Áhrifamikil spor Faulkners
Bækur - Bókmenntafræði Morgunblaðið, 20. janúar 2022.
Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu *****
Eftir Hauk Ingvarsson. Innbd., 491 bls., ljósmyndir og skrár. Útgefandi: Sögufélag, Reykjavík 2021.
Að finna þráð til að kynna nýja söguskoðun á trúverðugan hátt, er vandasamt. Að gera það með svo sterkum rökum að ekki sé unnt að hafa nýju kenninguna að engu, krefst mikilla rannsókna, þekkingar og hæfileika til að breyta viðteknum sjónarmiðum án þess að rústa því sem fyrir er. Þetta tekst Hauki Ingvarssyni í bókinni Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu .
Bandaríski rithöfundurinn William Faulkner er þráðurinn. Saga hans og ritverk, áhrif þeirra hér á landi og heimsókn hans hingað árið 1955 eru þungamiðjan í bókinni.
Haukur Ingvarsson (f. 1979), rithöfundur og bókmenntafræðingur, er með meistarapróf í bókmenntum frá Háskóla Íslands og varði árið 2020 doktorsritgerð við íslensku- og menningardeild skólans, Orðspor Williams Faulkners á Íslandi 1930-1960 . Bók hans er að sögn höfundar „að verulegu leyti“ reist á ritgerðinni en Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur var ritstjóri við útgáfu Sögufélags.
Bókin er vönduð að allri gerð með myndum og myndatextum sem setja efnið í víðara samhengi. Ítarlegar tilvísanir eru aftan við meginmál bókarinnar, ágrip á ensku og íslensku, skrá yfir heimildir, myndir, nöfn og efnisorð. Frágangur er til fyrirmyndar með ítarlegu efnisyfirliti yfir 12 kafla bókarinnar og fjölmarga undirkafla. Merkiborði sýnir umhyggju fyrir lesandanum.
Haukur beitir aðferðum bókmenntafræðinnar til að brjóta verk Faulkners til mergjar og lýsa stöðu hans í bandaríska bókmenntakerfinu. Suðurríkjamaðurinn William Faulkner (1897-1962) fer inn á nýjar brautir til að lýsa kynþáttadeilum og fordómum. Hingað berast áhrif hans um Norðurlöndin á fjórða áratugnum. Þar gegndi Guðmundur G. Hagalín, rithöfundur og bókavörður á Ísafirði, lykilhlutverki. Hann réðst til bókasafnsins að áeggjan Sigurðar Nordals og Jónasar frá Hriflu.
Sumarið 1936 dvaldi rithöfundurinn Guðmundur Daníelsson samtíða Hagalín í Kaupmannahöfn. „Með þeim tókust góð kynni og má segja að Hagalín hafi gegnt hlutverki lærimeistara því hann las yfir handrit og skáldsögu þess fyrrnefnda og benti honum á lesefni.“ (109)
Þarna kynntist Guðmundur Daníelsson verkum Faulkners og höfðu þau varanleg áhrif á hann, eins og Haukur sannar.
Eftir stríð eru Norðurlöndin ekki lengur milliliður í tengslum Íslendinga við Faulkner. Tekið er til við að þýða smásögur hans á íslensku og þar lætur Kristján Karlsson mest að sér kveða. Haukur fer í saumana á þýðingum Kristjáns.
Faulkner var í senn talinn höfundur hámenningarlegra og æsilegra bókmennta. Milljónir bóka hans seldust sem kiljur á árunum 1947 til 1950 en þá var litið niður á bækur í þeim búningi, pocket-bækur, þær mættu „djúpstæðum fordómum meðal menntamanna“. (260) Um þær var sagt í Morgunblaðinu 21. júní 1953 að lestur þeirra krefðist „engrar hugsunar, einskis mats og einskis þroska“ og þær ættu sér helst hliðstæðu í glæpamyndum sem sýndar væru í kvikmyndahúsum um heim allan. (261) Menn áttu að lesa sér til gagns, þroska og þekkingarauka en ekki til að drepa tímann.
Út frá þræðinum um bækur Faulkners spinnur Haukur síðan hinn þráð bókar sinnar sem snýr að stjórnmálum og kalda stríðinu. Nú er því stríði gjarnan frekar lýst sem hugarástandi en raunverulegum átökum. Þau voru þó háð hernaðarlega, stjórnmálalega og menningarlega.
