18.3.2023

Aðför að menningararfi

Morgunblaðið, laugardagur, 18. mars 2023

Ákvörðun meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar Reykja­vík­ur um að leggja Borg­ar­skjala­safn Reykja­vík­ur niður er sorg­leg og metnaðarlaus. Í lög­um um skjala­söfn er ekki að finna nein ákvæði um hvernig brugðist skuli við ákveði sveit­ar­fé­lag að svipta sig full­veld­inu sem felst í því að varðveita sjálft eig­in skjöl, leggja rækt við sögu sína og halda utan um hana með því að hvetja íbú­ana til að leggja sitt af mörk­um til þess.

Þingmaður sjálf­stæðismanna í Skagaf­irði, Jón Sig­urðsson bóndi á Reyn­istað, mælti 30. októ­ber 1946 fyr­ir frum­varpi sínu um að heim­ilt yrði að stofna skjala­söfn í ein­stök­um héruðum sem heyrðu þó und­ir yf­ir­stjórn Þjóðskjala­safns Íslands.

Hann taldi sann­girn­is­rétt kaupstaða og héraða að fá sjálf til varðveislu, ef þau óskuðu þess, skjöl og gerðabæk­ur þeirra nefnda og starfs­manna er þess­ir aðilar hefðu valið og kostað af eig­in fé. Þá hefðu for­stöðumenn héraðsskjala­safna vegna ná­grenn­is og per­sónu­legs kunn­ug­leika í héraðinu betri aðstöðu en starfs­menn þjóðskjala­safns­ins til að safna og taka til varðveislu skjöl og gerðabæk­ur og ritaðar heim­ild­ir, sem stór­tjón væri að glötuðust, lík­lega myndu héraðsskjala­söfn bjarga mörgu frá eyðilegg­ingu sem ann­ars hyrfi með öllu.

Fram­söguræðu sinni lauk Jón með þess­um orðum: „Ég ætla að Ijúka máli mínu með því að segja þetta: Þetta mál er í mín­um aug­um mikið metnaðar­mál, að héruðin láti ekki gjörrýja sig að öll­um heim­ild­um um sögu sína.“

Lög um héraðsskjala­söfn voru samþykkt í byrj­un árs 1947 og síðan var Héraðsskjala­safn Skag­f­irðinga stofnað, fyrst sinn­ar teg­und­ar. „Eng­inn vafi leik­ur á að áhugi Jóns á Reyn­istað á sögu og menn­ingu Skaga­fjarðar varð til þess að safnið var stofnað,“ seg­ir á vefsíðu safns­ins og einnig:

„Hlut­verk héraðsskjala­safns­ins var, og er enn, meðal ann­ars að inn­heimta og varðveita op­in­ber gögn inn­an Skaga­fjarðar­sýslu. Smátt og smátt óx safn­inu ásmeg­in, einkum vegna mik­ils áhuga nokk­urra ein­stak­linga sem lögðu á sig ómælda vinnu í sjálf­boðastarfi við söfn­un á skjala­gögn­um og ljós­mynd­um.“

Sam­bæri­leg­ur áhugi verður ekki virkjaður í kring­um þjóðskjala­safn. Gildi héraðsskjala­safna verður aldrei metið til fulls. Afrakst­ur brautryðjand­a­starfs­ins í Skagaf­irði birt­ist til dæm­is í glæsi­legri Byggðasögu Skag­f­irðinga undir rit­stjórn aðal­höf­und­ar, Hjalta Páls­son­ar, sagn­fræðings frá Hofi, sem vann að verk­inu í 26 ár.

Hjalti fékk verðskuldaða viður­kenn­ingu Hagþenk­is, fé­lags höf­unda fræðirita og kennslu­gagna, nú miðviku­dag­inn 15. mars með þeim orðum viður­kenn­ing­ar­ráðs að um „feyki­veg­legt rit“ væri að ræða sem ætti „eft­ir að halda gildi sínu um ókomna tíð“ og mundi um­fram allt „auðvelda alls kon­ar les­end­um með marg­vís­leg áhuga­mál að njóta þess gnægta­brunns fróðleiks og sögu sem Skaga­fjörður er“.

