23.12.2024

Athafnasaga Ingvars Vilhjálmssonar

Morgunblaðið, mánudagur 23. desember 2024.

Ingvar Vil­hjálms­son – at­hafna­saga ★★★★½ Eft­ir Jakob F. Ásgeirs­son. Ugla, 2024. Innb., 251 bls., ljós­mynd­ir, heim­ilda-, mynda- og nafna­skrár.


Bók­in um Ingvar Vil­hjálms­son (1899-1992) og at­hafna­sögu hans er vel úr garði gerð og vönduð. Text­inn er hóg­vær í anda sögu­hetj­unn­ar og lýs­ir ótrú­lega mikl­um breyt­ing­um í at­vinnu­sögu Íslands og Reykja­vík­ur sér­stak­lega þar sem Ingvar lagði ómet­an­leg­an skerf af mörk­um.

Þegar út­för Ingvars var gerð í árs­byrj­un 1993, hann andaðist á aðfanga­dag 1992, var hans minnst hér í Morg­un­blaðinu með sér­stöku auka­blaði. Mun­um við sem störfuðum hér á loka­ára­tug­um tutt­ug­ustu ald­ar­inn­ar hve mik­ill­ar virðing­ar Ingvar naut meðal rit­stjór­anna fyr­ir góðan hug hans í garð blaðsins og þeirra hug­sjóna sem það hafði að leiðarljósi.

Ævi­sag­an sem Jakob F. Ásgeirs­son hef­ur skráð og gefið út sýn­ir hve ein­stak­ling­ur sem set­ur sér skýr mark­mið fær miklu áorkað fái þrá hans til at­hafna notið sín.

Sag­an hefst á fæðing­arstað Ingvars í Dísu­koti í Þykkvabæ í Djúpár­hreppi í Rangárþingi. Þaðan voru stundaðir útróðrar frá fornu fari. Sel­veiði var nokk­ur, mik­il sil­ungsveiði og reka­hlunn­indi. Land­gæðin urðu til þess að þarna myndaðist stærsti þétt­býliskjarni á Íslandi á fyrri tíð. Flest munu býl­in hafa verið um alda­mót­in þegar Ingvar fædd­ist en þá tók útræði af við Rangárós og fækkaði ábú­end­um í Þykkvabæ í kjöl­farið (9).

Í Dísu­koti ólst Ingvar upp til sjö ára ald­urs en þá flutt­ist fjöl­skyld­an lengra inn í landið í Vet­leifs­holt. Á efri árum Ingvars skráði Ei­rík­ur Hreinn Finn­boga­son, nor­rænu­fræðing­ur, borg­ar­bóka­vörður og út­gáfu­stjóri Al­menna bóka­fé­lags­ins, end­ur­minn­ing­ar Ingvars frá æsku- og sjó­manns­ár­um hans.

Frá­sögn­in er mik­ils virði fyr­ir sögu Ingvars. Jakob seg­ir í for­mála að því miður sé ekki um aðrar per­sónu­leg­ar heim­ild­ir að ræða. „Eng­in bréf, minn­ispunkt­ar eða dag­bók­ar­brot af hendi Ingvars hafa varðveist,“ seg­ir Jakob (7). Þrátt fyr­ir þetta tekst hon­um vel að skrá heild­stæða at­hafna­sögu Ingvars auk þess að bregða ljósi á per­sónu hans og einka­hagi.

C92bb118-4881-4cf2-9ca9-7414401af776

Ingvar var tíu ára þegar hann fór fyrst til Eyr­ar­bakka sem hon­um þótti stór­borg. Hann var fermd­ur frá Odda á Rangár­völl­um vorið 1914 en haustið 1915 fór hann á vertíð í Þor­láks­höfn af því að hann langaði til þess en ekki af þörf fyr­ir að auka tekj­ur heim­il­is­ins eins og al­geng­ast var. Þrátt fyr­ir harðan aðbúnað líkaði hon­um „afar vel í Þor­láks­höfn“ (22). Þar var leiðin til sjó­mennsku mörkuð. Hann var 1918 og 1919 á vertíðum í Vest­manna­eyj­um. Þegar hann kom þaðan hafði fjöl­skylda hans flutt úr Vet­leifs­holti í húsið nr. 20 við Lauf­ás­veg og þar átti Ingvar lög­heim­ili til 1935. Vil­hjálm­ur faðir Ingvars kom sér upp smiðju í hús­inu við Lauf­ás­veg­inn og vann eft­ir það sem járn­smiður við góðan orðstír þar til hann féll frá í árs­byrj­un 1936 (32).

