18.12.2021

Álagsár á almannavarnir kveður

Morgunblaðið, laugardag, 18. desember 2021.

 

Fyr­ir réttu ári, 18. des­em­ber 2020, um klukk­an 15.00 féll gríðar­mik­il aur­skriða rétt utan við Búðará á Seyðis­firði sem olli gríðarlegu tjóni. Al­manna­varn­ir lýstu yfir neyðarstigi og stefndu að því að rýma bæ­inn. Neyðar-, hættu- eða óvissu­ástand ríkti síðan með hlé­um í bæn­um allt til miðnætt­is aðfaranótt 16. des­em­ber 2021.

Með afboðun óvissu­ástands­ins á Seyðis­firði urðu þátta­skil í land­inu því að óvissu­stig eða hærra vá­st­ig hafði þá ríkt vegna nátt­úru­vár ein­hvers staðar í eitt ár. Eld­gos, skriðu- eða snjóflóðahætta, jök­ul­hlaup eða jarðhrær­ing­ar, hætta á gróðureld­um, vatna­vext­ir og óveður hafa kallað á viðbrögð inn­an al­manna­varna­kerf­is­ins og til­kynn­ing­ar frá embætti rík­is­lög­reglu­stjóra sam­hliða viðvör­un­um vegna Covid-19-far­sótt­ar­inn­ar sem enn geis­ar.

Á al­manna­varna­lög­in frá 2008 hef­ur aldrei reynt jafn stöðugt og fjöl­breyti­lega og í ár. Með lög­un­um eru sam­hæfð al­manna­varnaviðbrögð til þess að tak­ast á við af­leiðing­ar neyðarástands sem kann að ógna lífi og heilsu al­menn­ings, um­hverfi og eign­um. Ríkið fer með all­ar al­manna­varn­ir á landi, í lofti eða á sjó. Sveit­ar­fé­lög fara með al­manna­varn­ir í héraði, í sam­vinnu við rík­is­valdið.

Með al­manna­vörn­um eru und­ir­bún­ar, skipu­lagðar og fram­kvæmd­ar ráðstaf­an­ir til að hindra og tak­marka, eft­ir því sem unnt er, að al­menn­ing­ur verði fyr­ir lík­ams- eða heilsutjóni, eða um­hverfi eða eign­ir verði fyr­ir tjóni, af völd­um nátt­úru­ham­fara eða af manna­völd­um, far­sótta eða hernaðaraðgerða eða af öðrum ástæðum og veita líkn í nauð og aðstoð vegna tjóns.

Rík­is­lög­reglu­stjóri hef­ur um­sjón með að ráðstaf­an­ir séu gerðar í sam­ræmi við stefnu stjórn­valda í al­manna­varna- og ör­ygg­is­mál­um. Hann hef­ur eft­ir­lit með skipu­lagi al­manna­varna á land­inu öllu og eft­ir­lit með al­manna­vörn­um sveit­ar­fé­laga

Und­ir yf­ir­stjórn rík­is­lög­reglu­stjóra hef­ur þró­ast sveigj­an­legt al­manna­varna­kerfi þar sem þekk­ing og reynsla set­ur svip á all­ar aðgerðir og sam­hæf­ing­ar­stjórn er virkjuð til aðstoðar aðgerðastjórn á vett­vangi.

Vegna far­sótt­ar­inn­ar var óvissu­stigi al­manna­varna lýst yfir strax 27. janú­ar 2020. Viðbragðsáætlan­ir ým­issa stofn­ana voru virkjaðar og ákveðið að efna til dag­legra stöðufunda sótt­varna­lækn­is, land­lækn­is, full­trúa rík­is­lög­reglu­stjóra, yf­ir­lækn­is sýk­ing­ar­varna á Land­spít­ala og fram­kvæmda­stjóra Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins.

Þríeykið svo­nefnda varð að föst­um heim­il­is­gest­um sem hvöttu lands­menn til að virða regl­ur sem heil­brigðisráðherra setti. Enn ber­ast þess­ar hvatn­ing­ar og eng­inn veit hverj­ar af­leiðing­ar Ómíkron-af­brigðis­ins verða.

Í sam­an­b­urði við far­sótt­ar-kynn­ing­ar­fundi er­lend­is vek­ur sér­staka at­hygli að hér stjórni yf­ir­lög­regluþjónn al­manna­varna fund­un­um. Í út­lönd­um er lög­regl­an sums staðar í óeirðabún­ingi að knýja borg­ar­ana til að fara að þeim regl­um sem sett­ar eru.

