21.1.2023

Átök á æðstu stöðum

Morgunblaðið, 21. janúar 2023.

Efnt var til málþings um bók Hann­es­ar Hólm­steins Giss­ur­ar­son­ar pró­fess­ors, Lands­dóms­málið – stjórn­málar­efjar og laga­klæk­ir, í Há­skóla Íslands 16. janú­ar. Ögmund­ur Jónas­son, fyrrv. ráðherra, var frum­mæl­andi auk höf­und­ar­ins. Í lok málþings­ins tók Geir H. Haar­de, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra, til máls.

Geir er eini Íslend­ing­ur­inn sem sætt hef­ur ákæru og verið sótt­ur til saka fyr­ir lands­dómi frá því að hann kom til sög­unn­ar árið 1905. Í 14. grein stjórn­ar­skrár­inn­ar seg­ir að alþingi geti kært ráðherra fyr­ir embætt­is­rekst­ur þeirra og lands­dóm­ur dæmi þau mál. Hann er skipaður 15 dómur­um, lög­lærðum og leik­um.

IMG_6428Frá málþinginu í Háskóla Íslands 16. jnúar 2023: Geir H. Haarde í ræðustól, Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Ögmundur Jónasson.

Alþingi ákvað 28. sept­em­ber 2010 að ákæra Geir H. Haar­de. Lands­dóm­ur kom í fyrsta sinn sam­an 10. fe­brú­ar 2011 og var dóm­ur kveðinn upp 23. apríl 2012 – fimm vik­um eft­ir að munn­leg­um mál­flutn­ingi lauk í Safna­hús­inu við Hverf­is­götu. Geir var sýknaður af öll­um ákæru­atriðum nema einu.

Meiri hluti lands­dóms taldi Geir hafa látið fyr­ir far­ast að gera það sem mælt væri fyr­ir um í 17. grein stjórn­ar­skrár­inn­ar, að halda ráðherra­fundi um mik­il­væg stjórn­ar­mál­efni. Hann hefði ekki haldið slíka fundi um stór­fellda hættu sem að rík­inu steðjaði af yf­ir­vof­andi falli bank­anna og ljós hefði orðið snemma árs 2008. Bank­arn­ir hrundu í byrj­un októ­ber 2008. Sak­felldi meiri hluti lands­dóms, níu dóm­ar­ar af fimmtán, Geir án refs­ing­ar en minni hlut­inn vildi sýkna hann.

Í bók­inni seg­ir Hann­es Hólm­steinn erfitt að „verj­ast þeirri hugs­un, að meiri hluti lands­dóms­ins hefði gert smá­vægi­legt orðalags­atriði að aðal­atriði í því skyni að geta sak­fellt Geir fyr­ir eitt­hvað , svo að meiri hluti Alþing­is færi ekki sneypu­för, jafn­framt því sem full­nægt væri sterk­um þjóðar­vilja um að láta ein­hvern sæta ábyrgð á banka­hrun­inu“.

Ögmund­ur Jónas­son lýsti svipaðri skoðun, Geir hefði ekk­ert til saka unnið. Það mætti hins veg­ar ekki gleyma leiðar­stefi Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur, for­sæt­is­ráðherra vegna mála­ferl­anna: „að róa þjóðina“. Póli­tík hefði ráðið för þegar þing­menn ákváðu að ákæra, þetta hefði ekki verið neitt annað en póli­tík. Ögmund­ur sagði rétti­lega að erfiðleik­ar bank­anna hlytu að hafa verið rædd­ir í rík­is­stjórn Geirs og hvert kynni að stefna. Ráðherr­ar hefðu auðvitað rætt málið eins og öll þjóðin.

Notaði Ögmund­ur sterk orð á fund­in­um þegar hann lýsti undr­un yfir að dóm­ar­ar í mann­rétt­inda­dóm­stóln­um í Strass­borg litu fram hjá póli­tík­inni í ákær­unni gegn Geir. Póli­tík hefði ráðið för, ekk­ert annað. Þetta vissi hann frá fyrstu hendi þar sem hann hefði verið í ákær­enda­hópi þing­manna, síðar hefði hon­um orðið ljóst að þar var ekki rétt að verki staðið.

