22.3.2019

Áhrifin frá Krímskaga á Norður-Atlantshafi

Morgunblaðið 22. mars 2019

Þess var minnst mánu­dag­inn 18. mars að fimm ár voru liðin frá því að Rúss­ar inn­limuðu Krímskaga. Vla­dimír Pút­in Rúss­lands­for­seti heim­sótti skag­ann í til­efni dags­ins og tók þátt í að opna orku­ver við gleðisnauðar skyldu­at­hafn­ir, megi marka sjón­varps­mynd­ir.

Vest­ræn ríki lýstu landránið brot á alþjóðalög­um og for­dæmdu það hvert fyr­ir sig og sam­eig­in­lega. Gunn­ar Bragi Sveins­son, þáv. ut­an­rík­is­ráðherra, tók strax ein­dregna af­stöðu með þving­un­araðgerðum Vest­ur­landa. Hann fór einnig til Úkraínu og áréttaði and­mæli gegn full­yrðing­um Pút­ins um að vald­arán hefði verið framið í Kænug­arði.

20180325_vershbow_largeKrímverjar tóku á móti Pútin á 5 ára landránsafmælinu

Undr­un vakti hve harka­lega Rúss­ar tóku á Íslend­ing­um með banni á inn­flutn­ing ís­lenskra sjáv­ar­af­urða til Rúss­lands. Hef­ur verið haft eft­ir rúss­nesk­um stjórn­ar­er­ind­rek­um að för Gunn­ars Braga til Kænug­arðs og yf­ir­lýs­ing­ar hans þar hafi reitt Pút­in til reiði. Íslendingar hafi þess vegna sætt ann­arri meðferð en Fær­ey­ing­ar.

Í fimm ár hef­ur ís­lensk­ur fisk­ur ekki verið seld­ur til Rúss­lands. Það sama á ekki við um háþróuð, ís­lensk tæki til fisk­vinnslu. Kaup Rússa á slík­um búnaði héðan fell­ur að þeirri skoðun að inn­flutn­ings­bannið á fiski megi að nokkru rekja til stefnu Pútíns um að Rúss­ar verði sjálf­um sér nóg­ir í fisk­veiðum

Á hitt hef­ur einnig verið bent að vegna geng­is­falls rúblunn­ar, um helm­ing gagn­vart doll­ar á fimm árum, hafi Pútín eng­an áhuga á að dýr, er­lend mat­væli ber­ist til rúss­neskra neyt­enda og ýti und­ir óánægju þeirra með versn­andi eig­in kjör.

Í Úkraínu hafa um 13.000 manns fallið í val­inn á und­an­för­um fimm árum vegna árekstr­anna við Rússa. Spenna rík­ir enn og samn­ing­ar um frið hafa reynst hald­litl­ir.

Pút­in naut mik­illa vin­sælda vegna hörku og vald­beit­ing­ar gegn Úkraínu­mönn­um. Síðan hef­ur hallað und­an fæti og nú er hann óvin­sælli en nokkru sinni frá ár­inu 2006. Í ný­legri könn­un lýstu 32% ánægju með hann.

Víðtæk áhrif

Spennu­áhrif­in af rúss­nesku yf­ir­gangs­stefn­unni gagn­vart Úkraínu ná langt út fyr­ir tví­hliða sam­skipti Rússa og Úkraínu­manna. Þau teygja sig um alla Evr­ópu og í vax­andi mæli til norður­slóða og út á Norður-Atlants­haf.

NATO-rík­in í næsta ná­grenni Rúss­lands hafa öll óskað eft­ir viðveru herafla frá aðild­ar­ríkj­um banda­lags­ins inn­an landa­mæra sinna. Her­fylki hafa verið send til Eystra­salts­ríkj­anna og Pól­lands. Rík­is­stjórn­um land­anna finnst þó ekki nóg að gert. Þetta á til dæm­is við um pólsku stjórn­ina sem biðlar til Don­alds Trumps Banda­ríkja­for­seta og vill fast aðset­ur banda­rískra her­manna í landi sínu í virki sem kennt yrði við Trump.

Þá hafa Finn­ar og Sví­ar treyst tengsl sín við Banda­ríkja­stjórn og NATO með samn­ing­um og þátt­töku í heræf­ing­um. Í grein sem Mik­heil Sa­akashvili, fyrrv. for­seti Georgíu, birti á vefsíðu For­eign Policy í Banda­ríkj­un­um föstu­dag­inn 15. mars, spá­ir hann því að Pút­in reyni að end­ur­heimta vin­sæld­ir sín­ar með at­lögu að Finn­um eða Sví­um, ekki árás held­ur her­töku landskika eða eyju, t.d. Got­lands.

Norðmenn hafa samið um viðveru banda­rískra land­gönguliða á tveim­ur stöðum í Nor­egi. Er það breyt­ing á af­stöðu þeirra til dval­ar er­lendra her­manna í landi sínu.