1266454Mörg hundruð þúsund manns fóru að gosstöðvunum í Fagradalsfjalli/Geldingadölum á Reykjanesi. Þessi mynd birtist á mbl.is skömmu eftir að gosið hófst 19. mars 2021.

Þriðja stór­at­vik árs­ins sem snerti al­manna­varn­ir var eld­gosið sem hófst í Fagra­dals­fjalli 19. mars 2021. Tæp­um mánuði áður, 24. fe­brú­ar 2021, hafði rík­is­lög­reglu­stjóri í sam­ráði við lög­reglu­stjór­ann á höfuðborg­ar­svæðinu, lög­reglu­stjór­ann á Suður­nesj­um og Veður­stofu Íslands lýst yfir hættu­stigi al­manna­varna vegna öfl­ugr­ar jarðskjálfta­hrinu sem þá gekk yfir á Reykja­nesi.

Skjálfti af stærð 5,7 mæld­ist um 3,3 km SSV af Keili á Reykja­nesi kl. 10:05 þenn­an sama dag. „Eng­in merki eru um gosóróa á svæðinu,“ sagði í til­kynn­ing­unni.

Tæp­ir níu mánuðir liðu frá upp­hafi goss þar til rík­is­lög­reglu­stjóri af­lýsti óvissu­stigi vegna þess í Geld­inga­döl­um/​Fagra­dals­fjalli, 3. des­em­ber 2021. Hætt­an var mis­mik­il á þess­um mánuðum. Und­ir for­sjá Suður­nesja­lög­regl­unn­ar með aðstoð fé­laga björg­un­ar­sveit­ar­inn­ar Þor­bjarn­ar í Grinda­vík streymdu um 800.000 manns að gosstöðvun­um að mati björg­un­ar­sveit­ar­manna. Stund­um mátti litlu muna en öll­um var bjargað. Ferðamála­stofa hóf ekki taln­ingu strax og fylgd­ist ekki með öll­um leiðum en hún taldi um 550.000 á göngu til eld­stöðvanna.

Fram­lag björg­un­ar­sveit­ar­manna var ómet­an­legt á gosstað eins og hvarvetna þar sem gripið er til al­manna­varna vegna nátt­úru­ham­fara eða slysa.

Und­ir lok árs­ins, 13. des­em­ber, urðu þátta­skil í starfi al­manna­varna­deild­ar­inn­ar þegar rík­is­lög­reglu­stjóri, í sam­ráði við netör­ygg­is­sveit CERT-IS og Fjar­skipta­stofu, lýsti yfir óvissu­stigi al­manna­varna vegna Log4j-veik­leik­ans hér á landi.

Örygg­is­sér­fræðing­ar um heim all­an unnu þá hörðum hönd­um að því að draga úr hættu vegna inn­brots tölvuþrjóta í Log4j-for­ritið. Það er mjög út­breitt í net- og tölvu­kerf­um. Tveim­ur dög­um áður höfðu Fjar­skipta­stofa og CERT-IS vakið at­hygli á al­var­leika máls­ins og hags­munaaðilar og rekstr­araðilar mik­il­vægra innviða voru hvatt­ir til skjótra viðbragða.

Í til­kynn­ing­unni birt­ist ný vídd í al­manna­vörn­um. Sam­hæf­ing á vörn­um í net­heim­um er óhjá­kvæmi­leg. Þar er um að ræða grunnþátt nú­tíma­sam­fé­laga og hættu sem get­ur steðjað að hverju heim­ili eða tölvu- og síma­eig­anda. Nú kem­ur í hlut al­manna­varna- og ör­ygg­is­málaráðs að sjá til þess að und­ir hand­ar­jaðri rík­is­lög­reglu­stjóra verði gerð viðbragðsáætl­un á þessu sviði um stjórn­kerfi og boðleiðir á grunni al­manna­varna­lag­anna.

Net­varn­ir eru ann­ars eðlis en varn­ir vegna nátt­úru­ham­fara. Í báðum til­vik­um er þó um gíf­ur­lega al­manna­hags­muni að ræða sem rík­is­vald­inu ber skylda til að verja. Að það skref sé stigið að virkja al­manna­varna­kerfið vegna netárása sann­ar enn hve sveigj­an­legt það er og krefst jafn­framt að fyr­ir liggi vel út­færðar áætlan­ir um viðbrögð og sam­hæf­ing­ar­stjórn.