Hér stóðu Sovétmenn að baki Máli og menningu frá fjórða áratugnum. Árið 1950 tóku andstæðingar þeirra skipulega til gagnsóknar með útgáfu bóka. Eyjólfur Konráð Jónsson og Geir Hallgrímsson stofnuðu bókaforlagið Stuðlaberg sem sendi frá sér þrjár bækur „sem allar teljast til grundvallarrita andkommúnískrar hugmyndafræði“. (306)
Efnt var til hugmyndafræðilegra funda á vegum Heimdallar og Stúdentafélags Reykjavíkur til stuðnings frelsi og lýðræði. Árið 1955, 17. júní, er Almenna bókafélagið stofnað og þar með verður til vettvangur fyrir útgáfu annarra bókmennta en féllu í kramið hjá Máli og menningu.
William Faulkner kom hingað á vegum bandaríska sendiráðsins haustið 1955 og lýsir Haukur heimsókninni og áhrifum hennar af nákvæmni. Starfsmenn sendiráðsins eru sigri hrósandi í skýrslum sínum um komu Faulkners. Almenna bókafélagið nýtti sér hana vel.
Það var snar þáttur í kalda stríðinu að berjast á menningarsviðinu. Opnaði það Íslendingum dyr sem annars hefðu verið lokaðar. Á sama hátt og Bandaríkjastjórn lagði fram fé til að endurreisa efnahag Evrópu lét hún einnig í té fé til að stuðla að menningarstarfi. Síðar kom í ljós að leyniþjónustunni, CIA, var treyst fyrir þeim sjóðum. Boðskapur fulltrúa hennar var að ekki skyldi ögra neinum heldur höfða til sem flestra af opnum og hógværum huga.
Lokakafli bókar Hauks ber fyrirsögnina: Lýðræði og frelsi. Þar segir hann að pólitískir flokkadrættir á fjórða áratugnum hafi litað afstöðu Íslendinga til bókmennta, einstakra höfunda og verka þeirra allt fram á þennan dag. Þetta hafi meðal annars ráðið því að Guðmundur G. Hagalín og Guðmundur Daníelsson hafi verið stimplaðir íhaldsmenn af skjólstæðingum Máls og menningar. Þá segir: „Það er ekki eitt af markmiðum þessarar bókar að endurskoða stöðu þeirra nafna í íslenskri bókmenntasögu. Hins vegar má vera ljóst að skapandi úrvinnsla Guðmundar Daníelssonar á frásagnarhætti og hugmyndaheimi Faulkners setur hann og verk hans í nýtt bókmenntasögulegt samhengi. Sömuleiðis hefur Hagalín aldrei fengið viðurkenningu sem menningarmiðlari í íslenskri bókmenntasögu. Ekki aðeins var hann fyrstur til að geta Faulkners í íslenskum prentmiðli heldur mögulega Hemingways líka.“ (386)
Þá segir í lokaefnisgrein bókarinnar:
„Fram til þessa hefur íslensk bókmenntasaga á 20. öld oft verið sögð út frá Rauðum pennum, þróun Máls og menningar og tengslum íslenskra menntamanna við alþjóðahreyfingu vinstrimanna. Í þessari bók hefur verið sýnt fram á hvernig íslenskir menntamenn á hægri væng stjórnmálanna áttu þátt í að breyta viðteknum hugmyndum Íslendinga um tengsl bókmennta og stjórnmála. Það gerðu þeir með tilstyrk bandarískra stjórnvalda og í krafti Frjálsrar menningar, Almenna bókafélagsins, Stefnis , Nýs Helgafells , Félagsbréfs [AB] og Lesbókar Morgunblaðsins .“ (393)
Kynning á þessum þætti íslenskrar bókmennta- og menningarsögu er löngu tímabær og mikils virði að hugvitssamur, hlutlægur og ritfær fræðimaður og rithöfundur ræðst í þetta mikla verk. Haukur Ingvarsson beinir umræðum um bókmenntasöguna og menningarátök 20. aldarinnar inn á nýja braut með tímamótaverki sínu.