4.11.2023

Á undan eigin samtíð

Umsögn um bók, Morgunblaðið, laugardagur 4. nóvember 2023.

Að deyja frá betri heimi ★★★★· Eft­ir Pálma Jónas­son. Fag­ur­skinna, 2023. Innb. 444 bls.

Um miðjan sept­em­ber 2021 var heim­ild­ar­mynd­in Láttu þá sjá um lífs­hlaup Jónas­ar Kristjáns­son­ar, lækn­is og stofn­anda Nátt­úru­lækn­inga­fé­lags Íslands (NLFÍ) og Heilsu­hæl­is­ins í Hvera­gerði, sýnd í rík­is­sjón­varp­inu.

Nokkr­um dög­um síðar birt­ist frétt um að Gunn­laug­ur K. Jóns­son for­seti NLFÍ og Pálmi Jónas­son, sagn­fræðing­ur og fréttamaður, hefðu ritað und­ir samn­ing um að Pálmi ritaði ævi­sögu Jónas­ar Kristjáns­son­ar lækn­is. Sagði í frétt­inni að Pálma rynni blóðið til skyld­unn­ar vegna þess að hon­um væri verk­efnið hug­leikið og Jón­as Kristjáns­son væri langafi hans. Gríðarlega mikl­ar heim­ild­ir hefðu safn­ast við gerð heim­ild­ar­mynd­ar­inn­ar og fengi Pálmi aðgang að þeim.

Um tveim­ur árum síðar birt­ist afrakst­ur þessa samn­ings og vinnu Pálma í bók­inni Að deyja frá betri heimi – ævi­sögu Jónas­ar Kristjáns­son­ar.

9c25a209-2354-4eeb-b050-6406ce1a36fb

Þetta er ekki fyrsta ævi­saga Jónas­ar lækn­is sem gef­in er út með stuðningi NLFÍ. Árið 1987 sendi fé­lagið frá sér bók um ævi Jónas­ar sem Bene­dikt Gísla­son frá Hof­teigi skrifaði en Anna Ólafs­dótt­ir Björns­son bjó til prent­un­ar.

Ævi Jónas­ar Kristjáns­son­ar spann­ar 89 ár. Hún er góður efniviður fyr­ir fleiri en einn höf­und. Jón­as lagði hönd á margt í fortíð og nútíð sem vert er að varðveita og kynna öðrum.

Jón­as Kristjáns­son fædd­ist á Snær­ings­stöðum í Svína­dal í A-Húna­vatns­sýslu 20. sept­em­ber 1870. Hann var son­ur Kristjáns Kristjáns­son­ar bónda og Stein­unn­ar Guðmunds­dótt­ur hús­freyju. Þegar Jón­as var 11 ára dó móðir hans eft­ir að hafa smit­ast af vinnu­manni sem fékk bólgu­veiki eða blóðeitrun við að borða skemmt kjöt. Lækn­ir kom henni of seint til hjálp­ar en orð hans fest­ust í barn­sminni Jónas­ar þegar hann sagði að það hefði mátt bægja hætt­unni frá móður­inni með því að ein­angra hana á heim­il­inu. Frá ungra aldri var sagt að Jón­as hefði lækn­is­hend­ur og reynd­ust það orð að sönnu. Líf sitt helgaði hann sjúk­dóma­vörn­um og lækn­ing­um.

Kristján, faðir Jónas­ar, lést frá átta börn­um nokkr­um árum síðar. Síðasta bón hans til sveit­unga sinna var að þeir hjálpuðu börn­um hans að halda sam­an og búa áfram á Snær­ings­stöðum. Sveit­ung­arn­ir leystu hins veg­ar upp heim­ilið og barna­hóp­ur­inn dreifðist, meðal ann­ars vest­ur um haf til Kan­ada.

Jón­as fór ekki til Vest­ur­heims held­ur til frænda síns á Grenjaðarstað í Aðal­dal í Suður-Þing­eyj­ar­sýslu. Þar hlaut hann næga mennt­un til að kom­ast í Lærða skól­ann í Reykja­vík og þaðan varð hann stúd­ent 1896. Embætt­is­prófi frá Lækna­skól­an­um lauk hann 1901 og fór síðan í fram­halds­nám til Kaup­manna­hafn­ar. Jón­as var héraðslækn­ir í Fljóts­dals­héraði 1901-1911 og héraðslækn­ir á Sauðár­króki frá 1911 og til árs­loka 1938. Jón­as var alþing­ismaður fyr­ir Íhalds- og Sjálf­stæðis­flokk 1926-1930.

