4.4.2009

60 ár – Ísland í NATO.

Erindi flutt á hátíðarfundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs í Þjóðmenningarhúsi, 4. apríl, 2009.

 

 

Við komum hér saman í dag til að minnast þess, að 60 ár eru liðin frá því að Atlantshafsbandalagið var stofnað. Þessara merku tímamóta er minnst á verðugan hátt víða um lönd, enda fullt tilefni til miðað árangursríkt starf bandalagsins.

Ég vil þakka Samtökum um vestræna samvinnu og Varðbergi fyrir að standa að því, að efna til þessarar athafnar. Félögin hafa sameinað innan vébanda sinna áhugamenn og stjórnmálamenn, sem hafa í áranna rás og allt frá því að Ísland gerðist stofnaðili bandalagsins, staðið vörð um þennan hornstein utanríkisstefnu Íslands. Verður það starf allt  seint fullþakkað.

Hér í þessum orðum er ætlun mín að bregða ljósi á nokkra atburði í sögu NATO og aðildar Íslands að bandalaginu. Vissulega er af mörgu að taka, því að saga samstarfs aðildarþjóða Atlantshafsbandalagsins er í raun einn merkasti og bjartasti kaflinn í heimssögunni frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Markmið bandalagsins var að sameina krafta frjálsra lýðræðisríkja í andstöðu við heimsvaldastefnu kommúnista, sem var mótuð í Moskvu og hrundið í framkvæmd með vígbúnaði Sovétríkjanna og pólitískri íhlutun um heim allan.  Atlantshafsbandalagið hafði fyrir tuttugu árum fullan sigur í þessari baráttu.

Aðildarríki bandalagsins töldu hins vegar nauðsynlegt að halda sameiginlegri varðstöðu sinni áfram, þrátt fyrir hinn friðsamlega sigur. Á undanförnum tveimur áratugum hefur Atlantshafsbandalagið tekið stakkaskiptum. Bandalagsríkjum hefur fjölgað með þátttöku þjóða, sem áður lutu einræði kommúnista, og NATO lætur að sér kveða í hernaðarátökum og nægir að nefna Afganistan því til staðfestingar.

Á tímum kalda stríðsins hefði aldrei komið til álita við val á framkvæmdastjóra NATO að láta niðurstöðu ríkisstjórna aðildarþjóðanna ráðast af afstöðu Kremlverja.  Nú berast hins vegar fréttir um, að Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, eigi undir högg að sækja sem hugsanlegur framkvæmdastjóri vegna andstöðu ríkisstjórna múslima.

Sérhver ríkisstjórn hefur neitunarvald innan NATO. Að þessu leyti sker bandalagið sig frá Evrópusambandinu, svo að dæmi sé tekið, þar sem ákvarðanir meirihluta geta bundið minnihluta í einstökum málum.

Eðlilegt er, að því sé velt fyrir sér, hvers vegna danski forsætisráðherrann sætir þessari andstöðu. Svarið er bæði einfalt og flókið. Einfalt vegna þess að hann vildi ekki sætta sig við kröfur um ritskoðun og afskipti eigin ríkisstjórnar af prentfrelsinu. Flókið vegna þess, hve erfitt er fyrir okkur frjálshuga Vesturlandabúa að skilja heiftina og vægðarlausar kröfur   í okkar garð, þegar um er að ræða varðveislu sjálfsagðra gilda.

Bandaríski fræðimaðurinn Samuel Huntington, sem er nýlátinn, ritaði skömmu eftir fall Sovétríkjanna  bók um átök milli ólíkra menningarheima. Þar dró hann upp þá mynd, að undan helfrosti kommúnismans kæmi nýr heimur með nýjar átakalínur, sem ættu sér dýpri sögulegar og þjóðernislegar rætur en tekist hefði að afmá með atlögu kommúnista. Hvort sem menn fallast á kenningar Huntingtons eða ekki, er hitt staðreynd, að spenna og undirrót átaka í heiminum hafa ekki horfið og eru annars eðlis en áður.

