Brugðist við lögregluóvild Pírata
Morgunblaðið, laugardagur 22. júní 2024.
Fyrir nokkrum misserum hreyfðu vinstrisinnaðir demókratar því víðs vegar í Bandaríkjunum að leggja niður löggæslu og innleiða öflugri félagslegri þjónustu í staðinn. Spruttu hugmyndirnar af fréttum um harkalega framgöngu lögreglumanna, einkum gegn blökkumönnum.
Vegna tillagna í þessa veru ákvað sjónvarpsstöð að senda fréttateymi inn í blökkumannahverfi í New York. Rætt var við þá sem urðu á vegi teymisins og efnið síðan birt í fréttum. Má segja að þar með hafi tillagan um brotthvarf lögreglu verið drepin því að viðmælendurnir töldu það einfaldlega aðför að öryggi sínu, lífi og limum auk eigna sinna, ef lögregla hyrfi úr hverfinu.
Þessi stílfærða saga af pólitískt vanhugsaðri og misheppnaðri lögregluóvild í Bandaríkjunum kemur í hugann vegna endurtekinna árása Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, á íslenska lögreglumenn.
Þingmanninum er svo illa við lögregluna að hann réð ekki við sig þegar hann tók til máls um atkvæðagreiðslu vegna útlendingalaganna 14. júní. Þá rifjaði hann upp, án þess að það snerti þessi lög á nokkurn hátt, að á fundum forsætisnefndar þingsins hefði hann rætt „hversu ólíðandi“ það væri að lífverðir forsætisráðherra væru „á stjákli hér innan þinghússins“. Það væri „óþolandi og ekki til sóma að sérsveitarmaður lögreglunnar“ væri í hliðarsal á meðan þing sæti að störfum. „Ég fer fram á það að forseti losi Alþingi við þessa starfsmenn valdstjórnarinnar núna strax,“ krafðist þessi 5. varaforseti alþingis.
Birgir Ármannsson þingforseti sagðist hafa heyrt þessar athugasemdir en jafnan brugðist við með þeim hætti að öryggisatriði yrði að ákveða í samráði við lögreglu. Þá hrópaði Andrés Ingi: „Hætta því … ekkert til að verja hér.“ Bað forseti þingmanninn „um að hafa hljóð“.
Í viðtali við Vísi 18. júní sagði Andrés Ingi að það hefði einfaldlega átt að hætta við hátíðarhöldin á Austurvelli 17. júní eða færa þau annað í stað þess að auka öryggisráðstafanir á Austurvelli.
Sjálfur slóst þingmaðurinn í hóp mótmælenda eftir eldhúsdagsumræður á alþingi að kvöldi 12. júní. Létu þingmenn Pírata mikið með að þeir hefðu fengið sviða í augu af piparúða eftir að mótmælin espuðust við ferðir þingmanna.
Lögregla í varðstöðu gegn mótmælendum fyrir utan fundarstað ríkisstjórnarinnar (mynd: mbl.is/Kristinn Magnússon).
Auðvitað dettur engum skynsömum manni í hug að leiðin til að gæta öryggis hér sé að afnema löggæslu. Það sjónarmið á hins vegar upp á pallborðið hjá Pírötum sem vilja greinilega standa undir nafni að þessu sinni.
Sé þörf á harðari valdbeitingu lögreglu og auknum ráðstöfunum til að hafa hemil á aðgerðarsinnum og mótmælendum með persónulegri gæslu og hindrunum á borð við járngrindur við Austurvöll má rekja það til tveggja meginþátta: meiri ribbaldaháttar aðgerðarsinna en áður og of fáliðaðrar lögreglu.
Píratar fagna bæði ribbaldahætti og veikburða löggæslu, þeir ýta bæði undir uppivöðslu og minni varðstöðu lögreglumanna. Þegar rætt var um fáliðaða lögreglu á alþingi 7. febrúar 2024 sagði Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, að auknar valdheimildir lögreglu, auknar heimildir hennar til að fylgjast með athöfnum almennra borgara og til þess að beita líkamlegu valdi væru ekki „raunverulegar afbrotavarnir“. Slíkar varnir fælust í auknum skilningi og samkennd í samfélaginu. Þetta er boðskapur í ætt við þann sem lá að baki tillögum vinstrisinnaðra bandarískra demókrata um að afmá lögregluna.
Áratugum saman hefur skort nægilegan stuðning á alþingi við að laga heimildir og búnað lögreglu að gjörbreyttu starfsumhverfi hennar. Á þinginu sem nú er að ljúka hafa Píratar staðið í forystu gegn lagabreytingum sem miða að því að styrkja og skýra heimildir lögreglu til að grípa til aðgerða gegn afbrotum eða athöfnum sem raskað geta öryggi borgaranna og ríkisins og afbrotum sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi auk afbrota sem framin eru á netinu.
Í grein hér í blaðinu miðvikudaginn 19. júní sagði Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að ábyrgð þeirra þingmanna sem stæðu í vegi fyrir framgangi frumvarps dómsmálaráðherra um þetta efni á alþingi væri mikil og raunar prófsteinn á það hvort hægt væri að eiga við þá samstarf í erfiðri baráttu gegn uppgangi skipulagðra alþjóðlegra glæpahópa og verjast öðrum ytri ógnunum. Hann sagði að því yrði illa trúað að stjórnmálamenn og -flokkar sem hæst töluðu um mannréttindi legðu steina í götu lögreglunnar til að verja frelsi einstaklinga.
Þrátt fyrir staðreyndir sem þessar hafa þingflokkar staðið gegn umbótum á löggæslu hér árum saman. Samstarfsmál flokka þurfa að vera brýn til að til sátta sé slegið af kröfum um nauðsynleg úrræði fyrir lögreglu í þágu öryggis borgaranna.
Vinstrisinnar á þingi hafa elt Pírata í útlendingamálum. Fyrir þá sök hefur verið vegið að grunnþáttum félagslegrar þjónustu í landinu með meira álagi en góðu hófi gegnir. Tugir milljarða hafa runnið úr ríkissjóði fram hjá öllum venjulegum reglum um samþykki alþingis við opinberum útgjöldum.
Þeir sem hæst gagnrýna fjármálastjórnina á alþingi skauta jafnan fram hjá þessum útgjaldalið.
Með samþykkt á útlendingalagafrumvarpi Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra 14. júní urðu til ný tæki til að ná betri stjórn á útlendingamálunum. Með samþykkt lögreglulagafrumvarps ráðherrans nú í þinglok fær lögreglan betri tæki til að takast á við sífellt flóknari verkefni. Með afgreiðslu frumvarpsins svarar þingheimur Pírötum á hæfilegan hátt og sýnir lögreglunni verðugan stuðning.