Danir, ESB, Kína og Bandaríkin
Morgunblaðið 8. janúar 2021.
Mikill meirihluti danskra þingmanna samþykkti skömmu fyrir jól gagnrýna ályktun á kínversk yfirvöld. Þeir benda til dæmis á að íbúar Hong Kong hafi verið sviptir svo margvíslegum réttindum að merkingarlaust sé að tala um „tvö kerfi í einu ríki“. Þar með gangi Kínastjórn á bak orða sinna og loforða sem hún gaf breskum stjórnvöldum þegar þau afsöluðu sér yfirráðum í Hong Kong árið 1998.
Fyrir umræðurnar um Kína og þingsályktunartillöguna í Kristjánsborgarhöll mótmælti kínverska sendiráðið í Kaupmannahöfn „kröftuglega“ að mannréttindi væru notuð til að hlutast til um kínversk innanríkismál.
Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, fór hörðum gagnrýnisorðum um stjórnarhætti í Kína í þingumræðunum. Hann gagnrýndi framgöngu yfirvalda gegn Tíbetum og í Xinjiang-héraði þar sem múslimski minnihlutahópurinn úigúrar er beittur harðræði. Hann sakaði einnig kínversk yfirvöld um að nýta sér COVID-19-faraldurinn til „tilraunastarfs með nýjar eftirlitsaðferðir og -tækni“.
Fyrir tveimur árum ræddu danskir þingmenn málefni Kína á allt annan og jákvæðari hátt en núna. Raunar segja danskir sérfræðingar að margir áratugir séu frá því danskir stjórnmálamenn sendu kínverskum stjórnvöldum tóninn á þennan hátt.
Hvetur þingið dönsku ríkisstjórnina til að stofna til samstarfs við stjórnvöld annarra landa með svipaða afstöðu í því skyni að þau gagnrýni einnig kínverska framgöngu í mannréttindamálum. Vill þingið að rætt sé um mannréttindamál í tvíhliða viðræðum við Kínverja, á samstarfsvettvangi ESB og Kína og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna (SÞ), einkum í mannréttindaráði SÞ.
Þegar danskir fjölmiðlamenn spyrja sérfræðinga hvort Danir verði beittir kínverskum refsiaðgerðum vegna ályktunar þingsins er svarið að það sé ólíklegt. Öll spjót standi á Kína um þessar mundir og ólíklegt sé að Dönum verði refsað umfram aðra vegna gagnrýni á mannréttindabrot í Kína.
Alþingi Íslendinga hefur ekki rætt eða ályktað um málefni Kína á sama hátt og gert var í danska þinginu þriðjudaginn 22. desember. Með vísan til samstöðu ríkisstjórna Norðurlanda í utanríkis- og öryggismálum hlyti ríkisstjórn Íslands að taka vel hvatningu frá Kaupmannahöfn um gagnrýni á mannréttindabrot í Kína. Aukið harðræði innan Kína og sífellt ágengari framgöngu kínverskra stjórnvalda á alþjóðavettvangi ber að ræða meira hér á landi. Því fleiri lýðræðisríki sem sameinast um viðspyrnu gegn ólýðræðislegum kínverskum aðferðum þeim mun áhrifameiri verður gagnsóknin.
Kína og ESB
Í sama mund og danska þingið samþykkti beinskeyttu ályktunina í garð Kína lagði framkvæmdastjórn ESB lokahönd á tvíhliða viðskipta- og fjárfestingasamning við Kínverja. Angela Merkel Þýskalandskanslari vildi að samningsgerðinni lyki áður en Þjóðverjar hyrfu úr forsæti ráðherraráðs ESB 31. desember 2020. Daginn áður sat hún fjarfund með Xi Jinping Kínaforseta, Emmanuel Macron Frakklandsforseta, Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og Charles Michel, forseta leiðtogaráðs ESB. Þar var lögð pólitísk blessun yfir samninginn. Kínverskir ráðamenn líta á hann sem rós í hnappagatið í lok erfiðs árs vegna COVID-19, ofríkis í Hong Kong, ofsókna á hendur úigúrum, ögrana á Suður-Kínahafi og gegn Tævan.
Angelu Merkel var mikils virði að ljúka samningnum til að sýna að hún gætti hagsmuna þýskra bílaframleiðenda í Kína. Emmanuel Macron segir að hann hafi náð inn ákvæðum gegn því að úigúrar í Xinjiang-héraði séu neyddir til að þræla í verksmiðjum og vinnubúðum. Brusselmenn líta á samninginn sem merki um styrk og sjálfstæði ESB milli Kína og Bandaríkjanna.
