Ákall um mannúð
Umsögn um bók, Morgunblaðið, 2. maí 2023.
Litháarnir við Laptevhaf
★★★★★ eftir Daliu Grinkevičiūtė Þýðendur: Geir Sigurðsson og Vilma Kinderyté. Háskólaútgáfan, Reykjavík, 2022. Kilja, 205 bls.
Dalia Grinkeviciute (1927-1987) frá Litháen var læknir og rithöfundur. Hér er fjallað um hana vegna minningabrota sem hún ritaði um bitra reynslu sína sem unglingur af grimmd og harðræði í sovéskum fangabúðum í Norðaustur-Síberíu við Laptevhaf, svo sannarlega á mörkum hins byggilega heims.
Bók hennar Litháarnir við Laptevhaf er nú hluti námsefnis í skólum Litháens. Þar er lýst brottflutningi Litháa frá heimalandi þeirra sem hófst árið 1941 að fyrirmælum rússneska harðstjórans Jósefs Stalíns eftir að hann lagði hramm sinn yfir landið með samþykki nasistaforingjans Adolfs Hitlers, einræðisherra í Þýskalandi.
Dalia, móðir hennar og bróðir voru í fyrsta hópi Litháa sem var skipað, án nokkurs tilefnis af þeirra hálfu, að yfirgefa heimili sitt og fara um borð í járnbrautarlest sem flutti þau eins og dýr norður og niður í orðsins fyllstu merkingu. Niðurlæging fólksins varð algjör þar sem það var látið hírast í hreysum yfir heimskautaveturinn í kulda og myrkri.
„Nú hefur dauðinn bæst við hungur, taugaveiki, lýs, skyrbjúg og kulda í nöturlegum bragganum okkar. Spítalinn í bragganum við hliðina er yfirfullur. Nær væri að kalla hann líkhús. Þar liggja deyjandi taugaveikissjúklingar á snævi þökktum brettum […] Það hefur fyrir löngu fennt fyrir dyrnar í hríðinni, eldurinn hefur slokknað í ofninum, snjór fýkur niður um opið á strompinum og það hvín í ofninum sem hristist til og frá. Myrkur.“ (81)
Frá fyrsta degi var Dalia staðráðin í að halda lífi og komast aftur til Litháens og tryggja að móðir hennar fengi aftur að sjá ættland sitt.
Þær voru fluttar frá Litháen til Rússlands í júní 1941, fyrst til Altai-héraðs og síðan til Trofimovsk, fangaeyju í Lena-fljóti norðan heimskautsbaugs. Efni bókarinnar er að stærstum hluta lýsing á vetrarsetu á þessari eyju.
Dalia var í Jakút-héraði fram til 1949 þegar henni og móður hennar tókst að flýja til Litháens. Bjuggu þær saman ólöglega í Litháen þar til móðir hennar lést. Í stöðugum ótta við sovésku öryggislögregluna KGB skráði Dalia minningar um fyrstu árin í útlegðinni. Hún notaði laus blöð, stakk þeim í krukku og faldi í húsagarði. Sovéska öryggislögreglan KGB handtók hana árið 1951 og sendi aftur til Síberíu.
Hagur Daliu vænkaðist eftir dauða Stalíns 1953 og hún fékk að fara til Omsk til að læra læknisfræði. Hún lauk síðan læknanámi í gamla heimabænum sínum Kaunas í Litháen árið 1960 (33 ára) og varð heimilislæknir og geislafræðingur á sjúkrahúsi smábæjarins Linkuva til 1974 þegar KGB svipti hana atvinnuréttindunum og læknisbústaðnum.
Þar sem hún fann ekki krukkuna með minningabrotunum settist hún við að rita endurminningar sínar að nýju. Krukkan fannst svo fyrir tilviljun árið 1991. Blöðin sem þá komu í leitirnar birtast hér í íslenskri þýðingu.
Þýðendur úr litháísku eru Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum, og Vilma Kinderyté leikskólakennari. Geir ritar inngang bókarinnar, gerir grein fyrir höfundi, pólitísku ástandi í Litháen undir hernámi Rússa og sögu minningabrota Daliu. Þýðingin er skýr og fellur vel að textanum.
Rebekka Þráinsdóttir, aðjúnkt við Háskóla Íslands, ritstýrði bókinni fyrir hönd stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Bókin er ellefta verkið sem kemur út í einmála ritröð stofnunarinnar. Ritröðin hefur að markmiði að kynna lítt þekkt verk og höfunda sem ekki hafa verið þýddir á íslensku.
Texti brotanna er beinskeyttur og áhrifamikill í einfaldleika sínum. Í fáum orðum og markvissum setningum er brugðið upp mynd af hroðalegum örlögum og dauða fjölda manna á auðnum túndrunnar.
Skapgerð einstaklinga verður ljóslifandi án margra orða og ömurleikinn allur verður næstum áþreifanlegur með óþrifum sínum og ólykt.
Upprifjun minninganna er fyrir Daliu meðferð á sárunum sem urðu til vegna brottflutningsins og útlegðarinnar. Bókin er rituð í fyrstu persónu og nútíð. Þar strengir Dalia þess heit að lifa til að sjá Litháen að nýju. Þegar allt um þrýtur halda minningarnar frá lífinu eins og það var henni frá dauða. Lesandinn kynnist ólíkum viðbrögðum einstaklinga við þessar dyr dauðans. Fyrirmyndir Daliu halda reisn sinni og horfast í augu við veruleikann eins og hann er. Vottur af siðferði lifir eins og sannast þegar viðurkenning Daliu á þjófnaði bjargar henni frá refsivist innan fangabúðanna.
Þótt lögð sé áhersla á að þetta séu minningabrot mynda þau eina heild. Bók Daliu er einstaklega áhrifamikil og ætti að vera skyldulestur ungs fólks víðar en í Litháen.
Textinn er ákall um mannúð. Hann hefur algilda skírskotun á öllum tímum og sérstaklega nú þegar stríð geisar enn einu sinni við landamæri Rússlands og forseti landsins er eftirlýstur af alþjóðasakamáladómstólnum fyrir brottnám og nauðungarflutning á úkraínskum börnum. Hver veit um örlög þeirra?ginmál