Athafnasaga Ingvars Vilhjálmssonar
Morgunblaðið, mánudagur 23. desember 2024.
Ingvar Vilhjálmsson – athafnasaga ★★★★½ Eftir Jakob F. Ásgeirsson. Ugla, 2024. Innb., 251 bls., ljósmyndir, heimilda-, mynda- og nafnaskrár.
Bókin um Ingvar Vilhjálmsson (1899-1992) og athafnasögu hans er vel úr garði gerð og vönduð. Textinn er hógvær í anda söguhetjunnar og lýsir ótrúlega miklum breytingum í atvinnusögu Íslands og Reykjavíkur sérstaklega þar sem Ingvar lagði ómetanlegan skerf af mörkum.
Þegar útför Ingvars var gerð í ársbyrjun 1993, hann andaðist á aðfangadag 1992, var hans minnst hér í Morgunblaðinu með sérstöku aukablaði. Munum við sem störfuðum hér á lokaáratugum tuttugustu aldarinnar hve mikillar virðingar Ingvar naut meðal ritstjóranna fyrir góðan hug hans í garð blaðsins og þeirra hugsjóna sem það hafði að leiðarljósi.
Ævisagan sem Jakob F. Ásgeirsson hefur skráð og gefið út sýnir hve einstaklingur sem setur sér skýr markmið fær miklu áorkað fái þrá hans til athafna notið sín.
Sagan hefst á fæðingarstað Ingvars í Dísukoti í Þykkvabæ í Djúpárhreppi í Rangárþingi. Þaðan voru stundaðir útróðrar frá fornu fari. Selveiði var nokkur, mikil silungsveiði og rekahlunnindi. Landgæðin urðu til þess að þarna myndaðist stærsti þéttbýliskjarni á Íslandi á fyrri tíð. Flest munu býlin hafa verið um aldamótin þegar Ingvar fæddist en þá tók útræði af við Rangárós og fækkaði ábúendum í Þykkvabæ í kjölfarið (9).
Í Dísukoti ólst Ingvar upp til sjö ára aldurs en þá fluttist fjölskyldan lengra inn í landið í Vetleifsholt. Á efri árum Ingvars skráði Eiríkur Hreinn Finnbogason, norrænufræðingur, borgarbókavörður og útgáfustjóri Almenna bókafélagsins, endurminningar Ingvars frá æsku- og sjómannsárum hans.
Frásögnin er mikils virði fyrir sögu Ingvars. Jakob segir í formála að því miður sé ekki um aðrar persónulegar heimildir að ræða. „Engin bréf, minnispunktar eða dagbókarbrot af hendi Ingvars hafa varðveist,“ segir Jakob (7). Þrátt fyrir þetta tekst honum vel að skrá heildstæða athafnasögu Ingvars auk þess að bregða ljósi á persónu hans og einkahagi.
Ingvar var tíu ára þegar hann fór fyrst til Eyrarbakka sem honum þótti stórborg. Hann var fermdur frá Odda á Rangárvöllum vorið 1914 en haustið 1915 fór hann á vertíð í Þorlákshöfn af því að hann langaði til þess en ekki af þörf fyrir að auka tekjur heimilisins eins og algengast var. Þrátt fyrir harðan aðbúnað líkaði honum „afar vel í Þorlákshöfn“ (22). Þar var leiðin til sjómennsku mörkuð. Hann var 1918 og 1919 á vertíðum í Vestmannaeyjum. Þegar hann kom þaðan hafði fjölskylda hans flutt úr Vetleifsholti í húsið nr. 20 við Laufásveg og þar átti Ingvar lögheimili til 1935. Vilhjálmur faðir Ingvars kom sér upp smiðju í húsinu við Laufásveginn og vann eftir það sem járnsmiður við góðan orðstír þar til hann féll frá í ársbyrjun 1936 (32).
