15.1.2022

Árangurslaus viðræðuvika

Morgunblaðið, laugardagur 15. janúar 2022.

Rússlandi er ekki leng­ur stjórnað í anda Marx og Leníns. Því skeiði lauk fyr­ir 30 árum með brott­hvarfi Sov­ét­ríkj­anna sem Vla­dimír Pútín, for­seti Rúss­lands, tel­ur „meiri­hátt­ar geópóli­tísk­ar ham­far­ir“. Til að rétta hlut Rússa eft­ir ham­far­irn­ar hernam Pútín hluta Georgíu árið 2008 og Úkraínu árið 2014. Nú ræður hann yfir um 100.000 þung­vopnuðum her­mönn­um við landa­mæri Úkraínu og heimt­ar að viður­kennt verði áhrifa­svæði Rússa í aust­ur­hluta Evr­ópu.

Í mars árið 2014 flutti Pútín ræðu og færði inn­rás­ina í Úkraínu í þann bún­ing að sér væri skylt og Rúss­ar hefðu „rétt“ til að gæta og verja hags­muni rúss­nesku­mæl­andi minni­hluta­hópa í ná­granna­ríkj­um sín­um.

Eft­ir að Pútín rétt­lætti inn­rás­ir sín­ar á þenn­an hátt var vitnað til orða hans sem Pútín-kenn­ing­ar­inn­ar. Nú í vik­unni bætt­ist nýr þráður í kenn­ing­una.

Í árs­byrj­un urðu óeirðir í fyrr­ver­andi Sov­ét­lýðveld­inu Kasakst­an. Al­menn­ing­ur mót­mælti verðhækk­un­um á eldsneyti og al­mennt öm­ur­leg­um stjórn­ar­hátt­um. Mánu­dag­inn 10. janú­ar 2022 rök­studdi Vla­dimír Pútín ákvörðun sína um að senda rúss­neska her­menn til að berja á mót­mæl­end­um í Kasakst­an með þeim orðum að Rúss­ar myndu ekki þola „lita­bylt­ing­ar“ í ná­granna­lönd­um sín­um. Vísaði hann þar til mót­mæla sem felldu valda­menn holla Moskvu­vald­inu í Georgíu og Úkraínu.

Í fyrra stóð Pútín með Al­ex­and­er Lúka­sj­en­kó, ein­ræðis­herra í Hvíta-Rússlandi, þegar hann beitti al­menna borg­ara of­beldi til að halda völd­um. Nú sló hann skjald­borg um Kassym-Jom­art Tokayev, ein­ræðis­herra í Kasakst­an, sem bað Pútín um hjálp enda hefðu íslamsk­ir hryðju­verka­menn reynt að gera stjórn­ar­bylt­ingu í land­inu.

Á fjar­fundi með leiðtog­um ríkja í Sam­eig­in­lega ör­ygg­is­banda­lag­inu (CSTO) 10. janú­ar 2022 sagði Pútín að „alþjóðleg­ir hryðju­verka­menn“ hefðu ráðist á Kasakst­an og það væri skylda CSTO að styðja stjórn banda­lags­rík­is á hættu­stund.

Fyr­ir utan Rúss­land og Kasakst­an eiga Armen­ía, Hvíta-Rúss­land, Kírg­ist­an og Tadsjík­ist­an aðild að CSTO. Íhlut­un her­manna frá ríkj­un­um sýndi, sagði Pútín, að þau myndu ekki þola að grafið yrði und­an neinni rík­is­stjórn á svæðinu.

UimagesÚkraína er rauðmerkt á kortinu.

Eng­inn veit hvað Rúss­ar verða lengi með her í Kasakst­an en frétta­skýrend­ur segja að það boði ekki gott fyr­ir þjóðirn­ar við suður­landa­mæri Rúss­lands að Moskvu­valdið vilji stjórna þar í gegn­um leppa og sölsa þannig und­ir sig nátt­úru­auðlind­ir, olíu og gas, auk alls ann­ars. Halda þjóðunum lítt þróuðum og fá­tæk­um í hönd­um arðræn­ingja í skjóli Rússa.

Þegar Tékkó­slóvak­ar vildu frelsi und­an sov­éska ok­inu árið 1968 varð til Brés­nef-kenn­ing­in til að rétt­læta að sov­ésk­ir her­menn væru send­ir gegn al­menn­ingi í Prag. Leoníd Brés­nef, sov­ésk­ur leiðtogi Rúss­lands, sagði óþolandi að upp­nám í einu sósíal­ísku ríki yrði til að skaða þau öll. Rétt­mætt væri að binda enda á slíkt ástand með íhlut­un og hervaldi.