Atlantshafsbandalagið hefur dregist inn í þessi átök. Í sextíu ára sögu bandalagsins hefur aðeins einu sinni verið gripið til þess ráðs að virkja kjarnagreinina í sáttmála þess um að árás á eitt aðildarríki sé árás á þau öll og þeim beri að grípa til ráðstafana til að vernda hið sameiginlega öryggi. Þetta var gert eftir árásina á Bandaríkin, New York og Washington, 11. september 2001.

Upplausn Júgóslavíu á tíunda áratug síðustu aldar og blóðug átök í landinu leiddu til loftárása undir handarjaðri NATO en í mars 1999, fyrir réttum 10 árum, var herafla í fyrsta sinni beitt í árás undir merkjum NATO. Þá hafði Slobodan Milosevic, forseti Júgóslavíu, neitað Kosovo um sjálfstæði en um 90 af hundraði  tveggja milljóna manna í héraðinu voru af albönskum ættum og sættu afarkostum af hálfu Serba. Hrakti NATO Milosevic og menn hans á brott og nú er Kosovo orðið sjálfstætt ríki, eins og vitað er.

Í ágúst 2003 lét NATO síðan í fyrsta sinn að sér kveða utan Evrópu og Atlantshafssvæðisins,  þegar bandalagið tók að sér að stjórna ISAF, alþjóða öryggis- og aðstoðarliðinu í Afganistan, sem starfar í umboði Sameinuðu þjóðanna.

Í upphafi voru um 5000 menn undir stjórn NATO í Afganistan en eru nú um 60.000 frá 42 löndum, þar á meðal  26 aðildarríkjum NATO.  Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur ákveðið að fjölga bandarískum hermönnum  í Afganistan í von um, að meiri árangur náist í átökum við talibana og aðra ófriðarseggi þar.

Átökin í Afganistan eru bein afleiðing árásarinnar á Bandaríkin í september 2001. Um þær mundir ríkti stjórnarfarsleg upplausn í Afganistan og þar voru bækistöðvar hryðjuverkamanna, sem sögðu allri heimsbyggðinni stríð á hendur.

Þótt ekki hafi tekist að tryggja frið í Afganistan og þróun mála í næsta nágrannaríki þess, kjarnorkuveldinu Pakistan, valdi áhyggjum, má segja, að verulegur árangur hafi náðst með því að splundra hnattrænu neti hryðjuverkamanna, að minnsta kosti um sinn.

Nú láta hryðjuverkamenn einkum að sér kveða í Pakistan eða meðal nágranna þeirra, eins og árásin á Mumbai fyrir skömmu sýndi. Á Vesturlöndum býst herafli ekki til átaka við landamæri ríkja, enda ekki taldar neinar líkur á innrás í hefðbundnum skilningi þess orð.  Öryggi almennra borgara er ógnað af innlendum öfgamönnum, ef svo má segja. Má þar nefna múslíma af annarri kynslóð, sem ganga öfgatrúahreyfingum á hönd og snúast gegn eigin heimalandi.  Eru nokkur dæmi um það í næstu nágrannaríkjum okkar, Bretlandi og Danmörku, auk þess sem sannað er, að árásin í september 2001 var að nokkru skipulögð frá Þýskalandi.

Á tímum kalda stríðsins var auðveldara að átta sig á átakalínum í orðsins fyllstu merkingu en nú.  Orð Churchills um járntjaldið, sem skipti Evrópu milli austurs og vesturs, urðu ljóslifandi, þegar múrinn var reistur í Berlín í ágúst 1961.

Um miðjan sjöunda áratuginn og undir lok hans tóku Sovétmenn að láta að sér kveða á  Norður-Atlantshafi bæði með skipum og flugvélum. Um svipað leyti og Íslendingar buðu í fyrsta sinn til utanríkisráðherrafundar NATO hér á landi sumarið 1968, birti bandalagið kort, þar sem sýnt var hvernig sókn sovéska flotans og flughersins hafði aukist ár frá ári.

Er líklegt, að mörgum hafi brugðið við að sjá þessi kort. Þau sýndu meðal annars ferðir umhverfis Ísland. Þó hitti þetta Íslendinga ekki fyrir á sama hátt og aðrar þjóðir, því að þeir litu þannig á þá eins og þeir gera enn þann dag í dag, að það sé hlutverk annarra en þeirra að halda úti herafla til að tryggja öryggi á Norður-Atlantshafi og sjá þannig til þess, að evrópskt meginlandsveldi leggi það ekki undir sig.

