9.11.2023

Breyskleiki séra Friðriks

Umsögn, Morgunblaðið, fimmtudagur, 9. nóvember 2023.

Ævi­saga Séra Friðrik og dreng­irn­ir hans ★★★★· Eft­ir Guðmund Magnús­son. Ugla, 2023. Innb., 487 bls., mynd­ir og skrár.

Friðrik Friðriks­son, séra Friðrik, (1868-1961) er lif­andi í minn­ing­unni. Á sjötta ára­tugn­um sótti ég sam­kom­ur KFUM við Amt­manns­stíg. Þá fór Magnús Run­ólfs­son með dag­lega stjórn þar en all­ir vissu að sr. Friðrik bjó í hús­inu. Andi hans var þar yfir öllu.

Eitt sinn var mér boðið að hitta hann þar sem hann sat um­lukinn vindlareyk, blind­ur með kaffi­boll­ann sinn í dimmri stofu. Ég minn­ist stund­ar­inn­ar ekki vegna þess að eitt­hvað óvenju­legt hafi gerst held­ur hins að þarna var allt öðru vísi en ég hafði áður kynnst. Frá­sögn Guðmund­ar Magnús­son­ar staðfest­ir að í nokkr­ar mín­út­ur var ég í návist manns með náðar­gáfu og leiðtogakar­isma.

92d8c52c-27b1-4ab6-a1cd-fab05fa03ea8

Bók Guðmund­ar heit­ir Séra Friðrik og dreng­irn­ir hans. Les­and­inn ger­ir sér fljótt grein fyr­ir að höf­und­ur­inn bein­ir ekki at­hygli sinni óskiptri að séra Friðriki held­ur einnig að sam­starfs­mönn­um hans hér og er­lend­is auk allra drengj­anna sem hann hreif með sér. Án þeirra hefði minn­ing hans ekki lifað eins og hún ger­ir, björt eða dökk.

Guðmund­ur Magnús­son sagn­fræðing­ur er þaul­reynd­ur rit­höf­und­ur og blaðamaður. Hann seg­ir að kynni hans af inni­leg­um bréf­um milli sr. Friðriks og at­hafna­manns­ins og lög­manns­ins Eggerts Claes­sens hafi kveikt hjá sér
áhuga á að kanna ævi Friðriks og þar með rit­un þess­ar­ar bók­ar. „Viðfangs­efnið tók á og stund­um hvarflaði að mér að leggja verkið frá mér,“ seg­ir Guðmund­ur í bókarlok (442).

Það hef­ur lík­lega helst kostað heila­brot fyr­ir Guðmund að finna hæfi­legt jafn­vægi í frá­sögn­inni milli Friðriks ann­ars veg­ar og drengj­anna hans hins veg­ar. Þar hlíf­ir hann Friðriki hvergi enda væri það ekki í anda sögu­hetj­unn­ar.

Guðmund­ur gef­ur skýr­an tón strax í upp­hafi bók­ar­inn­ar. Vegna hans hneig­ist les­and­inn til að lesa meira á milli lín­anna í öll­um texta bók­ar­inn­ar en hann gerði ann­ars. Leynd hvíldi yfir sam­kyn­hneigð á þess­um árum og var hún bein­lín­is refsi­verð. Hvergi virðist meira full­yrt en heim­ild­ir leyfa hvað sem álykt­un­um Guðmund­ar líður. Umræðan um þenn­an þátt bók­ar­inn­ar hef­ur orðið heit. Það hef­ur einnig áhrif á huga þess sem les hana.

Sr. Friðrik háði mikla innri bar­áttu. Líf hans ein­kennd­ist af sjálf­saga sem má jafn­vel kenna við mein­lætalifnað. Þverstæður birt­ast þó víða, til dæm­is í op­in­berri bar­áttu hans gegn tób­aksnautn.

Þegar Friðrik er 33 ára ferðast hann eins og oft endra­nær um Jót­land og held­ur sam­kom­ur. Í Skand­erup hitt­ir hann sr. Carl Moe sókn­ar­prest „strangasta af heima­trú­boðsprest­um, hann var maður óvæg­inn og ber­sög­ull“ seg­ir Friðrik síðar. Hon­um finnst Moe hafa allt á horn­um sér: „Allt í einu nem­ur hann staðar og seg­ir: „Jæja, mér [er] þá sama þótt ég hneyksli yður, ég kveiki nú samt í pípu minni.“ Ég varð al­veg for­viða. „Hneyksla mig! Hvað eigið þér við, Pastor Moe?““ spyr Friðrik. Þeir gripu nú báðir til tób­aks­ins og tóku gleði sína. Moe með pípu og Friðrik með vindil og tala um and­lega hluti (200).

