Áramót óvæntra tíðinda
Morgunblaðið, laugardagur 6. janúar 2024
Í ár verða ýmsar sögulegar breytingar á æðstu stöðum. Sumar mátti sjá fyrir eins og að nýr borgarstjóri yrði í Reykjavík, nýr biskup yfir Íslandi og nýr forseti í Finnlandi. Aðrar breytingar ber óvænt að eins og að Friðrik 10. komi til valda í Danmörku 14. janúar eða nýr forseti verði kjörinn hér á landi 1. júní.
Dagur B. Eggertsson (Samfylkingu) hefur þann stíl sem borgarstjóri að vera lítt sýnilegur eða ekki til viðtals nema þegar „góð mál“ ber hátt. Fyrir önnur mál svarar hann almennt ekki eða kallar aðra til ábyrgðar. Kosningaloforð eru gefin um sömu hlutina ár eftir ár og síðan látið eins og framkvæmdaleysið sé öðrum að kenna. Þetta er að lofa upp í ermina á öðrum.
Það verður spennandi að sjá hvort nýr borgarstjóri, Einar Þorsteinsson (Framsóknarflokki), fer í fótspor Dags B. að þessu leyti eða tekur upp aðra stjórnarhætti. Fjögurra flokka meirihlutasamstarfið í borgarstjórn þrífst að vísu ekki nema takist að sópa vandræðamálum undir teppið í von um að þau gleymist. Sú aðferð hefur dugað flokkunum undanfarin ár. Þá er þess tæplega að vænta að fyrrverandi samstarfsmenn Einars á fréttastofu ríkisútvarpsins gangi harðar fram við hann en forvera hans.
Miðað við lognmolluna í kringum borgarstjóraembættið og Dag B. Eggertsson hefur geisað stormur um biskupsembættið í tíð sr. Agnesar M. Sigurðardóttur. Hún var, fyrst kvenna, kjörin biskup árið 2012.
Afstaða fjölmiðlamanna er önnur til biskups en borgarstjóra. Allt sem sætir gagnrýni innan þjóðkirkjunnar er rætt opinberlega til þrautar. Gárur á yfirborðinu er það eina sem skoðað er við Tjörnina. Stjórnsýsla er verð gagnrýni á báðum stöðum. Má þar síðast nefna hringlandaháttinn við að tryggja biskupi nægilegt umboð til að sinna stjórnsýsluskyldum. Er óheppilegt hve kirkjustjórnin hefur misstigið sig illa á fyrstu skrefunum undan ríkisforsjánni.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytur áramótaávarp sitt 1. janúar 2024.
Margrét II. Danadrottning afsalaði sér völdum til sonar síns af því að hún taldi sig ekki lengur hafa líkamlegt þrek til að gegna skyldum þjóðhöfðingja. Guðni Th. Jóhannesson ákvað að sækjast ekki eftir endurkjöri af því að hann lét hjartað ráða.
Í tíð Guðna Th. ríkir góður friður um forsetaembættið. Hann hvatti þjóðina til heilsuræktar og heilbrigðs lífs. Í samræmi við það leggur hann sig fram um að styðja hvers kyns heilsueflingu til gagns fyrir einstaklinga og samfélagið allt. Slík hvatning höfðar ekki síður til þeirra sem eldri eru en yngri. Það er ekki tilviljun að flestir fastagestir við dyr sundlauga þegar þær eru opnaðar á morgnana hafa náð áttræðis- eða níræðisaldri, séu þeir ekki eldri. Áralöng ástundun veitir þeim þetta þrek.
Þegar þetta er ritað hafa verið kynnt fjögur framboð til biskups. Í biskupskjöri í mars 2012 voru 502 kjörmenn á skrá, vígðir og leikmenn innan þjóðkirkjunnar. Kjörskrá vegna kosninganna núna á að liggja fyrir 18. janúar nk. Hópurinn sem kýs biskup er ekki stór en návígið ýtir undir hörku í kosningabaráttunni.
Þegar Guðni Th. Jóhannesson var kosinn forseti Íslands 25. júní 2016 voru níu frambjóðendur í kjöri. Guðni Th. tilkynnti framboð sitt 5. maí, tæpum tveimur mánuðum fyrir kjördag. Miðað við það getur sigurstranglegur frambjóðandi núna dregið tilkynningu um framboð sitt fram í apríl en framboðsfrestur rennur út fimm vikum fyrir kjördag, laugardaginn 1. júní.
Það liggur í loftinu að vænta megi breytinga á landstjórninni í ár. Ríkisstjórnin hafi misst flugið og kunni áður en hún brotlendir að ákveða að rjúfa þing og efna til kosninga. Ólíklegt er að það gerist fyrir forsetakosningar. Ekkert er þó unnt að útiloka í lýðræðislegum stjórnmálum.
Forystumenn stjórnarflokkanna segja ekkert fararsnið á sér eða ríkisstjórninni. Ásetningur þeirra sé að stjórna landinu út kjörtímabilið. Viljinn til þess skal ekki dreginn í efa en vilji er ekki alltaf allt sem þarf. Pólitískar yfirlýsingar án sannfæringarkrafts valda trúnaðarbresti.
Það vekur undrun hve litlar umræður eru um uppgjörið innan Samfylkingarinnar. Þögnin þegar valtað er yfir fortíðina í flokknum sýnir best hve hann var orðinn lítils megnugur þegar þeir fáu sem fara með flokksvöldin ákváðu að „krýna“ Kristrúnu Frostadóttur til formennsku sumarið 2022.
Í fyrstu áramótagrein sinni í Morgunblaðinu sem staðfestur formaður segir Kristrún að Samfylkingunni hafi „ekki enn tekist að verða sá flokkur sem henni var ætlað að vera“ fyrir um það bil aldarfjórðungi.
Þetta er harður dómur yfir forverum Kristrúnar. Vegna þessara mistaka segist hún hafa ákveðið „að breyta Samfylkingunni“ og ná tengingu við „venjulegt fólk“, með „nýrri forystu og nýju merki – sem nú er rauð rós, alþjóðlegt tákn jafnaðarfólks“.
Greinin snýst um ytri tákn og nýjar aðferðir við stefnumörkun en í hverju stefnan felst er enn óljóst. Endurtekinn er boðskapurinn í ræðu Kristrúnar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra haustið 2023 um að hún ætli ekki að láta flokkinn taka nein „heljarstökk“. Hún hefur þó kúvent stefnu hans og hætt stuðningi við „nýju stjórnarskrána“ og ESB-aðild. Megi ekki líkja þeim æfingum við pólitísk heljarstökk er erfitt að finna samtímadæmi um þau.
Á fyrstu dögum eftir að Guðni Th. Jóhannesson lýsti ákvörðun sinni lýstu flestir áhuga á að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra settist á forsetastólinn. Taki hún ákvörðun um að leita eftir umboði til þess leiðir það til meiri breytinga en allt sem hér hefur verið nefnt. Óvænt tíðindi geta enn gerst.