Þegar Þjóðverjar vildu ná tangarhaldi á Íslandi í seinni heimsstyrjöldinni til að hafa stjórn á siglingaleiðinni yfir Norður-Atlantshaf, ákváðu Bretar að hernema Ísland í maí 1940. Sumarið 1941 leystu Bandaríkjamenn þá af hólmi með þríhliða samningi, þar sem ríkisstjórn Íslands varð einn samningsaðila og lét þar með af hlutleysi sínu, sem skrifað var í sambandslagasáttmálann frá 1918.

Að lokinni heimsstyrjöldinni ólu Íslendingar með sér þá von, að þeir gætu aftur horfið til hlutleysis og látið fjarlægð sína frá öðrum löndum duga til að tryggja sér landvarnir.

Hervæðing Sovétríkjanna, þegar Vesturveldin afvopnuðust samhliða valdaráni kommúnista í Austur-Evrópu, kveikti á hinn bóginn ótta í brjóstum frjálshuga manna, sem ákváðu að taka höndum saman og stofna Atlantsbandalagið í Washington 4. apríl 1949.

Íslensk stjórnvöld höfðu ekki nema nokkra mánuði til að taka ákvörðun um, hvort þau yrðu meðal tólf stofnaðila bandalagsins eða ekki.  Er ekki nokkur vafi á því, að afstaða Norðmanna og ekki síst Halvards Lange, utanríkisráðherra þeirra, hafði mikil áhrif á utanríkisráðherra Íslands.

Þegar litið er á landakortið og metin reynslan af síðari heimsstyrjöldinni, blasir við, að NATO hefði aldrei náð þeim tilgangi sínum að brúa bilið milli Evrópu og Norður-Ameríku í varnar- og öryggismálum, ef  Ísland hefði ekki slegist í hópinn. 

Þótt Íslendingar og bandamenn þeirra hefðu talið stöðuna þannig fyrri hluta árs 1949, að ekki þyrfti að gera sérstakar hernaðarlegar ráðstafanir til að tryggja varnir Íslands með viðbúnaði í landinu sjálfu, breyttist matið, eftir að stríð hófst á Kóreuskaga árið 1950. 

NATO ákvað að koma á fót sameiginlegri herstjórn og tengja herafla Bandaríkjanna og Evrópuþjóða á sýnilegan og skipulegan hátt. Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá því í maí 1951 var liður í hinu nýja hernaðarskipulagi bandalagsins fyrir utan að veita Íslandi hina öflugustu vörn, sem fyrir hendi var.

Kortin, sem NATO birti fyrir 40 árum, um ný umsvif  Sovétmanna á Norður-Atlantshafi voru aðeins vísbending um það, sem í vændum var. Norskir sérfræðingar tóku til við að ræða þessa þróun á alþjóðavettvangi og draga athygli áhrifamanna í öryggismálum meðal aðildarríkja NATO að henni.

Ákvörðun ríkisstjórnar Íslands eftir kosningar 1971 um að vinna að brottför bandaríska varnarliðsins héðan gekk þvert á herfræðilegt mat á því, sem væri í vændum í næsta nágrenni Íslands. Ákvörðunin kallaði einnig á skipulagt andsvar heima fyrir, þegar hópur manna tók höndum saman snemma árs 1974  undir kjörorðinu Varið land og safnaði 55.522 undirskriftum undir áskorun gegn brottför varnarliðsins.

Hinn mikli stuðningur við varnarsamstarfið, sem birtist í góðum  árangri Varins lands batt enda á tilraunir íslenskra stjórnmálamanna til að reka varnarliðið úr landi.  Við upphaf níunda áratugarins hófst endurnýjun alls búnaðar varnarliðsins og hingað kom fullkomnasti tækjakostur Bandaríkjanna til að fylgjast með hernaðarlegri umferð skipa og flugvéla. Ráðist var í smíði ratsjárstöðva og heitar umræður  urðu um það, hvort leggja ætti hernaðarlegan varaflugvöll í Aðaldal skammt frá Húsavík.

