2.5.2023

Ákall um mannúð

Umsögn um bók, Morgunblaðið, 2. maí 2023.

Lit­­arn­ir við Lap­tev­haf 

★★★★★ eft­ir Daliu Grin­kevičiūtė Þýðend­ur: Geir Sigurðsson og Vilma Kind­eryté. Há­skóla­út­gáf­an, Reykja­vík, 2022. Kilja, 205 bls.

Dalia Grin­keviciu­te (1927-1987) frá Lit­há­en var lækn­ir og rit­höf­und­ur. Hér er fjallað um hana vegna minn­inga­brota sem hún ritaði um bitra reynslu sína sem ung­ling­ur af grimmd og harðræði í sov­ésk­um fanga­búðum í Norðaust­ur-Síberíu við Lap­tev­haf, svo sann­ar­lega á mörk­um hins byggi­lega heims.

Bók henn­ar Lit­há­arn­ir við Lap­tev­haf er nú hluti náms­efn­is í skól­um Lit­há­ens. Þar er lýst brott­flutn­ingi Lit­háa frá heimalandi þeirra sem hófst árið 1941 að fyr­ir­mæl­um rúss­neska harðstjór­ans Jós­efs Stalíns eft­ir að hann lagði hramm sinn yfir landið með samþykki nas­ista­for­ingj­ans Ad­olfs Hitlers, ein­ræðis­herra í Þýskalandi.

Dalia, móðir henn­ar og bróðir voru í fyrsta hópi Lit­háa sem var skipað, án nokk­urs til­efn­is af þeirra hálfu, að yf­ir­gefa heim­ili sitt og fara um borð í járn­braut­ar­lest sem flutti þau eins og dýr norður og niður í orðsins fyllstu merk­ingu. Niður­læg­ing fólks­ins varð al­gjör þar sem það var látið hír­ast í hreys­um yfir heim­skauta­vet­ur­inn í kulda og myrkri.

„Nú hef­ur dauðinn bæst við hung­ur, tauga­veiki, lýs, skyr­bjúg og kulda í nöt­ur­leg­um bragg­an­um okk­ar. Spít­al­inn í bragg­an­um við hliðina er yf­ir­full­ur. Nær væri að kalla hann lík­hús. Þar liggja deyj­andi tauga­veikis­sjúk­ling­ar á snævi þökkt­um brett­um […] Það hef­ur fyr­ir löngu fennt fyr­ir dyrn­ar í hríðinni, eld­ur­inn hef­ur slokknað í ofn­in­um, snjór fýk­ur niður um opið á stromp­in­um og það hvín í ofn­in­um sem hrist­ist til og frá. Myrk­ur.“ (81)

Frá fyrsta degi var Dalia staðráðin í að halda lífi og kom­ast aft­ur til Lit­há­ens og tryggja að móðir henn­ar fengi aft­ur að sjá ætt­land sitt.

Þær voru flutt­ar frá Lit­há­en til Rúss­lands í júní 1941, fyrst til Altai-héraðs og síðan til Trofimovsk, fanga­eyju í Lena-fljóti norðan heim­skauts­baugs. Efni bók­ar­inn­ar er að stærst­um hluta lýs­ing á vetr­ar­setu á þess­ari eyju.

Dalia var í Jakút-héraði fram til 1949 þegar henni og móður henn­ar tókst að flýja til Lit­há­ens. Bjuggu þær sam­an ólög­lega í Lit­há­en þar til móðir henn­ar lést. Í stöðugum ótta við sov­ésku ör­ygg­is­lög­regl­una KGB skráði Dalia minn­ing­ar um fyrstu árin í út­legðinni. Hún notaði laus blöð, stakk þeim í krukku og faldi í húsag­arði. Sov­éska ör­ygg­is­lög­regl­an KGB hand­tók hana árið 1951 og sendi aft­ur til Síberíu.

