4.11.2023

Áherslubreyting í norrænu samstarfi

Morgunblaðið, laugardagur 4. desember 2023.

Fyr­ir þing Norður­landaráðs í Osló í vik­unni skrifaði fyrr­ver­andi for­seti þess og fyrr­ver­andi dansk­ur ráðherra fyr­ir Ven­stre-flokk­inn, Bertel Haar­der, grein þar sem hann sagði að vegna umróts í ör­ygg­is­mál­um og með aðild Finna og vænt­an­lega Svía að NATO hefði ráðið stofnað starfs­hóp til að ræða hvaða áhrif þetta allt hefði á nor­rænu „stjórn­ar­skrána“, Hels­ing­fors­sátt­mál­ann frá júlí 1962.

Haar­der bend­ir á að sátt­mál­inn beri með sér að hann hafi verið gerður í kalda stríðinu og þess vegna sé þar að finna höml­ur á sam­starfi Finna og Svía við aðrar nor­ræn­ar þjóðir, aðila að NATO.

Af grein Haar­ders má ráða að ekki sé hlaupið að því að breyta sátt­mál­an­um. Það hafi verið gert sjö sinn­um á und­an­förn­um 60 árum. Ekki hafi verið hreyft við neinu ákvæði hans und­an­far­in 27 ár.

Grein­ina seg­ist Haar­der skrifa að ósk starfs­hóps­ins. Hann vill að inn­an Norður­landaráðs og á vett­vangi nor­rænu ráðherra­nefnd­ar­inn­ar verði komið á fót ut­an­rík­is- og varn­ar­mála­nefnd­um að fyr­ir­mynd frá ESB-þing­inu og ESB-ráðherr­aráðinu.

Hann seg­ir að sam­eig­in­leg nor­ræn sýn í þess­um mála­flokk­um styrki norður­væng NATO sem sé æski­legt frá sjón­ar­hóli nor­rænu ríkj­anna og Eystra­salts­ríkj­anna.

Sam­eig­in­lega ráði nor­rænu rík­in yfir 500 orr­ustuþotum (álíka mörg­um og breski flug­her­inn) og tæp­lega 4.000 skriðdrek­um. Sam­an séu þau ekki lít­il. Auk þess sé stærsti kaup­skipa­floti heims á hendi nor­rænna skipa­fé­laga.

Bertel Haarder

Bertel Haarder.

Við brott­för Breta úr ESB hafi skap­ast tóma­rúm sem verði að fylla. Þjóðverj­um yrði mjög kært ef nor­ræna rödd­in yrði sterk­ari á vett­vangi ESB sem einnig skipti miklu fyr­ir hags­muni Nor­egs og Íslands, nor­rænu ríkj­anna utan ESB. „Hvers vegna eig­um við að sitja með hend­ur í skauti og bíða eft­ir frum­kvæði frá Berlín og Par­ís?“ spyr Bertel Haar­der.

Hann seg­ir að skref sem þetta krefj­ist þess að horfið sé frá smáríkja­hugs­un­ar­hætti og að ráðherr­ar stilli bet­ur sam­an strengi sína.

Til­lög­una um að stofna form­lega til ut­an­rík­is- og varn­ar­mála­sam­starfs inn­an ramma Norður­landaráðs og nor­rænu ráðherra­nefnd­ar­inn­ar ber að skoða í ljósi þess að utan ráðsins og ráðherra­nefnd­ar­inn­ar hef­ur varn­ar­mála­sam­starf land­anna þró­ast síðan árið 2009 und­ir merkj­um NOR­D­EFCO. Ut­an­rík­is­ráðherr­ar land­anna hitt­ast reglu­lega við hliðina á nor­rænu ráðherra­nefnd­inni.

Við setn­ingu þings­ins í Osló sagði norski þingmaður­inn Jorodd Asp­hjell, frá­far­andi for­seti Norður­landaráðs, að und­ir hans for­ystu hefði for­sæt­is­nefnd­in sett á lagg­irn­ar starfs­hóp­inn til að skoða Hels­ing­fors­sátt­mál­ann sem Bertel Haar­der nefndi. Níu sætu í hópn­um og ætti hann að ljúka við að skoða málið á næsta ári. For­set­inn frá­far­andi nefndi breyt­ing­arn­ar sem tengd­ust því að öll nor­rænu rík­in yrðu aðilar að NATO. Bauð hann öll­um rík­is­stjórn­un­um að koma að ferl­inu.

