Álagsár á almannavarnir kveður
Morgunblaðið, laugardag, 18. desember 2021.
Fyrir réttu ári, 18. desember 2020, um klukkan 15.00 féll gríðarmikil aurskriða rétt utan við Búðará á Seyðisfirði sem olli gríðarlegu tjóni. Almannavarnir lýstu yfir neyðarstigi og stefndu að því að rýma bæinn. Neyðar-, hættu- eða óvissuástand ríkti síðan með hléum í bænum allt til miðnættis aðfaranótt 16. desember 2021.
Með afboðun óvissuástandsins á Seyðisfirði urðu þáttaskil í landinu því að óvissustig eða hærra vástig hafði þá ríkt vegna náttúruvár einhvers staðar í eitt ár. Eldgos, skriðu- eða snjóflóðahætta, jökulhlaup eða jarðhræringar, hætta á gróðureldum, vatnavextir og óveður hafa kallað á viðbrögð innan almannavarnakerfisins og tilkynningar frá embætti ríkislögreglustjóra samhliða viðvörunum vegna Covid-19-farsóttarinnar sem enn geisar.
Á almannavarnalögin frá 2008 hefur aldrei reynt jafn stöðugt og fjölbreytilega og í ár. Með lögunum eru samhæfð almannavarnaviðbrögð til þess að takast á við afleiðingar neyðarástands sem kann að ógna lífi og heilsu almennings, umhverfi og eignum. Ríkið fer með allar almannavarnir á landi, í lofti eða á sjó. Sveitarfélög fara með almannavarnir í héraði, í samvinnu við ríkisvaldið.
Með almannavörnum eru undirbúnar, skipulagðar og framkvæmdar ráðstafanir til að hindra og takmarka, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni, eða umhverfi eða eignir verði fyrir tjóni, af völdum náttúruhamfara eða af mannavöldum, farsótta eða hernaðaraðgerða eða af öðrum ástæðum og veita líkn í nauð og aðstoð vegna tjóns.
Ríkislögreglustjóri hefur umsjón með að ráðstafanir séu gerðar í samræmi við stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum. Hann hefur eftirlit með skipulagi almannavarna á landinu öllu og eftirlit með almannavörnum sveitarfélaga
Undir yfirstjórn ríkislögreglustjóra hefur þróast sveigjanlegt almannavarnakerfi þar sem þekking og reynsla setur svip á allar aðgerðir og samhæfingarstjórn er virkjuð til aðstoðar aðgerðastjórn á vettvangi.
Vegna farsóttarinnar var óvissustigi almannavarna lýst yfir strax 27. janúar 2020. Viðbragðsáætlanir ýmissa stofnana voru virkjaðar og ákveðið að efna til daglegra stöðufunda sóttvarnalæknis, landlæknis, fulltrúa ríkislögreglustjóra, yfirlæknis sýkingarvarna á Landspítala og framkvæmdastjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Þríeykið svonefnda varð að föstum heimilisgestum sem hvöttu landsmenn til að virða reglur sem heilbrigðisráðherra setti. Enn berast þessar hvatningar og enginn veit hverjar afleiðingar Ómíkron-afbrigðisins verða.
Í samanburði við farsóttar-kynningarfundi erlendis vekur sérstaka athygli að hér stjórni yfirlögregluþjónn almannavarna fundunum. Í útlöndum er lögreglan sums staðar í óeirðabúningi að knýja borgarana til að fara að þeim reglum sem settar eru.
Mörg hundruð þúsund manns fóru að gosstöðvunum í Fagradalsfjalli/Geldingadölum á Reykjanesi. Þessi mynd birtist á mbl.is skömmu eftir að gosið hófst 19. mars 2021.
Þriðja stóratvik ársins sem snerti almannavarnir var eldgosið sem hófst í Fagradalsfjalli 19. mars 2021. Tæpum mánuði áður, 24. febrúar 2021, hafði ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórann á Suðurnesjum og Veðurstofu Íslands lýst yfir hættustigi almannavarna vegna öflugrar jarðskjálftahrinu sem þá gekk yfir á Reykjanesi.
Skjálfti af stærð 5,7 mældist um 3,3 km SSV af Keili á Reykjanesi kl. 10:05 þennan sama dag. „Engin merki eru um gosóróa á svæðinu,“ sagði í tilkynningunni.
Tæpir níu mánuðir liðu frá upphafi goss þar til ríkislögreglustjóri aflýsti óvissustigi vegna þess í Geldingadölum/Fagradalsfjalli, 3. desember 2021. Hættan var mismikil á þessum mánuðum. Undir forsjá Suðurnesjalögreglunnar með aðstoð félaga björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík streymdu um 800.000 manns að gosstöðvunum að mati björgunarsveitarmanna. Stundum mátti litlu muna en öllum var bjargað. Ferðamálastofa hóf ekki talningu strax og fylgdist ekki með öllum leiðum en hún taldi um 550.000 á göngu til eldstöðvanna.
Framlag björgunarsveitarmanna var ómetanlegt á gosstað eins og hvarvetna þar sem gripið er til almannavarna vegna náttúruhamfara eða slysa.
Undir lok ársins, 13. desember, urðu þáttaskil í starfi almannavarnadeildarinnar þegar ríkislögreglustjóri, í samráði við netöryggissveit CERT-IS og Fjarskiptastofu, lýsti yfir óvissustigi almannavarna vegna Log4j-veikleikans hér á landi.
Öryggissérfræðingar um heim allan unnu þá hörðum höndum að því að draga úr hættu vegna innbrots tölvuþrjóta í Log4j-forritið. Það er mjög útbreitt í net- og tölvukerfum. Tveimur dögum áður höfðu Fjarskiptastofa og CERT-IS vakið athygli á alvarleika málsins og hagsmunaaðilar og rekstraraðilar mikilvægra innviða voru hvattir til skjótra viðbragða.
Í tilkynningunni birtist ný vídd í almannavörnum. Samhæfing á vörnum í netheimum er óhjákvæmileg. Þar er um að ræða grunnþátt nútímasamfélaga og hættu sem getur steðjað að hverju heimili eða tölvu- og símaeiganda. Nú kemur í hlut almannavarna- og öryggismálaráðs að sjá til þess að undir handarjaðri ríkislögreglustjóra verði gerð viðbragðsáætlun á þessu sviði um stjórnkerfi og boðleiðir á grunni almannavarnalaganna.
Netvarnir eru annars eðlis en varnir vegna náttúruhamfara. Í báðum tilvikum er þó um gífurlega almannahagsmuni að ræða sem ríkisvaldinu ber skylda til að verja. Að það skref sé stigið að virkja almannavarnakerfið vegna netárása sannar enn hve sveigjanlegt það er og krefst jafnframt að fyrir liggi vel útfærðar áætlanir um viðbrögð og samhæfingarstjórn.