18.11.2023

Byggðaskjöl verður að vernda

Morgunblaðið, laugardagur 18. nóvember 2023.

Af grein sem Hrafn Svein­bjarn­ar­son, héraðsskjala­vörður Kópa­vogs, birti á Skjala­vefn­um 29. októ­ber 2023 má ráða að breytt viðhorf þjóðskjala­varðar, Hrefnu Ró­berts­dótt­ur, til héraðsskjala­safna hafi orðið kveikj­an að vænt­an­legri lok­un Borg­ar­skjala­safna og Héraðsskjala­safna Kópa­vogs sem ákveðin var vorið 2023 þrátt fyr­ir há­vær mót­mæli margra – en greini­lega ekki nógu margra.

Þegar mennta- og barna­málaráðherra, Ásmund­ur Ein­ar Daðason, boðaði að sam­eina skyldi Mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri (MA) og Verk­mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri (VMA) risu þeir sem báru góðan hug til skól­anna upp og mót­mæltu svo kröft­ug­lega að ráðherr­ann dró í land og hef­ur nú til­kynnt að horfið sé frá sam­ein­ingu fram­halds­skóla.

Menn­ing­ar­málaráðherra, Lilja D. Al­freðsdótt­ir, fagnaði til­kynn­ingu meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar Reykja­vík­ur um niður­lagn­ingu Borg­ar­skjala­safns­ins og benti á lóð und­ir Þjóðskjala­safnið á Mel­un­um, fyr­ir aust­an Bænda­höll­ina sem er orðin hluti húsa­kosts Há­skóla Íslands. Verði ráðist í að reisa hús yfir Þjóðskjala­safn þar er lík­legt að bygg­ing­in verði ef til vill ris­in inn­an 20 ára sé mjög vel að verki staðið.

Skjálftar síðasta sólarhringinn.

Í grein sinni minn­ir Hrafn á að þjóðskjala­vörður hafi haldið því fram að þjón­usta Þjóðskjala­safns­ins við neyt­end­ur yrði sú sama og hjá af­lögðu söfn­un­um. Starfsmaður Þjóðskjala­safns­ins hafi tekið í sama streng. „Þetta er vill­andi mál­flutn­ing­ur og und­ar­leg­ur af hálfu Þjóðskjala­safns­ins, og virðist til þess fall­inn að afla tekna til Þjóðskjala­safns frá sveit­ar­fé­lög­um,“ seg­ir Hrafn og bend­ir á að strax árið 2014 við setn­ingu laga um skjala­söfn hafi Fé­lag héraðsskjala­varða varað við að til slíkr­ar fjár­öfl­un­ar kynni að koma. Seg­ir hann að „svika­myll­an“ sem héraðsskjala­verðir óttuðust sé nú far­in í gang.

Hrafn seg­ir að for­ver­ar nú­ver­andi þjóðskjala­varðar hafi hvatt til stofn­un­ar héraðsskjala­safna ein­mitt vegna þess að Þjóðskjala­safnið annaði ekki þeim verk­efn­um sem það hafði þá þegar í þjón­ustu við ríkið og hefði ekki rými fyr­ir skjöl sveit­ar­fé­laga í ofanálag.

Hrafn Svein­bjarn­ar­son seg­ir frá því í grein sinni að 1. októ­ber 2023 hafi gengið í gildi regl­ur um eyðingu (grisj­un) skjala sett­ar af þjóðskjala­verði. Af­leiðing­ar regln­anna séu svo „víðtæk­ar og ískyggi­leg­ar“ að reynt hafi verið að draga fjöður yfir al­vöru máls­ins með því að segja þetta heim­ild til að eyða skjöl­um úr fjár­hags­bók­haldi sveit­ar­fé­laga en ekki skyldu til grisj­un­ar. Við setn­ingu regln­anna var að sögn Hrafns þagað um rök­studd and­mæli nokk­urra héraðsskjala­varða.

Svan­hild­ur Boga­dótt­ir borg­ar­skjala­vörður hef­ur brugðist ein­stak­lega vel við ósk­um um varðveislu einka­skjala­safna. Sum söfn­in má skoða skönnuð í net­heim­um. Fyrr á ár­inu var hluti einka­skjala­safns sýnd­ur á veg­um Borg­ar­skjala­safns í Kringl­unni og and­dyri Laug­ar­dals­laug­ar.

