20.1.2022

Áhrifamikil spor Faulkners

Bækur - Bókmenntafræði Morgunblaðið, 20. janúar 2022.

Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu *****

Eft­ir Hauk Ingvars­son. Inn­bd., 491 bls., ljós­mynd­ir og skrár. Útgef­andi: Sögu­fé­lag, Reykja­vík 2021.

Að finna þráð til að kynna nýja sögu­skoðun á trú­verðugan hátt, er vanda­samt. Að gera það með svo sterk­um rök­um að ekki sé unnt að hafa nýju kenn­ing­una að engu, krefst mik­illa rann­sókna, þekk­ing­ar og hæfi­leika til að breyta viðtekn­um sjón­ar­miðum án þess að rústa því sem fyr­ir er. Þetta tekst Hauki Ingvars­syni í bók­inni Full­trúi þess besta í banda­rískri menn­ingu .

Banda­ríski rit­höf­und­ur­inn William Faul­kner er þráður­inn. Saga hans og rit­verk, áhrif þeirra hér á landi og heim­sókn hans hingað árið 1955 eru þunga­miðjan í bók­inni.

Hauk­ur Ingvars­son (f. 1979), rit­höf­und­ur og bók­mennta­fræðing­ur, er með meist­ara­próf í bók­mennt­um frá Há­skóla Íslands og varði árið 2020 doktors­rit­gerð við ís­lensku- og menn­ing­ar­deild skól­ans, Orðspor Williams Faul­kners á Íslandi 1930-1960 . Bók hans er að sögn höf­und­ar „að veru­legu leyti“ reist á rit­gerðinni en Gunn­ar Þór Bjarna­son sagn­fræðing­ur var rit­stjóri við út­gáfu Sögu­fé­lags.

Bók­in er vönduð að allri gerð með mynd­um og mynda­textum sem setja efnið í víðara sam­hengi. Ítar­leg­ar til­vís­an­ir eru aft­an við meg­in­mál bók­ar­inn­ar, ágrip á ensku og ís­lensku, skrá yfir heim­ild­ir, mynd­ir, nöfn og efn­isorð. Frá­gang­ur er til fyr­ir­mynd­ar með ít­ar­legu efn­is­yf­ir­liti yfir 12 kafla bók­ar­inn­ar og fjöl­marga undirkafla. Merki­borði sýn­ir um­hyggju fyr­ir les­and­an­um.

Hauk­ur beit­ir aðferðum bók­mennta­fræðinn­ar til að brjóta verk Faul­kners til mergjar og lýsa stöðu hans í banda­ríska bók­mennta­kerf­inu. Suður­ríkjamaður­inn William Faul­kner (1897-1962) fer inn á nýj­ar braut­ir til að lýsa kynþátta­deil­um og for­dóm­um. Hingað ber­ast áhrif hans um Norður­lönd­in á fjórða ára­tugn­um. Þar gegndi Guðmund­ur G. Hagalín, rit­höf­und­ur og bóka­vörður á Ísaf­irði, lyk­il­hlut­verki. Hann réðst til bóka­safns­ins að áeggj­an Sig­urðar Nor­dals og Jónas­ar frá Hriflu.

Sum­arið 1936 dvaldi rit­höf­und­ur­inn Guðmund­ur Daní­els­son samtíða Hagalín í Kaup­manna­höfn. „Með þeim tók­ust góð kynni og má segja að Hagalín hafi gegnt hlut­verki læri­meist­ara því hann las yfir hand­rit og skáld­sögu þess fyrr­nefnda og benti hon­um á les­efni.“ (109)

Þarna kynnt­ist Guðmund­ur Daní­els­son verk­um Faul­kners og höfðu þau var­an­leg áhrif á hann, eins og Hauk­ur sann­ar.

Eft­ir stríð eru Norður­lönd­in ekki leng­ur milliliður í tengsl­um Íslend­inga við Faul­kner. Tekið er til við að þýða smá­sög­ur hans á ís­lensku og þar læt­ur Kristján Karls­son mest að sér kveða. Hauk­ur fer í saum­ana á þýðing­um Kristjáns.

Faul­kner var í senn tal­inn höf­und­ur há­menn­ing­ar­legra og æsi­legra bók­mennta. Millj­ón­ir bóka hans seld­ust sem kilj­ur á ár­un­um 1947 til 1950 en þá var litið niður á bæk­ur í þeim bún­ingi, pocket-bæk­ur, þær mættu „djúp­stæðum for­dóm­um meðal mennta­manna“. (260) Um þær var sagt í Morg­un­blaðinu 21. júní 1953 að lest­ur þeirra krefðist „engr­ar hugs­un­ar, einskis mats og einskis þroska“ og þær ættu sér helst hliðstæðu í glæpa­mynd­um sem sýnd­ar væru í kvik­mynda­hús­um um heim all­an. (261) Menn áttu að lesa sér til gagns, þroska og þekk­ing­ar­auka en ekki til að drepa tím­ann.

Út frá þræðinum um bæk­ur Faul­kners spinn­ur Hauk­ur síðan hinn þráð bók­ar sinn­ar sem snýr að stjórn­mál­um og kalda stríðinu. Nú er því stríði gjarn­an frek­ar lýst sem hug­ar­ástandi en raun­veru­leg­um átök­um. Þau voru þó háð hernaðarlega, stjórn­mála­lega og menn­ing­ar­lega.

