27.3.2021

Af jarðeldum og veiru

Morgunblaðið, laugardagur 27. 03. 21

Að morgni laug­ar­dags 20. mars bár­ust frétt­ir um að Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði, teldi gosið sem hófst við Fagra­dals­fjall á Reykja­nesi kvöldið áður „ótta­leg­an ræf­il“. Páll Ein­ars­son jarðeðlis­fræðing­ur kallaði gosið „ræf­ils­legt“. Víðir Reyn­is­son sem stóð vakt­ina á veg­um Al­manna­varna sagði gosið „pínu­lítið“.

Þegar leið á vik­una jókst virðing­in fyr­ir gos­inu. Það kynni að standa árum sam­an, yrði ef til vill dyngja á borð við Skjald­breið, bein­tengd við mött­ul jarðar. Þarna gæf­ist ein­stakt tæki­færi til jarðfræðirann­sókna, þetta gæti orðið dæmi­gert „túristagos“ á besta stað, skammt frá Kefla­vík­ur­flug­velli og Bláa lón­inu.

Þótt varað væri við eit­ur­guf­um, jarðelda­hætt­um, vondu veðri og drjúgri göngu­leið yfir tor­fært land í myrkri streymdu þúsund­ir manna á vett­vang til að sjá nátt­úru­undrið með eig­in aug­um. Göngu­leið var stikuð og skipu­leggja átti sæta­ferðir sem næst gosstað með rút­um úr Grinda­vík ef veirufar­ald­ur­inn leyfði.

165862854_10159137828954233_1215752401906940528_nGunnlaugur Auðunn Júlíusson tók þessa mynd og birti hana á FB-síðu sinni sunnudaginn 28. mars. Hún sýnir fólk á leið til gosstöðvanna.

Far­ald­ur­inn leyfði það hins veg­ar ekki því að fyrri hluta vik­unn­ar bár­ust óþægi­leg­ar frétt­ir um smit í grunn­skól­um Reykja­vík­ur sem kölluðu miðviku­dag­inn 24. mars á hörðustu sótt­varnaaðgerðir hér til þessa. Frjáls­ræðið hér hafði verið litið öf­und­ar­aug­um í öðrum lönd­um og draum­ar vöknuðu um að með nýj­um regl­um mætti blása til sókn­ar með fjölg­un er­lendra ferðamanna.

Þetta er rifjað upp hér til að minna á að við erum ekki herr­ar jarðar­inn­ar held­ur verðum að laga okk­ur að duttl­ung­um nátt­úr­unn­ar hvort sem þeir birt­ast sem hraun­straum­ar úr iðrum jarðar eða ósýni­leg veira sem sæk­ir á þá sem veita minnsta viðnám. Fyrst gam­al­menni og nú skóla­börn. Jarðeld­un­um fylgja ósýni­leg­ar, ban­væn­ar guf­ur, lúti göngu­menn til jarðar til að huga að skóþveng sín­um geta þeir andað þeim að sér. Mælt er með gasmæli og -grímu í göngu­ferð að gosstað en tveggja metra reglu og grímu auk handþvott­ar vegna veirunn­ar.

Allt kall­ar þetta á að menn til­einki sér nýja hætti að kröfu nátt­úr­unn­ar. Það hef­ur einnig kallað á kröf­ur í orðavali. Þótt kór­ónu­veir­an eigi upp­runa í Kína greip um sig sér­kenni­leg sefj­un um að ekki mætti nefna hana Kína­veiruna. Á hinn bóg­inn er talað frjáls­lega um breska, suðurafríska eða bras­il­íska af­brigði veirunn­ar. Felu­leik­ur í þágu Kín­verja í þessu efni ber vott um sér­kenni­lega meðvirkni. Kín­verj­ar láta ekki sitja við að krefjast henn­ar vegna nafns­ins á veirunni held­ur ýta und­ir hana með regl­um um að út­lend­ing­ar sprautaðir með kín­versku bólu­efni njóti sérrétt­inda við komu til Kína.

Þegar smit juk­ust hér á landi í byrj­un vik­unn­ar létu ein­hverj­ir í veðri vaka að þau mætti rekja til umræðna fyr­ir viku um að auðvelda bólu­sett­um ein­stak­ling­um að koma til lands­ins. Þetta er að sjálf­sögðu firra. Hér eru í gildi landa­mær­a­regl­ur sem voru hert­ar 19. fe­brú­ar 2021 með því að taka upp þre­falda skimun, krefjast PCR-prófs, nei­kvæðs sýna­töku­prófs, auk tveggja skim­ana.

Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra mót­mælti í út­varps­viðtali 25. mars gagn­rýni á landa­mæra­vörsl­una með þeim orðum að við hefðum haft eina skil­virk­ustu landa­mæraaðgerð sem finna mætti með tvö­földu skimun­inni og síðan hefði PCR-prófið komið til sög­unn­ar, „þannig að í raun og veru hef­ur verið þreföld skimun á landa­mær­um og sótt­kví,“ sagði for­sæt­is­ráðherra og bætti við að það gætu komið upp til­vik þar sem þess­um regl­um væri ekki fylgt: „Það er ekki 100% mæt­ing í seinni skimun.“

Kári Stef­áns­son orðaði það svo í Kast­ljósi 24. mars að um helg­ina hefði greinst veira sem ekki væri unnt að rekja til neinna. „Það bend­ir til þess að veir­an hafi laumað sér inn í landið með ein­stak­lingi sem við misst­um ein­hvern veg­inn af,“ sagði Kári og bætti við:

„Svo er annað í þessu sem má ekki ræða, sem er svo­lítið erfitt. Mjög stór hundraðshluti þeirra sem koma hingað sýkt­ir kem­ur frá Aust­ur-Evr­ópu. Býsna stór hundraðshluti þeirra hef­ur bú­setu á Íslandi, en eru nú at­vinnu­laus­ir og koma hingað til þess að fá at­vinnu­leys­is­bæt­ur með reglu­legu milli­bili, og fara síðan heim til sín. Ástæðan fyr­ir því að það er erfitt að tala um þetta er sú að það er svo stutt milli þess að segja þetta, og ein­hvers kon­ar út­lend­inga­andúðar, sem er óá­sætt­an­leg. En þetta er bara staðreynd, svona líta töl­urn­ar út, og við verðum að finna ein­hverja leið til að tak­ast á við það.“

Að Kári Stef­áns­son taki jafn­virk­an þátt í umræðum um aðgerðir vegna Covid-19-far­ald­urs­ins og raun er stuðlar ekki aðeins að miðlun verðmætra upp­lýs­inga og ábend­inga um far­ald­ur­inn held­ur minn­ir á mik­il­vægi sam­starfs op­in­berra aðila og einkaaðila þegar tek­ist er á við verk­efni á sviði heil­brigðismála og mörg­um öðrum sviðum.

Til að jafn­vægi skap­ist og rétt sýn fá­ist á mik­il­væg viðfangs­efni er óhjá­kvæmi­legt að treysta ekki al­farið á op­in­bera kerfið sem lýt­ur eig­in lög­mál­um. Öflug­ir aðilar utan þess verða að hafa þrek til að veita aðhald. At­vinnu­leys­is­bóta­kerfið er eitt þess­ara kerfa. Nú leiðir smit­hætt­an von­andi til þess að litið sé til starfs­reglna þar og hvernig skrán­ing­um og af­skrán­ing­um í það kerfi er háttað. Kári rauf þögn­ina og nú verða aðrir að tala og út­skýra fyr­ir þeim sem borga brús­ann.