Ástæðan fyrir þessari hervæðingu var skýr og einföld. Sovéski flotinn og flugherinn juku jafnt og þétt umsvif sín í nágrenni Íslands og urðu ferðir sovéskra hervéla flestar árið 1985.

Á sama tíma og þetta gerðist hér voru heitar deilur á meginlandi Evrópu og í Bretlandi um hina svonefndu tvíþættu ákvörðun NATO-ríkjanna, sem tekin var árið 1979, að frumkvæði Helmuts Schmidts, kanslara Vestur-Þýskalands, og snerist um svar bandalagsþjóðanna við meðaldrægum kjarnorkuflaugum Sovétmanna í Evrópu, svonefndum SS-20 flaugum.

Hin tvíþætta ákvörðun fólst í því, að meðaldrægar bandarískar kjarnorkueldflaugar yrðu settar upp á meginlandinu og í Bretlandi, en þær yrðu fjarlægðar, ef Sovétmenn samþykktu að uppræta eigin SS-20 flaugar.

Vegna þessarar ákvörðunar ríkisstjórna NATO-ríkjanna hófst mikil barátta gegn henni víða í Evrópu en þó einkum í Vestur-Þýskalandi og Bretlandi. Svonefnd friðarhreyfing gegn kjarnorkuvopnum lét verulega að sér kveða, mótmælagöngur voru tíðar og hvers kyns aðrar mótmælaaðgerðir. Þá var því haldið fram, að sovéska áróðursvélin, sem hafði búið um sig á Vesturlöndum, stæði að baki þessum andróðri til þess að fallið yrði frá því, að setja upp hinar bandarísku kjarnaflaugar í Evrópu og sovéska einokunin á slíkum vopnabúnaði í álfunni festi rætur og þar með áhrifamátturinn, sem SS-20 flaugunum fylgdi.

Þótt herstöðvaandstæðingar hér á landi og aðrir málsvarar sovéskra hagsmuna hefðu löngum látið að sér kveða í íslenskum stjórnmálum, var eftirtektarvert, að á þessum árum áróðursstríðsins um meðaldrægu eldflaugarnar, máttu þeir sín næsta lítils hér á landi. Á alþingi voru að vísu fluttar tillögur um Norðurlöndin sem kjarnorkuvopnalaust svæði eða friðlýsingu Íslands á sama tíma og bandaríska varnarliðið jók umsvif sín í landinu með nýjum tækjakosti og endurnýjun húsakosts.

Löngum var því haldið fram af Sovétmönnum og herstöðvaandstæðingum hér, að kjarnorkuvopn leyndust í Keflavíkurstöðinni. Í sovéskum áróðri var hin tilbúna fullyrðing um falin kjarnorkuvopn hér á landi notuð sem átylla til að hóta Íslendingum með kjarnorkuárás. Var og er í raun furðulegt, að nokkrum Íslendingi skyldi þykja sér sæma að taka undir þessar ásakanir um földu kjarnorkuvopnin og leggja þar með þessum ódulbúnu hótunum í garð lands og þjóðar lið.

Eftir brottför bandaríska varnarliðsins héðan hefur ekkert komið í ljós til marks um, að kjarnorkuvopn hafi verið falin í Keflavíkurstöðinni. Raunar má nefna það sem dæmi um hve langt var gengið í þessu kjarnorkutali, að því var haldið fram, að Bandaríkjamenn, sem komu að því að fjármagna flugstöð Leifs Eiríkssonar, vildu hafa hana óþarflega stóra til að setja kjarnorkuvopn í kjallara hennar eða nota hana fyrir það, sem nefnt var „heilinn“ í kjarnorkustríði við Sovétmenn í norðurhöfum.

Fullyrðingunni um „heilann“ var slegið fram, eftir Ronald Reagan, Bandaríkjaforseti, mótaði bandaríska flotanum nýja stefnu um miðjan níunda áratuginn. Fólst hún í því, að bandarískir kafbátar og herskip skyldu sækja eins langt norður fyrir Ísland og þau gætu og snúast þar til orrustu við sovéska kafbáta, skip og flugvélar frá Kóla-skaganum.  Stefnan var umdeild eins og margar róttækar ákvarðanir Reagans gagnvart Sovétríkjunum. Hann fylgdi tvíþættu eldflaugasamþykktinni fram af þunga og sagðist vilja semja við Kremlverja um afvopnun, ef framkvæmd samninganna yrði tryggð með eftirliti.

