28.9.2024

Áminning um alvöru stríðsins

Morgunblaðið, laugardagur, 28. september 2024

For­menn ut­an­rík­is­mála­nefnda þjóðþinga nor­rænu ríkj­anna og Eystra­salts­ríkj­anna voru hér á fundi í byrj­un vik­unn­ar. Ríkja­hóp­ur­inn, sem þekkt­ur er und­ir skamm­stöf­un­inni NB8, á sam­starf á ýms­um sviðum. Þegar stjórn­mála­menn sem njóta trausts þinga sinna til að stýra nefnd­ar­starfi um ut­an­rík­is­mál hitt­ast ber þau mál­efni auk ör­ygg­is­mála að sjálf­sögðu hæst.

Jó­hann Friðrik Friðriks­son (F), formaður ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar alþing­is, stýrði lokuðum fund­um formann­anna en Diljá Mist Ein­ars­dótt­ir (D), frá­far­andi formaður nefnd­ar­inn­ar, stýrði pall­borðsum­ræðum þeirra á opn­um fundi Varðbergs í Há­skól­an­um í Reykja­vík (HR) 23. sept­em­ber.

Ein­arður stuðning­ur allra nor­rænu ríkj­anna fimm og formann­anna frá Eistlandi, Lett­landi og Lit­há­en við Úkraínu fór ekki á milli mála. Litið er á átök­in í Úkraínu sem varn­ar­stríð frjálsra þjóða í Evr­ópu gegn of­ríki og stjórn­ar­hátt­um í anda alræðis. Pút­in svíf­ist einskis og verði hann ekki stöðvaður þarna verði til nýr víg­völl­ur ann­ars staðar síðar. Sig­ur Pút­ins gæti leitt til kjark­leys­is þjóða Evr­ópu og opnað leið til valda fyr­ir öfl sem dýrka sterka mann­inn og liggja flöt fyr­ir rúss­neska ein­ræðis­herr­an­um.

Öll NB8-rík­in verða fyr­ir fjölþátta áreitni sem tengja má við hernað Rússa og banda­menn þeirra Kín­verja, Írana og Norður-Kór­eu­menn. Íslensk fyr­ir­tæki, þar á meðal Árvak­ur, út­gáfu­fé­lag Morg­un­blaðsins, hafa orðið fyr­ir netárás­um Rússa. Hér eru viðmið við grein­ingu á fjölþátta ógn­um ekki eins skýr og til dæm­is í Nor­egi þar sem gilda sér­stök ör­ygg­is­lög. Alþing­is­menn hafa alltof lengi talið að ekki eigi að af­henda stjórn­völd­um sömu tæki og notuð eru ann­ars staðar til að skil­greina hætt­ur eða bregðast við þeim. Fell­ur sú afstaða að þeirri und­ar­legu skoðun að friði sé ógnað geri ríki ráðstaf­an­ir til eig­in varna og glæp­ir auk­ist sé lög­gæsla efld.

Þegar þetta er skrifað kem­ur í hug­ann at­vik á fundi ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar á sín­um tíma þar sem kveðið var fast að orði um nauðsyn þess að í þjóðarör­ygg­is­stefnu væri lögð áhersla á land­varn­ir. Und­ir lok umræðnanna kvaddi einn nefnd­ar­manna sér hljóðs og sagði eitt­hvað á þessa leið: „Hvaða tal er þetta um nauðsyn varna? Erum við ekki að tala um frið?“

Full­yrða má að hvergi ann­ars staðar í NB8-ríkj­un­um hefði nokk­ur þingmaður í ut­an­rík­is­mála­nefnd talað á þenn­an veg. Í ná­grenni Rúss­lands kall­ar það yfir sig hættu á inn­rás að sýna and­vara­leysi og trúa því að það sé besta trygg­ing­in fyr­ir friði. And­mæli gegn slíku and­vara­leysi var meg­in­inn­tak þess sem all­ir NB8-for­menn­irn­ir sögðu. Finn­ar og Sví­ar ákváðu að sækja um aðild að NATO eins fljótt og verða mátti eft­ir að Pút­in fór með her sinn inn í Úkraínu svo hann teldi þá ekki auðvelda bráð.

