Árangurslaus viðræðuvika
Morgunblaðið, laugardagur 15. janúar 2022.
Rússlandi er ekki lengur stjórnað í anda Marx og Leníns. Því skeiði lauk fyrir 30 árum með brotthvarfi Sovétríkjanna sem Vladimír Pútín, forseti Rússlands, telur „meiriháttar geópólitískar hamfarir“. Til að rétta hlut Rússa eftir hamfarirnar hernam Pútín hluta Georgíu árið 2008 og Úkraínu árið 2014. Nú ræður hann yfir um 100.000 þungvopnuðum hermönnum við landamæri Úkraínu og heimtar að viðurkennt verði áhrifasvæði Rússa í austurhluta Evrópu.
Í mars árið 2014 flutti Pútín ræðu og færði innrásina í Úkraínu í þann búning að sér væri skylt og Rússar hefðu „rétt“ til að gæta og verja hagsmuni rússneskumælandi minnihlutahópa í nágrannaríkjum sínum.
Eftir að Pútín réttlætti innrásir sínar á þennan hátt var vitnað til orða hans sem Pútín-kenningarinnar. Nú í vikunni bættist nýr þráður í kenninguna.
Í ársbyrjun urðu óeirðir í fyrrverandi Sovétlýðveldinu Kasakstan. Almenningur mótmælti verðhækkunum á eldsneyti og almennt ömurlegum stjórnarháttum. Mánudaginn 10. janúar 2022 rökstuddi Vladimír Pútín ákvörðun sína um að senda rússneska hermenn til að berja á mótmælendum í Kasakstan með þeim orðum að Rússar myndu ekki þola „litabyltingar“ í nágrannalöndum sínum. Vísaði hann þar til mótmæla sem felldu valdamenn holla Moskvuvaldinu í Georgíu og Úkraínu.
Í fyrra stóð Pútín með Alexander Lúkasjenkó, einræðisherra í Hvíta-Rússlandi, þegar hann beitti almenna borgara ofbeldi til að halda völdum. Nú sló hann skjaldborg um Kassym-Jomart Tokayev, einræðisherra í Kasakstan, sem bað Pútín um hjálp enda hefðu íslamskir hryðjuverkamenn reynt að gera stjórnarbyltingu í landinu.
Á fjarfundi með leiðtogum ríkja í Sameiginlega öryggisbandalaginu (CSTO) 10. janúar 2022 sagði Pútín að „alþjóðlegir hryðjuverkamenn“ hefðu ráðist á Kasakstan og það væri skylda CSTO að styðja stjórn bandalagsríkis á hættustund.
Fyrir utan Rússland og Kasakstan eiga Armenía, Hvíta-Rússland, Kírgistan og Tadsjíkistan aðild að CSTO. Íhlutun hermanna frá ríkjunum sýndi, sagði Pútín, að þau myndu ekki þola að grafið yrði undan neinni ríkisstjórn á svæðinu.
Úkraína er rauðmerkt á kortinu.
Enginn veit hvað Rússar verða lengi með her í Kasakstan en fréttaskýrendur segja að það boði ekki gott fyrir þjóðirnar við suðurlandamæri Rússlands að Moskvuvaldið vilji stjórna þar í gegnum leppa og sölsa þannig undir sig náttúruauðlindir, olíu og gas, auk alls annars. Halda þjóðunum lítt þróuðum og fátækum í höndum arðræningja í skjóli Rússa.
Þegar Tékkóslóvakar vildu frelsi undan sovéska okinu árið 1968 varð til Brésnef-kenningin til að réttlæta að sovéskir hermenn væru sendir gegn almenningi í Prag. Leoníd Brésnef, sovéskur leiðtogi Rússlands, sagði óþolandi að uppnám í einu sósíalísku ríki yrði til að skaða þau öll. Réttmætt væri að binda enda á slíkt ástand með íhlutun og hervaldi.
Líkindin milli kenninga Brésnefs og Pútíns eru mikil og aðferðin sem þeir beita sú sama: að senda her inn í annað land til að gæta rússneskra hagsmuna.
Sama dag og Pútín réttlætti herför sína í Kasakstan ræddu fulltrúar Bandaríkjamanna og Rússa saman í Genf. Fundurinn var að kröfu Rússa. Hann snerist um viðurkenningu á endurnýjuðu áhrifasvæði þeirra í Evrópu: Úkraína mætti „aldrei, aldrei ganga í Nató“ og Rússar ættu að ráða vopnakerfum Nató í nágrannalöndum Rússlands. Allt gæti gerst í krafti rússneska heraflans við landamæri Úkraínu.
Viðurkenning á áhrifasvæði Rússa í Evrópu í tvíhliða viðræðum þeirra við fulltrúa Bandaríkjastjórnar jafngilti uppbroti. Fleygur yrði rekinn milli Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í Evrópu. Þess vegna voru aldrei neinar líkur á að fundurinn í Genf breytti nokkru í þessu efni þótt hann stæði í rúmar sjö klukkustundir. Fréttir gáfu á hinn bóginn þá mynd að Rússar stæðu jafnfætis Bandaríkjamönnum eins og Sovétmenn áður.
Fulltrúar Natóríkjanna 30 í Brussel hittu Rússa miðvikudaginn 12. janúar. Að fundinum loknum sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Nató, að hann hefði verið erfiður. Rússar væru árásaraðilinn gagnvart Úkraínu: „Hættusástandið er vegna Rússa. Það er mikilvægt að þeir dragi úr spennunni.“
Þriðji alþjóðafundur vikunnar um kröfur Rússa var í Vínarborg fimmtudaginn 13. janúar þegar fulltrúar 57 ríkja í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) hittust. Helsinki-sáttmálinn frá 1975, sem dró úr spennu milli austurs og vesturs í kalda stríðinu, er grundvöllur ÖSE.
Með Helsinki-sáttmálanum var hafnað kröfu Rússa um að aðeins yrði samið um það sem Vesturveldin varðaði. Opnuð var glufa bættra samskipta í fáein ár. Verði ekki til slík glufa gagnvart Pútín og hans liði eftir þessa viku er illt í efni. Við TASS-fréttastofuna rússnesku fimmtudaginn 13. janúar sagði Sergeij Rjabkov varautanríkisráðherra að ekki yrði náð lengra gagnvart Nató en samtalið héldi áfram eftir nýjum leiðum. Til dæmis mætti beita rússneska herflotanum yrði Rússum ögrað meira og Bandaríkjamenn ykju hernaðarlegan þrýsting sinn. „Við viljum þetta ekki, diplómatar verða að semja,“ sagði hann eftir þessa hálfkveðnu vísu.
Rússar gefa ekkert upp um næsta skref Pútíns. Leyndarhyggja og óvissa eru mikilvæg tól í vopnabúri hans. Finnar og Svíar áréttuðu þess vegna um áramótin að Pútín segði þeim ekki fyrir verkum í öryggismálum og færðu sig nær Nató. Sé rússneski flotinn nefndur beinist athygli að mikilvægi grunnþátta varna og öryggis Íslands: varnarsamningsins, Nató-aðildar og norrænnar samvinnu.