Die Linke, VG og stækkun NATO
Morgunblaðið, föstudagur, 1. nóvember 2019
Kosningaúrslitin í fámenna sambandslandinu Thüringen sunnudaginn 27. október ollu pólitísku umróti í Þýskalandi 30 árum eftir hrun Berlínarmúrsins. Frá því að Thüringen varð hluti sameinaðs Þýskalands 1990 hefur CDU, flokkur kristilegra demókrata, ávallt fengið flest atkvæði þar, en ekki nú.
Die Linke (vinstrið), arftaki gamla austur-þýska kommúnistaflokksins, hefur leitt samsteypustjórn með fulltrúum jafnaðarmanna (SPD) og græningja í Erfurt, höfuðborg Thüringen, frá árinu 2014.
Die Linke fékk flest atkvæði í kosningunum núna, 31% (+2,8 frá 2014). CDU lenti í þriðja sæti með 21,8% atkvæða (-11,7) á eftir AfD (Alternative für Deutschland) með 23,4% (+12,8).
Báðir samstarfsflokkar Die Linke í fráfarandi stjórn töpuðu. Jafnaðarmannaflokkurinn, samstarfsflokkur CDU/CSU í ríkisstjórn Þýskalands, tapaði 4,2 og fékk ekki nema 8,2%. Græningjar fengu 5,2% (-0,5).
Die Linke gerir kröfu til forsætis en nær ekki meirihluta nema með stuðningi eða hlutleysi AfD eða CDU. Til þessa hefur CDU hafnað öllu samstarfi við Die Linke og segist ekki ætla að veita fráfarandi þriggja flokka stjórn stuðning. Strax mánudaginn 28. október gaf leiðtogi CDU í Thüringen til kynna að flokkurinn útilokaði þó ekki að ræða við Die Linke.
Sumir telja að á CDU hvíli söguleg skylda sem sameiningarflokks Þýskalands að leggja sitt af mörkum til að tryggja samheldni innan samfélagsins og þar með að hafna ekki fyrirvaralaust öllu samstarfi við Die Linke.
Innan CDU vara margir eindregið við samstarfi við vinstrið. Verði gengið til þess jafngildi það að flokkurinn tapi sérstöðu sinni og þar með enn fleiri kjósendum.
Sviptingarnar hafa áhrif út fyrir Thüringen. Friedrich Merz, fyrrverandi þingflokksformaður CDU, sem bauð sig fram til flokksformennsku í fyrra, segir úrslitin í Thüringen ömurlegan dóm yfir doðanum og framtaksleysinu sem einkenni stjórnarhætti Angelu Merkel kanslara. Hún liggi eins og drungaleg þoka yfir þýsku þjóðlífi. Illt sé í efni verði Þjóðverjar að búa við slíka óstjórn enn í tvö ár.
Fylgistap „stóru flokkanna“ í Thüringen leiðir til þess að hriktir í meginstoðum stjórnar Þýskalands. Óttast margir að við blasi tími sundrungar í stað samheldni.
Norður-Makedónía í NATO
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, flutti fyrirlestur í Norræna húsinu um miðjan júní 2019. Að honum loknum bað námsmaður um orðið. Hann sagðist vera frá Norður-Makedóníu. Vildi hann nota þetta einstæða tækifæri til að þakka Stoltenberg fyrir stuðning hans og frumkvæði við að tryggja Norður-Makedóníu aðild að NATO. Hún skipti sköpum fyrir þjóð sína.
Orð námsmannsins rifjast upp þegar litið er til andstöðu þingmanna Vinstri grænna (VG) við aðild Norður-Makedóníu að NATO. Til hennar kæmi ekki ef alþingi og íslenska ríkisstjórnin snerist gegn henni. Í september 2019 flutti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tillögu til þingsályktunar um aðildina.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, sat leiðtogafund NATO í júlí 2018 þegar samþykkt var að bjóða Norður-Makedóníu inngöngu í bandalagið í ljósi samkomulags sem Norður-Makedóníumenn höfðu náð við Grikki um nýtt nafn á landi sínu: Lýðveldið Norður-Makedónía.