Ingvar réð sig á breska togarann Walpole 1920 og var þar bátsmaður til 1925 þegar hann settist í Stýrimannaskólann, veturinn 1926-1927 var hann aftur á Walpole en varð haustið 1927 stýrimaður á togaranum Leikni frá Patreksfirði og síðan skipstjóri 1929: „Mér fannst skemmtilegt að vera skipstjóri og kunni því starfi mætavel,“ sagði Ingvar við Eirík Hrein (31) en öll frásögnin af þessum árum einkennist af jákvæðni Ingvars og góðum hug í garð þeirra sem hann nefnir til sögunnar. Hann sigldi með afla til Grimsby eða Hull á Englandi og til Þýskalands þar sem fiskurinn var seldur í Cuxhaven eða Bremerhaven. Hann ákvað að söðla um eftir vetrarvertíðina 1934, hætta skipstjórn og fara í land með það fyrir augum að hefja sjálfur fiskkaup og útgerð.
Ingvar var þá 35 ára og hafði verið 20 ár til sjós. Í 14 ár hafði hann verið trúlofaður Áslaugu Jónsdóttur frá Hjarðarholti í Stafholtstungum og gengu þau í hjónaband sumarið 1935. Taldi Ingvar það hafa verið sína mestu gæfu. Áslaug varð brákvödd á heimili þeirra að Hagamel 4 á aðfangadag jóla 1968. Hún var 64 ára.
Ingvar efnaðist vel á sjómannsárunum og lagði samviskusamlega fyrir. Hann var það vel efnum búinn í miðri kreppunni miklu á fjórða áratugnum að hann þurfti ekki að taka lán fyrir upphafsrekstri fyrirtækja sinna (46).
Hann var staðráðinn í að hasla sér völl í Reykjavík þar sem útgerð hafði rýrnað í nokkur ár. Hann tók Draupnisstöðina, fiskverkunarstöð þar sem Laugarnesskóli er núna, á leigu í febrúar 1935 þegar aðrir voru að gefast upp á slíkum rekstri í Reykjavík. Hann varð fyrstur til að láta salta ferskan fisk úr bátum í Reykjavík og varð það strax nokkuð umfangsmikið (47).
Tveimur árum síðar var Draupnisstöðin orðin of lítil og leigði Ingvar þá stöð í Haga við Hofsvallagötu þar sem síðar var lengi verksmiðja Coca Cola. Þarna reisti hann fyrstu skreiðarhjallana og nýtti þá samhliða saltfiskverkuninni. Varð hann einn stærsti skreiðarframleiðandi landsins. Ingvar flutti rekstur sinn árið 1942 út á Seltjarnarnes og keypti saltfiskstöð á Hrólfsskálamelum og hóf umfangsmikla skreiðarverkun á Valhúsahæð (48-50).
Framsýni Ingvars birtist í því að hann hóf útgerð dagróðrabáta til línuveiða frá Reykjavík árið 1943. „Útgerð þeirra var forsenda fyrir starfsemi hraðfrystihúss sem Ingvar var um þessar mundir að koma á fót“ (56). Þarna varð hann frumkvöðull eins og við skreiðarverkunina og hraðfrystihús hans, Ísbjörninn, varð síðan í fremstu röð hér á landi og þótt víðar væri leitað.
Hér skal þessi saga ekki frekar rakin. Það var sama hvað að höndum bar, ekki haggaðist Ingvar heldur hélt sínu striki af hófsemi og festu. Naut hann hvarvetna trausts og var kjörinn til margvíslegra trúnaðarstarfa.
Undir lok bókarinnar er kaflinn Sjálfstæðismaður og rifjar Jakob upp að þegar Ingvar varð áttræður, 26. október 1979, skrifaði Geir Hallgrímsson, þáv. formaður Sjálfstæðisflokksins, grein í miðopnu Morgunblaðsins sem sýndi glöggt í hve miklum metum Ingvar var meðal samferðamanna sinna og hvers virði athafnir á langri framkvæmdaævi voru fyrir vegferð lands og þjóðar til bjargálna. Ingvar hafi ekki verið neitt „minna en holdgervingur árangursríks og farsæls einkaframtaks, fyrirmynd megininntaks sjálfstæðisstefnunnar“ (224).
Bók Jakobs F. Ásgeirssonar sannar að þetta var rétt mat hjá forystumönnum Sjálfstæðisflokksins. Það á ekki síður við nú en þá að setja þá í öndvegi sem marka slík spor landi og þjóð til heilla með áræði, frumkvæði og dugnaði.