Lík­ind­in milli kenn­inga Brés­nefs og Pútíns eru mik­il og aðferðin sem þeir beita sú sama: að senda her inn í annað land til að gæta rúss­neskra hags­muna.

Sama dag og Pútín rétt­lætti her­för sína í Kasakst­an ræddu full­trú­ar Banda­ríkja­manna og Rússa sam­an í Genf. Fund­ur­inn var að kröfu Rússa. Hann sner­ist um viður­kenn­ingu á end­ur­nýjuðu áhrifa­svæði þeirra í Evr­ópu: Úkraína mætti „aldrei, aldrei ganga í Nató“ og Rúss­ar ættu að ráða vopna­kerf­um Nató í ná­granna­lönd­um Rúss­lands. Allt gæti gerst í krafti rúss­neska herafl­ans við landa­mæri Úkraínu.

Viður­kenn­ing á áhrifa­svæði Rússa í Evr­ópu í tví­hliða viðræðum þeirra við full­trúa Banda­ríkja­stjórn­ar jafn­gilti upp­broti. Fleyg­ur yrði rek­inn milli Banda­ríkja­manna og banda­manna þeirra í Evr­ópu. Þess vegna voru aldrei nein­ar lík­ur á að fund­ur­inn í Genf breytti nokkru í þessu efni þótt hann stæði í rúm­ar sjö klukku­stund­ir. Frétt­ir gáfu á hinn bóg­inn þá mynd að Rúss­ar stæðu jafn­fæt­is Banda­ríkja­mönn­um eins og Sov­ét­menn áður.

Full­trú­ar Natór­íkj­anna 30 í Brus­sel hittu Rússa miðviku­dag­inn 12. janú­ar. Að fund­in­um lokn­um sagði Jens Stolten­berg, fram­kvæmda­stjóri Nató, að hann hefði verið erfiður. Rúss­ar væru árás­araðil­inn gagn­vart Úkraínu: „Hættusástandið er vegna Rússa. Það er mik­il­vægt að þeir dragi úr spenn­unni.“

Þriðji alþjóðafund­ur vik­unn­ar um kröf­ur Rússa var í Vín­ar­borg fimmtu­dag­inn 13. janú­ar þegar full­trú­ar 57 ríkja í Örygg­is- og sam­vinnu­stofn­un Evr­ópu (ÖSE) hitt­ust. Hels­inki-sátt­mál­inn frá 1975, sem dró úr spennu milli aust­urs og vest­urs í kalda stríðinu, er grund­völl­ur ÖSE.

Með Hels­inki-sátt­mál­an­um var hafnað kröfu Rússa um að aðeins yrði samið um það sem Vest­ur­veld­in varðaði. Opnuð var glufa bættra sam­skipta í fá­ein ár. Verði ekki til slík glufa gagn­vart Pútín og hans liði eft­ir þessa viku er illt í efni. Við TASS-frétta­stof­una rúss­nesku fimmtu­dag­inn 13. janú­ar sagði Ser­geij Rja­b­kov var­aut­an­rík­is­ráðherra að ekki yrði náð lengra gagn­vart Nató en sam­talið héldi áfram eft­ir nýj­um leiðum. Til dæm­is mætti beita rúss­neska her­flot­an­um yrði Rúss­um ögrað meira og Banda­ríkja­menn ykju hernaðarleg­an þrýst­ing sinn. „Við vilj­um þetta ekki, diplómat­ar verða að semja,“ sagði hann eft­ir þessa hálf­kveðnu vísu.

Rúss­ar gefa ekk­ert upp um næsta skref Pútíns. Leynd­ar­hyggja og óvissa eru mik­il­væg tól í vopna­búri hans. Finn­ar og Sví­ar áréttuðu þess vegna um ára­mót­in að Pútín segði þeim ekki fyr­ir verk­um í ör­ygg­is­mál­um og færðu sig nær Nató. Sé rúss­neski flot­inn nefnd­ur bein­ist at­hygli að mik­il­vægi grunnþátta varna og ör­ygg­is Íslands: varn­ar­samn­ings­ins, Nató-aðild­ar og nor­rænn­ar sam­vinnu.