Byggðasag­an er upp­fletti­rit um 676 jarðir auk þess sem meira en 400 forn­býla frá eldri tíð er getið. Bæk­urn­ar 10 eru sam­tals 4.620 blaðsíður með rúm­lega 5.080 mynd­um og kort­um.

Lýs­ing Jóns á Reyn­istað á hlut­verki héraðsskjala­safns stenst tím­ans tönn. Hann taldi að á þess­um árum hefði húsa­kost­ur víða um land tekið þeim breyt­ing­um að for­svar­an­legt væri að varðveita skjöl á heima­slóð.

SkolaMyndin er úr skólamunasafninu sem var í Austurbæjarskóla. Fyrst eyðilagði meirihluti borgarstjórnar það og síðan borgarskjalasafnið. Hvar beitir Dagur B. Eggertsson sleggjunni næst á menningararfinn?

Miðlægu þjóðskjala­safni er einkum ætlað að sinna skila­skyldu á op­in­ber­um skjöl­um. Safn­inu er einnig heim­ilt að taka við einka­skjöl­um. Um þau skjöl gild­ir að eig­end­ur þeirra ráða sjálf­ir hvort þeir setja þau á safn og þá hvaða safn.

Árel­ía Ey­dís Guðmunds­dótt­ir, dós­ent við Viðskipta­fræðideild Há­skóla Íslands, borg­ar­full­trúi Fram­sókn­ar­flokks­ins, nefndi sem rök fyr­ir at­kvæði sínu að þar sem einka­skjala­safn Ólafs Thors, for­sæt­is­ráðherra og for­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins, væri í borg­ar­skjala­safni en ekki í þjóðskjala­safni væri safn­kost­ur of dreifður. At­kvæði um lok­un Borg­ar­skjala­safns Reykja­vík­ur féllu 11:10. Hafi afstaða til einka­skjala­safns ráðið úr­slit­um, má líkja því við ómál­efna­lega „slauf­un“, það er úti­lok­un.

Eitt fyrsta verk bylt­ing­ar­manna er að eyðileggja lista­verk, brenna bæk­ur og loka söfn­um. Hér lokaði meiri­hluti und­ir for­ystu Dags B. Eggerts­son­ar borg­ar­stjóra skóla­muna­safni sem áhuga­menn höfðu fengið að setja upp und­ir súð í Aust­ur­bæj­ar­skól­an­um. Aðför­in að safn­inu var sárs­auka­full fyr­ir þá sem létu sér annt um það. Sömu sögu er að segja um aðför­ina að Borg­ar­skjala­safni Reykja­vík­ur – að henni er staðið á kaldrifjaðan hátt án nokk­urs til­lits til viðhorfa starfs­manna safns­ins, skjala­varða eða vel­unn­ara meðal sagn­fræðinga og annarra. Þeim sem af­hent hafa safn­inu skjöl til varðveislu í góðri trú er sýnd lít­ilsvirðing. Samn­ing­ar um skjala­vörsl­una eru í upp­námi.

Í lög­um eru eng­in ákvæði um hvernig tekið skuli á mál­um þegar sveit­ar­fé­lag kýs að gera skjala­safn sitt að engu á þann hátt sem borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur gerði 7. mars 2023. Samþykkt meiri­hlut­ans lýk­ur á þess­um orðum: „Í til­lög­unni felst því að Borg­ar­skjala­safn verður lagt niður í nú­ver­andi mynd.“ Skýr­ara verður það ekki.

Eng­inn veit hvað við tek­ur. Ákvæði eru í lög­um um skyld­ur þjóðskjala­safns sé um van­hirðu héraðsskjala­safns að ræða. Þá skal viðkom­andi sveit­ar­fé­lag kosta aðgerðir til að tryggja að safnið sé ekki van­hirt. Niður­lagn­ing safns er annað.

Borg­ar­stjórn tók valdið hryss­ings­lega af Svan­hildi Boga­dótt­ur borg­ar­skjala­verði og fól það sviðsstjóra sem lýst hef­ur óvild í garð safns­ins vegna ábend­inga um brot á skjala­safna­lög­um í bragga­mál­inu fræga fyr­ir þrem­ur árum.

Þetta er ekki menn­ing­ar­slys held­ur skipu­lögð aðför að menn­ing­ar­arfi.