7.12.2018

Að hylja slóðina með blekkingum

Umsögn um bókina Kaupthinking í Morgunblaðinu 7. desember 2018

Að óreyndu hefði mátt ætla að ekki væri á þessu stigi efni til að skrifa fleiri bækur um íslenska bankamenn og hrunið. Það hefðu allir fengið sig fullsadda af sorgarsögum um hvernig staðið var að því að búa til peninga til að halda íslensku bönkunum á lífi eftir viðvörunina eða áfallið sem þeir fengu árið 2006.

Vegna vandræðanna var bara spýtt í lófana. Bankamenn virkjuðu frammámenn þjóðarinnar til að taka þátt í fundum heima og erlendis í von um að blása mætti nýju lífi í bankana. Var gert að þjóðarmetnaði að þeim vegnaði sem best.

Til að afla sér fjármuna þótt styttist í hefðbundnum lánalínum stofnaði Landsbankinn Icesave-netbankann, bauð háa vexti í Bretlandi og sópaði til sín fjármunum.

Kaupþingsmenn reru á önnur mið. Forystumenn í hópi þeirra bjuggu til peninga með eigin aðferðum. Með aðstoð erlendra milliliða var Kaupþing fjármagnað án þess að nokkur annar tæki áhættu en bankinn sjálfur og litlir eigendur hans. Hugmyndasmiðirnir og milliliðirnir höfðu allt sitt á þurru og fengu „cut“, það er eitthvað fyrir sinn snúð.

Í bókinni Kaupthinking – bankinn sem átti sig sjálfur eftir Þórð Snæ Júlíusson, stjórnmálafræðing, ritstjóra og einn eigenda vefsíðunnar Kjarnans, er sagt frá því að allt frá upphafi Kaupþings sem banka og að falli hans var meginmarkmið stjórnenda hans og helstu eigenda að hagnast sjálfir sem mest á bankanum og hylja slóð peninga, sinna og annarra.

47509671_10155606993525518_6206848219465383936_nVið einkavæðingu Búnaðarbankans beittu kaupendur blekkingu til að sannfæra seljandann um að erlendur kaupandi væri í eigendahópnum. Leikurinn var endurtekinn þegar hallaði undan fæti hjá Kaupþingi. Þá var að nýju leitað til erlendra auðmanna og beitt blekkingu svo að spilaborgin hryndi ekki. 

Þórður Snær segir í formála að hann styðjist við efni sem hann hefur aflað sér sem blaðamaður, hann hafi rætt við hundruð einstaklinga sem tengst hafi atburðunum beint; hann styðjist við opinberar skýrslur sem séu mörg þúsund blaðsíður að lengd; hann hafi „setið mörg dómsmál“; hafi undir höndum ákærur og greinargerðir bæði saksóknara og verjenda; hafi fengið aðgang að gríðarlegu magni „trúnaðar- og rannsóknargagna“ slitastjórna, skýrslum einkaspæjara, trúnaðargögnum úr stjórnsýslunni og síðast en ekki síst að „tugþúsundum blaðsíðna af rannsóknar- og málsgögnum í málum sem embætti sérstaks saksóknara og önnur sambærileg embætti í öðrum löndum hafa viðað að sér við rannsókn og saksókn þeirra mála sem hrunið leiddi af sér.“ Þarna er um að ræða „yfirheyrslur yfir sakborningum og vitnum, greinargerðir rannsakenda í risavöxnum málum og hlustanir í síma“. Þar er einnig að finna „þúsundir tölvubréfa lánasamninga, fundargerða og annarra skjala úr Kaupþingi“. Þórður Snær segir þetta gögn sem „aldrei“ hafi komið fyrir sjónir almennings og þau varpi „algjörlega nýju ljósi á sögu Kaupþings og á sem stýrðu bankanum“.

Af þessari lýsingu má ráða að Þórður Snær hafi átt í samskiptum við einhverja sem tengst hafa sakamálum vegna Kaupþings og fengið hjá þeim gögn úr réttarhöldum.

