22.2.2019

Alþjóðastraumar frjálslyndis og forræðishyggju

Morgunblaðið 22. febrúar 2019

Nokkrar árlegar ráðstefnur vekja heimsathygli. Ein þeirra er öryggisráðstefnan í München sem stofnað var til árið 1963. Upphaflegur tilgangur var að gefa þýskum stjórnmálamönnum og herforingjum tækifæri til að hitta fulltrúa mikilvægustu bandamanna sinna. Þetta skipti miklu þegar innan við 20 ár voru liðin frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar og Þjóðverjar höfðu ekki verið áratug í NATO.

Fram til ársins 1989 ríkti enginn vafi um mikilvægustu bandalagsþjóð Þjóðverja. Bandaríkjamenn skipuðu sérstakan sess. Gagnkvæm samskipti þjóðanna voru mikil meðal annars vegna hundruð þúsunda bandarískra hermanna í stöðvum í Þýskalandi.

Ráðstefnan í München var haldin í fyrri viku. Hún snýst nú ekki einungis um innri samskipti vestrænna bandamanna heldur sækja hana fulltrúar ríkja frá öllum heimshornum. Fyrri hluti lokadagsins er til dæmis jafnan helgaður Mið-Austurlöndum og að þessu sinni fór utanríkisráðherra Írans þar mikinn og svaraði ræðu sem Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, flutti daginn áður. Pence hvatti evrópska bandamenn Bandaríkjanna til að rifta kjarnorkusamningnum við Írana og setja þá að nýju í spennitreyju efnahagsþvingana.

Undirtónn ráðstefnunnar er þó enn að treysta samband Þjóðverja og Bandaríkjamanna. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Donald Trump Bandaríkjaforseti beinir oft spjótum að Angelu Merkel Þýskalandskanslara.

Á ráðstefnunni svaraði Merkel úrtölum forsetans um viðskipti ríkjanna með því að hæðast að fullyrðingum um að þýskir bílaframleiðendur ógni þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Auk þess mætti minnast þess að stærstu bílasmiðjur BMW væru ekki í Bæjaralandi heldur Bandaríkjunum.

Þýska blaðið Die Welt benti á að tvær fylkingar bandarískra þátttakenda hefðu sótt München-ráðstefnuna í ár. Annars vegar fulltrúar ríkisstjórnarinnar sem töluðu í skipunartóni til Þjóðverja og annarra bandamanna sinna, þeir skyldu huga að eigin öryggi og gæta sín á Rússum og Kínverjum. Fór Mike Pence varaforseti fyrir þessum hópi. Hins vegar var demókratinn Nancy Pelosi þingforseti í forystu fyrir beggja flokka hópi bandarískra þingmanna, úr öldungadeildinni og fulltrúadeildinni. Þeir voru 55, fleiri nokkru sinni. Vildu þingmennirnir staðfesta hollustu Bandaríkjamanna við NATO og samstöðu með bandamönnum sínum, ekki síst Þjóðverjum. Frá München hélt Pelosi til Brussel og bar lof á NATO og ESB.

Csm_20190216_konferenz_saal_4458_91b93824feFrá öryggisráðstefnunni í München 2019.

Tímamót alþjóðakerfis


Öllum er ljóst að hart er tekist á milli flokka á Bandaríkjaþingi þótt þeir sameinist að baki NATO. Nú ríkir einnig mikil spenna í samskiptum löggjafarvaldsins, þingsins, og framkvæmdavaldsins, forsetans.

Spennan birtist ekki aðeins í átökum um bandarísku fjárlögin og hvort nægu fé sé veitt til gæluverkefna forsetans eins og Mexikó-múrsins sem Mexíkanar áttu að vísu að borga samkvæmt kosningaloforði Trumps. Hún birtist einnig í afstöðunni til alþjóðamála og einkum til fjölþjóðasamtaka.

Bandarísku þingmennirnir sem fjölmenntu til München vildu árétta stuðning sinn við alþjóðlega kerfið sem Bandaríkjamenn lögðu grunn að fyrir 75 árum með bandalögum og alþjóðastofnunum.

Greinendur alþjóðastjórnmála telja að þetta kerfi sæti nú meiri árásum og þrýstingi en nokkru sinni fyrr. Innan frá sé vegið að því af popúlisma, þjóðernishyggju og forræðishyggju. Utan frá sæti það „vaxandi þrýstingi frá herskáum Rússum og rísandi Kínverjum“ svo að vitnað sé í grein tveggja bandarískra prófessora í nýjasta hefti tímaritsins Foreign Affairs. Þeir segja að alþjóðakerfið sjálft sé ekki aðeins í húfi heldur einnig einstæð efnahagsleg farsæld og friðurinn sem það hefur getið af sér.