Þegar tillaga utanríkisráðherra kom til umræðu á alþingi 26. september 2019 tók einn þingmaður til máls, Steinunn Þóra Árnadóttir (VG). Hún sagði það „einhver stærstu mistök undanfarinna áratuga á sviði alþjóðamála“ að NATO hefði ekki horfið úr sögunni fyrir 30 árum þegar Berlínarmúrinn féll. Við hrun kommúnismans og með framhaldslífi NATO hefði „glatast gott tækifæri til að byggja upp nýtt öryggiskerfi sem stuðlaði að lýðræði, friði og stöðugleika í Evrópu“. Hefðu „hagsmunir vopnaframleiðenda“ ráðið miklu um framtíð NATO. Hún taldi „útþenslustefnu og stækkun Atlantshafsbandalagsins hættulega og heiminum til óþurftar“. Að hennar mati og flokkssystkina hennar væri NATO einfaldlega veruleg „ógn við frið og öryggi í heiminum“.
Einangruð í utanríkismálanefnd
Tillaga utanríkisráðherra fór til utanríkismálanefndar alþingis og kom þaðan með tveimur álitum 21. október 2019.
Meirihlutinn mælti með samþykkt tillögunnar, nefndarmenn úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Pírötum og Viðreisn. Fulltrúi Miðflokksins var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
Minnihlutinn, tveir þingmenn VG, boðaði hjásetu í atkvæðagreiðslu um tillöguna en sagði vopnaframleiðendur hafa „ríkra hagsmuna að Atlantshafsbandalagið stækki“. Þá beitti bandalagið sér í „auknum mæli utan landamæra sinna“. Stefna VG væri „að standa utan hernaðarbandalaga og hafna vígvæðingu“. Hagsmunum Íslands væri „best borgið með úrsögn úr bandalaginu“.
Í atkvæðagreiðslunni 24. október 2019 greiddu þingmenn VG ekki atkvæði. Píratar klofnuðu; sumir þingmanna þeirra studdu tillöguna, aðrir greiddu ekki atkvæði.
Ómakleg afstaða
Eitt er að standa gegn aðild Íslands að NATO og leitast við að færa rök fyrir þeirri afstöðu. Annað að nota umsókn Norður-Makedóníu um aðild til að leggjast gegn Atlantshafsbandalaginu eins og gert var í ræðu þingmanns VG og nefndaráliti tveggja VG-þingmanna.
Fyrir því eru einfaldlega engin rök að vopnaframleiðendur standi að tilvist NATO eða að baki stækkun bandalagsins með aðild Norður-Makedóníu. Að halda því fram eða gefa til kynna er dæmigerð upplýsingafölsun. Að tengja vopnaframleiðendur við aðild Norður-Makedóníu er almennt fráleitt. Lýðveldið ræður yfir um 8.000 manna herliði sem hefur tekið þátt í ýmsum NATO-aðgerðum í áranna rás en hefur engin úrslitaáhrif á varnarstefnu eða vopnabúnað bandalagsins.
Miðað við varnarhlutverk NATO og viðleitni undir merkjum bandalagsins undanfarin ár við að stilla til friðar og uppræta ófriðarhættu kalla röksemdirnar um hlut vopnaframleiðenda við töku pólitískra ákvarðana á vettvangi NATO á meiri skýringar en birtast í málflutningi VG-þingmannanna. Að beita honum vegna NATO-aðildar Norður-Makedóníu er ómaklegt.
Tímaskekkjan
Sé litið til nálægra landa með svipaða flokkaskipan og hér á NATO-stefna VG helst samleið með stefnu Die Linke. Gömlu þýsku kommúnistarnir eru sömu skoðunar og Steinunn Þóra Árnadóttir, að NATO sé tímaskekkja, hætta hefði átt samstarfi NATO-ríkjanna með hruni kommúnismans.
Fyrir 10 árum hætti SF, Sósíalíski þjóðarflokkurinn, í Danmörku að berjast gegn aðild Dana að NATO þótt finna megi yfirlýsingar í aðra veru í skjalageymslu flokksins. SV, Sósíalíski vinstriflokkurinn, vill Noreg úr NATO og norrænt varnarbandalag í staðinn. Þó viðurkennir flokkurinn NATO-aðild Noregs með því að segja að hana eigi að nota til að beina bandalaginu til réttrar áttar.
VG heldur enn í gömlu NATO-andstöðuna eins og enn sé háð kalt stríð. Rökin gegn stækkun NATO með aðild Norður-Makedónu sýna veikan grunn andstöðunnar.
Eftir að þjóðaröryggisstefna Íslands var mótuð með aðild að NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin sem hornsteina myndaðist grundvöllur fyrir stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og VG.
Forstokkuð afstaða VG gegn NATO sem birtist í umræðum um NATO-aðild Norður-Makedóníu sýnir VG en ekki NATO sem tímaskekkju.