Breyskleiki séra Friðriks
Umsögn, Morgunblaðið, fimmtudagur, 9. nóvember 2023.
Ævisaga Séra Friðrik og drengirnir hans ★★★★· Eftir Guðmund Magnússon. Ugla, 2023. Innb., 487 bls., myndir og skrár.
Friðrik Friðriksson, séra Friðrik, (1868-1961) er lifandi í minningunni. Á sjötta áratugnum sótti ég samkomur KFUM við Amtmannsstíg. Þá fór Magnús Runólfsson með daglega stjórn þar en allir vissu að sr. Friðrik bjó í húsinu. Andi hans var þar yfir öllu.
Eitt sinn var mér boðið að hitta hann þar sem hann sat umlukinn vindlareyk, blindur með kaffibollann sinn í dimmri stofu. Ég minnist stundarinnar ekki vegna þess að eitthvað óvenjulegt hafi gerst heldur hins að þarna var allt öðru vísi en ég hafði áður kynnst. Frásögn Guðmundar Magnússonar staðfestir að í nokkrar mínútur var ég í návist manns með náðargáfu og leiðtogakarisma.
Bók Guðmundar heitir Séra Friðrik og drengirnir hans. Lesandinn gerir sér fljótt grein fyrir að höfundurinn beinir ekki athygli sinni óskiptri að séra Friðriki heldur einnig að samstarfsmönnum hans hér og erlendis auk allra drengjanna sem hann hreif með sér. Án þeirra hefði minning hans ekki lifað eins og hún gerir, björt eða dökk.
Guðmundur Magnússon sagnfræðingur er þaulreyndur rithöfundur og blaðamaður. Hann segir að kynni hans af innilegum bréfum milli sr. Friðriks og athafnamannsins og lögmannsins Eggerts Claessens hafi kveikt hjá sér
áhuga á að kanna ævi Friðriks og þar með ritun þessarar bókar. „Viðfangsefnið tók á og stundum hvarflaði að mér að leggja verkið frá mér,“ segir Guðmundur í bókarlok (442).
Það hefur líklega helst kostað heilabrot fyrir Guðmund að finna hæfilegt jafnvægi í frásögninni milli Friðriks annars vegar og drengjanna hans hins vegar. Þar hlífir hann Friðriki hvergi enda væri það ekki í anda söguhetjunnar.
Guðmundur gefur skýran tón strax í upphafi bókarinnar. Vegna hans hneigist lesandinn til að lesa meira á milli línanna í öllum texta bókarinnar en hann gerði annars. Leynd hvíldi yfir samkynhneigð á þessum árum og var hún beinlínis refsiverð. Hvergi virðist meira fullyrt en heimildir leyfa hvað sem ályktunum Guðmundar líður. Umræðan um þennan þátt bókarinnar hefur orðið heit. Það hefur einnig áhrif á huga þess sem les hana.
Sr. Friðrik háði mikla innri baráttu. Líf hans einkenndist af sjálfsaga sem má jafnvel kenna við meinlætalifnað. Þverstæður birtast þó víða, til dæmis í opinberri baráttu hans gegn tóbaksnautn.
Þegar Friðrik er 33 ára ferðast hann eins og oft endranær um Jótland og heldur samkomur. Í Skanderup hittir hann sr. Carl Moe sóknarprest „strangasta af heimatrúboðsprestum, hann var maður óvæginn og bersögull“ segir Friðrik síðar. Honum finnst Moe hafa allt á hornum sér: „Allt í einu nemur hann staðar og segir: „Jæja, mér [er] þá sama þótt ég hneyksli yður, ég kveiki nú samt í pípu minni.“ Ég varð alveg forviða. „Hneyksla mig! Hvað eigið þér við, Pastor Moe?““ spyr Friðrik. Þeir gripu nú báðir til tóbaksins og tóku gleði sína. Moe með pípu og Friðrik með vindil og tala um andlega hluti (200).