Þá ber­ast æ fleiri frétt­ir um áherslu banda­ríska varn­ar­málaráðuneyt­is­ins á nauðsyn þess að styrkja stöðu Banda­ríkj­anna á norður­slóðum. Þess er sér­stak­lega getið að með þátt­töku flug­móður­skips­ins Harry S. Trum­ans í heræf­ing­unni Tri­dent Junct­ure í októ­ber 2018 hafi orðið þau þátta­skil að banda­rísk­ur her­floti hafi í fyrsta sinn í um það bil 30 ár farið norður fyr­ir heim­skauts­baug.

Þegar flug­móður­skipið sigldi til norðurs ná­lægt Íslandi 20. sept­em­ber 2018 var flogið með ut­an­rík­is­ráðherra, þing­menn og emb­ætt­is­menn og þeim boðið að kynn­ast aðgerðum um borð. Und­an­fari NATO-æf­ing­ar­inn­ar miklu var hér á landi í októ­ber.

Skot­land í skotlínu

Sama dag og Pútín fagnaði land­vinn­ing­um sín­um á Krímskaga sendi Land­helg­is­gæsla Íslands frá sér til­kynn­ingu um að þá um morg­un­inn hefðu „tvær óþekkt­ar flug­vél­ar sem hvorki höfðu til­kynnt sig til flug­um­ferðar­stjórn­ar né voru með rat­sjár­svara í gangi“ komið inn í loft­rýmis­eft­ir­lits­svæði NATO hér við land. Flugu tvær orr­ustuþotur ít­alska flug­hers­ins, sem eru hér á landi við loft­rým­is­gæslu, til móts við vél­arn­ar til að auðkenna þær. Voru þetta tvær rúss­nesk­ar sprengjuflug­vél­ar af gerðinni Tupo­lev Tu-142 (Bear F). Þær voru utan ís­lenskr­ar loft­helgi.

Um ferðir Rússa í ná­grenni Nor­egs, Íslands og Skot­lands er fjallað í grein sem birt­ist í The Scotsm­an laug­ar­dag­inn 16. mars eft­ir tvo for­ráðamenn banda­rísku hug­veit­unn­ar sem kennd er við Henry heit­inn Jackson, öld­unga­deild­arþing­mann í Banda­ríkj­un­um, Andrew Foxall og James Rogers. Þeir telja Rússa hafa áhuga á að koma ár sinni fyr­ir borð, leynt og ljóst í Skotlandi, og segja meðal ann­ars:

„Í kalda stríðinu var lík­lega ekki fylgst bet­ur með neinu hafsvæði í heim­in­um en GIUK-hliðinu, alþjóðlegt gildi þess stór­minnkaði eft­ir hrun Sov­ét­ríkj­anna. Nú þegar Rúss­ar hafa sótt í sig veðrið að nýju hef­ur mik­il­vægi þess end­ur­nýj­ast og Bret­ar burðast við að ná vopn­um sín­um að nýju. Þá er þess að geta að Kreml­verj­ar hafa aldrei misst áhuga sinn á Tri­dent [bresku kjarn­orkukaf­bát­un­um]. Í þess­um mánuði gerðist það að rúss­neskt her­skip fór inn í Moray Firth og varð breski flot­inn að senda skip á vett­vang til að fylgj­ast með ferðum þess. Hvað eft­ir annað hafa rúss­nesk­ar flug­vél­ar lagt leið sína að loft­helgi Skot­lands og hafa bresk­ar Typ­hoon-þotur frá Lossiemouth neyðst til að fara í veg fyr­ir þær og fylgja þeim á brott. Áhugi Kreml­verja á Skotlandi er ekki tak­markaður við hernaðarlega þætti held­ur er hann mun lúmsk­ari. [...]

Rúss­nesk stjórn­völd hafa þegar þróað há­tækni og aðferðir til að sundra og ná und­ir­tök­um í evr­ópsk­um smáríkj­um, þar má nefna mark­vissa hvatn­ingu til spill­ing­ar; af­skipti af kosn­ing­um; beit­ingu sam­fé­lags­miðla til að móta al­menn­ings­álitið; netárás­ir; og upp­lýs­ingafals­an­ir. Dæmi eru um að sum­um þess­ari aðferða hafi verið beitt í Skotlandi. [...]

Árið 2016 setti Sputnik, gjall­ar­horn Kreml­verja, bresk­ar höfuðstöðvar sín­ar niður í Ed­in­borg. Ári síðar fékk Alex Salmond, fyrrv. fyrsti ráðherra Skot­lands, eig­in þátt á RT, áróðurs­stöð rúss­nesku rík­is­stjórn­ar­inn­ar. [...]

Skoski .þjóðarflokk­ur­inn boðar að sjálf­stætt Skot­land gangi í NATO í sömu andrá og flokk­ur­inn er and­víg­ur veru breskra kjarn­orkukaf­báta í skosk­um fjörðum. Þó eru það ein­mitt þess­ir sömu kaf­bát­ar sem skapa kjarn­orku-fæl­ing­ar­mátt NATO í Evr­ópu. Þetta mundi leiða til sér­kenni­legr­ar niður­stöðu: ráðandi flokk­ur í sjálf­stæðu Skotlandi mundi vinna gegn NATO jafn­hliða því að óska eft­ir vernd banda­lags­ins. Hitt væri verra, flokk­ur­inn mundi grafa und­an ör­yggi annarra smáríkja – frá Eistlandi til Íslands – sem treysta einnig á NATO.“