8.3.2018

Ásgeir Tómasson - minning

Morgunblaðið - minningarorð

Þegar ekið er inn Fljótshlíðina og fram hjá skóginum á Tumastöðum stendur þar uppi í hlíð, lágur gulur burstabær. Þetta er Kollabær og í austustu burstinni bjó Ásgeir Tómasson þegar ég kynntist honum sem nágranna fyrir hálfum öðrum áratug. Þarna bjó hann einn og lét sér annt um sauðkindur og hross.

Hvorki var mikið borið í burstina hans Ásgeirs né útihúsin en væri hann sóttur heim tók hann gestum af hlýju og bauð þeim að þiggja veitingar við eldhúsborðið. Á meðan fé var á húsi var gesturinn gjarnan leiddur í torf- og steinhlaðið fjárhúsið þar sem kindurnar fögnuðu Ásgeiri.

Ég eignaðist fáeinar ær frá Runólfi í Fljótsdal. Þetta var forystufé. Ærnar voru sjálfstæðar og fóru eigin leiðir. Ein þeirra var grábotnótt, auðþekkjanleg vegna þess hve háfætt hún var og vör um sig.

Í byrjun nóvember 2011 fór ég niður í Landeyjar að Vorsabæ með nágrönnum mínum, Viðari Pálssyni og Ásgeiri. Sóttum við þangað þá grábotnóttu með einu lambi. Hjónin í Vorsabæ kölluðu hana Björnsbotnu. Ærin fór þangað einnig árið 2009 og bar þá þremur lömbum og komst í Bændablaðið enda ekki sjálfgefið að fé úr Fljótshlíð gerði sig svona heimakomið á bæjum í Landeyjum. Þegar hjónin sáu ána komna til sín aftur hringdu þau og létu vita af henni. Ásgeir bauð botnu vetursetu eins og áður. Ærin hljóp beint úr bílnum í fjárhúsið hans og naut þess greinilega að vera þar á kunnuglegum slóðum.

Natni Ásgeirs við kindurnar var einstök og talaði hann til þeirra eins og vina. Sömu alúð sýndi hann hrossunum. Þau voru gjarnan á beit hjá okkur að Kvoslæk. Skömmu áður en Ásgeir brá búi kom hann gjarnan akandi löturhægt á gamla jeppanum og gaf sér stund til að gæla við hrossin sem jafnan hlupu að girðingunni þegar þau sáu bílinn.

Þetta eru ljúfar minningar ekki síður en hitt að hafa fengið tækifæri til að smala með Ásgeiri fyrir norðan Þríhyrning og fara að föðurarfleifð hans, Reynifelli, en Ásgeir tók við búi þar árið 1961. Þarna ólst hann upp, einn níu barna hjónanna Tómasar og Hannesínu.

Í Heklugosinu 1947 rigndi vikri og ösku víða í nágrenni eldfjallsins. Reynifell er ekki fjarri Heklu, norðvestan við Þríhyrning. Að sögn hélt fjölskyldan sig innan dyra í ösku- og vikurmyrkrinu. Þegar menn bar að garði til að grennslast eftir líðan fólksins var ekki svarað strax sem þótti óvenjulegt á Reynifelli. Ekkert amaði þó að fólkinu en það heyrði einfaldlega ekki til komumanna vegna ólátanna í Heklu. Næstu nágrannabæir, Þorleifsstaðir og Rauðnefsstaðir, grófust undir öskuvikri, vindáttin bjargaði Reynifelli.

Á kveðjustund eru Ásgeiri þökkuð góð kynni og vináttan sem hann sýndi okkur aðkomufólkinu og því sem okkur fylgdi.

Blessuð sé minning Ásgeirs Tómassonar.