Áætlanir krefjast aðgerða
Morgunblaðið, laugardagur, 12. júlí 2025.
Tvær úttektarskýrslur um tvö risavaxin íslensk samfélagsverkefni birtust um mánaðamótin. Annars vegar skýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í París um skólakerfið og hins vegar úttektarskýrsla Ríkisendurskoðunar um Landspítala, mönnun og flæði sjúklinga.
Menntamálaráðuneytið hefur verið brotið upp á undanförnum árum. Verkefnum þess hefur verið ráðstafað út og suður. Í skólamálum hefur verið skorið á stjórnsýslulega samfellu frá leikskóla til háskóla með því að stofna sérstakt ráðuneyti um háskóla og fleira.
Málefni leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eru enn á verksviði menntamálaráðherra en ráðuneytið hefur útvistað verkefnum vegna þessara skóla til stofnunar, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu. Miðstöðin „gegnir lykilhlutverki í innleiðingu aðgerða sem miðlæg þjónustustofnun á sviði menntamála“. Sveitarfélögin kosta og reka leikskóla og grunnskóla en ríkið framhaldsskóla.
Miðstöðin myndar síki utan um ráðuneytisvirkið og takmarkar bein tengsl ráðherrans við skóla, nemendur og starfsmenn. Foreldrar sem vilja umbætur í menntamálum eiga lítið erindi við stjórnmálamann í stofnanavæddu ráðherraembætti.
Skilvirkni í æðstu stjórn skólamála er horfin. Í úttekt OECD sem birt var 26. júní 2025 segir að íslenska menntakerfið sé meðal þeirra dreifstýrðustu í löndunum í OECD. Rannsóknir stofnunarinnar bendi til þess að dreifstýrð kerfi skili ekki auknum árangri í menntamálum nema með miðstýrðu eftirliti sem meti árangur skóla á grundvelli samræmds námsmats.
Hér hefur verið stefnt frá samræmdu námsmati frá 2018 og það hefur ekki verið framkvæmt síðan 2021. Nú eru skólaeinkunnir og ýmis lítt skilgreind atriði notuð við innritun í framhaldsskóla.
OECD mælir með samræmdu námsmati í stað skólaeinkunna við innritun í framhaldsskóla til að skapa meiri aga í kerfinu og auka jafnræði. Slíkt námsmat er ekki á dagskrá miðstöðvarinnar sem leggst auk þess gegn allri opinberri miðlun upplýsinga sem gefa myndi foreldrum færi á að átta sig á stöðu barna þeirra með innbyrðis samanburði milli skóla.
Miðstöð menntunar annast nú innritun í framhaldsskóla og lauk henni 23. júní í ár. Segir á vefsíðu miðstöðvarinnar að alls hafi 5.131 nýnemi sótt um pláss í framhaldsskóla fyrir haustið 2025, 454 fleiri en í fyrra. Af þeim hafi 4.136 fengið pláss í þeim skóla sem þeir völdu sem fyrsta val (81%).
Skipting umsókna á skóla sem sjá má á vefsíðu miðstöðvarinnar og niðurstöður við úthlutun plássa sýnir hve miklu skiptir fyrir nemendur að jafnræði ríki í mati á námsárangri þeirra. Enginn samræmdur mælikvarði er nú í gildi við það mat.
Miðstöðin vill halda niðurstöðum PISA-könnunarinnar á vegum OECD sem mest leyndum. Í umræðum um miðlun slíkra upplýsinga er sagt að leyndin sé lykill að því að minnka stress í skólastarfi. Prófum er úthýst með þeim rökum að þau auki álag á nemendur og kennara. Þetta stangast á við boðskapinn um nauðsyn þess að auka áfallaþol einstaklinga og þjóða á óvissutímum.
Menntamálaráðuneytið hefur gefið út tvær aðgerðaáætlanir á líðandi áratug um hvernig efla beri menntun og styrkja menntakerfið fram til 2030. Enn sjást fá spor í þessa átt þótt nú sé aðgerðatíminn hálfnaður. Ráðherra sá sem nú situr og á að leiða þetta starf lætur eins og allt sé í himnalagi og góður gangur sé á öllum sviðum. Hann virðist trúa því að birting aðgerðaáætlunar jafngildi framkvæmd hennar. Það er mikill misskilningur.
Skýrsla ríkisendurskoðunar um Landspítalann sýnir að það getur verið langur vegur frá því að aðgerðaáætlanir skili því sem að er stefnt.
Nú í mars fluttist uppbygging hjúkrunarheimila til félags- og húsnæðismálaráðuneytisins úr heilbrigðisráðuneytinu. Fráflæðisvandinn og þar með skortur á sjúkrarúmum á Landspítalanum er að verulegu leyti rakinn til þess hve illa hefur gengið að framkvæma áætlun um fjölgun hjúkrunarheimila.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að 2019 hafi heilbrigðisráðuneytið lagt upp með markmið um að hjúkrunarrými yrðu orðin 3.433 í lok árs 2024 og bið eftir rými yrði ekki lengri að meðaltali en 90 dagar. Skýrslan segir að þetta markmið hafi engan veginn náðst. Rými séu nú tæplega 470 færri en gert var ráð fyrir, meðalbiðtími sé um 176 dagar og um 500 einstaklingar séu á biðlista.
Þá segir að í lok árs 2024 hafi uppsöfnuð heimild til fjárfestinga í hjúkrunarrýmum numið 12 milljörðum króna og rýmum frá 2019 hafi einungis fjölgað um 69 á landsvísu.
Það sjá allir að aðgerðaáætlanir í þessum dúr eru til þess eins að vekja falskar vonir. Betra er að láta þær óbirtar og leyfa kerfinu að malla í kyrrþey.
Ríki og sveitarfélög gerðu með sér samkomulag í vor um að framvegis bæri ríkið alfarið ábyrgð á fjármögnun hjúkrunarheimila og var það lögfest 16. júní. Af ferðum Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og fjölda skóflustungna fyrir ný hjúkrunarheimili má ætla að ráðuneyti hennar hafi tekið rösklega til hendi við nýtt verkefni sitt og noti skipulega uppsöfnuðu 12 milljarðana.
Hjúkrunarheimili eru nú reist eftir svonefndri leiguleið. Ríkið tekur ákvörðun, fær lóð hjá sveitarfélögum og býður út bæði byggingu og rekstur. Leigir síðan húsnæðið og greiðir rekstraraðilum þegar heimilin hefja störf. Línan var lögð á síðasta kjörtímabili en áætluninni var aldrei hrundið í framkvæmd.
Eitt er að byggja, annað að manna. Mönnunarvandi Landspítala og einnig nýrra hjúkrunarheimila er óleystur.