Þótt Ögmund­ur Jónas­son og Hann­es Hólm­steinn væru í stór­um drátt­um sam­stiga í efn­is­legri gagn­rýni sinni á niður­stöðu meiri hluta lands­dóms greindi þá á um or­sök hruns­ins.

Ögmund­ur sagði að rætt hefði verið um áfallat­eymi fyr­ir þjóðina í þann mund sem rann­sókn­ar­nefnd alþing­is skilaði skýrslu sinni, sjálf­ur hefði hann verið í þörf fyr­ir áfalla­hjálp frá því að áhrifa stjórn­ar­stefnu Davíðs Odds­son­ar fór að gæta á tí­unda ára­tugn­um.

Spurt var hvort halda ætti í lands­dóm. Hann­es Hólm­steinn var á því en með betri málsmeðferð. Ögmund­ur var í vafa. Geir H. Haar­de sagði að tak­ast ætti á um póli­tíska ábyrgð í kosn­ing­um og láta kjós­end­ur dæma. Lægju ráðherr­ar und­ir grun um sak­næmt at­ferli ætti að rann­saka það og dæma eins og hvert annað saka­mál.

Þegar Ögmund­ur Jónas­son ræddi um þróun banka­starf­semi og út­lána á öðrum ára­tug ald­ar­inn­ar minnt­ist hann á lof­orðið sem fram­sókn­ar­menn gáfu fyr­ir kosn­ing­arn­ar 2003 um allt að 90% láns­hlut­fall Íbúðalána­sjóðs.

Í kosn­inga­bar­átt­unni þá sótti ég fund í lána­stofn­un þar sem fund­ar­menn voru yfir sig hneykslaðir á þessu lof­orði. Það væri al­gjör fás­inna að bjóða slíkt.

Fór ég með það vega­nesti af fund­in­um að þarna yrði að veita sterkt viðnám. Þegar bank­arn­ir völdu síðan þá leið eft­ir kosn­ing­ar að bjóða 100% hlut­fall varð minna úr viðnám­inu en ann­ars hefði orðið. Þetta var tími yf­ir­boða sem þjóðin er enn að súpa seyðið af eins og sést af umræðunum um ÍL-sjóðinn, leif­ar Íbúðalána­sjóðs, og upp­gjör á hon­um.

Sam­tal Hann­es­ar Hólm­steins og Ögmund­ar Jónas­son­ar á málþing­inu vakti fleiri minn­ing­ar um örar breyt­ing­ar á ís­lensku sam­fé­lagi á ár­un­um frá 1991 til 2008.

Þegar litið er til baka voru áhrif stóra stökks­ins með aðild­inni að evr­ópska efna­hags­svæðinu (EES) árið 1994 meiri á fyrstu 15 aðild­arár­un­um en við var ráðið. Sam­hliða gjör­breyt­ingu í sam­keppn­is­mál­um og starfs­um­hverfi fjár­mála­stofn­ana vegna EES festi kvóta­kerfið sig í sessi eft­ir að framsals­rétt­ur afla­heim­ilda var lög­fest­ur und­ir for­ystu vinstri stjórn­ar Stein­gríms Her­manns­son­ar árið 1990.

Síðasti stór­átaka­tím­inn á und­an hrun­inu var fyr­ir kosn­ing­arn­ar vorið 2003 og fram á haust 2004. Þá myndaði Sam­fylk­ing­in banda­lag með hóp­um í viðskipta­líf­inu sem töldu rétt­ar­kerfið mis­notað gegn sér. Stofnað var til stór­átaka um eign­ar­hald á fjöl­miðlum. For­seti Íslands tók sér stöðu gegn rík­is­stjórn­inni með pen­inga­mönn­um sem hann studdi af ein­urð fram yfir hrun. Jafn­framt birt­ist sum­arið 2003 til um­deild skoðun inn­an hæsta­rétt­ar að dóm­ar­ar ættu að velja dóm­ara en ekki ráðherr­ar. Dró hún dilk á eft­ir sér.

Bók­in um lands­dóms­málið snýst öðrum þræði um per­són­ur og leik­end­ur á þess­um átaka­tím­um. Öllum æðstu stjórn­tækj­um lýðveld­is­ins var beitt til að ná flokk­spóli­tísk­um mark­miðum. Stjórn­kerfið og stjórn­ar­skrá­in stóðust áraun­ina – ný stjórn­ar­skrá er óþörf.