4.7.2019

Brotlending úr háflugi

Morgunblaðið 4. júlí 2019

Umsögn um bókina WOW ris og fall flugfélags eftir Stefán Einar Stefánsson, Vaka Helga­fell, 2019. 367 bls..

Að fjalla um sam­tímaviðburði í bók til út­gáfu skömmu eft­ir að þátta­skil verða í at­b­urðarás­inni krefst aga, þekk­ing­ar og yf­ir­sýn­ar. Í senn verður að gæta þess að ekk­ert sé sagt sem ekki stenst og hins veg­ar að gera frá­sögn­ina þannig úr garði að áhuga­söm­um les­anda finn­ist hann fá meiri vitn­eskju um viðfangs­efnið en hann hafði af því að fylgj­ast með dag­leg­um frétt­um.

Stefán Ein­ar Stef­áns­son, viðskipta­rit­stjóri Morg­un­blaðsins, tókst á við þetta allt við rit­un bók­ar sinn­ar WOW – ris og fall flug­fé­lags sem var kynnt í út­gáfu­hófi 29. maí 2019 en starf­semi WOW air stöðvaðist 28. mars 2019. Liðu aðeins rétt­ir tveir mánuðir frá þátta­skil­um í at­b­urðarás­inni þar til bók­in birt­ist. Þar var vel að verki staðið.

Lýst er þróun flug­fé­lags­ins WOW frá því að Skúli Mo­gensen fjár­fest­ir til­kynnti um stofn­un fé­lags­ins 23. nóv­em­ber 2011 til gjaldþrots­ins 28. mars 2019. Þetta er viðburðarík­ur tími mik­illa um­svifa og stórra drauma. Ítar­leg heim­ilda­skrá fylg­ir text­an­um auk nafna­skrár. Þá er einnig birt tíma­tal um höfuðatriði í sögu WOW.

Höf­und­ur skap­ar and­rúm í kring­um ein­staka viðburði eins og til dæm­is í kafl­an­um um kynn­ingu Skúla á WOW:

„Hann stíg­ur inn í flóðlýs­ing­una og er aug­ljós­lega kát­ur í bragði. Dökk­blá skyrta, frá­hneppt, svart­ar galla­bux­ur og samlitt belti. Í hendi hef­ur hann iPad-spjald­tölvu, nýj­ustu afurð tækn­iris­ans Apple. Tækið und­ir­strik­ar að þarna fer maður sem er hand­geng­inn nýj­ustu tækni.“ (Bls. 61.)

Þetta er lýs­ing á stjórn­anda í anda Steve Jobs, frægs for­stjóra Apple. Ímynd WOW var alla tíð ná­tengd frjáls­legri fram­komu Skúla og óbilandi bjart­sýni hans og bar­áttu­vilja. „Hann er sölumaður af Guðs náð og á betra en flest­ir með að hrífa fólk með sér og sann­færa um að sú leið, eða sýn sem hann boðar, sé hin rétta.“ (Bls. 335.)

Wow-Air

Í bók­inni má sjá merki þess að ekki hafi verið farið í saum­ana á öllu sem óhjá­kvæmi­legt er að skoða við lokafrá­gang hand­rits. Ein­kenni­lega er að orði kom­ist á bls. 88 þegar rætt er um „reglu­gerð Evr­ópuráðsins um sam­eig­in­leg­ar regl­ur um út­hlut­un á af­greiðslu­tíma á banda­lags­flug­völl­um“. Á bls. 280 seg­ir að „reglu­gerð Evr­ópuþings­ins og Evr­ópuráðsins“ leggi stíf­ar kvaðir á skip­an eign­ar­halds á fé­lagi með ís­lenskt flugrekstr­ar­leyfi.

Þetta eru EES-regl­ur og skýra hefði mátt fyr­ir les­and­an­um hve aðild að þeim auðveld­ar all­ar ákv­arðanir varðandi flugrekst­ur hér á landi. Útrým­ing tækni­legra hindr­ana á sam­eig­in­lega EES-markaðnum og frelsi til að velja flug­velli inn­an hans er ómet­an­leg­ur kost­ur sam­hliða aðild­inni að Open Sky-samn­ingi ESB og Banda­ríkj­anna sem heim­il­ar ís­lensk­um flug­fé­lög­um að velja velli inn­an Banda­ríkj­anna.

Höf­und­ur nálg­ast efnið úr ann­arri átt. Of­uráhersl­an á Skúla Mo­gensen og viðskipta­fer­il hans er rök­rétt. Án fjár­magns hans og áhættu­sókn­ar hefði WOW ekki starfað eða farið út fyr­ir ramma lággjalda­flug­fé­lag­anna.

Til að árétta hve slátt­ur­inn á WOW og Skúla var mik­ill vorið 2017 seg­ir Stefán Ein­ar sögu af þáver­andi stjórn­end­um Icelanda­ir í kvöld­verði á veit­inga­hús­inu Snaps. Óvænt birt­ist þjónn með kampa­víns­glös á bakka. Þá seg­ir (bls. 166): „Í þeim var að finna hana­stélið Key Royal sem er einn þekkt­asti kampa­vínskokkteill í heimi. Í hon­um eru aðeins tvö inni­halds­efni, kampa­vín og lí­kjör­inn Crème de cass­is sem bú­inn er til úr sól­berj­um. Það sem strax vakti eft­ir­tekt borðfé­lag­anna var að kokkteill­inn var létt­blandaður, sem þýðir að í stað hefðbund­ins rauðs litar, var drykk­ur­inn fag­ur­fjólu­blár og því réð rauði lit­ur sól­berj­anna í bland við gyllt­an lit kampa­víns­ins.“

At­vikið gerðist um svipað leyti og Skúli lét eins og WOW yrði stærra en Icelanda­ir og jafn­vel stærra en Norweg­i­an. Skúli sat á Snaps og bað þjón­inn að færa Icelanda­ir-mönn­un­um for­drykk­inn í WOW-lit, ögr­un af hans hálfu. (Þessi franski drykk­ur heit­ir raun­ar Kir Royale.)

