11.6.2021

Biden boðar endurkomu Bandaríkjanna

Morgunblaðið, föstudaginn 11. júní 2021.

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti er nú í fyrstu for­seta­ferð sinni til Evr­ópu. Sæk­ir hann fundi í Bretlandi, Brus­sel og Genf. Hitt­ir leiðtoga G-7-ríkj­anna, tek­ur þátt í rík­is­odd­vita­fundi NATO-ríkj­anna mánu­dag­inn 14. júní, ræðir við for­ystu­menn Evr­ópu­sam­bands­ins og hitt­ir Valdimir Pút­in 16. júní.

Biden ferðast und­ir kjör­orðinu America is back. Hann boðar að Banda­ríkja­menn séu komn­ir að nýju til virkr­ar þátt­töku í alþjóðasam­starfi og inn­an alþjóðastofn­ana sem Don­ald Trump setti út í kuld­ann eins og Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­ina (WHO) í Genf.

Stjórn­mála­skýrend­ur í Banda­ríkj­un­um minna á að í huga Bidens, sem alla tíð hef­ur verið ein­dreg­inn stuðnings­maður NATO og ná­inna tengsla við Evr­ópu, hafi afstaða Kína for­gang um­fram allt annað í alþjóðamál­um. Evr­ópsk­ir stjórn­mála­menn verði að skilja að þeir séu ekki í fremstu varn­ar­línu gagn­vart áhrif­um Kín­verja. Þar séu þeir þvert á móti tald­ir veik­ir á svell­inu af ráðgjöf­um Bidens. Hann treysti þess vegna var­lega á fulltingi þeirra við fram­kvæmd Kína­stefn­unn­ar. Sömu sögu sé að segja þegar for­set­inn glími við mál­efni Mið-Aust­ur­landa. Þar hafi hann lítið til Evr­ópu­ríkja að sækja. Þetta sé kaldi veru­leik­inn hvað sem sagt sé í hátíðarræðum sem verði vafa­laust marg­ar í Evr­ópu­ferð hans.

 

Breyt­ing­ar í Þýskalandi

Rík­is­odd­vita­fund­ur NATO-ríkj­anna með þátt­töku full­trúa 30 aðild­ar­ríkja banda­lags­ins er þriðji fund­ur­inn af þessu tagi sem hald­inn er í tíð Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur sem for­sæt­is­ráðherra (11.-12. júlí 2018, 3.-4. des. 2019). Nú er gert ráð fyr­ir inn­an við þriggja tíma fundi og að and­rúms­loftið verði ekki eins spennuþrungið og þegar Don­ald Trump lét að sér kveða. 

Þetta er 11. rík­is­odd­vita­fund­ur NATO sem Ang­ela Merkel, kansl­ari Þýska­lands, sit­ur frá því hún tók við embætti sínu 22. nóv­em­ber 2005. Á fund­in­um verður hún kvödd. Hún gef­ur ekki kost á sér í sam­bandsþings­kosn­ing­un­um í sept­em­ber 2021.

Þegar litið er til þýsku kosn­ing­anna spá marg­ir að græn­ingj­ar setj­ist við stjórn­völ­inn í Berlín eins og þeir gerðu 1998 til 2005 með jafnaðarmönn­um, nú hugs­an­lega með kristi­leg­um. Lofts­lags- og um­hverf­is­mál setja að sjálf­sögðu sterk­an svip á stefnu þeirra. Inn­an raða græn­ingja er ein­angraður hóp­ur sem vill úr NATO en hann má sín lít­ils. For­ystu­menn flokks­ins og meiri­hluti flokks­manna vilja leggja rækt við NATO og sam­starfið í ör­ygg­is­mál­um við Banda­ríkja­menn auk þess sem hlut­ur ESB verði efld­ur.

Græn­ingj­ar eru ein­dregn­ari í gagn­rýni á stjórn­völd í Rússlandi og Kína en kristi­leg­ir og jafnaðar­menn. Þeir eru til dæm­is and­víg­ir um­deildu Nord Stream 2 gas­leiðslunni frá Rússlandi til Þýska­lands. Þeir lýsa op­in­ber­lega stuðningi við hópa stjórn­ar­and­stæðinga í Kína, Rússlandi og Hvíta-Rússlandi.

Rík­is­stjórn Þýska­lands með græn­ingja um borð kynni að eiga meira sam­eig­in­legt með stefnu Biden-stjórn­ar­inn­ar en stefna stjórn­ar kristi­legra og jafnaðarmanna und­ir for­sæti Merkel.

Ap_84830208694_wide-fe923e12b3d6274e93a283448915dd757ab88d17Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, og Joe Biden Bandaríkjaforseti,

 

Framtíðar­stefna NATO

Stefnt er að því að á NATO-fund­in­um verði ákveðið að móta nýja grunn­stefnu (e. stra­tegic concept) banda­lags­ins. Nú er grunn­stefn­an frá ár­inu 2010 þegar allt annað and­rúms­loft ríkti í alþjóðamál­um og meiri von­ir voru bundn­ar við gott sam­starf við Kín­verja og Rússa en eft­ir 2012 þegar Xi Jin­ping varð for­seti Kína og Vla­dimir Pút­in hóf stríð við Úkraínu­menn og inn­limaði Krímskaga árið 2014. Í skjal­inu frá 2010 var litið á Rússa sem hugs­an­lega sam­starfsþjóð NATO og varla er vikið orði að Kína. For­send­ur nýju stefn­unn­ar eru allt aðrar en fyr­ir ell­efu árum.

