Byrinn minnkar í seglum Bidens
Morgunblaðið, föstudagur 30. október 2020
Donald Trump forseti á í vök að verjast vegna heimsfaraldursins. Um helgina sagði nánasti samstarfsmaður hans að forsetaembættið hefði ekki stjórn á faraldrinum, lækningar og bóluefni væru vopnin sem dygðu.
Joe Biden, keppinautur Trumps, segir þetta sýna að forsetinn sé óhæfur til að leiða þjóðina á hættustund. Viðbrögð forsetans ráðist af „karakter“ hans sem skaði ekki aðeins bandarísku þjóðina heldur álit Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi.
Donald Trump vill að kosningabaráttan snúist mest um hann sjálfan sem persónu frekar en stefnu hans og störf. Hann er of sjálfhverfur til að stefnan skili sér þegar hann lætur gamminn geisa.
Þegar dró að kjördegi fyrir fjórum árum kvörtuðu Trump og stuðningsmenn hans undan því að fjölmiðlar þegðu um efni tölvubréfa Hillary Clinton sem rússneskir tölvuþrjótar stálu og birtu.
Nú snýr kvörtunin að því að fjölmiðlar segi ekki frá uppljóstrunum frá fjárfestinum Tony Bobulinski, fyrrverandi sjóliða, sem hefur afhent Wall Street Journal (WSJ) tölvubréf og símaskilaboð sem blaðið segir að sýni að Hunter, sonur Joes Bidens, og Joe sjálfur hafi ekki hreint mjöl í pokahorninu í viðskiptum við Kínverja.
Kimberley A. Strassel, í leiðarahópi WSJ og dálkahöfundur, segir að fjölmiðlar sem hafi í fjögur ár birt efni um Moskvuviðskipti Donalds Trumps þegi um þessi Biden-viðskipti, þá séu gögnin frá Bobulinski þess eðlis að allt tal um að Rússar stundi þarna óhróður sé úr lausu lofti gripið. Gögnin veki alvarlegar spurningar um hvort Hunter ógni þjóðaröryggi komist faðir hans til valda, að auki sé margt óljóst um hlut Joes Bidens sjálfs. Hann neiti að ræða málið en kjósendur verði að dæma. Miðað við hvernig Hunter hafi hagað sér í Kína, Úkraínu, Kasakstan og annars staðar eigi miklu meira eftir að koma í ljós.
Að kvöldi þriðjudags 27. október ræddi Tucker Carlson á Fox-fréttasjónvarpsstöðinni við Bobulinski sem herti á ásökunum í garð Biden-fjölskyldunnar. Joe Biden gæti ekki fríað sig ábyrgð.
Sterkur efnahagur
Í úttekt leiðarahöfunda WSJ sem birtist fyrir rúmri viku segir að efnahagslíf Bandaríkjanna styrkist hraðar þegar dregur úr höftum vegna faraldursins en hagfræðingar væntu, sigri Biden taki hann við þjóðarbúi með öflugum vaxtarbroddum.
Húsnæðismarkaðurinn blómstri, smáfyrirtæki sæki í sig veðrið og iðnaðarstarfsemi aukist. Þegar Covid-19-bóluefni komi til sögunnar og meðferð vegna faraldursins eflist aukist hagvöxtur. Þjónustugreinar lifni að nýju þegar öryggiskennd Bandaríkjamanna vaxi og seðlabankinn muni halda vöxtum lágum eins lengi og honum sé fært. Joe Biden þurfi ekki að aðhafast neitt sem forseti, það verði mikill hagvöxtur árin 2021 og 2022.
Sagt er að efnahagsstefna Joes Bidens sé þess eðlis að bandarískir fjársýslumenn tækju henni illa við venjulegar aðstæður, hann boði hærri skatta á fyrirtæki og fjárfesta, hertar aðgerðir gegn jarðefnaeldsneyti, öflugri verkalýðsfélög og meiri íhlutun ríkisins í heilbrigðismál.
Þetta leggst þó ekki alfarið illa í hefðbundna andstæðinga demókrata, margir andi raunar léttar. Biden sé að minnsta kosti betri en Elizabeth Warren eða Bernie Sanders, öldungadeildarþingmenn demókrata sem séu óvinveittari atvinnurekendum en Biden. Hann sé jafnvel einnig betri en Donald Trump sem stjórni efnahagsmálum frá degi til dags án fyrirsjáanleika.
