6.1.2024

Áramót óvæntra tíðinda

Morgunblaðið, laugardagur 6. janúar 2024

Í ár verða ýms­ar sögu­leg­ar breyt­ing­ar á æðstu stöðum. Sum­ar mátti sjá fyr­ir eins og að nýr borg­ar­stjóri yrði í Reykja­vík, nýr bisk­up yfir Íslandi og nýr for­seti í Finn­landi. Aðrar breyt­ing­ar ber óvænt að eins og að Friðrik 10. komi til valda í Dan­mörku 14. janú­ar eða nýr for­seti verði kjör­inn hér á landi 1. júní.

Dag­ur B. Eggerts­son (Sam­fylk­ingu) hef­ur þann stíl sem borg­ar­stjóri að vera lítt sýni­leg­ur eða ekki til viðtals nema þegar „góð mál“ ber hátt. Fyr­ir önn­ur mál svar­ar hann al­mennt ekki eða kall­ar aðra til ábyrgðar. Kosn­ingalof­orð eru gef­in um sömu hlut­ina ár eft­ir ár og síðan látið eins og fram­kvæmda­leysið sé öðrum að kenna. Þetta er að lofa upp í erm­ina á öðrum.

Það verður spenn­andi að sjá hvort nýr borg­ar­stjóri, Ein­ar Þor­steins­son (Fram­sókn­ar­flokki), fer í fót­spor Dags B. að þessu leyti eða tek­ur upp aðra stjórn­ar­hætti. Fjög­urra flokka meiri­hluta­sam­starfið í borg­ar­stjórn þrífst að vísu ekki nema tak­ist að sópa vand­ræðamál­um und­ir teppið í von um að þau gleym­ist. Sú aðferð hef­ur dugað flokk­un­um und­an­far­in ár. Þá er þess tæp­lega að vænta að fyrr­ver­andi sam­starfs­menn Ein­ars á frétta­stofu rík­is­út­varps­ins gangi harðar fram við hann en for­vera hans.

Miðað við logn­moll­una í kring­um borg­ar­stjóra­embættið og Dag B. Eggerts­son hef­ur geisað storm­ur um bisk­up­sembættið í tíð sr. Agnes­ar M. Sig­urðardótt­ur. Hún var, fyrst kvenna, kjör­in bisk­up árið 2012.

Afstaða fjöl­miðlamanna er önn­ur til bisk­ups en borg­ar­stjóra. Allt sem sæt­ir gagn­rýni inn­an þjóðkirkj­unn­ar er rætt op­in­ber­lega til þraut­ar. Gár­ur á yf­ir­borðinu er það eina sem skoðað er við Tjörn­ina. Stjórn­sýsla er verð gagn­rýni á báðum stöðum. Má þar síðast nefna hringlanda­hátt­inn við að tryggja bisk­upi nægi­legt umboð til að sinna stjórn­sýslu­skyld­um. Er óheppi­legt hve kirkju­stjórn­in hef­ur mis­stigið sig illa á fyrstu skref­un­um und­an rík­is­for­sjánni.

1461926Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytur áramótaávarp sitt 1. janúar 2024.

Mar­grét II. Dana­drottn­ing af­salaði sér völd­um til son­ar síns af því að hún taldi sig ekki leng­ur hafa lík­am­legt þrek til að gegna skyld­um þjóðhöfðingja. Guðni Th. Jó­hann­es­son ákvað að sækj­ast ekki eft­ir end­ur­kjöri af því að hann lét hjartað ráða.

Í tíð Guðna Th. rík­ir góður friður um for­seta­embættið. Hann hvatti þjóðina til heilsu­rækt­ar og heil­brigðs lífs. Í sam­ræmi við það legg­ur hann sig fram um að styðja hvers kyns heilsu­efl­ingu til gagns fyr­ir ein­stak­linga og sam­fé­lagið allt. Slík hvatn­ing höfðar ekki síður til þeirra sem eldri eru en yngri. Það er ekki til­vilj­un að flest­ir fasta­gest­ir við dyr sund­lauga þegar þær eru opnaðar á morgn­ana hafa náð átt­ræðis- eða níræðis­aldri, séu þeir ekki eldri. Áralöng ástund­un veit­ir þeim þetta þrek.

