23.12.2023

Átök trúar og valds

Morgunblaðið, laugardagur, 23. desember 2023

Í sögu­legu skáld­sög­unni Veldi hinna illu sem Ugla gaf út í fyrra í þýðingu Helga Ing­ólfs­son­ar seg­ir breski rit­höf­und­ur­inn Ant­hony Burgess sög­una um Sál frá Tar­sus sem of­sótti fylg­is­menn Jesú Krists eft­ir kross­fest­ing­una. Sál var á leið til Dam­askus í of­sókn­ar­leiðang­ur gegn kristn­um þegar Jesús talaði til hans og valdi hann „að verk­færi til þess að bera nafn [s]‌itt fram fyr­ir heiðingja, kon­unga og börn Ísra­els“. Við þekkj­um Sál síðan sem Pál postula, hug­rakk­an boðanda krist­inn­ar trú­ar og stofn­anda safnaða á ferðum sín­um um Róma­veldi.

Gyðing­ar og Róm­verj­ar tóku trú­boði Páls illa. Hann var sakaður um svik við gyðing­dóm og tal­inn vega að Róma­veldi. Hann var hand­tek­inn og grýtt­ur en hvikaði aldrei frá trú sinni.

Bréf Páls mótuðu inn­tak krist­inn­ar trú­ar og úr þeim er lesið enn þann dag í dag við kirkju­leg­ar at­hafn­ir. Saga Páls og bréf eru lyk­iltext­ar í Nýja testa­ment­inu.

Átak­an­leg reynsla sann­færði hann um kær­leika og mis­kunn­semi Guðs.

Hann sagði dauða Jesú Krists end­ur­lausn allra manna frá synd­um.

Í sögu Páls birt­ast átök milli valds og trú­ar. Konst­antín mikli, fyrsti kristni keis­ar­inn, heim­ilaði trúfrelsi í Róma­veldi árið 313 og Þeódósíus keis­ari gerði kristni að rík­is­trú árið 380.

Á slóðum Jesú Krists og Páls postula er enn bar­ist af mik­illi grimmd. Um það er fjallað dag­lega í frétt­um. Und­ir­rót­in eru ólík trú­ar­brögð eins og á dög­um Páls og bar­átta um ráð yfir Jerúsalem. Átök­in skapa spennu um heim all­an, eitra and­rúms­loft í fjar­læg­um lönd­um og ýta und­ir gyðinga­hat­ur.

Saga Páls kenn­ir okk­ur að ósýni­leg­ur ytri mátt­ur, heil­ag­ur andi, breyt­ir vilja og hegðun manna. Við von­um og biðjum að það ger­ist nú enn á ný í eyðimörk­inni fyr­ir botni Miðjarðar­hafs. Til sög­unn­ar komi friðar- og sátta­andi sem geri kleift að hrinda tveggja ríkja lausn í fram­kvæmd og leyfi gyðing­um og aröb­um að búa sam­an í friði.

*

Kvik­mynd­in sem Bret­inn Ridley Scott gerði um Napó­leon Bonapar­te Frakk­land­skeis­ara fékk lé­lega dóma í Frakklandi. Na­pó­leon var í nöp við Breta og óttaðist her­flota þeirra. Í franskri gagn­rýni á Scott er sagt að hann geri á hlut Napó­leons með sagn­fræðileg­um rang­færsl­um.

Trú Napó­leons er ekki viðfangs­efni kvik­mynd­ar­inn­ar. Fjöl­skylda hans á Kors­íku var kaþólsk og hann hlaut kristi­legt upp­eldi. Frá unga aldri var hann hins veg­ar upp­reisn­ar­gjarn gagn­vart kirkj­unni eins og öðru.

Á valda­stóli reyndi Napó­leon að nýta sér kirkj­una til að koma á reglu í sam­fé­lag­inu eft­ir frönsku bylt­ing­ar­ár­in. Árið 1801 gerði hann sátt­mála við Píus páfa VII. og veitti kaþólsku kirkj­unni nokkra sér­stöðu gegn því að hún viður­kenndi franskt rík­is­vald.

Þrem­ur árum síðar, 2. des­em­ber 1804, krýndi Napó­leon sig sem keis­ara í Notre Dame (Frú­ar­kirkj­unni) í Par­ís. Hann áréttaði sjálf­stæði sitt gagn­vart kaþólsku kirkj­unni með því að fela ekki páf­an­um verkið – keis­ar­inn yrði eng­in strengja­brúða páfa.