Alþjóðakerfið sem virkjaði Vestur-Þjóðverja og Japani til samstarfs þrátt fyrir blóðug styrjaldarátök var reist á frjálslyndri stefnu þar sem viðskipti og öryggi féllu í einn farveg. Atlantshafsbandalagið (NATO) og Efnahagsbandalag Evrópu, síðar Evrópusambandið (ESB), voru reist á þessum grunni. Sömu sögu er að segja um Efnahags- og framfarastofnunina (OECD), GATT sem varð að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn svo að dæmi séu nefnd.

Í samtali við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Kastljósi mánudaginn 18. febrúar kom fram að hann telur eitt af meginverkefnum sínum sem ráðherra að fylgjast með hvort störf þessara fjölþjóðlegu stofnana séu viðunandi í ljósi bandarískra hagsmuna. Að baki býr hollusta við stefnu Trumps um Bandaríkin í fyrsta sæti. Sumir túlka hana sem óvild í garð frjálslynda, fjölþjóðlega kerfisins.

Í ársskýrslu München-ráðstefnunnar 2019 sagði Wolfgang Ischinger, forstöðumaður hennar: „Frjálslynda alþjóðakerfið virðist vera að riðlast. Við stöndum á tímamótum: einu skeiði lýkur og við sjáum aðeins móta fyrir útlínum nýs stjórnmálaskeiðs.“

Forræði í stað frjálslyndis


Þátttaka í fjölþjóðlegu samstarfi og stofnunum krefst þess að ríki séu til þess búin að slá af eigin hagsmunum og stefnu til sátta við bandamenn sína og samstarfsþjóðir. Þetta er einkenni frjálslynda alþjóðakerfisins.

Kerfið fellur illa að stefnu og starfsháttum ríkisstjórna sem aðhyllast forræðis- eða valdboðshyggju (e: authoritarianism). Undir þá skilgreiningu falla stjórnvöld í Rússlandi og Kína. Ýmsir halda því fram að draga megi einstaka stjórnir í evrópskum lýðræðisríkjum í þennan dilk vegna stjórnarhátta þeirra. Þá er spurning hvaða stimpil á að setja á framgöngu Trumps á alþjóðavettvangi.

Heima fyrir sætir forsetinn nú sérstakri gagnrýni og málsókn vegna valdboðsins um að nýta almannavarnasjóði til að fjármagna Mexíkó-múrinn.

Áður var unnt að draga hugsjónalínu milli kommúnista og lýðræðislegra andstæðinga þeirra. Vissulega áttu menn samskipti yfir þessa línu en hún lá alltaf í loftinu og skipti Evrópu milli austurs og vesturs.

Eins og málum er nú háttað skiptir ekki sambærileg hugsjónabarátta mönnum og þjóðum í skýrar fylkingar. Forðast er að minnast á átök milli menningarheima eða með vísan til trúarbragða.


Til að greina núverandi stöðu má ef til vill draga skil milli þeirra sem aðhyllast frjálslyndi í samskiptum manna og þjóða og hinna sem vilja að forræðishyggja ráði. Það eru líklega útlínur umskipta af því tagi sem Ischinger ýjar að í orðunum hér að ofan.

Vegna kosninga til þings ESB í maí nk. eru umræður um þessa nýju markalínu milli flokka í Evrópu háværar. Samhliða auknu stjórnlyndi og valdboði á heimavelli er krafist minni afskipta frá Brussel. Flokkar sem boða hefðbundið frjálslynt lýðræðiskerfi heima fyrir og í alþjóðlegum samskiptum vara við áhrifum öfgaafla.

Á ráðstefnunni í München var Angela Merkel fulltrúi hófseminnar. Haft var á orði að ræða hennar hefði vakið mun meiri hrifningu en það sem Mike Pence sagði. Merkel vék að alþjóðakerfinu og sagði það samfallið og í mörgum smábrotum. Í orðunum felst spá og viðvörun um óvissu.

Við slíkar aðstæður skiptir miklu fyrir vopnlausa smáþjóð á viðkvæmu svæði að utanríkisráðherra öflugasta ríkis heims segi tímabært að hætta vanrækslu tvíhliða samskipta við hana á sviði viðskipta og öryggis- og varnarmála.