Sta­f­ræn þjón­usta Borg­ar­skjala­safns­ins hef­ur ör­ugg­lega auðveldað mörg­um rann­sókn­ir og hvatt til auk­ins áhuga á sögu og mann­lífi í borg­inni.

Dap­ur­legt er fyr­ir þá sem trúað hafa Borg­ar­skjala­safni og Héraðsskjala­safni Kópa­vogs­bæj­ar fyr­ir einka­skjala­söfn­um að lesa það sem Hrafn seg­ir um hug þjóðskjala­varðar til slíkra safna.

„Hug­mynd­in er að skilja hrein­lega eft­ir einka­skjöl, sem Borg­ar­skjala­safni og Héraðsskjala­safni Kópa­vogs hef­ur verið trúað fyr­ir af ein­stak­ling­um og fé­laga­sam­tök­um á svæðum þeirra, í hönd­um óskil­greindra stofn­ana sem hafa ekki op­in­bera skjala­vörslu að hlut­verki og ekki á að skipa starfs­fólki með þjálf­un til henn­ar,“ seg­ir Hrafn.

Hann veit ekki hvers vegna ákveðið er að setja þessi söfn skör neðar en ann­an safn­kost en ástæðan kunni að vera sú að ólík­legt megi telja „að hægt verði að gera Reykja­vík­ur­borg og Kópa­vogs­bæ skylt að greiða meðgjöf með einka­skjala­söfn­um til lang­tíma­vörslu í Þjóðskjala­safni, en þau taka rými“.

Seg­ir Hrafn rétti­lega að þannig sýni „bæði sveit­ar­fé­lög­in og Þjóðskjala­safn þess­um menn­ing­ar­verðmæt­um al­gert virðing­ar­leysi“ og dæmi „þau til glöt­un­ar með því að láta þau hægt og ró­lega hverfa í óskil­greind­um stofn­un­um sem ekki hafa á að skipa sér­hæfðum skjala­vörðum“.

Und­ir þau orð Hrafns skal tekið að verði einka­skjala­söfn­um sýnt tóm­læti á þenn­an hátt séu það „svik við þá sem af­hent hafa Borg­ar­skjala­safni og Héraðsskjala­safni Kópa­vogs einka­skjöl sín ofan á þau svik meiri­hluta sveit­ar­stjórn­anna við þá, sem fólust í að leggja skjala­söfn­in niður“.

Að staðið verði að meðferð gagna í op­in­ber­um skjala­söfn­um eins og hér er lýst er fjarri því sem nokk­ur gat ímyndað sér. Van­hugsaðar aðgerðir leiða til mis­heppnaðrar niður­stöðu og í þessu til­viki brota á rétti þeirra sem af­hent hafa safni skjöl. Eft­ir að einka­skjöl eru af­hent Borg­ar­skjala­safni eru þau óaft­ur­kræf nema mein­bug­ir séu á af­hend­ingu og/​eða meðferð skjal­anna.

Um miðja vik­una fóru tíu starfs­menn Þjóðskjala­safns Íslands að frum­kvæði safns­ins til Grinda­vík­ur og aðstoðuðu starfs­menn mannauða bæj­ar­ins við að bjarga mik­il­væg­um skjöl­um frá hættu af völd­um jarðskjálfta og hugs­an­legra jarðelda.

Skjöl­in varða dag­leg úr­lausn­ar­efni eins og lóðir, mál­efni fatlaðra, barna­vernd­ar­mál og rétt­inda­mál bæj­ar­búa. Óbæt­an­legt tjón yrði með öðrum orðum hefðu bæj­ar­yf­ir­völd ekki áfram aðgang að skjöl­un­um.

Sorg­in sem sæk­ir að Grind­vík­ing­um þegar þeim er skipað að yf­ir­gefa bæ­inn sinn teng­ist meðal ann­ars minn­ing­um sem geym­ast mann fram af manni. Við þess­ar minn­ing­ar ber að leggja rækt. Þar gegna héraðsskjala­söfn miklu hlut­verki.

Heima­menn virða best minn­ing­ar heima­hag­anna. Það ber að viður­kenna í verki.