Al­kom­inn til Reykja­vík­ur frá Sauðár­króki tók Jón­as um 70 ára ald­ur til við að leggja grunn að nýj­um kafla í lífi sínu með því að helga krafta sína for­vörn­um og nátt­úru­lækn­ing­um. Kór­ónu lífs­starfs hans njóta menn enn á Heilsu­stofn­un­inni í Hvera­gerði en fyr­ir 70 árum hóf hann bygg­ingu fyrsta áfanga henn­ar.

Pálmi rek­ur þessa sögu alla á grein­argóðan og fræðandi hátt í bók sinni. Frá­sögn­in er breið. Lýst er fólki, mann­lífi, hí­býl­um og bú­skap­ar­hátt­um á ljós­lif­andi hátt. Frá­sagn­ir af svaðilför­um Jónas­ar lækn­is sýna að hann sinnti starfi sínu og skjól­stæðing­um af hug­rekki, snilld og um­hyggju.

Jón­as lagði sig ekki aðeins fram við skurðaðgerðir, oft við erfiðustu aðstæður, held­ur sleppti hann ekki hendi af skjól­stæðing­um sín­um fyrr en hann taldi þá hólpna. Hann brýndi fyr­ir þeim heil­brigða lifnaðar­hætti, hrein­læti og holl­ustu í mataræði.

Á fyrstu ára­tug­um ald­ar­inn­ar áttu lækn­ar rík­an þátt í að færa þjóðina inn í nýja tíma með fræðslu í því skyni að leiða mönn­um fyr­ir sjón­ir gildi breyt­inga á lifnaðar­hátt­um og húsa­kosti. Jón­as varð ást­sæll þar sem hann þjónaði vegna þess að all­ir fundu hve miklu hann áorkaði með erfiði sínu og ábend­ing­um.

Hann var í raun far­inn að heilsu þegar hann flutt­ist til Reykja­vík­ur. Hann gat varla setið hest leng­ur – lýs­ing­ar á hon­um og hest­um hans eru magnaðar – og hann átti bágt með gang. Á þessu sigraðist hann með eig­in lækn­ing­um og sjálf­saga.

Jón­as átti víðtæk og náin sam­skipti við fremstu lækna á áhuga­sviði sínu aust­an hafs og vest­an. Grunn­ur­inn sem Jón­as lagði að nátt­úru­lækn­ing­um hér er traust­ur vegna þess að hann til­einkaði sér fróðleik frá þeim sem þá þóttu best­ir er­lend­is og bauð sum­um þeirra hingað heim. Hann boðaði fagnaðar­er­indi til heilsu­bót­ar.

Bók­in er myndskreytt og prentuð á þung­an papp­ír. Efn­is­yf­ir­lit hefði mátt gefa betri hug­mynd um skipt­ingu bók­ar­inn­ar í höfuð- og undirkafla. Skrár eru yfir til­vís­an­ir, heim­ild­ir, mynd­ir og nöfn.

Pálmi Jónas­son hef­ur gott vald á mikl­um heim­ild­um um langafa sinn. Öllum höfuðatriðum í ævi hans og fjöl­skyldu­hög­um er vel til skila haldið. Hans­ína Bene­dikts­dótt­ir, eig­in­kona hans og frænka, var hon­um mik­il stoð og heim­ilið var opið öll­um. Und­ir lok bók­ar­inn­ar verður frá­sögn­in af Jónasi daufari og snýr meira að NLFÍ.

Hug­ur Jónas­ar Kristjáns­son­ar beind­ist mjög að betra lífi. Áfengi, tób­ak og syk­ur og jafn­vel kaffi og te voru eit­ur í hans bein­um. Hann hvatti til göngu­ferða, sunds og annarr­ar lík­ams­rækt­ar svo að ekki sé minnst á þvotta og gott mataræði í hrein­um hí­býl­um. Vegna þessa boðskap­ar skipaði hann sér sér­stöðu og sætti gagn­rýni. Nú vit­um við bet­ur, hann var á und­an samtíð sinni.