Ábyrgðarkeðja varnarmálanna of óljós
Morgunblaðið, laugardagur 4. júní 2022.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis hefur fjallað um úttekt ríkisendurskoðunar á verkefnum og fjárreiðum Landhelgisgæslu Íslands (LHG) sem birtist í skýrslu að beiðni alþingis dags. í janúar 2022. Álit nefndarinnar var birt 31. maí 2022.
Þegar skýrsla ríkisendurskoðunar birtist beindist athygli einkum að gagnrýni á þremur þáttum: flugi TF-SIF fyrir landamærastofnun Evrópu, Frontex; olíukaupum varðskipa í Færeyjum og notkun flugfara og skipa LHG í opinberum erindagjörðum æðstu stjórnenda ríkisins.
Í skjali þingnefndarinnar er mildilega tekið á öllum þessum aðfinnsluefnum. Ekki er gerð athugasemd við að TF-SIF sinni verkefnum fyrir Frontex en leitað verði leiða til að auka viðveru vélarinnar hér á landi. Vegna olíukaupanna er því beint til dómsmálaráðuneytisins að í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið verði leitað leiða „til að tryggja að kaup landhelgisgæslunnar á olíu hér á landi hafi ekki neikvæð áhrif á úthaldsdaga varðskipanna“. Þingnefndin telur að réttlætanlegt kunni að vera að nýta loftför og skip LHG í opinberum erindagjörðum æðstu stjórnenda ríkisins. Nefndin leggur þó ríka áherslu á að settar verði reglur um þessi afnot.
Um öll málefni sem að ofan ræðir eru fyrir hendi gamlar heimildir, venjur og hefðir sem mótast hafa undir forsjá dómsmálaráðherra úr öllum flokkum sem borið hafa pólitíska ábyrgð á starfsemi LHG síðan hún kom til sögunnar 1. júlí 1926 – áður en Ísland varð lýðveldi.
Landhelgisgæsla á valdi íslenskra stjórnvalda skipti miklu þegar unnið var að fullu sjálfstæði þjóðarinnar. Nú þegar vangaveltur eru um sjálfstæði Grænlands vakna til dæmis efasemdir um gildi sjálfstæðisyfirlýsinga án þess að ljóst sé hvort grænlensk stjórnvöld geti haldið uppi eigin gæslu í grænlenskri efnahagslögsögu. Án íslenskra varðskipa hefði verið til lítils að lýsa yfir og lögfesta sífellt stærri fiskveiðilögsögu hér við land.
Í skýrslu ríkisendurskoðunar er bent á að nú sinni LHG viðamiklum og stækkandi varnartengdum verkefnum á grundvelli þjónustusamnings milli utanríkisráðuneytisins og LHG með aðild dómsmálaráðuneytisins. Í skýrslunni er talið að taka þurfi „til skoðunar“ hvort það fyrirkomulag tryggi að „ábyrgðarkeðja sé skýr, bæði í faglegum og fjárhagslegum skilningi“.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins staðfestir í áliti sínu að „vægi og umsvif varnarmála“ hafi aukist í starfsemi LHG undanfarin ár og ekki sé „útlit fyrir annað en að sú þróun haldi áfram, sérstaklega í ljósi innrásar Rússlands í Úkraínu“. Fyrir nefndinni hafi komið fram að samstarf LHG, dómsmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis um varnar- og öryggismál „hafi almennt gengið vel“.
Tekur nefndin hins vegar undir þá tillögu ríkisendurskoðunar að áður en gildistími núverandi samnings rennur út, 31. desember 2026, „verði tekið til skoðunar hvort gerð þjónustusamnings um jafn viðamikil verkefni sé farsæl leið að því marki að skýr ábyrgðarkeðja í faglegum og fjárhagslegum skilningi sé tryggð“.
Hvergi er mikilvægara en á sviði varnar- og öryggismála að „ábyrgðarkeðjan“ sé skýr. Við framkvæmd almannavarna hér hefur tekist að eyða allri óvissu í þessari keðju eins og sannast hefur hvað eftir annað undanfarin misseri þegar reynt hefur á almannavarnakerfið í mörgum ólíkum tilvikum. Þar er ábyrgð ríkislögreglustjóra og almannavarnadeildar hans skýr og ótvíræð.
Samstarf embætta ríkislögreglustjóra og landlæknis hefur verið til fyrirmyndar í COVID-19-faraldrinum. Þar standa stofnanir sem heyra undir ólík ráðuneyti sameiginlega að átaki til að tryggja öryggi þjóðarinnar. Um starfsemi þeirra gilda lög og reglur.
Af skýrslu ríkisendurskoðunar og áliti stjórnkerfis- og eftirlitsnefndar alþingis verður ráðið að ekki dugar lengur að skilgreina hlutverk LHG vegna varnartengdra verkefna með þjónustusamningi. Þegar hann var upphaflega gerður var um úrræði til bráðabirgða að ræða.
Reynslan sýnir að það fellur vel að starfsemi LHG að sinna varnartengdum viðfangsefnum. Nú ber að lögfesta þetta hlutverk LHG og nota tímann til 2026 til að ljúka því verkefni. Í skýrslu ríkisendurskoðunar er aðkoma LHG skilgreind of þröngt, rætt er um „rekstrartengd“ verkefni en ekki þau sem snúa að þátttöku í flotaæfingum eða þátttöku í fjölþjóðlegu samstarfi flota sem snýr að vörnum Norður-Atlantshafs. Skipulag og starfsemi LHG svipar til þess sem er meðal helstu samstarfsþjóða auk þess sem meginhlutverk gæslunnar, eftirlit ásamt leit og björgun í hafi, er á verksviði hermálayfirvalda nágrannalandanna.
Skýrsla ríkisendurskoðunar bendir til þess að innan utanríkisráðuneytisins gæti enn sjónarmiða sem rekja má til skipulags varnarmála þegar bandaríski flotinn fór með stjórn mála í Keflavíkurstöðinni og ráðuneytið kom fram gagnvart honum sem fulltrúi stjórnarráðsins án tillits til skiptingar verkefna milli ráðuneyta. Sú skipan breyttist fyrir 16 árum.
Utanríkisráðuneytið gegnir mikilvægu hlutverki við stefnumótun og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og samráði um varnarmál. Skipulag aðgerða og framkvæmd er í höndum annarra, íslenskar stofnanir sinna aðeins borgaralegum verkefnum. Í þessum málaflokki ber að virða verkaskiptingu innan stjórnarráðsins.
Landhelgisgæslan gegnir lykilhlutverki vegna varnartengdra verkefna. Gæslan var til marks um fullveldið árið 1926 og hún er það enn sem fyrr. Nú ber að taka af skarið um nýtt hlutverk með lögum í stað þjónustusamnings.