Matthías Johannessen, síðar ritstjóri Morgunblaðsins, tók síðasta blaðaviðtalið við séra Friðrik daginn fyrir níræðisafmæli hans árið 1958. Talið barst að reykingum, tóbaksneysla væri illa séð í KFUM en Friðriki leyfðist það sem öðrum væri bannað: „Vindlar! Jú, auðvitað, ég reyki mikið enn þá, ég er breyskur og hef alltaf verið. Ég er svo sem enginn dýrlingur, máttu vita“ (430).
Guðmundur segir þetta „vísast sagt í hálfkæringi“. Margt í fari Friðriks bendir hins vegar til að honum hafi verið fúlasta alvara. Langdvalir hans erlendis og stöðug ferðalög þar og ánægjan yfir að fá athvarf sem afleysingaprestur á Akranesi bendir til að honum hafi þótt sig skorta svigrúm meðal vina og velgjörðarmanna í Reykjavík. Hann þráði frelsi bæði til að boða guðsorð á sinn hátt og vinna að blessun drengjanna sinna eftir eigin leiðum.
„Eitt sinn þegar honum [sr. Friðriki] var heitt í hamsi og hélt því fram að stofnun fríkirkjusafnaðar í Hafnarfirði væri verk djöfulsins, vildi prestur safnaðarins að Þórhallur Bjarnason biskup ávítaði hann. Kaldhæðnislegt svar biskups er í minnum haft: „Æ, við verðum að fyrirgefa honum séra Friðriki þetta, af því að hann meinar alltaf það sem hann segir““ (437).
Hvort sem er í Hafnarfirði eða annars staðar eru átök um trúarlegar kenningar en séra Friðrik heldur sig við bókstafinn og verður ekki haggað.
Hvað gerir menn að dýrlingum? Séra Friðrik ræddi annan dag hvítasunnu 1923 við Píus páfa XI. á latínu í Róm og vildi að Jón biskup Ögmundsson yrði gerður að dýrlingi. Hann treysti sér ekki til að mæla með Jóni biskupi Arasyni vegna þess hve börn hans voru mörg (381). Síðar gerði Jóhannes Páll páfi II. heilagan Þorlák að verndardýrlingi Íslands (384).
Friðrik varð að fara næsta leynt með góð tengsl sín við kaþólsku kirkjuna vegna þess að vinir hans í heimatrúboðinu í Danmörku litu
hana illu auga. Hann var maður
þverstæðna en persónutöfrar hans dugðu honum ávallt best að lokum. Hann var hafinn til vegs og virðingar vegna eigin styrks, andagiftar og þolgæðis þrátt fyrir breyskleika og bresti.
Allt þetta dregur Guðmundur Magnússon fram í bók sinni. Hún skiptist í 34 kafla og hver kafli síðan í undirkafla. Eftirmáli fylgir. Textinn er skýr og auðlesinn. Brugðið er upp þjóðlífsmyndum héðan, frá Danmörku og meðal Íslendinga í Vesturheimi. Skotið er inn þremur átta blaðsíðna myndaörkum. Heimilda-, mynda- og nafnaskrár eru í bókinni.
Guðmundur kynnir fyrir okkur þjóðfélagsbreytingarnar sem verða undir lok 19. aldar og við upphaf þeirrar 20. þegar sífellt fleiri Íslendingar hleypa heimdraganum og drekka í sig nýja erlenda strauma.
Sr. Friðrik lét ekki við það sitja að leggja grunn að kristilegu æskulýðsstarfi hér með því að stofna KFUM og KFUK heldur lagði hann verulegan skerf af mörkum til slíks starfs í Danmörku og í byggðum Íslendinga í Vesturheimi. Hvarvetna var hann eftirsóttur fyrirlesari.
Okkur er veitt sýn á þessa tíma en við lifum þá ekki. Við getum sest í dómarasæti en höfum ekki refsivald. Okkur er fyrir bestu að græða sár en opna ekki ný.