Það eitt er risavaxið verkefni að fara yfir allt þetta efni. Annað enn erfiðara verk er að draga þetta mikla efni saman og koma fyrir á 368 bls. bók. Sýnir Þórður Snær mikla þrautseigju við að brjótast í gegnum þetta gagnafjall.

Suma þræði getur hann ekki rakið til enda vegna þess að rannsókn mála er ekki lokið. Þetta á til dæmis við um síðasta lánið til Kaupþings í október 2008 í von um að bjarga mætti að minnsta kosti einum íslenskum banka. Tókst Kaupþingsmönnum þá í síðasta sinn að blekkja bæði forsætisráðherra og seðlabankastjóra? Saga þessa láns er efni í nýja bók.

Flétturnar eru flóknar og teygja sig til margra landa, félaga og einstaklinga. Banki Kaupþings í Lúxemborg gegnir mikilvægu hlutverki, hann er kóngulóin í vefnum.

Þórður Snær líkir störfum á fjármálamarkaði við að vera atvinnufjárhættuspilari þar sem menn veðjuðu á „fjármálaafurðir sem búnar voru til í bönkum og lögðu oft tugi milljarða undir í hvert sinn. Ólíkt spilavítum, spilakössunum eða bingóinu þá var vettvangur veðmálsins algjörlega án reglna. Það mátti meira að segja svindla til að reyna að hafa áhrif á útkomu veðmálsins.“ (233)

Breski athafnamaðurinn Kevin Stanford var í hópi útlendinganna sem forystumenn Kaupþings nýttu sér. Eftir hrun bankans sagði hann í yfirheyrslu: „Þetta voru alger Ponzi-svik og útilokað að það hefði haldið velli. Það hefði bara þurft einn mann innan bankans til að taka upp símann og segja: „Þessi banki á sig sjálfur“ og þá hefði hann hrunið, merkilegt að það gerist ekki.“ (165)

Með orðunum Ponzi-svik er vísað til svika eða blekkinga sem beitt er til að fá sífellt fleiri nýja fjárfesta svo að standa megi í skilum við fjárfesta sem fyrir eru. Enginn tók upp símann og hringdi vegna þess að innan Kaupþings ríkti sá andi að stjórnendur hans væru óskeikulir. Þeim var hampað eins og „hetjunum okkar“. Þar bjó að baki sókn að ráði almannatengla.

Margt af því sem Þórður Snær lýsir er svo flókið að lesandanum líður stundum eins og sjeiknum frá Katar sem sagði við skýrslutöku: „Getur þú útskýrt þetta, ég skil ekki hvað þú ert að segja [...] það er eins og þú sért að tala kínversku.“ (234) Það hefði auðveldað lesandanum að nafnaskrá fylgdi megintextanum. Sumum fléttum er lýst með skýringarmyndum. Þá er leitast við að létta lesanda lundina með skopmyndum.

Um þessar mundir tala sérfræðingar í öryggismálum gjarnan um hættuna af „blönduðu stríði“, það er átökum á milli ríkja sem ekki eru háð með vopnum heldur alls kyns öðrum aðferðum: netárásum, falsfréttum, upplýsingafölsunum og dulinni íhlutun í málefni annarra. Öllum þessum aðferðum er í raun lýst af Þórði Snæ þegar heildarmynd hans er skoðuð. Þessi kaflafyrirsögn segir allt: Töpuðu ærunni, frelsinu en ekki peningunum. 

Í lok bókarinnar segir Þórður Snær að nú minni ýmislegt á það sem gerðist á árunum fyrir hrun „og gamlir leikendur fullir vilja að fara nú að leika sér á sama hátt og áður“. Hann skrifar Kaupthinking sem víti til varnaðar. Bókin á fullt erindi. Einkunnarorð hennar gætu verið „Blekkingin hverfur um leið og maður sér í gegnum hana.“