Eft­ir NATO-fund­inn í London í des­em­ber 2019 hófst gerð umræðu- og stefnu­skjals inn­an NATO sem var gefið út í fyrra und­ir heit­inu NATO 2030. Í ræðu sem Jens Stolten­berg, fram­kvæmda­stjóri NATO, flutti föstu­dag­inn 4. júní um viðfangs­efni fund­ar­ins 14. júní vék hann að níu höfuðatriðum sem hann taldi að leggja ætti til grund­vall­ar:

Í fyrsta lagi beri að efla NATO sem ein­stak­an og ómiss­andi sam­ráðsvett­vang ríkj­anna beggja vegna Atlants­hafs. Lögð verði áhersla á NATO sem stjórn­mála- og her­mála­banda­lag. Komi til hernaðaraðgerða skipti póli­tísk samstaða ríkj­anna sköp­um.

Í öðru lagi verði áréttaður vilji til sam­eig­in­legra varna gegn hvers kyns ógn á landi, hafi, í lofti, í net­heim­um og geimn­um. Sýna verði meiri metnað við að efla þanþol aðild­ar­ríkj­anna.

Í þriðja lagi verði sett mark­mið um varn­ir lyk­ilmann­virkja og til að minnka lík­ur á að sam­fé­lagi sé ógnað með árás eða nauðung.

Í fjórða lagi verði skerpt á tækni­legu for­skoti NATO-ríkj­anna og komið í veg fyr­ir að ný­sköp­un­ar­gjá mynd­ist milli þeirra.

Í fimmta lagi verði staðinn vörður um að lög og regl­ur séu virt­ar í alþjóðasam­skipt­um.

Í sjötta lagi verði stuðlað að stöðug­leika í ná­grenni NATO-svæðis­ins með því að styrkja og efla sam­starfs­ríki eins og Írak, Jórdan­íu, Georgíu og Úkraínu.

Í sjö­unda lagi beri að líta til þess að lofts­lags­breyt­ing­ar og hlýn­un jarðar auka lík­ur á að hættu­ástand skap­ist.

Í átt­unda lagi staðfesti nýja grunn­stefn­an holl­ustu við gild­in sem standa að baki sam­starfi NATO-þjóðanna. Það hafi var­an­leg­an til­gang að laga banda­lagið að nýj­um aðstæðum í ör­ygg­is­mál­um.

Í ní­unda lagi verði að halda áfram á þeirri braut sem mótuð var 2014 um að auka fram­lög NATO-ríkj­anna til varn­ar­mála. Stækka eigi sam­eig­in­leg­an sjóð NATO til að fjár­magna sam­eig­in­lega þjálf­un og æf­ing­ar, styrkja net­varn­ir, auka hæfn­is­for­skot og efla sam­starfsþjóðir banda­lags­ins.

Ræðu sína flutti Jens Stolten­berg þegar gerð álykt­un­ar rík­is­odd­vita­fund­ar­ins var kom­in á loka­stig. Þar verður varla farið svona mörg­um orðum um inn­tak vænt­an­legr­ar grunn­stefnu held­ur vikið að mál­efn­um líðandi stund­ar: brott­för NATO-liðsafla frá Af­gan­ist­an, sam­skipt­um við stjórn­ir Rúss­lands og Kína, ástand­inu í Hvíta-Rússlandi.

 

Fund­ur­inn með Pút­in

Sama dag og Ant­ony Blin­ken, ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna, hitti Ser­geij Lavr­ov, ut­an­rík­is­ráðherra Rúss­lands, í Hörpu miðviku­dag­inn 19. maí 2021 var til­kynnt að Joe Biden mundi hitta Vla­dimir Pút­in í Genf 16. júní 2021.

Zachary Basu sagði ný­lega á banda­rísku vefsíðunni Ax­i­os að fund­ur Bidens og Pút­ins væri hald­inn við verstu aðstæður í sam­skipt­um Banda­ríkja­manna og Rússa frá því Sov­ét­rík­in hrundu árið 1991. Það væri þess vegna tím­anna tákn að þeir hitt­ust í Genf þar sem Ronald Reag­an hefði átt fyrsta fund sinn með Mik­haíl Gor­bat­sjov árið 1985.

Fund­ur­inn nú er hald­inn að frum­kvæði Bidens, ekki til þess að „hampa“ Pút­in að sögn Hvíta húss­ins held­ur „vegna ágrein­ings milli þjóðanna en ekki þrátt fyr­ir hann“.

Ágrein­ings­efn­in eru mörg. Biden stofnaði til vand­ræða gagn­vart Rúss­um í mars þegar hann kallaði Pút­in „morðingja“ dag­inn eft­ir að leyniþjón­usta Banda­ríkj­anna sagði að Pút­in hefði gefið leyfi til leyni­legs áróðurs gegn Biden í for­seta­kosn­inga­bar­átt­unni 2020. Biden-stjórn­in greip til refsiaðgerða gegn Rúss­um eft­ir rúss­neska tölvu­árás á banda­ríska Sol­arW­inds-fyr­ir­tækið og vegna þess að rúss­neski stjórn­ar­and­stæðing­ur­inn Al­ex­ei Navalníj var fang­elsaður. Rúss­ar stofnuðu til mik­ils hersafnaðar við landa­mæri Úkraínu, ráðist hef­ur verið á sam­tök Nval­aníjs og Pút­in stend­ur með Al­ex­and­er Lúka­sj­en­ko gegn mót­mæl­end­um í Hvíta-Rússlandi.

Hvor­ug­ur aðili seg­ist vænta mik­ils af Genfar­fund­in­um. Þannig var einnig talað fyr­ir fund­inn 1985, hann opnaði hins veg­ar leið að sögu­lega Höfðafund­in­um 1986 og flýtti fyr­ir hruni Sov­ét­ríkj­anna.