Áhrifin frá Krímskaga á Norður-Atlantshafi
Morgunblaðið 22. mars 2019
Þess var minnst mánudaginn 18. mars að fimm ár voru liðin frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga. Vladimír Pútin Rússlandsforseti heimsótti skagann í tilefni dagsins og tók þátt í að opna orkuver við gleðisnauðar skylduathafnir, megi marka sjónvarpsmyndir.
Vestræn ríki lýstu landránið brot á alþjóðalögum og fordæmdu það hvert fyrir sig og sameiginlega. Gunnar Bragi Sveinsson, þáv. utanríkisráðherra, tók strax eindregna afstöðu með þvingunaraðgerðum Vesturlanda. Hann fór einnig til Úkraínu og áréttaði andmæli gegn fullyrðingum Pútins um að valdarán hefði verið framið í Kænugarði.
Krímverjar tóku á móti Pútin á 5 ára landránsafmælinu
Undrun vakti hve harkalega Rússar tóku á Íslendingum með banni á innflutning íslenskra sjávarafurða til Rússlands. Hefur verið haft eftir rússneskum stjórnarerindrekum að för Gunnars Braga til Kænugarðs og yfirlýsingar hans þar hafi reitt Pútin til reiði. Íslendingar hafi þess vegna sætt annarri meðferð en Færeyingar.
Í fimm ár hefur íslenskur fiskur ekki verið seldur til Rússlands. Það sama á ekki við um háþróuð, íslensk tæki til fiskvinnslu. Kaup Rússa á slíkum búnaði héðan fellur að þeirri skoðun að innflutningsbannið á fiski megi að nokkru rekja til stefnu Pútíns um að Rússar verði sjálfum sér nógir í fiskveiðum
Á hitt hefur einnig verið bent að vegna gengisfalls rúblunnar, um helming gagnvart dollar á fimm árum, hafi Pútín engan áhuga á að dýr, erlend matvæli berist til rússneskra neytenda og ýti undir óánægju þeirra með versnandi eigin kjör.
Í Úkraínu hafa um 13.000 manns fallið í valinn á undanförum fimm árum vegna árekstranna við Rússa. Spenna ríkir enn og samningar um frið hafa reynst haldlitlir.
Pútin naut mikilla vinsælda vegna hörku og valdbeitingar gegn Úkraínumönnum. Síðan hefur hallað undan fæti og nú er hann óvinsælli en nokkru sinni frá árinu 2006. Í nýlegri könnun lýstu 32% ánægju með hann.
Víðtæk áhrif
Spennuáhrifin af rússnesku yfirgangsstefnunni gagnvart Úkraínu ná langt út fyrir tvíhliða samskipti Rússa og Úkraínumanna. Þau teygja sig um alla Evrópu og í vaxandi mæli til norðurslóða og út á Norður-Atlantshaf.
NATO-ríkin í næsta nágrenni Rússlands hafa öll óskað eftir viðveru herafla frá aðildarríkjum bandalagsins innan landamæra sinna. Herfylki hafa verið send til Eystrasaltsríkjanna og Póllands. Ríkisstjórnum landanna finnst þó ekki nóg að gert. Þetta á til dæmis við um pólsku stjórnina sem biðlar til Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og vill fast aðsetur bandarískra hermanna í landi sínu í virki sem kennt yrði við Trump.
Þá hafa Finnar og Svíar treyst tengsl sín við Bandaríkjastjórn og NATO með samningum og þátttöku í heræfingum. Í grein sem Mikheil Saakashvili, fyrrv. forseti Georgíu, birti á vefsíðu Foreign Policy í Bandaríkjunum föstudaginn 15. mars, spáir hann því að Pútin reyni að endurheimta vinsældir sínar með atlögu að Finnum eða Svíum, ekki árás heldur hertöku landskika eða eyju, t.d. Gotlands.
Norðmenn hafa samið um viðveru bandarískra landgönguliða á tveimur stöðum í Noregi. Er það breyting á afstöðu þeirra til dvalar erlendra hermanna í landi sínu.
Þá berast æ fleiri fréttir um áherslu bandaríska varnarmálaráðuneytisins á nauðsyn þess að styrkja stöðu Bandaríkjanna á norðurslóðum. Þess er sérstaklega getið að með þátttöku flugmóðurskipsins Harry S. Trumans í heræfingunni Trident Juncture í október 2018 hafi orðið þau þáttaskil að bandarískur herfloti hafi í fyrsta sinn í um það bil 30 ár farið norður fyrir heimskautsbaug.
