Áminning um alvöru stríðsins
Morgunblaðið, laugardagur, 28. september 2024
Formenn utanríkismálanefnda þjóðþinga norrænu ríkjanna og Eystrasaltsríkjanna voru hér á fundi í byrjun vikunnar. Ríkjahópurinn, sem þekktur er undir skammstöfuninni NB8, á samstarf á ýmsum sviðum. Þegar stjórnmálamenn sem njóta trausts þinga sinna til að stýra nefndarstarfi um utanríkismál hittast ber þau málefni auk öryggismála að sjálfsögðu hæst.
Jóhann Friðrik Friðriksson (F), formaður utanríkismálanefndar alþingis, stýrði lokuðum fundum formannanna en Diljá Mist Einarsdóttir (D), fráfarandi formaður nefndarinnar, stýrði pallborðsumræðum þeirra á opnum fundi Varðbergs í Háskólanum í Reykjavík (HR) 23. september.
Einarður stuðningur allra norrænu ríkjanna fimm og formannanna frá Eistlandi, Lettlandi og Litháen við Úkraínu fór ekki á milli mála. Litið er á átökin í Úkraínu sem varnarstríð frjálsra þjóða í Evrópu gegn ofríki og stjórnarháttum í anda alræðis. Pútin svífist einskis og verði hann ekki stöðvaður þarna verði til nýr vígvöllur annars staðar síðar. Sigur Pútins gæti leitt til kjarkleysis þjóða Evrópu og opnað leið til valda fyrir öfl sem dýrka sterka manninn og liggja flöt fyrir rússneska einræðisherranum.
Öll NB8-ríkin verða fyrir fjölþátta áreitni sem tengja má við hernað Rússa og bandamenn þeirra Kínverja, Írana og Norður-Kóreumenn. Íslensk fyrirtæki, þar á meðal Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, hafa orðið fyrir netárásum Rússa. Hér eru viðmið við greiningu á fjölþátta ógnum ekki eins skýr og til dæmis í Noregi þar sem gilda sérstök öryggislög. Alþingismenn hafa alltof lengi talið að ekki eigi að afhenda stjórnvöldum sömu tæki og notuð eru annars staðar til að skilgreina hættur eða bregðast við þeim. Fellur sú afstaða að þeirri undarlegu skoðun að friði sé ógnað geri ríki ráðstafanir til eigin varna og glæpir aukist sé löggæsla efld.
Þegar þetta er skrifað kemur í hugann atvik á fundi utanríkismálanefndar á sínum tíma þar sem kveðið var fast að orði um nauðsyn þess að í þjóðaröryggisstefnu væri lögð áhersla á landvarnir. Undir lok umræðnanna kvaddi einn nefndarmanna sér hljóðs og sagði eitthvað á þessa leið: „Hvaða tal er þetta um nauðsyn varna? Erum við ekki að tala um frið?“
Fullyrða má að hvergi annars staðar í NB8-ríkjunum hefði nokkur þingmaður í utanríkismálanefnd talað á þennan veg. Í nágrenni Rússlands kallar það yfir sig hættu á innrás að sýna andvaraleysi og trúa því að það sé besta tryggingin fyrir friði. Andmæli gegn slíku andvaraleysi var megininntak þess sem allir NB8-formennirnir sögðu. Finnar og Svíar ákváðu að sækja um aðild að NATO eins fljótt og verða mátti eftir að Pútin fór með her sinn inn í Úkraínu svo hann teldi þá ekki auðvelda bráð.
Finnar og Eistlendingar eru nágrannar með Finnska flóa á milli sín. Báðar þjóðirnar eiga land að Rússlandi og hafa undanfarið átt í fjölþátta hernaði við Rússa á landamærunum. Þá rauf kínverskt skip í þjónustu Rússa strengi og leiðslur milli landanna á botni Finnska flóa. Á fjórða og fimmta áratugnum urðu Finnar fyrir innrásum Rússa sem þeir stóðust. Eistlendingar bjuggu við sovéska ógnarstjórn, grimmdaræði, fangelsanir og Síberíuvist.
Á fundinum í HR sagði formaður finnsku utanríkismálanefndarinnar, jafnaðarmaðurinn Kimmo Kiljunen, að Rússar hefðu tapað Úkraínustríðinu. Þeim hefði mistekist að leggja Úkraínu undir sig, drepa íbúana eða flytja þá í fjarlægar fangabúðir. Finnum hefði á sínum tíma þótt sárt að missa hluta lands síns vegna hernaðar Rússa. Það hefði þó verið lítil fórn í samanburði við að halda ráðum yfir því sem nú væri Finnland og sjálfstæði finnsku þjóðarinnar. Andinn frá Helsinki boðaði að leita ætti leiða til friðar í stað þess að gera út af við andstæðinginn á vígvellinum. Hvorugum stríðsaðila myndi takast það í Úkraínu.
Formaðurinn frá Eistlandi, Marko Mihkelson, frjálslyndur, var svartsýnni en Finninn. Mihkelson hefur oft farið á vígvöllinn í Úkraínu og kvíðir því að Úkraínumenn fái ekki þann stuðning sem þeir þurfi til að sigra Rússa eða að minnsta kosti halda þeim í skefjum. Þeir kynnu að tapa í stríðinu sem hefði geigvænlegar afleiðingar fyrir Eistland og alla Evrópu.
Umræðurnar spönnuðu vítt svið. Hægrikonan Ine Eriksen Søreide, formaður utanríkis- og varnarmálanefndar norska þingsins, vék að norðurslóðum og sagði að nú væri tómt mál að tala um High North – Low Tension, það er norðurslóðir sem lágspennusvæði. Tilvist kjarnorkuvopna Rússa á Kólaskaga og langdrægra kafbáta og sprengjuflugvéla auk skotflauga skapaði stöðugt meiri spennu í norðri.
Skjámynd frá fundi Varðbergs í Háskólanum í Reykjavík 23. september 2024.
Leiðtogar ríkja heims hafa verið í New York í vikunni vegna allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti er í hópi þeirra.
Hann sagði Sameinuðu þjóðirnar „máttlausar“, þær gætu ekki stöðvað rússneska innrás í land sitt vegna neitunarvalds Rússa. Ríki heims ættu ekki að hlusta á raddir þeirra sem teldu sig hafa heimasmíðaða lausn til að ljúka Úkraínustríðinu. Án aðildar stjórnar sinnar yrði ekki um neina samninga að ræða.
Zelenskíj sagðist vera með „siguráætlun“. Hvað sem henni líður verður enn barist í Úkraínu. Aukin athygli beinist að stuðningi Kínverja við Rússa á vígvellinum. Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana sagði í New York að án beins stuðnings Kínverja hefðu Rússar ekki haldið stríðsvél sinni á fullum dampi í meira en tvö og hálft ár.
Alvara í umræðum um stríðshættu er minni hér en annars staðar. Alvöru- og andvaraleysi tryggir ekki frið.