Norður­landaráð starfar næsta ár und­ir for­sæti Íslands. Þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, Bryn­dís Har­alds­dótt­ir, var kjör­inn for­seti ráðsins á þing­inu í Osló. Það kem­ur í henn­ar hlut að sjá til þess að þessi mik­il­vægi starfs­hóp­ur ljúki störf­um á næsta ári.

Jens Stolten­berg, fram­kvæmda­stjóri NATO, var á ný gestaræðumaður á Norður­landaráðsþing­inu. Á norsku vefsíðunni High North News, þar sem vel er fylgst með frétt­um sem tengj­ast norður­slóðum, er sagt frá ræðu Stolten­bergs og þetta haft eft­ir hon­um:

„Við höf­um alltaf sagt að á norður­slóðum ríki lág­spenna. Því miður er mál­um ekki leng­ur þannig háttað. Ein af af­leiðing­um stríðsins í Úkraínu er að spenna hef­ur einnig auk­ist á norður­slóðum. Þar má sjá veru­lega aukna her­væðingu hjá Rúss­um.“

Nor­ræn­ir stjórn­mála­menn hafa jafn­an talað um norður­slóðir sem lág­spennusvæði. Það mark­ar óneit­an­lega ákveðin þátta­skil að fyrr­ver­andi norsk­ur for­sæt­is­ráðherra sem beitti sér mjög fyr­ir því í stjórn­artíð sinni að stuðla að vin­sam­leg­um sam­skipt­um við Rússa í norðri skuli nú sem fram­kvæmda­stjóri NATO sjá sig knú­inn til að boða þá viðhorfs­breyt­ingu sem felst í til­vitnuðu orðunum.

Í þeim felst hins veg­ar raun­sætt mat á hernaðarleg­um aðstæðum í hánorðri. Hol­lenski flota­for­ing­inn Rob Bau­er, formaður her­mála­nefnd­ar NATO, sagði meðal ann­ars í ræðu 14. októ­ber 2023 á Arctic Circle í Hörpu:

„Norður­slóðir (e. Arctic) eru enn hernaðarlegt höfuðvígi Rússa – heim­kynni Norður­flot­ans, kjarn­orkukaf­báta, flug­skeyta, flug­stöðva, rat­sjáa og herafla. Mest af herliði Rússa er á Kóla­skaga sem ligg­ur að Nor­egi og Finn­landi, nýj­asta aðild­ar­ríki NATO. Um­svif­in verða sí­fellt víðtæk­ari með frek­ari bygg­ingu og end­ur­nýj­un her­stöðva. Svæðið er einnig notað til til­rauna með ný rúss­nesk vopn, þar á meðal of­ur­hljóðfrá fug­skeyti og Poseidon kjarn­orku tund­ur­skeyta­dróna.“

Í ár­legri könn­un um viðhorf Íslend­inga til ým­issa þátta ut­an­rík­is­mála sem ut­an­rík­is­ráðuneytið birti nú í sept­em­ber var spurt um þátt­töku Íslands í alþjóðlegu sam­starfi. Íslend­ing­ar eru sem fyrr já­kvæðast­ir fyr­ir nor­rænu sam­starfi. Alls segj­ast 87,9 pró­sent lands­manna já­kvæð gagn­vart því að Ísland taki virk­an þátt í nor­rænu sam­starfi.

Þegar vægi ör­ygg­is- og varn­ar­mála eykst í nor­rænu sam­starfi verður að tryggja að við ein­angr­umst ekki vegna þekk­ing­ar- og reynslu­skorts. Virk þátt­taka í sam­starfi á þess­um sviðum krefst fræðslu til al­menn­ings, rann­sókna, fræðilegr­ar ráðgjaf­ar og upp­lýstra umræðna í stað upp­hróp­ana. Þess­ir grunnþætt­ir eru van­rækt­ir hér. Eft­ir því sem við stíg­um fleiri skref til sam­starfs við nán­ustu vinaþjóðir um þessi mál verður brýnna að styrkja þessa þætti.