Þegar flugmóðurskipið sigldi til norðurs nálægt Íslandi 20. september 2018 var flogið með utanríkisráðherra, þingmenn og embættismenn og þeim boðið að kynnast aðgerðum um borð. Undanfari NATO-æfingarinnar miklu var hér á landi í október.
Skotland í skotlínu
Sama dag og Pútín fagnaði landvinningum sínum á Krímskaga sendi Landhelgisgæsla Íslands frá sér tilkynningu um að þá um morguninn hefðu „tvær óþekktar flugvélar sem hvorki höfðu tilkynnt sig til flugumferðarstjórnar né voru með ratsjársvara í gangi“ komið inn í loftrýmiseftirlitssvæði NATO hér við land. Flugu tvær orrustuþotur ítalska flughersins, sem eru hér á landi við loftrýmisgæslu, til móts við vélarnar til að auðkenna þær. Voru þetta tvær rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev Tu-142 (Bear F). Þær voru utan íslenskrar lofthelgi.
Um ferðir Rússa í nágrenni Noregs, Íslands og Skotlands er fjallað í grein sem birtist í The Scotsman laugardaginn 16. mars eftir tvo forráðamenn bandarísku hugveitunnar sem kennd er við Henry heitinn Jackson, öldungadeildarþingmann í Bandaríkjunum, Andrew Foxall og James Rogers. Þeir telja Rússa hafa áhuga á að koma ár sinni fyrir borð, leynt og ljóst í Skotlandi, og segja meðal annars:
„Í kalda stríðinu var líklega ekki fylgst betur með neinu hafsvæði í heiminum en GIUK-hliðinu, alþjóðlegt gildi þess stórminnkaði eftir hrun Sovétríkjanna. Nú þegar Rússar hafa sótt í sig veðrið að nýju hefur mikilvægi þess endurnýjast og Bretar burðast við að ná vopnum sínum að nýju. Þá er þess að geta að Kremlverjar hafa aldrei misst áhuga sinn á Trident [bresku kjarnorkukafbátunum]. Í þessum mánuði gerðist það að rússneskt herskip fór inn í Moray Firth og varð breski flotinn að senda skip á vettvang til að fylgjast með ferðum þess. Hvað eftir annað hafa rússneskar flugvélar lagt leið sína að lofthelgi Skotlands og hafa breskar Typhoon-þotur frá Lossiemouth neyðst til að fara í veg fyrir þær og fylgja þeim á brott. Áhugi Kremlverja á Skotlandi er ekki takmarkaður við hernaðarlega þætti heldur er hann mun lúmskari. [...]
Rússnesk stjórnvöld hafa þegar þróað hátækni og aðferðir til að sundra og ná undirtökum í evrópskum smáríkjum, þar má nefna markvissa hvatningu til spillingar; afskipti af kosningum; beitingu samfélagsmiðla til að móta almenningsálitið; netárásir; og upplýsingafalsanir. Dæmi eru um að sumum þessari aðferða hafi verið beitt í Skotlandi. [...]
Árið 2016 setti Sputnik, gjallarhorn Kremlverja, breskar höfuðstöðvar sínar niður í Edinborg. Ári síðar fékk Alex Salmond, fyrrv. fyrsti ráðherra Skotlands, eigin þátt á RT, áróðursstöð rússnesku ríkisstjórnarinnar. [...]
Skoski .þjóðarflokkurinn boðar að sjálfstætt Skotland gangi í NATO í sömu andrá og flokkurinn er andvígur veru breskra kjarnorkukafbáta í skoskum fjörðum. Þó eru það einmitt þessir sömu kafbátar sem skapa kjarnorku-fælingarmátt NATO í Evrópu. Þetta mundi leiða til sérkennilegrar niðurstöðu: ráðandi flokkur í sjálfstæðu Skotlandi mundi vinna gegn NATO jafnhliða því að óska eftir vernd bandalagsins. Hitt væri verra, flokkurinn mundi grafa undan öryggi annarra smáríkja – frá Eistlandi til Íslands – sem treysta einnig á NATO.“