Hér stóðu Sov­ét­menn að baki Máli og menn­ingu frá fjórða ára­tugn­um. Árið 1950 tóku and­stæðing­ar þeirra skipu­lega til gagn­sókn­ar með út­gáfu bóka. Eyj­ólf­ur Kon­ráð Jóns­son og Geir Hall­gríms­son stofnuðu bóka­for­lagið Stuðlaberg sem sendi frá sér þrjár bæk­ur „sem all­ar telj­ast til grund­vall­ar­rita and­komm­ún­ískr­ar hug­mynda­fræði“. (306)

Efnt var til hug­mynda­fræðilegra funda á veg­um Heimdall­ar og Stúd­enta­fé­lags Reykja­vík­ur til stuðnings frelsi og lýðræði. Árið 1955, 17. júní, er Al­menna bóka­fé­lagið stofnað og þar með verður til vett­vang­ur fyr­ir út­gáfu annarra bók­mennta en féllu í kramið hjá Máli og menn­ingu.

GE0179685William Faul­kner kom hingað á veg­um banda­ríska sendi­ráðsins haustið 1955 og lýs­ir Hauk­ur heim­sókn­inni og áhrif­um henn­ar af ná­kvæmni. Starfs­menn sendi­ráðsins eru sigri hrós­andi í skýrsl­um sín­um um komu Faul­kners. Al­menna bóka­fé­lagið nýtti sér hana vel.

Það var snar þátt­ur í kalda stríðinu að berj­ast á menn­ing­ar­sviðinu. Opnaði það Íslend­ing­um dyr sem ann­ars hefðu verið lokaðar. Á sama hátt og Banda­ríkja­stjórn lagði fram fé til að end­ur­reisa efna­hag Evr­ópu lét hún einnig í té fé til að stuðla að menn­ing­ar­starfi. Síðar kom í ljós að leyniþjón­ust­unni, CIA, var treyst fyr­ir þeim sjóðum. Boðskap­ur full­trúa henn­ar var að ekki skyldi ögra nein­um held­ur höfða til sem flestra af opn­um og hóg­vær­um huga.

Lokakafli bók­ar Hauks ber fyr­ir­sögn­ina: Lýðræði og frelsi. Þar seg­ir hann að póli­tísk­ir flokka­drætt­ir á fjórða ára­tugn­um hafi litað af­stöðu Íslend­inga til bók­mennta, ein­stakra höf­unda og verka þeirra allt fram á þenn­an dag. Þetta hafi meðal ann­ars ráðið því að Guðmund­ur G. Hagalín og Guðmund­ur Daní­els­son hafi verið stimplaðir íhalds­menn af skjól­stæðing­um Máls og menn­ing­ar. Þá seg­ir: „Það er ekki eitt af mark­miðum þess­ar­ar bók­ar að end­ur­skoða stöðu þeirra nafna í ís­lenskri bók­mennta­sögu. Hins veg­ar má vera ljóst að skap­andi úr­vinnsla Guðmund­ar Daní­els­son­ar á frá­sagn­ar­hætti og hug­mynda­heimi Faul­kners set­ur hann og verk hans í nýtt bók­mennta­sögu­legt sam­hengi. Sömu­leiðis hef­ur Hagalín aldrei fengið viður­kenn­ingu sem menn­ing­armiðlari í ís­lenskri bók­mennta­sögu. Ekki aðeins var hann fyrst­ur til að geta Faul­kners í ís­lensk­um prent­miðli held­ur mögu­lega Hem­ingways líka.“ (386)

Þá seg­ir í loka­efn­is­grein bók­ar­inn­ar:

„Fram til þessa hef­ur ís­lensk bók­mennta­saga á 20. öld oft verið sögð út frá Rauðum penn­um, þróun Máls og menn­ing­ar og tengsl­um ís­lenskra mennta­manna við alþjóðahreyf­ingu vinstrimanna. Í þess­ari bók hef­ur verið sýnt fram á hvernig ís­lensk­ir mennta­menn á hægri væng stjórn­mál­anna áttu þátt í að breyta viðtekn­um hug­mynd­um Íslend­inga um tengsl bók­mennta og stjórn­mála. Það gerðu þeir með til­styrk banda­rískra stjórn­valda og í krafti Frjálsr­ar menn­ing­ar, Al­menna bóka­fé­lags­ins, Stefn­is , Nýs Helga­fells , Fé­lags­bréfs [AB] og Les­bók­ar Morg­un­blaðsins .“ (393)

Kynn­ing á þess­um þætti ís­lenskr­ar bók­mennta- og menn­ing­ar­sögu er löngu tíma­bær og mik­ils virði að hug­vits­sam­ur, hlut­læg­ur og rit­fær fræðimaður og rit­höf­und­ur ræðst í þetta mikla verk. Hauk­ur Ingvars­son bein­ir umræðum um bók­mennta­sög­una og menn­ingar­átök 20. ald­ar­inn­ar inn á nýja braut með tíma­móta­verki sínu.