Í úttekt á samningnum sem birtist á vefsíðu indversku ORF-hugveitunnar sunnudaginn 3. janúar segir að eigi pólitísk forystusveit ESB eftir einhvern snefil af pólitískri skynsemi muni hún strika yfir sjálfsmarkið sem ESB-embættismenn hafi skorað með samningnum við Kínverja. Í honum felist svik við evrópsk grundvallargildi. Allt sé lagt upp í hendur Kínverja án þess að fá annað í staðinn en fyrirheit; þau hafi reynst haldlaus til þessa og verði einskis virði í framtíðinni. Sé tekið mið af framferði Kínverja innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) frá inngöngu þeirra þar árið 2001 blasi við að þeir lagi sig ekki að nýjum kröfum heldur leitist við að beita reglunum sem gilda í lýðræðislega hluta heims til að þvinga og þagga niður í evrópskum samstarfsaðilum sínum.
Kína-samninginn þarf ekki að leggja fyrir þjóðþing einstakra ESB-ríkja. Hann verður á hinn bóginn að hljóta samþykki ESB-þingsins. Hefst nú langt umsagnar- og umræðuferli á vettvangi ESB þar sem tekist verður á um nauðsyn samningsins og ágæti þess að semja við Kínastjórn.
Ný viðhorf í Washington
Þegar Angela Merkel tók að þrýsta á lyktir viðræðnanna við Kínverja lá ljóst fyrir að Donald Trump væri á leið úr Hvíta húsinu og Joe Biden kæmi í hans stað.
Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Joes Bidens, sagði skömmu fyrir jól að skynsamlegt væri fyrir ESB að bíða með Kína-samninginn þar til ný stjórn tæki við völdum í Bandaríkjunum.
Sullivan sagði í sjónvarpsþætti sunnudaginn 3. janúar að með stjórn Bidens eftir 20. janúar 2021 yrði horfið frá einfara-viðskiptastefnu Trump-stjórnarinnar. Trump hefði ekki látið sér nægja að glíma einn við Kínverja heldur kosið á sama tíma að eiga í útistöðum við bandamenn sína, einn eða fleiri. Biden legði áherslu á að ná samstöðu með bandamönnum og samstarfsríkjum Bandaríkjanna sem mynduðu samtals 60% af heimsbúskapnum og ræða af þeim styrk við Kínverja. Það hlyti að vera öllum heiðvirðum viðskiptaþjóðum kappsmál að fá Kínverja til að láta af markaðsmisnotkun, ólöglegum stuðningi við eigin ríkisfyrirtæki og nýtingu nauðungarvinnuafls.
Í sjónvarpsviðtalinu taldi Sullivan í raun ekki skrýtið að ESB og bandalagsríki Bandaríkjanna í Asíu hefðu gert samninga við Kínverja í trássi við hagsmuni Bandaríkjanna. Þetta væri arfleifð stjórnarhátta Trumps. Hann hefði gert lítið úr fjölþjóðlegu samstarfi í ríkjasamtökum sem hefðu orðið til að frumkvæði Bandaríkjastjórnar á sínum tíma. Hann hefði þó ekki látið við það sitja heldur samhliða sakað bandalagsríkin um að ganga á hlut Bandaríkjanna.
Þarna lýsir Jake Sullivan fjölþjóðlega tómarúminu sem Trump skapaði með einstefnu sinni, tómarúmi sem Kínverjar fylltu í gamalgrónum fjölþjóðastofnunum. Aðstöðu sína þar nýta Kínverjar markvisst til að koma ár sinni fyrir borð með eigin dagskrárvaldi. Þetta á ekki aðeins við um viðskipti heldur einnig mannréttindi, kjarnorkumál og heilbrigðismál.
Að leiðtogar ESB verðlauni kínverska leiðtoga í lok árs Wuhan-veirunnar og gefi nýjum forseta Bandaríkjanna jafnframt langt nef er óskiljanlegt. Áhrifa Breta gætir ekki lengur innan ESB, þeir hefðu aldrei samþykkt að blessa samningsbrotin í Hong Kong á þennan hátt. Nú kemur í hlut Dana, eins og samþykkt þings þeirra sýnir, að minna á eðli kínverskra stjórnarhátta og hvetja til andstöðu við þá.