Hag­ur Daliu vænkaðist eft­ir dauða Stalíns 1953 og hún fékk að fara til Omsk til að læra lækn­is­fræði. Hún lauk síðan lækna­námi í gamla heima­bæn­um sín­um Kaunas í Lit­há­en árið 1960 (33 ára) og varð heim­il­is­lækn­ir og geisla­fræðing­ur á sjúkra­húsi smá­bæj­ar­ins Linku­va til 1974 þegar KGB svipti hana at­vinnu­rétt­ind­un­um og lækn­is­bú­staðnum.

Þar sem hún fann ekki krukk­una með minn­inga­brot­un­um sett­ist hún við að rita end­ur­minn­ing­ar sín­ar að nýju. Krukk­an fannst svo fyr­ir til­vilj­un árið 1991. Blöðin sem þá komu í leit­irn­ar birt­ast hér í ís­lenskri þýðingu.

Þýðend­ur úr lit­háísku eru Geir Sig­urðsson, pró­fess­or í kín­versk­um fræðum, og Vilma Kind­eryté leik­skóla­kenn­ari. Geir rit­ar inn­gang bók­ar­inn­ar, ger­ir grein fyr­ir höf­undi, póli­tísku ástandi í Lit­há­en und­ir her­námi Rússa og sögu minn­inga­brota Daliu. Þýðing­in er skýr og fell­ur vel að text­an­um.

D83210a6-ed6b-4772-b7e6-4c0c467f95ea

Re­bekka Þrá­ins­dótt­ir, aðjúnkt við Há­skóla Íslands, rit­stýrði bók­inni fyr­ir hönd stofn­un­ar Vig­dís­ar Finn­boga­dótt­ur í er­lend­um tungu­mál­um. Bók­in er ell­efta verkið sem kem­ur út í ein­mála ritröð stofn­un­ar­inn­ar. Ritröðin hef­ur að mark­miði að kynna lítt þekkt verk og höf­unda sem ekki hafa verið þýdd­ir á ís­lensku.

Texti brot­anna er bein­skeytt­ur og áhrifa­mik­ill í ein­fald­leika sín­um. Í fáum orðum og mark­viss­um setn­ing­um er brugðið upp mynd af hroðal­eg­um ör­lög­um og dauða fjölda manna á auðnum túndr­unn­ar.

Skap­gerð ein­stak­linga verður ljós­lif­andi án margra orða og öm­ur­leik­inn all­ur verður næst­um áþreif­an­leg­ur með óþrif­um sín­um og ólykt.

Upp­rifj­un minn­ing­anna er fyr­ir Daliu meðferð á sár­un­um sem urðu til vegna brott­flutn­ings­ins og út­legðar­inn­ar. Bók­in er rituð í fyrstu per­sónu og nútíð. Þar streng­ir Dalia þess heit að lifa til að sjá Lit­há­en að nýju. Þegar allt um þrýt­ur halda minn­ing­arn­ar frá líf­inu eins og það var henni frá dauða. Les­and­inn kynn­ist ólík­um viðbrögðum ein­stak­linga við þess­ar dyr dauðans. Fyr­ir­mynd­ir Daliu halda reisn sinni og horf­ast í augu við veru­leik­ann eins og hann er. Vott­ur af siðferði lif­ir eins og sann­ast þegar viður­kenn­ing Daliu á þjófnaði bjarg­ar henni frá refsi­vist inn­an fanga­búðanna.

Þótt lögð sé áhersla á að þetta séu minn­inga­brot mynda þau eina heild. Bók Daliu er ein­stak­lega áhrifa­mik­il og ætti að vera skyldu­lest­ur ungs fólks víðar en í Lit­há­en.

Text­inn er ákall um mannúð. Hann hef­ur al­gilda skír­skot­un á öll­um tím­um og sér­stak­lega nú þegar stríð geis­ar enn einu sinni við landa­mæri Rúss­lands og for­seti lands­ins er eft­ir­lýst­ur af alþjóðasaka­mála­dóm­stóln­um fyr­ir brott­nám og nauðung­ar­flutn­ing á úkraínsk­um börn­um. Hver veit um ör­lög þeirra?