20.9.2019

Brexit-martröð eða snilldarbragð

Morgunblaðið, föstudagur, 20. september 2019

„Þetta er mar­tröð!“ hrópaði Xa­vier Bettel, for­sæt­is­ráðherra Lúx­em­borg­ar, síðdeg­is mánu­dag­inn 16. sept­em­ber. „Ekki er unnt að taka framtíðina í gísl­ingu í von um aukið flokks­fylgi,“ sagði hann einnig við kröft­ugt lófa­tak.

For­sæt­is­ráðherr­ann flutti þenn­an boðskap þar sem hann stóð einn á blaðamanna­fundi fyr­ir fram­an stjórn­ar­bygg­ingu í höfuðborg lands síns með autt ræðupúlt við hlið sér eft­ir að gest­ur hans, Bor­is John­son, for­sæt­is­ráðherra Breta, hafði tekið skyndi­ákvörðun um að aka á braut að loknu einka­sam­tali þeirra vegna þess að hon­um mis­líkaði and-brex­it-hróp­in sem voru gerð að hon­um.

Bettel var heitt í hamsi þegar hann ræddi um stöðuna í brex­it og sagði að nú ætti að „taka til hendi í stað þess að tala“ og áréttaði „við samþykkj­um ekki neinn samn­ing sem stang­ast á við sam­eig­in­lega markaðinn eða sam­komu­lagið [á Írlandi] kennt við föstu­dag­inn langa“.

Dar­ren McCaffrey, stjórn­mála­rit­stjóri sjón­varps­stöðvar­inn­ar Euronews, spurði hvort líkja mætti ástand­inu núna við „leik­sýn­ingu svo að Bor­is John­son geti skellt skuld­inni á ESB þegar allt splundr­ast í októ­ber?“

Bettel svaraði:

„Nú er reynt að klína sök­inni á okk­ur af því að ekki er unnt að kom­ast að sam­komu­lagi. Það var ekki okk­ar ákvörðun að fara af stað með brex­it.“

Bresk­ir frétta­skýrend­ur segja að Bor­is John­son hafi verið leidd­ur í gildru. Það hefðu verið sam­an­tek­in ráð að gera lítið úr hon­um. Rétt hand­an garðsins við stjórn­ar­bygg­ing­una stóð hróp­andi fá­menn­ur hóp­ur brott­fluttra Breta, þeim var ætlað, að sögn skýrenda, að niður­lægja John­son fyr­ir fram­an blaðamenn­ina. Hann hefði séð í hvað stefndi og þess vegna lagt til að blaðamanna­fund­ur­inn yrði inn­an dyra og gengið á brott þegar Bettel hafnaði því.

Ekki aðeins í Bretlandi mis­líkaði mönn­um fram­ganga Xa­viers Bettels. Kristi­legi demó­krat­inn Nor­bert Rött­gen, formaður ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar þýska þings­ins, sagði mál­flutn­ing Bettels ekki „þjóna evr­ópsk­um málstað“. Banda­ríski sendi­herr­ann í London, Woo­dy John­son, sýndi breska for­sæt­is­ráðherr­an­um sam­stöðu. Hann hefði auðvitað séð „gildruna“ en eng­inn þyrfti að kenna Bret­um sem hefðu „stofnað stærsta heimsveldið“ og „stöðvað nas­ista“ hvernig þeir ættu að stjórna eig­in landi, ekki einu sinni Brus­sel­menn.

2-format2020Boris Johnson og Jean-Claude Juncker í Lúxemborg mánudaginn 16. september 2019.

Juncker og John­son vongóðir

Upp­hlaup for­sæt­is­ráðherra Lúx­em­borg­ar dró alla at­hygli frá raun­veru­legu er­indi Bor­is John­sons sem var að snæða há­deg­is­verð með Jean-Clau­de Juncker, for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar ESB, og Michel Barnier, brex­it-samn­inga­manni ESB. Eft­ir há­deg­is­verðinn lýsti John­son þeirri ein­dregnu skoðun að „góðar lík­ur“ væru á samn­ingi á næstu vik­um. Hann sagði að varnagl­inn vegna írsku landa­mær­anna yrði að víkja svo að unnt yrði að semja.

For­ystu­menn ESB halda fast í þá skoðun að eina leiðin til sam­komu­lags fel­ist í því að Bret­ar leggi af­drátt­ar­laus­ar til­lög­ur á borðið um hvernig losa megi um varnagl­ann, það er haga sam­skipt­um ESB og Breta þannig til fram­búðar að þeir verði ekki sam­an í tolla­banda­lagi en samt verði opin landa­mæri milli Írska lýðveld­is­ins og Norður-Írlands. Bor­is John­son ger­ir mun minna úr vand­an­um vegna þessa en Th­eresa May, for­veri hans.

