8.3.2025

Á tíma alvörunnar

Morgunblaðið, laugardagur 8. mars 2025

Ut­an­rík­is- og varn­ar­mál ber sí­fellt hærra í stjórn­má­laum­ræðum hér eins og ann­ars staðar í okk­ar heims­hluta. Merki um þetta eru víða. Sjást þau til dæm­is á álykt­un­um 45. lands­fund­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins sem hald­inn var 28. fe­brú­ar til 2. mars síðastliðinn.

Þar er oft­ar en einu sinni áréttuð nauðsyn þess að efla hlut Íslend­inga sem verðugra banda­manna í Atlants­hafs­banda­lag­inu (NATO) og að auka fram­lag borg­ara­legra stofn­ana rík­is­ins, land­helg­is­gæslu og lög­reglu, til gæslu ytra ör­ygg­is.

Nú snýst fyrsti efniskafli stjórn­mála­álykt­un­ar fund­ar­ins um nauðsyn þess að standa vörð um full­veldi og efna­hags­legt sjálf­stæði lands­ins. Minnt er á að þjóðin reisi til­veru sína, lífs­kjör og lífs­gæði á því að regl­ur alþjóðasam­fé­lags­ins séu virt­ar og viðskipti milli landa séu frjáls og án hindr­ana.

Þessi mál hef­ur ekki borið svona hátt í álykt­un­um flokks­ins í um það bil 30 ár. Raun­ar hef­ur stund­um á þeim ára­tug­um þurft að minna sér­stak­lega á að forðast beri að gleyma þeim þætti við gæslu full­veld­is­ins sem snýr að ytra ör­yggi þjóðar­inn­ar. Nú þurfti enga slíka áminn­ingu. Fund­ar­menn gerðu sér grein fyr­ir ábyrgð sinni. Þar eins og ann­ars staðar áttuðu menn sig á því að við lif­um nú mestu óvissu­tíma í alþjóðleg­um ör­ygg­is­mál­um frá lok­um annarr­ar heims­styrj­ald­ar­inn­ar.

Screenshot-2025-03-08-at-21.49.21Þódís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir flytur ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1, mars 2025 (mynd:xd.is)

Í eft­ir­minni­legri ræðu sagði Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, fyrrv. ut­an­rík­is­ráðherra og frá­far­andi vara­formaður flokks­ins:

„Tími al­vör­unn­ar er runn­inn upp. Tími þegar leiðtog­ar þurfa að vera und­ir­bún­ir til þess að taka stór­ar ákv­arðanir með hraði, en fljót­færni get­ur verið ban­væn. Tími þegar við þurf­um að gæta að sjálf­stæði okk­ar, en þurf­um meira en nokkru sinni fyrr á sam­vinnu við aðrar þjóðir að halda. Tími þar sem þörf er á meiri stjórn­mál­um og minni póli­tík. Tími þar sem við þurf­um að hafa það al­gjör­lega á hreinu að frelsið og sjálf­stæðið er meira virði held­ur en all­ur heims­ins auður.

Já – við gæt­um verið að upp­lifa tíma þar sem það skipt­ir máli að hafa þessa for­gangs­röðun á hreinu. Það get­ur þurft að fórna þæg­ind­um fyr­ir frelsið – og við gæt­um þurft að færa efna­hags­leg­ar fórn­ir fyr­ir frelsið. Það er raun­veru­leiki sem við þurf­um að vera til­bú­in að skilja. En kæru vin­ir – óþæg­indi og fjár­hags­leg­ar fórn­ir kunna á kom­andi árum að verða al­gjör­ir smá­mun­ir í sam­hengi hlut­anna.“

All­ar umræður hér og í ná­granna­lönd­um sýna að þeim fjölg­ar stöðugt sem sjá nú tíma al­vör­unn­ar í ör­ygg­is­mál­um. Þeir sem leggja mat á hætt­ur og ógn­ir í nor­rænu vina­ríkj­un­um eru all­ir á einu máli. Má þar fyrst vitna í nýj­ustu skýrsl­una frá finnsku leyniþjón­ust­unni Supo sem birt­ist 4. mars.