Finn­ar og Eist­lend­ing­ar eru ná­grann­ar með Finnska flóa á milli sín. Báðar þjóðirn­ar eiga land að Rússlandi og hafa und­an­farið átt í fjölþátta hernaði við Rússa á landa­mær­un­um. Þá rauf kín­verskt skip í þjón­ustu Rússa strengi og leiðslur milli land­anna á botni Finnska flóa. Á fjórða og fimmta ára­tugn­um urðu Finn­ar fyr­ir inn­rás­um Rússa sem þeir stóðust. Eist­lend­ing­ar bjuggu við sov­éska ógn­ar­stjórn, grimmdaræði, fang­els­an­ir og Síberíu­vist.

Á fund­in­um í HR sagði formaður finnsku ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar­inn­ar, jafnaðarmaður­inn Kimmo Kiljun­en, að Rúss­ar hefðu tapað Úkraínu­stríðinu. Þeim hefði mistek­ist að leggja Úkraínu und­ir sig, drepa íbú­ana eða flytja þá í fjar­læg­ar fanga­búðir. Finn­um hefði á sín­um tíma þótt sárt að missa hluta lands síns vegna hernaðar Rússa. Það hefði þó verið lít­il fórn í sam­an­b­urði við að halda ráðum yfir því sem nú væri Finn­land og sjálf­stæði finnsku þjóðar­inn­ar. And­inn frá Hels­inki boðaði að leita ætti leiða til friðar í stað þess að gera út af við and­stæðing­inn á víg­vell­in­um. Hvor­ug­um stríðsaðila myndi tak­ast það í Úkraínu.

Formaður­inn frá Eistlandi, Mar­ko Mihkel­son, frjáls­lynd­ur, var svart­sýnni en Finn­inn. Mihkel­son hef­ur oft farið á víg­völl­inn í Úkraínu og kvíðir því að Úkraínu­menn fái ekki þann stuðning sem þeir þurfi til að sigra Rússa eða að minnsta kosti halda þeim í skefj­um. Þeir kynnu að tapa í stríðinu sem hefði geig­væn­leg­ar af­leiðing­ar fyr­ir Eist­land og alla Evr­ópu.

Umræðurn­ar spönnuðu vítt svið. Hægri­kon­an Ine Erik­sen Sørei­de, formaður ut­an­rík­is- og varn­ar­mála­nefnd­ar norska þings­ins, vék að norður­slóðum og sagði að nú væri tómt mál að tala um High North – Low Tensi­on, það er norður­slóðir sem lág­spennusvæði. Til­vist kjarn­orku­vopna Rússa á Kóla­skaga og lang­drægra kaf­báta og sprengjuflug­véla auk skot­flauga skapaði stöðugt meiri spennu í norðri.

Screenshot-2024-09-28-at-22.05.14Skjámynd frá fundi Varðbergs í Háskólanum í Reykjavík 23. september 2024.

Leiðtog­ar ríkja heims hafa verið í New York í vik­unni vegna alls­herj­arþings Sam­einuðu þjóðanna. Volody­myr Zelenskíj Úkraínu­for­seti er í hópi þeirra.

Hann sagði Sam­einuðu þjóðirn­ar „mátt­laus­ar“, þær gætu ekki stöðvað rúss­neska inn­rás í land sitt vegna neit­un­ar­valds Rússa. Ríki heims ættu ekki að hlusta á radd­ir þeirra sem teldu sig hafa heima­smíðaða lausn til að ljúka Úkraínu­stríðinu. Án aðild­ar stjórn­ar sinn­ar yrði ekki um neina samn­inga að ræða.

Zelenskíj sagðist vera með „siguráætl­un“. Hvað sem henni líður verður enn bar­ist í Úkraínu. Auk­in at­hygli bein­ist að stuðningi Kín­verja við Rússa á víg­vell­in­um. Mette Frederik­sen for­sæt­is­ráðherra Dana sagði í New York að án beins stuðnings Kín­verja hefðu Rúss­ar ekki haldið stríðsvél sinni á full­um dampi í meira en tvö og hálft ár.

Al­vara í umræðum um stríðshættu er minni hér en ann­ars staðar. Al­vöru- og and­vara­leysi trygg­ir ekki frið.