Barist við peningamenn Pútins
Bækur - Sakamál, Morgunblaðið, mánudag 10. október 2022.
Ofsóttur
***½-
Eftir Bill Browder. Þýðandi Herdís M. Hübner.
Kilja, 313 bls., myndir.
Almenna bókafélagið, 2022.
Bill Browder, höfundur bókarinnar Ofsóttur – sönn saga um peningaþvætti, morð og hvernig hægt er að lifa af þrátt fyrir reiði Pútins , varð kunnur víða um heim eftir að hann skrifaði bókina Eftirlýstur sem Almenna bókafélagið gaf út haustið 2015.
Þá kom Browder hingað til lands og hélt fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands. Browder var á sínum tíma stjórnandi stærsta erlendra fjárfestingasjóðs í Rússlandi, Hermitage Management Fund.
Árið 2006 bannaði Pútin honum að koma til Rússlands. Hann flutti alla fjármuni sína frá landinu en lögfræðingur hans, Sergei Magnítskíj, komst að því að rússneskir lögreglumenn, sem brutust inn í skrifstofur sjóðsins, fölsuðu skjöl til að krefja rússneska ríkið um að endurgreiða skatta, 230 milljónir dollara, til sín og samverkamanna sinna.
Sergei kærði svikin til rússneskra yfirvalda en var handtekinn og látinn sitja inni í tæpt ár án dóms og laga þar til hann var myrtur í fangelsi 16. nóvember 2009. Frá þeim tíma hefur Browder helgað sig baráttunni fyrir því að morðingjum Sergeis verði refsað.
Heiti fyrri bókarinnar, Eftirlýstur , vísar til þess að Rússar settu Browder með upplognum sökum á handtökulista alþjóðalögreglunnar Interpol. Í upphafi seinni bókarinnar, árið 2018, handtekur spænska lögreglan Browder í Madríd með vísan til kröfu Rússa. Browder nær að upplýsa umheiminn um handtökuna með því að nota Twitter og segir síðan:
„Twitter bjargaði mér. Tístin mín höfðu kallað fram mörg hundruð símtöl við Interpol og spænsk stjórnvöld sem gerðu sér fljótlega ljóst hve hörmulega þau höfðu hlaupið á sig.“ (S.10.)
Þegar Eftirlýstur kom út hafði Vladimir Pútin innlimað Krímskaga og hafið hernað á hendur Úkraínumönnum. Þá var hann þó litinn þeim augum í Evrópu að unnt væri að eiga við hann viðskipti. Þýsk stjórnvöld gengu þar fremst. Browder hafði allt aðra skoðun.
Hann barðist fyrir því að Pútin og hans mönnum yrði refsað og fékk bandaríska þingmenn á sitt band þegar þeir samþykktu Magnítskíjlögin árið 2012 um að stjórnvöld hefðu heimild til að refsa erlendum ríkisborgurum fyrir mannréttindabrot eða þátttöku í meiriháttar spillingu. Lögin urðu víðtækari árið 2016 og veita nú Bandaríkjastjórn almenna heimild til að frysta eignir þeirra sem gerast brotlegir á þennan hátt og banna þeim að koma til Bandaríkjanna.
Bókin, sem á íslensku heitir Ofsóttur , ber enska heitið Freezing Order – í lögfræði er þar um að ræða ósk um kyrrsetningu eigna.
Efni bókarinnar snýst einmitt um tilraunir Browders til að kyrrsetja féð sem rússneskir morðingjar Magnítskíjs flytja til Vesturlanda. Telur Browder að rannsóknir hans og samstarfsmanna hans hafi fundið slóð fjármuna sem snerti Pútin beint og þess vegna séu ofsóknir gegn sér harðvítugri en ella.
Þegar forsetarnir Vladimir Pútin og Donald Trump hittust í Helsinki árið 2018 vildi Pútín á blaðamannafundi fá Browder til yfirheyrslu ef Bandaríkjamenn fengju að yfirheyra 12 rússneska GRU-njósnara. Virtist Trump ekki afhuga hugmyndinni sem olli miklum ótta hjá Browder þar til bandaríska öldungadeildin tók af skarið, honum í vil, með 98 samhljóða atkvæðum. Enginn yrði framseldur til Rússlands.
Bókin snýst um flóknar lagaþrætur í ýmsum löndum til að knýja fram kyrrsetningu fjár eða eigna rússnesku glæpamannanna. Lýsingarnar á aðferðunum sem Rússar nota og hvernig þeir fá lögfræðinga og spunaliða til að ganga erinda sinna eru með ólíkindum.
Browder lýsir ótrúlegum atburðum sem segja sína sögu um ofríki Pútíns og manna hans. Hann er þó hneykslaðastur á lögfræðingunum og öðrum utan Rússlands sem ganga þar erinda Pútins og samverkamanna hans, að þeir skuli nota „víðtæka þekkingu sína og kunnáttu, sambönd og færni til að hjálpa skósveinum Pútins, eingöngu fyrir peninga, [sé] jafnvel enn fyrirlitlegra en gerðir Rússanna sjálfra“. (S. 223.)
Hafi menn efast um að Bill Browder færi með rétt mál um stjórnarhætti og grimmd Pútins á sínum tíma er allur vafi um það úr sögunni eftir að stríðsglæpir Pútins í Úkraínu blasa við öllum.
Þegar fjallað er um málefni líðandi stundar er fagnaðarefni að íslenskir bókaútgefendur taki fljótt við sér með útgáfu á íslensku. Ofsóttur kom út á ensku 12. apríl 2022 og hefur almennt fengið góða dóma eins og efni hennar á skilið.
Á íslenska textanum eru hnökrar. Á bls. 152 er talað um „gömlu framkvæmdaskrifstofubygginguna“ við hlið Hvíta hússins í Washington. Þetta er gömul stjórnarráðsbygging sem hýsti á sínum tíma ráðuneyti en er nú notuð af starfsmönnum forsetans og varaforsetans. Á bls. 161 er „diplómataskjóðan“ nefnd til sögunnar. Venjulega er talað um stjórnarpóst sem sendur er frá sendiráði til utanríkisráðuneytis. Á bls. 231 segir að John Ashcroft hafi verið saksóknari. Hann var dómsmálaráðherra hjá George W. Bush 2001 til 2005. Á bls. 266 er öldungadeildarþingmanninum Dianne Feinstein lýst sem „æðsta nefndarmanni dómsmálanefndarinnar“ í deildinni. Hún var aldursforseti demókrata sem þá voru í minnihluta í nefndinni. Á bls. 292 er Adam Schiff, fulltrúadeildarþingmaður demókrata, sagður vera „æðsti maður í leyniþjónustudeild utanríkisráðuneytisins“ en hann er formaður fastanefndar fulltrúadeildarinnar um leyniþjónustumálefni.
Þessir hnökrar breyta engu um efni bókarinnar en gefa til kynna að of hraðar hendur hafi verið hafðar við útgáfuna. Þá hefði nafnaskrá orðið lesendum til gagns.
Þegar á heildina er litið á þessi bók Browders brýnt erindi einmitt núna, því að í henni er brugðið ljósi á stjórnarhætti Pútins sem ógna mun fleirum en Úkraínumönnum.