Jean-Clau­de Juncker sagði „vin­gjarn­legt“ and­rúms­loft hafa ríkt í máls­verði þeirra John­sons og viðræðum yrði „haldið áfram á mikl­um hraða“. Talsmaður breska for­sæt­is­ráðherr­ans ít­rekaði að „herða“ yrði á sam­töl­um næstu daga. Brátt yrðu dag­leg­ir fund­ir viðræðuaðila. Þá mundu Barnier og brex­it-ráðherr­ann hitt­ast og einnig Juncker og John­son, þætti þess þörf.

Þegar John­son fór frá veit­ingastaðnum voru blaðamenn aðgangs­h­arðir við hann. Þeir vildu vita hvort hon­um hefði tek­ist að fá vil­yrði fyr­ir end­ur­skoðun á viðskilnaðarsamn­ingi Breta og ESB. Breski for­sæt­is­ráðherr­ann von­ar að ný út­gáfa af viðskilnaðarsamn­ingn­um liggi fyr­ir eft­ir leiðtogaráðsfund ESB-ríkj­anna 17. og 18. októ­ber. Hann geti síðan kynnt hann og fengið samþykkt­an á breska þing­inu þegar það kem­ur sam­an 19. októ­ber.

Skömmu eft­ir fund John­sons og Junckers birti fram­kvæmda­stjórn ESB til­kynn­ingu um að það væri á „ábyrgð“ Breta að leggja fram „laga­lega fær­ar lausn­ir sem sam­rým­ist viðskilnaðarsamn­ingn­um“ til að ein­hverju miði vegna varnagl­ans. Þá sagði „eng­ar slík­ar til­lög­ur hafa enn borist“.

Ekki allt sem sýn­ist

Tvær and­stæður birt­ast í þess­um frétt­um frá Lúx­em­borg. Ann­ars veg­ar er nei­kvætt upp­hlaup for­sæt­is­ráðherr­ans Bettels og hins veg­ar vilji Junckers til að hraða viðræðum við Breta næstu vik­ur fram að leiðtogaráðsfundi ESB eft­ir mánuð.

Hvort er rétt? Er Bor­is John­son á valdi blekk­inga þegar hann lýs­ir bjart­sýni um að sér tak­ist að knýja fram nýja viðun­andi niður­stöðu? Vill hann á þenn­an hátt rétt­læta ákvörðun sína um að senda breska þingið heim?

Þeir sem telja sig þekkja klæki Brus­selmanna segja að „gildr­an“ sem lögð var fyr­ir Bor­is John­son í Lúx­em­borg hafi verið lúmsk­ari en ætla mætti við fyrstu sýn. Bettel hafi verið „vondi karl­inn“ en Juncker sá góði og vin­gjarn­legri til að villa um fyr­ir John­son. Telja hon­um trú um að eitt­hvað hafi áunn­ist svo að síðar mætti vega að trú­verðug­leika hans og segja hann fá­vís­an.

Ekki er þó unnt að úti­loka að öll brot­in falli þannig sam­an að lok­um að við blasi ný mynd sem sé meiri­hluta þing­manna í neðri mál­stofu breska þings­ins að skapi. John­son þótti ganga of langt þegar hann rak 21 þing­mann úr flokkn­um vegna þess að þeir studdu ekki stjórn­ar­stefn­una í at­kvæðagreiðslu. Í hópn­um voru nokkr­ir elstu og virðuleg­ustu þing­menn flokks­ins. Hef­ur John­son verið hvatt­ur til að friðmæl­ast við þá.

Ákvörðunin um að reka þingið heim í fimm vik­ur leiddi til mála­ferla og þriðju­dag­inn 17. sept­em­ber tók breski hæstirétt­ur­inn málið fyr­ir með 11 dómur­un­um. Lögmaður sækj­anda sagði að und­an­far­in 50 ár hefði eng­inn for­sæt­is­ráðherra gripið til sam­bæri­legr­ar mis­beit­ing­ar á valdi. Lafði Hale, for­seti hæsta­rétt­ar, tók fram að niðurstaða í þessu máli mundi ekki ráða því hvernig Bret­ar færu úr Evr­ópu­sam­band­inu. Af hálfu rík­is­stjórn­ar­inn­ar er sagt að þetta sé mál sem ljúka eigi á stjórn­mála­vett­vangi en ekki fyr­ir dómi.

Lögmaður Johns Maj­ors, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra, ávarpaði dóm­ar­ana skömmu fyr­ir lok mál­flutn­ings­ins í gær og mót­mælti þing­hlénu. Minnt er á að Maj­or sendi þingið heim fyr­ir kosn­ing­ar 1997 til að kom­ast hjá því að birt yrði skýrsla um að þing­mönn­um væri borgað fyr­ir að leggja spurn­ing­ar fyr­ir ráðherra.

Frá því að Bor­is John­son myndaði stjórn sína hef­ur hann búið sig und­ir þing­kosn­ing­ar sam­hliða til­raun­um til nýrra samn­inga við ESB. Snilld­ar­bragðið er að nýtt ESB-sam­komu­lag í þing­hléi verði lagt fram á þingi fyr­ir 31. októ­ber. Boða síðan til kosn­inga hvort sem brex­it verður með eða án samn­ings.