8.1.2021

Danir, ESB, Kína og Bandaríkin

Morgunblaðið 8. janúar 2021.

Mik­ill meiri­hluti danskra þing­manna samþykkti skömmu fyr­ir jól gagn­rýna álykt­un á kín­versk yf­ir­völd. Þeir benda til dæm­is á að íbú­ar Hong Kong hafi verið svipt­ir svo marg­vís­leg­um rétt­ind­um að merk­ing­ar­laust sé að tala um „tvö kerfi í einu ríki“. Þar með gangi Kína­stjórn á bak orða sinna og lof­orða sem hún gaf bresk­um stjórn­völd­um þegar þau af­söluðu sér yf­ir­ráðum í Hong Kong árið 1998.

Fyr­ir umræðurn­ar um Kína og þings­álykt­un­ar­til­lög­una í Kristjáns­borg­ar­höll mót­mælti kín­verska sendi­ráðið í Kaup­manna­höfn „kröft­ug­lega“ að mann­rétt­indi væru notuð til að hlutast til um kín­versk inn­an­rík­is­mál.

Jeppe Kof­od, ut­an­rík­is­ráðherra Dan­merk­ur, fór hörðum gagn­rýn­isorðum um stjórn­ar­hætti í Kína í þingum­ræðunum. Hann gagn­rýndi fram­göngu yf­ir­valda gegn Tíbet­um og í Xinjiang-héraði þar sem múslimski minni­hluta­hóp­ur­inn úig­úr­ar er beitt­ur harðræði. Hann sakaði einnig kín­versk yf­ir­völd um að nýta sér COVID-19-far­ald­ur­inn til „til­rauna­starfs með nýj­ar eft­ir­litsaðferðir og -tækni“.

Fyr­ir tveim­ur árum ræddu dansk­ir þing­menn mál­efni Kína á allt ann­an og já­kvæðari hátt en núna. Raun­ar segja dansk­ir sér­fræðing­ar að marg­ir ára­tug­ir séu frá því dansk­ir stjórn­mála­menn sendu kín­versk­um stjórn­völd­um tón­inn á þenn­an hátt.

Hvet­ur þingið dönsku rík­is­stjórn­ina til að stofna til sam­starfs við stjórn­völd annarra landa með svipaða af­stöðu í því skyni að þau gagn­rýni einnig kín­verska fram­göngu í mann­rétt­inda­mál­um. Vill þingið að rætt sé um mann­rétt­inda­mál í tví­hliða viðræðum við Kín­verja, á sam­starfs­vett­vangi ESB og Kína og á vett­vangi Sam­einuðu þjóðanna (SÞ), einkum í mann­rétt­indaráði SÞ.

Þegar dansk­ir fjöl­miðlamenn spyrja sér­fræðinga hvort Dan­ir verði beitt­ir kín­versk­um refsiaðgerðum vegna álykt­un­ar þings­ins er svarið að það sé ólík­legt. Öll spjót standi á Kína um þess­ar mund­ir og ólík­legt sé að Dön­um verði refsað um­fram aðra vegna gagn­rýni á mann­rétt­inda­brot í Kína.

Alþingi Íslend­inga hef­ur ekki rætt eða ályktað um mál­efni Kína á sama hátt og gert var í danska þing­inu þriðju­dag­inn 22. des­em­ber. Með vís­an til sam­stöðu rík­is­stjórna Norður­landa í ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mál­um hlyti rík­is­stjórn Íslands að taka vel hvatn­ingu frá Kaup­manna­höfn um gagn­rýni á mann­rétt­inda­brot í Kína. Aukið harðræði inn­an Kína og sí­fellt ágeng­ari fram­göngu kín­verskra stjórn­valda á alþjóðavett­vangi ber að ræða meira hér á landi. Því fleiri lýðræðis­ríki sem sam­ein­ast um viðspyrnu gegn ólýðræðis­leg­um kín­versk­um aðferðum þeim mun áhrifa­meiri verður gagn­sókn­in.

Xi-Jinping-Charles-Michel-Angela-Merkel-Emmanuel-Macron-Ursula-von-der-Leyen-1200x800Kína og ESB

Í sama mund og danska þingið samþykkti bein­skeyttu álykt­un­ina í garð Kína lagði fram­kvæmda­stjórn ESB loka­hönd á tví­hliða viðskipta- og fjár­fest­inga­samn­ing við Kín­verja. Ang­ela Merkel Þýska­landskansl­ari vildi að samn­ings­gerðinni lyki áður en Þjóðverj­ar hyrfu úr for­sæti ráðherr­aráðs ESB 31. des­em­ber 2020. Dag­inn áður sat hún fjar­fund með Xi Jin­ping Kína­for­seta, Emm­anu­el Macron Frakk­lands­for­seta, Ursulu von der Leyen, for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar ESB, og Char­les Michel, for­seta leiðtogaráðs ESB. Þar var lögð póli­tísk bless­un yfir samn­ing­inn. Kín­versk­ir ráðamenn líta á hann sem rós í hnappagatið í lok erfiðs árs vegna COVID-19, of­rík­is í Hong Kong, of­sókna á hend­ur úig­úr­um, ögr­ana á Suður-Kína­hafi og gegn Tæv­an.