Ein af meg­inniður­stöðum henn­ar er að Rúss­ar geti hafið ófrið gagn­vart öðrum ríkj­um þegar stríðinu í Úkraínu lýk­ur. „Svig­rúmið til hernaðar sem skap­ast hjá Rúss­um þegar stríðinu í Úkraínu lýk­ur geta þeir nýtt sér ann­ars staðar,“ seg­ir í skýrsl­unni. For­stjóri Supo seg­ir: „Rúss­land er árás­ar­gjarnt útþenslu­ríki sem er til­búið til að beita hvaða aðferð sem er til að ná póli­tísk­um mark­miðum sín­um.“

Það er mat leyniþjón­ust­unn­ar að Rúss­ar séu „sem fyrr al­var­leg ógn“ gegn Finn­landi „án þess að sjá megi nokkra breyt­ingu til batnaðar“.

Þarna er bent á að her­gagnaiðnaður Rússa og her­væðing alls rúss­neska sam­fé­lags­ins leiði til þess að sjái Pútín og fé­lag­ar veik­an blett ein­hvers staðar í ná­grenni sínu kunni þeir að freist­ast til að beina víg­vél­inni þangað, fagni þeir sigri í Úkraínu.

Leyniþjón­usta danska hers­ins, For­sva­rets Ef­ter­retn­ing­stjeneste (FE), birti þriðju­dag­inn 11. fe­brú­ar upp­fært mat á hætt­unni sem staf­ar af hernaðarmætti Rússa ef hlé verður á Úkraínu­stríðinu eða því ljúki.

Sér­fræðing­ar í Dan­mörku segja að í nýja mat­inu birt­ist skugga­legri mynd en áður hafi sést. FE hafi til þessa talið að Banda­rík­in gegni mik­il­vægu hlut­verki í NATO. Nú birti leyniþjón­ust­an hins veg­ar sviðsmynd­ir þar sem Banda­rík­in láti ekki að sér kveða ef Rúss­ar reyni að færa út landa­mæri sín. Þá geti þetta gerst:

Staðbundið stríð í ná­grenni Rúss­lands inn­an sex mánaða.

Svæðis­bundið stríð gegn NATO-ríkj­um á Eystra­salts­svæðinu inn­an tveggja ára.

Stór­stríð á meg­in­landi Evr­ópu án þátt­töku Banda­ríkja­manna inn­an fimm ára.

Þrjár norsk­ar ör­ygg­is­stofn­an­ir birtu hættumats­skýrsl­ur sín­ar 5. fe­brú­ar 2025. Meg­inniðurstaða þeirra allra er að „lík­legt“ sé að Rúss­ar reyni að veita Nor­egi högg með skemmd­ar­verk­um í ár og „ástæða sé til að ætla“ að þeim tak­ist það. Norsku stofn­an­irn­ar benda á að ekki eigi að bú­ast við því að rúss­nesk­ir skemmd­ar­verka­menn verði send­ir til að vinna ill­virki. Þau kunni að verða unn­in af ein­stak­ling­um eða sam­tök­um án form­legra tengsla við rúss­nesk­ar njósna­stofn­an­ir. Um sé að ræða málaliða sem fái greiðslur fyr­ir sí­fellt al­var­legri skemmd­ar­verk.

Ástæðulaust er að láta slík­ar viðvar­an­ir ör­ygg­is­stofn­ana í Finn­landi, Dan­mörku og Nor­egi sem vind um eyru þjóta. Íslensk stjórn­völd verða að gæta sín á því að falla ekki í sömu gryfj­una í þessu efni og þau gerðu í út­lend­inga­mál­un­um þar til fyr­ir nokkr­um miss­er­um: að telja sér trú um að eitt­hvað annað eigi við um Ísland en önn­ur lönd í þess­um efn­um.

Það er óhjá­kvæmi­legt að taka ákv­arðanir um að skil­greina hlut­verk land­helg­is­gæslu og lög­reglu á ófriðar­tím­um og í aðdrag­anda þeirra. Fræðimenn í há­skól­an­um á Bif­röst hafa birt niður­stöður at­hug­ana sem sýna það sem oft hef­ur verið nefnt hér, að setja verður skýr­ari ákvæði í lög um stjórn­mála­lega ábyrgð og boðleiðir á hættu- og ófriðar­tím­um. Und­an þessu verður ekki vikist.