Lýs­ing­in á því hvernig þeir kynnt­ust haustið 2015 Skúli og Steven Ferencz Udvar-Házy, stofn­andi og for­stjóri Air Lea­se Corporati­on (ALC) í Banda­ríkj­un­um, er æv­in­týri lík­ust. „En staða hans og áhrif í flug­heim­in­um eru slík að saga WOW air verður ekki sögð með viðhlít­andi hætti, nema nokkru ljósi sé varpað á þenn­an mann – sann­kallaðan ör­laga­vald í vexti fé­lags­ins, falli þess og þeim átök­um sem upp komu milli Isa­via og Air Lea­se Corporati­on í kjöl­farið,“ seg­ir á bls. 136.

Til marks um auð, áhrif og flugáhuga Udvar-Házys er nefnt að hann styrkti gerð flug- og geimsafns Smith­soni­an-stofn­un­ar­inn­ar við Dul­les-alþjóðaflug­völl­inn skammt frá Washingt­on DC (ekki í Dul­les eins og seg­ir á bls. 141) með 66 millj­ón­um doll­ara. Ber safnið nafn hans og þar eru rúm­lega 120 flug­vél­ar og 120 minj­ar tengd­ar geim­ferðaáætl­un Banda­ríkj­anna.

Smá­vill­urn­ar eru létt­væg­ar miðað við ásak­an­ir Skúla Mo­gen­sens á Face­book 9. júní um rang­færsl­ur í bók­inni. Stefán Ein­ar svaraði því öllu skil­merki­lega á Face­book dag­inn eft­ir, 10. júní.

Skúli sagði meðal ann­ars að hann hefði ekki viljað ræða við Stefán Ein­ar við gerð bók­ar­inn­ar vegna þess að hann hefði „borið fram al­var­leg­ar ásak­an­ir og rang­færsl­ur í garð WOW air sem áttu ekki við rök að styðjast“. Al­var­leg­ast hefði verið „þegar hann full­yrti að WOW air skuldaði Isa­via 2 millj­arða í stórri forsíðugrein sem Morg­un­blaðið birti 15. sept­em­ber 2018“.

Stefán Ein­ar svaraði að í byrj­un októ­ber 2018 hefði Skúli und­ir­ritað leyni­legt og for­dæma­laust sam­komu­lag við Isa­via þar sem hann fór á bak við sína nán­ustu sam­starfsaðila. Frétt Morg­un­blaðsins um að WOW air skuldaði um tvo millj­arða, þar af um helm­ing­inn gjald­fall­inn, hefði verið rétt.

Frétt í dag­blaði ræður ekki úr­slit­um um gjaldþrot þrátt fyr­ir ímyndaráhrif henn­ar. Skúli seg­ir raun­ar að mik­il og dýr­keypt mis­tök sín hafi verið að færa WOW frá lággjalda­stefn­unni og að inn­leiða breiðþotur inn í leiðakerfi fé­lags­ins.

Skýr­ing­ar Stef­áns Ein­ars á falli WOW air eru ít­ar­leg­ar en flókn­ar. Árið 2017 var ljóst hvert stefndi en upp­lýs­ing­ar lágu ekki á lausu. Á ár­inu 2018 var ekki gripið nægi­lega fljótt til gagnaðgerða. Rætt var hvort nota ætti skatt­fé til að létta und­ir með fé­lag­inu. „Eng­inn heil­vita stjórn­mála­maður hefði lagt fyr­ir­tæki í slík­um áhættu- og sam­keppn­is­rekstri til tíu eða tutt­ugu millj­arða króna í von um að rætt­ist úr,“ seg­ir Stefán Ein­ar (bls. 343). Slík rík­isaðstoð á sam­eig­in­lega EES-markaðnum hefði auk þess orkað tví­mæl­is svo að ekki sé meira sagt.

Erfitt er að meta raun­veru­leg áhrif af falli WOW air. Rík­is­stjórn­in breytti fjár­laga­áætl­un sinni um 40 millj­arða króna vegna þreng­inga og um 10.000 manns eru nú án at­vinnu. Þar veg­ur hagsveifla lík­lega þyngra en óhjá­kvæmi­leg brot­lend­ing WOW. Lík­lega var hún til­tölu­lega mjúk, miðað við hæðina á flugi fé­lags­ins og stór­karla­legr­ar yf­ir­lýs­ing­ar um framtíð þess.

Öll gjaldþrot draga dilk á eft­ir sér. Í bók­ina WOW – ris og fall flug­fé­lags geta menn leitað til að sjá heild­ar­mynd­ina. Stefán Ein­ar vann þarft verk af mik­illi elju við út­gáfu bók­ar sinn­ar.