Matth­ías Johann­essen, síðar rit­stjóri Morg­un­blaðsins, tók síðasta blaðaviðtalið við séra Friðrik dag­inn fyr­ir níræðisaf­mæli hans árið 1958. Talið barst að reyk­ing­um, tób­aksneysla væri illa séð í KFUM en Friðriki leyfðist það sem öðrum væri bannað: „Vindl­ar! Jú, auðvitað, ég reyki mikið enn þá, ég er breysk­ur og hef alltaf verið. Ég er svo sem eng­inn dýr­ling­ur, máttu vita“ (430).

Guðmund­ur seg­ir þetta „vís­ast sagt í hálf­kær­ingi“. Margt í fari Friðriks bend­ir hins veg­ar til að hon­um hafi verið fúl­asta al­vara. Lang­dval­ir hans er­lend­is og stöðug ferðalög þar og ánægj­an yfir að fá at­hvarf sem af­leys­inga­prest­ur á Akra­nesi bend­ir til að hon­um hafi þótt sig skorta svig­rúm meðal vina og vel­gjörðarmanna í Reykja­vík. Hann þráði frelsi bæði til að boða guðsorð á sinn hátt og vinna að bless­un drengj­anna sinna eft­ir eig­in leiðum.

„Eitt sinn þegar hon­um [sr. Friðriki] var heitt í hamsi og hélt því fram að stofn­un frí­kirkju­safnaðar í Hafnar­f­irði væri verk djöf­uls­ins, vildi prest­ur safnaðar­ins að Þór­hall­ur Bjarna­son bisk­up ávítaði hann. Kald­hæðnis­legt svar bisk­ups er í minn­um haft: „Æ, við verðum að fyr­ir­gefa hon­um séra Friðriki þetta, af því að hann mein­ar alltaf það sem hann seg­ir““ (437).

Hvort sem er í Hafnar­f­irði eða ann­ars staðar eru átök um trú­ar­leg­ar kenn­ing­ar en séra Friðrik held­ur sig við bók­staf­inn og verður ekki haggað.

Hvað ger­ir menn að dýr­ling­um? Séra Friðrik ræddi ann­an dag hvíta­sunnu 1923 við Píus páfa XI. á lat­ínu í Róm og vildi að Jón bisk­up Ögmunds­son yrði gerður að dýr­lingi. Hann treysti sér ekki til að mæla með Jóni bisk­upi Ara­syni vegna þess hve börn hans voru mörg (381). Síðar gerði Jó­hann­es Páll páfi II. heil­ag­an Þor­lák að vernd­ar­dýr­lingi Íslands (384).

Friðrik varð að fara næsta leynt með góð tengsl sín við kaþólsku kirkj­una vegna þess að vin­ir hans í heima­trú­boðinu í Dan­mörku litu
hana illu auga. Hann var maður
þverstæðna en per­sónutöfr­ar hans dugðu hon­um ávallt best að lok­um. Hann var haf­inn til vegs og virðing­ar vegna eig­in styrks, andagift­ar og þolgæðis þrátt fyr­ir breysk­leika og bresti.

Allt þetta dreg­ur Guðmund­ur Magnús­son fram í bók sinni. Hún skipt­ist í 34 kafla og hver kafli síðan í undirkafla. Eft­ir­máli fylg­ir. Text­inn er skýr og auðles­inn. Brugðið er upp þjóðlífs­mynd­um héðan, frá Dan­mörku og meðal Íslend­inga í Vest­ur­heimi. Skotið er inn þrem­ur átta blaðsíðna mynda­örk­um. Heim­ilda-, mynda- og nafna­skrár eru í bók­inni.

Guðmund­ur kynn­ir fyr­ir okk­ur þjóðfé­lags­breyt­ing­arn­ar sem verða und­ir lok 19. ald­ar og við upp­haf þeirr­ar 20. þegar sí­fellt fleiri Íslend­ing­ar hleypa heimdrag­an­um og drekka í sig nýja er­lenda strauma.

Sr. Friðrik lét ekki við það sitja að leggja grunn að kristi­legu æsku­lýðsstarfi hér með því að stofna KFUM og KFUK held­ur lagði hann veru­leg­an skerf af mörk­um til slíks starfs í Dan­mörku og í byggðum Íslend­inga í Vest­ur­heimi. Hvarvetna var hann eft­ir­sótt­ur fyr­ir­les­ari.

Okk­ur er veitt sýn á þessa tíma en við lif­um þá ekki. Við get­um sest í dóm­ara­sæti en höf­um ekki refsi­vald. Okk­ur er fyr­ir bestu að græða sár en opna ekki ný.