Ang­elu Merkel var mik­ils virði að ljúka samn­ingn­um til að sýna að hún gætti hags­muna þýskra bíla­fram­leiðenda í Kína. Emm­anu­el Macron seg­ir að hann hafi náð inn ákvæðum gegn því að úig­úr­ar í Xinjiang-héraði séu neydd­ir til að þræla í verk­smiðjum og vinnu­búðum. Brus­sel­menn líta á samn­ing­inn sem merki um styrk og sjálf­stæði ESB milli Kína og Banda­ríkj­anna.

Í út­tekt á samn­ingn­um sem birt­ist á vefsíðu ind­versku ORF-hug­veit­unn­ar sunnu­dag­inn 3. janú­ar seg­ir að eigi póli­tísk for­ystu­sveit ESB eft­ir ein­hvern snef­il af póli­tískri skyn­semi muni hún strika yfir sjálfs­markið sem ESB-emb­ætt­is­menn hafi skorað með samn­ingn­um við Kín­verja. Í hon­um fel­ist svik við evr­ópsk grund­vall­ar­gildi. Allt sé lagt upp í hend­ur Kín­verja án þess að fá annað í staðinn en fyr­ir­heit; þau hafi reynst hald­laus til þessa og verði einskis virði í framtíðinni. Sé tekið mið af fram­ferði Kín­verja inn­an Alþjóðaviðskipta­stofn­un­ar­inn­ar (WTO) frá inn­göngu þeirra þar árið 2001 blasi við að þeir lagi sig ekki að nýj­um kröf­um held­ur leit­ist við að beita regl­un­um sem gilda í lýðræðis­lega hluta heims til að þvinga og þagga niður í evr­ópsk­um sam­starfsaðilum sín­um.

Kína-samn­ing­inn þarf ekki að leggja fyr­ir þjóðþing ein­stakra ESB-ríkja. Hann verður á hinn bóg­inn að hljóta samþykki ESB-þings­ins. Hefst nú langt um­sagn­ar- og umræðuferli á vett­vangi ESB þar sem tek­ist verður á um nauðsyn samn­ings­ins og ágæti þess að semja við Kína­stjórn.

 

Ný viðhorf í Washingt­on

Þegar Ang­ela Merkel tók að þrýsta á lykt­ir viðræðnanna við Kín­verja lá ljóst fyr­ir að Don­ald Trump væri á leið úr Hvíta hús­inu og Joe Biden kæmi í hans stað.

Jake Sulli­v­an, þjóðarör­ygg­is­ráðgjafi Joes Bidens, sagði skömmu fyr­ir jól að skyn­sam­legt væri fyr­ir ESB að bíða með Kína-samn­ing­inn þar til ný stjórn tæki við völd­um í Banda­ríkj­un­um.

Sulli­v­an sagði í sjón­varpsþætti sunnu­dag­inn 3. janú­ar að með stjórn Bidens eft­ir 20. janú­ar 2021 yrði horfið frá ein­fara-viðskipta­stefnu Trump-stjórn­ar­inn­ar. Trump hefði ekki látið sér nægja að glíma einn við Kín­verja held­ur kosið á sama tíma að eiga í útistöðum við banda­menn sína, einn eða fleiri. Biden legði áherslu á að ná sam­stöðu með banda­mönn­um og sam­starfs­ríkj­um Banda­ríkj­anna sem mynduðu sam­tals 60% af heims­bú­skapn­um og ræða af þeim styrk við Kín­verja. Það hlyti að vera öll­um heiðvirðum viðskiptaþjóðum kapps­mál að fá Kín­verja til að láta af markaðsmis­notk­un, ólög­leg­um stuðningi við eig­in rík­is­fyr­ir­tæki og nýt­ingu nauðung­ar­vinnu­afls.

Í sjón­varps­viðtal­inu taldi Sulli­v­an í raun ekki skrýtið að ESB og banda­lags­ríki Banda­ríkj­anna í Asíu hefðu gert samn­inga við Kín­verja í trássi við hags­muni Banda­ríkj­anna. Þetta væri arf­leifð stjórn­ar­hátta Trumps. Hann hefði gert lítið úr fjölþjóðlegu sam­starfi í ríkja­sam­tök­um sem hefðu orðið til að frum­kvæði Banda­ríkja­stjórn­ar á sín­um tíma. Hann hefði þó ekki látið við það sitja held­ur sam­hliða sakað banda­lags­rík­in um að ganga á hlut Banda­ríkj­anna.

Þarna lýs­ir Jake Sulli­v­an fjölþjóðlega tóma­rúm­inu sem Trump skapaði með ein­stefnu sinni, tóma­rúmi sem Kín­verj­ar fylltu í gam­al­grón­um fjölþjóðastofn­un­um. Aðstöðu sína þar nýta Kín­verj­ar mark­visst til að koma ár sinni fyr­ir borð með eig­in dag­skrár­valdi. Þetta á ekki aðeins við um viðskipti held­ur einnig mann­rétt­indi, kjarn­orku­mál og heil­brigðismál.

Að leiðtog­ar ESB verðlauni kín­verska leiðtoga í lok árs Wu­h­an-veirunn­ar og gefi nýj­um for­seta Banda­ríkj­anna jafn­framt langt nef er óskilj­an­legt. Áhrifa Breta gæt­ir ekki leng­ur inn­an ESB, þeir hefðu aldrei samþykkt að blessa samn­ings­brot­in í Hong Kong á þenn­an hátt. Nú kem­ur í hlut Dana, eins og samþykkt þings þeirra sýn­ir, að minna á eðli kín­verskra stjórn­ar­hátta og hvetja til and­stöðu við þá.