Þegar þetta er ritað hafa verið kynnt fjög­ur fram­boð til bisk­ups. Í bisk­ups­kjöri í mars 2012 voru 502 kjör­menn á skrá, vígðir og leik­menn inn­an þjóðkirkj­unn­ar. Kjör­skrá vegna kosn­ing­anna núna á að liggja fyr­ir 18. janú­ar nk. Hóp­ur­inn sem kýs bisk­up er ekki stór en ná­vígið ýtir und­ir hörku í kosn­inga­bar­átt­unni.

Þegar Guðni Th. Jó­hann­es­son var kos­inn for­seti Íslands 25. júní 2016 voru níu fram­bjóðend­ur í kjöri. Guðni Th. til­kynnti fram­boð sitt 5. maí, tæp­um tveim­ur mánuðum fyr­ir kjör­dag. Miðað við það get­ur sig­ur­strang­leg­ur fram­bjóðandi núna dregið til­kynn­ingu um fram­boð sitt fram í apríl en fram­boðsfrest­ur renn­ur út fimm vik­um fyr­ir kjör­dag, laug­ar­dag­inn 1. júní.

Það ligg­ur í loft­inu að vænta megi breyt­inga á land­stjórn­inni í ár. Rík­is­stjórn­in hafi misst flugið og kunni áður en hún brot­lend­ir að ákveða að rjúfa þing og efna til kosn­inga. Ólík­legt er að það ger­ist fyr­ir for­seta­kosn­ing­ar. Ekk­ert er þó unnt að úti­loka í lýðræðis­leg­um stjórn­mál­um.

For­ystu­menn stjórn­ar­flokk­anna segja ekk­ert far­arsnið á sér eða rík­is­stjórn­inni. Ásetn­ing­ur þeirra sé að stjórna land­inu út kjör­tíma­bilið. Vilj­inn til þess skal ekki dreg­inn í efa en vilji er ekki alltaf allt sem þarf. Póli­tísk­ar yf­ir­lýs­ing­ar án sann­fær­ing­ar­krafts valda trúnaðarbresti.

Það vek­ur undr­un hve litl­ar umræður eru um upp­gjörið inn­an Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Þögn­in þegar valtað er yfir fortíðina í flokkn­um sýn­ir best hve hann var orðinn lít­ils megn­ug­ur þegar þeir fáu sem fara með flokksvöld­in ákváðu að „krýna“ Kristrúnu Frosta­dótt­ur til for­mennsku sum­arið 2022.

Í fyrstu ára­móta­grein sinni í Morg­un­blaðinu sem staðfest­ur formaður seg­ir Kristrún að Sam­fylk­ing­unni hafi „ekki enn tek­ist að verða sá flokk­ur sem henni var ætlað að vera“ fyr­ir um það bil ald­ar­fjórðungi.

Þetta er harður dóm­ur yfir for­ver­um Kristrún­ar. Vegna þess­ara mistaka seg­ist hún hafa ákveðið „að breyta Sam­fylk­ing­unni“ og ná teng­ingu við „venju­legt fólk“, með „nýrri for­ystu og nýju merki – sem nú er rauð rós, alþjóðlegt tákn jafnaðarfólks“.

Grein­in snýst um ytri tákn og nýj­ar aðferðir við stefnu­mörk­un en í hverju stefn­an felst er enn óljóst. End­ur­tek­inn er boðskap­ur­inn í ræðu Kristrún­ar í umræðum um stefnuræðu for­sæt­is­ráðherra haustið 2023 um að hún ætli ekki að láta flokk­inn taka nein „helj­ar­stökk“. Hún hef­ur þó kúvent stefnu hans og hætt stuðningi við „nýju stjórn­ar­skrána“ og ESB-aðild. Megi ekki líkja þeim æf­ing­um við póli­tísk helj­ar­stökk er erfitt að finna sam­tíma­dæmi um þau.

Á fyrstu dög­um eft­ir að Guðni Th. Jó­hann­es­son lýsti ákvörðun sinni lýstu flest­ir áhuga á að Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra sett­ist á for­seta­stól­inn. Taki hún ákvörðun um að leita eft­ir umboði til þess leiðir það til meiri breyt­inga en allt sem hér hef­ur verið nefnt. Óvænt tíðindi geta enn gerst.