Ásgeir Pétursson - minning
Ásgeir Pétursson f. 21.03.1922 - d. 24. júní 2019 (97 ára). Prestur sr. Jón Helgi Þórarinsson, organisti Magnús Ragnarsson, einsöngur Hanna Dóra Sturludóttir, selló Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir.
Við upphaf 43. landsfundar Sjálfstæðisflokksins 16. mars 2018 sagði Ásgeir Pétursson mér að hann hefði farið með föður sínum, Pétri Magnússyni, varaformanni flokksins, í fyrsta sinn á landsfund árið 1943. Þegar Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður árið 2009 hittust þeir Ásgeir og Bjarni í Valhöll. Þar með hefði hann heilsað öllum formönnum Sjálfstæðisflokksins með handabandi. Flokkurinn var stofnaður 1929 þegar Ásgeir var sjö ára.
Ásgeir Pétursson
Það var notalegt og fróðlegt að hitta Ásgeir
 þar sem hann sat á friðarstóli í Sunnuhlíð í Kópavogi og rifjaði upp 
kynni sín af mönnum og málefnum og atvik úr stjórnmálasögunni. Minnið 
var einstakt og atburðir urðu ljóslifandi í frásögn hans. Hann átti 
dýrmætar minningar um náið, áralangt samstarf við föður minn og góða 
vináttu þeirra Sigrúnar við foreldra mína. Bar þar aldrei á neinn skugga
 og birtan yfir minningu hans um þau var einlæg og hlý. Fyrir allt það 
skal nú þakkað á kveðjustund.
Þá er mér ljúft að minnast framlags
 Ásgeirs til hugsjónabaráttunnar sem leiddi til aðildar Íslands að 
Atlantshafsbandalaginu. Á námsárum í Háskóla Íslands varð hann 
forgöngumaður um samstarf við vestræn ríki um varnir landsins. Hann 
ritaði árið 1948 greinina „Á varðbergi“ um valdarán kommúnista í 
Austur-Evrópu. Hugsjóninni lagði Ásgeir lið í verki þegar hann stóð í 
fremstu röð þeirra sem vörðu Alþingishúsið í mars 1949. 
Árið 
2013 skýrði Ásgeir í fyrsta sinn frá því opinberlega að hann hefði verið
 foringi varnarliðs Alþingishússins til aðstoðar lögreglu 30. mars 1949 
þegar menn óttuðust að kommúnistar og aðrir andstæðingar NATO-aðildar 
ætluðu að ráðast inn í þinghúsið og rjúfa þingfund. Ásgeir gaf 
varnarliðinu fyrirskipun um að ryðjast ásamt lögreglu út úr þinghúsinu 
eftir að lögreglustjórinn í Reykjavík leitaði til hans. 
Ásgeir 
átti ríkan þátt í að stofna Samtök um vestræna samvinnu fyrir rúmum 60 
árum en þau starfa nú undir nafninu Varðberg sem skírskotar beint til 
greinar Ásgeirs frá 1948. Hann fylgdist alla tíð af áhuga með 
alþjóðamálum og vék aldrei frá skoðun sinni á heillaskrefinu sem stigið 
var með aðildinni að NATO.
Sem sýslumaður í Borgarnesi lét Ásgeir
 sig málefni Reykholts miklu varða. Hann beitti sér fyrir samkomu í 
Reykholti í tilefni af átta alda afmæli Snorra Sturlusonar. Hann átti 
hlut að því að bygging Snorrastofu og kirkju í Reykholti var ákveðin. 
Hann sat lengi í Reykholtsnefnd og skólanefnd Reykholtsskóla. Sem 
formaður stjórnar Snorrastofu færi ég Ásgeiri þakkir fyrir framsýni hans
 og hollustu við Reykholt. Þar birtist virðing hans fyrir 
menningararfinum og þjóðlegum metnaði.
Við Rut vottum börnum Ásgeirs og fjölskyldum þeirra innilega samúð.
Blessuð sé minning Ásgeirs Péturssonar