Ingvar réð sig á breska tog­ar­ann Walpole 1920 og var þar bátsmaður til 1925 þegar hann sett­ist í Stýri­manna­skól­ann, vet­ur­inn 1926-1927 var hann aft­ur á Walpole en varð haustið 1927 stýri­maður á tog­ar­an­um Leikni frá Pat­reks­firði og síðan skip­stjóri 1929: „Mér fannst skemmti­legt að vera skip­stjóri og kunni því starfi mæta­vel,“ sagði Ingvar við Ei­rík Hrein (31) en öll frá­sögn­in af þess­um árum ein­kenn­ist af já­kvæðni Ingvars og góðum hug í garð þeirra sem hann nefn­ir til sög­unn­ar. Hann sigldi með afla til Grims­by eða Hull á Englandi og til Þýska­lands þar sem fisk­ur­inn var seld­ur í Cuxhaven eða Brem­er­haven. Hann ákvað að söðla um eft­ir vetr­ar­vertíðina 1934, hætta skip­stjórn og fara í land með það fyr­ir aug­um að hefja sjálf­ur fisk­kaup og út­gerð.

Ingvar var þá 35 ára og hafði verið 20 ár til sjós. Í 14 ár hafði hann verið trú­lofaður Áslaugu Jóns­dótt­ur frá Hjarðar­holti í Staf­holtstung­um og gengu þau í hjóna­band sum­arið 1935. Taldi Ingvar það hafa verið sína mestu gæfu. Áslaug varð brá­kvödd á heim­ili þeirra að Haga­mel 4 á aðfanga­dag jóla 1968. Hún var 64 ára.

Ingvar efnaðist vel á sjó­manns­ár­un­um og lagði sam­visku­sam­lega fyr­ir. Hann var það vel efn­um bú­inn í miðri krepp­unni miklu á fjórða ára­tugn­um að hann þurfti ekki að taka lán fyr­ir upp­hafs­rekstri fyr­ir­tækja sinna (46).

Hann var staðráðinn í að hasla sér völl í Reykja­vík þar sem út­gerð hafði rýrnað í nokk­ur ár. Hann tók Draupn­is­stöðina, fisk­verk­un­ar­stöð þar sem Laug­ar­nesskóli er núna, á leigu í fe­brú­ar 1935 þegar aðrir voru að gef­ast upp á slík­um rekstri í Reykja­vík. Hann varð fyrst­ur til að láta salta fersk­an fisk úr bát­um í Reykja­vík og varð það strax nokkuð um­fangs­mikið (47).

Tveim­ur árum síðar var Draupn­is­stöðin orðin of lít­il og leigði Ingvar þá stöð í Haga við Hofs­valla­götu þar sem síðar var lengi verk­smiðja Coca Cola. Þarna reisti hann fyrstu skreiðar­hjall­ana og nýtti þá sam­hliða salt­fisk­verk­un­inni. Varð hann einn stærsti skreiðarfram­leiðandi lands­ins. Ingvar flutti rekst­ur sinn árið 1942 út á Seltjarn­ar­nes og keypti salt­fisk­stöð á Hrólfs­skála­mel­um og hóf um­fangs­mikla skreiðar­verk­un á Val­húsa­hæð (48-50).

Fram­sýni Ingvars birt­ist í því að hann hóf út­gerð dagróðrabáta til línu­veiða frá Reykja­vík árið 1943. „Útgerð þeirra var for­senda fyr­ir starf­semi hraðfrysti­húss sem Ingvar var um þess­ar mund­ir að koma á fót“ (56). Þarna varð hann frum­kvöðull eins og við skreiðar­verk­un­ina og hraðfrysti­hús hans, Ísbjörn­inn, varð síðan í fremstu röð hér á landi og þótt víðar væri leitað.

Hér skal þessi saga ekki frek­ar rak­in. Það var sama hvað að hönd­um bar, ekki haggaðist Ingvar held­ur hélt sínu striki af hóf­semi og festu. Naut hann hvarvetna trausts og var kjör­inn til marg­vís­legra trúnaðarstarfa.

Und­ir lok bók­ar­inn­ar er kafl­inn Sjálf­stæðismaður og rifjar Jakob upp að þegar Ingvar varð átt­ræður, 26. októ­ber 1979, skrifaði Geir Hall­gríms­son, þáv. formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, grein í miðopnu Morg­un­blaðsins sem sýndi glöggt í hve mikl­um met­um Ingvar var meðal sam­ferðamanna sinna og hvers virði at­hafn­ir á langri fram­kvæmda­ævi voru fyr­ir veg­ferð lands og þjóðar til bjargálna. Ingvar hafi ekki verið neitt „minna en hold­gerv­ing­ur ár­ang­urs­ríks og far­sæls einkafram­taks, fyr­ir­mynd meg­in­inntaks sjálf­stæðis­stefn­unn­ar“ (224).

Bók Jak­obs F. Ásgeirs­son­ar sann­ar að þetta var rétt mat hjá for­ystu­mönn­um Sjálf­stæðis­flokks­ins. Það á ekki síður við nú en þá að setja þá í önd­vegi sem marka slík spor landi og þjóð til heilla með áræði, frum­kvæði og dugnaði.