Matsaðilar eins og Moody's Analytics og Goldman Sachs segja að nái Biden kjöri og demókratar meirihluta á þingi verði hagvöxtur hraðari í Bandaríkjunum en ella þótt skuldir kunni að aukast. Sumir íhaldssamir hagfræðingar eru ósammála þessu og spá því að boðaðar skattahækkanir Bidens á fyrirtæki, stóra banka, efnamenn og eignir fækki störfum, minnki sparnað og fjárfestingar sem dragi úr vexti.
Oft er fjárstuðningur við frambjóðendur talinn mælikvarði á velgengni þeirra. Í ágúst og september söfnuðust 750 milljónir dollara í kosningasjóð Bidens. Er svo mikil fjárhæð einsdæmi, sama til hvaða forsetaframbjóðanda er litið.
Umskiptingar
Fyrir bandarísku kosningarnar eins og jafnan í kosningum beinist athygli mjög að þeim sem lýsa opinberlega yfir brotthvarfi úr einu liði og ganga í annað.
Tuttugu fyrrverandi alríkissaksóknarar í Bandaríkjunum, allir í flokki repúblikana, birtu opið bréf þriðjudaginn 27. október þar sem þeir sökuðu Donald Trump um að vega að réttarríkinu og lýstu stuðningi við Joe Biden. Sé litið á starfsferil saksóknaranna spannar hann valdatíma allra forseta repúblikana frá Dwight Eisenhower á sjötta áratugnum til George W. Bush.
Margir skipulagðir hópar repúblikana snúast opinberlega gegn endurkjöri Trumps. Þar má nefna: Kjósendur repúblikana gegn Trump, fyrrverandi þjóðaröryggisstarfsmenn úr röðum repúblikana fyrir Biden, fyrrverandi starfsmenn 43 fyrir Biden, í þeim hópi eru hundruð embættismanna sem störfuðu fyrir George W. Bush, 43. forseta Bandaríkjanna.
Á Twitter hefur Donald Trump kallað þessa umskiptinga „mannfýlur“.
Blaðamaðurinn heimsfrægi Bob Woodward gaf í september út bókina Rage – Bræði – um stjórnartíð Trumps. Hún er meðal annars reist á löngum samtölum við forsetann sem Woodward hljóðritaði og birti á netinu til að forðast ásakanir um falsfréttir.
Bob Woodward segir Trump hafa brugðist bandarísku þjóðinni með því að hefja ekki tafarlausa gagnsókn gegn kórónuveirunni, til dæmis í stefnuræðu sinni 4. febrúar 2020, hann vék þá að veirunni í aðeins 15 sekúndur.
Vegna útgáfu bókarinnar á þýsku ræddi blaðamaður Der Spiegel við Woodward. Hann spurði hvers vegna Trump hefði ekki tekið fastar á veirunni í upphafi. Bob Woodward svaraði:
„Eftir að hafa skrifað allt þetta um hann og eftir að hafa rætt við hann í níu klukkustundir á þessu eina ári held ég að hann átti sig ekki á skyldu forsetans til að vernda þjóðina og hann áttar sig ekki á skyldu sinni til að segja satt. Og hann áttar sig ekki á siðferðilegri skyldu sinni við framkvæmd embættisverka sinna sem forseti. Ég veit að nokkrir öldungadeildarþingmenn repúblikana eru sammála því að Trump sé rangur maður í þetta starf, þeir vilja þó ekki segja það opinberlega og þegja. Með þá vitneskju sem ég hafði ætlaði ég ekki að slást í hóp þeirra sem þegja.“
Allt getur enn gerst í bandarískum stjórnmálum. Harkan gegn Biden vegna spillingarmála eykst. Trump þeytist á milli kosningafunda í úrslitaríkjunum en Biden fer sér hægar. Um miðja vikuna hafði Trump haldið 45 kosningafundi frá flokksþingi repúblikana 27. ágúst en Biden aðeins 27. Gerir sókndirfskan á lokadögunum gæfumuninn fyrir Trump?
Hann sigraði árið 2016 þvert á spár helstu álitsgjafa og fréttaskýrenda. Allir slá því varnagla þegar forskot Bidens í skoðanakönnunum er rætt. Að útiloka endurtekinn sigur Trumps er óvarlegt. Áhyggjur af viðbrögðum tapi hann eru ekki ástæðulausar.
Árið 2016 taldi ég líklegt að Trump tapaði. Ég er enn sömu skoðunar. Óskhyggjan má sín oft lítils.