíunda áratugnum með viðvörunarorðum um að ekki væri allt sem sýndist við friðsamlegt hrun Sovétríkjanna. Meðal valdastéttarinnar í Rússlandi gerjaðist ýmislegt sem ástæða væri fyrir nágrannaþjóðir landsins að óttast. Töldu ýmsir að varnaðarorð hennar hefðu tekið að rætast með yfirgangi Vladimírs Pútíns gegn Georgíu 2008, innlimun Krímskaga frá Úkraínu 2014, svo ekki sé minnst á innrásina í Úkraínu 24. febrúar 2022.
Undir lok júlí í ár kom út ný bók eftir Applebaum sem heitir á ensku: Autocracy, Inc.: The Dictators Who Want to Run the World – Alræði hf.: Einræðisherrarnir sem vilja stjórna heiminum.
Í bókarkynningu segir að við teljum okkur þekkja eðli alræðisríkis: Efst tróni leiðtogi með öll völd. Hann stjórni lögreglunni. Lögreglan hræði almenning með ofbeldi. Meðal fólksins séu vondir samverkamenn einræðisherrans og þó finnist ef til vill einnig nokkrir hugrakkir andófsmenn.
Þessi lýsing hæfir illa raunveruleika 21. aldarinnar að mati Applebaum. Nú fari ekki einn einræðisherra með stjórn alræðisríkis heldur styðjist alræðið við fjármálakerfi í mynd þjófræðis, eftirlitstækni og þrautþjálfaðra áróðursmeistara sem láti til sín heyra í mörgum þjóðríkjum, frá Kína til Rússlands og Írans. Spillt fyrirtæki í einu ríki eigi viðskipti við spillt fyrirtæki í öðru. Lögregla í einu ríki geti vopnað og þjálfað lögreglu í öðru og áróðursmeistarar samnýti fé og boðskap og hamri á máttvana lýðræði og illsku Bandaríkjamanna.
Í bókinni er bent á að efnahagsþvinganir megni ekki að hrófla við alráðum einræðisherrum. Vinsælar hreyfingar stjórnarandstæðinga í Venesúela, Hong Kong eða Moskvu megi sín einskis. Aðilar að Alræði hf. sameinist ekki um eina hugmyndafræði, eins og kommúnisma, heldur tengi þá sameiginleg þrá eftir völdum, auðæfum og friðhelgi til afbrota.
Applebaum hvetur lýðræðisríkin til að líta í eigin barm og íhuga sitt ráð að nýju, gömul ráð dugi ekki lengur til að tryggja virðingu fyrir lýðræði, lögum og rétti í heiminum. Alræðissinnarnir krefjist þess að fá að laga alþjóðastofnanir og alþjóðalög að eigin viðhorfum.
Af fundum í höfuðborgum norrænu ríkjanna fyrir tæpum fimm árum við gerð tillagna um sameiginlegar, stjórnmálalegar áherslur þeirra í utanríkis- og öryggismálum eru eftirminnileg samtöl við reynda diplómata sem sögðu að norræn sjónarmið um alþjóðasamstarf í krafti laga og reglna á vettvangi alþjóðastofnana, sem urðu til á rústum annarrar heimsstyrjaldarinnar, ættu sífellt meira undir högg að sækja. Stjórnarerindrekar frá Kína minntu jafnan á að Kínverska alþýðulýðveldið undir forystu kommúnista hefði ekki verið komið til sögunnar og áhrifa þegar þessar reglur og stofnskrár alþjóðastofnana mótuðust. Staðan væri önnur núna og kínverska stjórnin vildi að tillit yrði tekið til sín og sinna sjónarmiða.
Um aldamótin viku hugtök eins og „þriðji heimurinn“ eða „þróunarríkin“ fyrir enska hugtakinu Global South – Suðrinu – um nýja heiminn sem andstæðu við Global North – Norðrið – gamlan heim auðugra nýlenduvelda og drottnunarríkja.
Kínverjar skipa sér með fátæka suðrinu þótt hagkerfi þeirra sé nú annað stærsta í heimi. Þar afla þeir sér fylgis með fé og fagurgala. Heimsmyndin er þó flóknari en svo að unnt sé að draga skil á milli norðurs og suðurs eins og austurs og vesturs í kalda stríðinu. Þó er ljóst að lýðræðisríkin í norðri verða að leggja sig öll fram til að fara ekki halloka í áróðursstríði um hug og hjörtu þeirra sem í suðrinu búa.
Það er ekki flókið að útmála gamla þrælasala sem djöfla í mannsmynd. Kann það að skýra að lygaáróður Kremlverja um innrás þeirra í Úkraínu og tilraunir til að eyðileggja grunnstoðir nútímasamfélags í landinu njóti skilnings meðal margra þjóða í suðri (undarlegast er að sjá þá í norðri sem láta blekkjast af lygunum). Einræðisherrarnir sameinast svo um að hampa eigin ágæti og samherja sinna og sá samstillti dýrðaróður hefur áhrif á fáfróðar þjóðir með litlar eða engar frjálsar fréttalindir.
Áróðurinn hefur hljómgrunn þótt Rússar hagi sér eins og versta nýlenduþjóð í Úkraínu. Markmið stríðs þeirra er einfaldlega að afmá landamæri og allt annað sem minnir á tilvist Úkraínumanna sem sjálfstæðrar þjóðar með eigin sögu og menningu.
Danski dálkahöfundurinn og fyrrv. ritstjórinn Michael Ehrenreich segir í umsögn um Autocracy Inc. (sem hann gefur sex stjörnur) að lýsing Applebaum á umfangi samstarfs einræðisherranna sé ógnvekjandi. Fyrir þeim vaki ekki annað en að drepa hugtakið lýðræði og þurrka út heimsmyndina sem var dregin eftir aðra heimsstyrjöldina og setja kerfi alræðisins í staðinn.
Þetta er dökk en trúverðug sýn á samtímann.