Napó­leon þurfti stuðning and­stöðuhópa kirkj­unn­ar í frönsku stjórn­ar­bylt­ing­unni. Hann var tvö­fald­ur í roðinu í trú­mál­um. Eigið vald var hon­um allt.

Í Frakklandi eru skil­in milli rík­is og kirkju skýr nú á dög­um. Gott gagn­kvæmt sam­band þess­ara meg­in­stoða er þó enn grunn­ur stöðug­leika í sam­fé­lag­inu.

Mik­ill eld­ur varð í Notre Dame í Par­ís 15. apríl 2019. Elds­voðinn var sýnd­ur beint um heim all­an. Að kvöldi sama dags ávarpaði Emm­anu­el Macron Frakk­lands­for­seti þjóðina og hét því að kirkj­an yrði end­ur­reist inn­an fimm ára. For­set­inn veitti 500 millj­ón­ir evra til verks­ins. Gjaf­ir og áheit streymdu strax til end­ur­reisn­ar­inn­ar. Í lok maí 2019 námu lof­orðin 1,7 millj­örðum evra. Stefnt er að því að Notre Dame verði opnuð al­menn­ingi í des­em­ber 2024.

*

Á sov­ét­tím­an­um í Rússlandi og Aust­ur-Evr­ópu út­hýstu komm­ún­ist­ar trúnni og kirkju­legu valdi. Kirkj­um var breytt í gripa­hús og skemm­ur, væru bygg­ing­arn­ar ekki sprengd­ar í loft upp eins og stríðsrúst­ir Maríu­kirkj­unn­ar í Leipzig.

Istockphoto-503660630-612x612

Frauenkirkche, Frúarkirkjam, er djásn Dresden.

Frú­ar­kirkj­an (Frauenkirche) í Dres­den varð einnig illa úti í loft­árás­um banda­manna und­ir stríðslok. Kirkj­urúst­irn­ar stóðu enn þegar KGB-for­ing­inn Vla­dimir Pút­in starfaði í borg­inni á ní­unda ára­tugn­um. Frú­ar­kirkj­an var end­ur­reist eft­ir brott­för Pút­ins frá Dres­den og end­ur­vígð árið 2005. Nú er hún augnayndi og tákn um þraut­seigju borg­ar­búa.

Vla­dimir Pút­in fékk trú­ar­laust upp­eldi en eft­ir að hann komst í sviðsljósið sem valdsmaður tal­ar hann oft um mik­il­vægi trú­ar­inn­ar í lífi sínu, þangað sæki hann styrk. Hann sagði árið 2012 í sam­tali við The Fin­ancial Times: „Ég trúi á Guð. Ég trúi á rétt­trúnaðar­kirkj­una. Ég trúi á siðferðileg gildi henn­ar og kenn­ing­ar. Það auðveld­ar mér skiln­ing á heim­in­um og stöðu minni í hon­um.“

Ráðamenn rétt­trúnaðar­kirkj­unn­ar eru ein­dregn­ir stuðnings­menn Pút­ins. Sam­band hans og kirkj­unn­ar er gagn­kvæmt hags­muna­banda­lag. Hann er sagður berj­ast við villu­trú­ar­menn í Kyív. Pút­in nýt­ur stuðnings patrí­arka við að kæfa allt and­óf við sig inn­an Rúss­lands.

Meira að segja hér á landi heyr­ast radd­ir um að stríðið í Úkraínu snú­ist í raun um varðveislu krist­inna gilda sem kastað hafi verið fyr­ir róða á Vest­ur­lönd­um. Pút­in sé kross­fari þess­ara gilda.

*

Þess­ar þrjár sönnu sög­ur eru ör­lítið brot áhrifa alls þess sem breytt­ist þegar Jesúbarnið var lagt í jötu. Það urðu straum­hvörf. Ver­ald­ar­sag­an hef­ur þró­ast til betri átt­ar þrátt fyr­ir grimmd og átök fyrr og síðar. Við meg­um ekki missa sjón­ar á stjörn­unni hvað sem líður veldi hinna illu.

Gleðilega hátíð!