Mikhaíl Gorbatsjov, forseti Sovétríkjanna, og Reagan hittust á frægum fundi í Höfða í október 1986 til að ræða afvopnunarmál. Þar var rætt í alvöru um upprætingu allra kjarnorkuvopna en ekkert samkomulag náðist, þar sem Gorbatsjov setti fram þá ófrávíkjanlegu kröfu, að Reagan félli frá áformum um eldflaugavarnir, en þau voru gjarnan nefnd „stjörnustríðsáætlun“ Reagans.  Þegar Reagan hafnaði kröfu Gorbatsjovs, lá einnig ljóst fyrir, að Sovétmenn gætu ekki haldið í við Bandaríkjamenn í vígbúnaðarkapphlaupinu. Átti þetta meiri þátt í falli Sovétríkjanna en nýir stjórnarhættir í tíð Gorbatsjovs.

Á þessum árum var jafnan látið að því liggja í hvert sinn, sem leiðtogar NATO-ríkjanna komu saman til fundar, að þeir glímdu við að brúa bil á milli sjónarmiða  Evrópuríkja annars vegar og Bandaríkjanna hins vegar.  Vissulega voru ríkin ekki alltaf sammála og forsetar Bandaríkjanna tóku oft ákvarðanir, sem ollu vandræðum í Evrópuríkjum.

Við Íslendingar áttum í hörðum deilum við Breta og Þjóðverja vegna fiskveiðilögsögunnar og útfærslu hennar. Þrisvar sinnum sendu Bretar herskip á Íslandsmið til að verja ólögmætar veiðar breskra togara. Í öll skiptin var leitast við að beina reiði vegna framgöngu Breta í andúð gegn NATO og bandaríska varnarliðinu.

Í síðustu deilunni um 200 mílurnar var krafan um að kalla sendiherra Íslands hjá NATO heim mjög hávær, en við henni var ekki orðið og þess í stað slitið stjórnmálasambandi við Breta. Aðild okkar að bandalaginu og kynning á málstað okkar þar stuðlaði að því, að samningar náðust að lokum og Íslendingar fengu full yfirráð yfir þessari lífsbjörg sinni.

Deilur hér heima fyrir um þátttökuna í NATO hafa verið miklar frá því að árásin var gerð á alþingishúsið 30. mars 1949, þegar þingmenn samþykktu aðildina. Ágreiningurinn snerist um, hvar Ísland ætti að skipa sér í samfélagi þjóðanna. Hvort Íslendingar vildu vera í liði með vestrænum lýðræðisríkjum eða halla sér að Sovétríkjunum.

Á þetta reyndi oft á afgerandi hátt, en segja má, að einskonar jafnvægi hafi skapast í samskiptum Íslands og Sovétríkjanna strax á fyrstu árum sjötta áratugarins, þegar samið var um sölu á fiski þangað og kaup á eldsneyti þaðan. Þá sneru íslensk stjórnvöld sér austur á bóginn, þegar Bretar beittu löndunarbanni á fisk í fyrstu fiskveiðideilunni, eftir að Íslendingar hlutu sjálfstæði.

Sovétviðskiptin voru alla tíð síðan snar þáttur í umræðum Íslendinga um utanríkismál og stöðu Íslands  á alþjóðavettvangi.

Málsvarar sovétviðskiptanna töldu oft nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar í yfirlýsingum og framgöngu gagnvart Sovétríkjunum. Að öðrum kosti kynni markaður þar að lokast eða draga úr flutningi á olíu og bensíni til landsins. Aðrir bentu á, að í skjóli viðskiptanna kæmu Sovétmenn ár sinni of vel fyrir borð hér á landi. Þeir héldu úti alltof stóru sendiráði, þar sem að minnsta kosti þriðjungur starfsmanna væru njósnarar.

Menningarlíf Íslands fór ekki varhluta af deilunum um afstöðuna til Sovétríkjanna og NATO. Til sögunnar komu „rauðir pennar“, sem mærðu stjórnarhætti kommúnista. Verður sú saga öll ekki rakin hér.

Vladimir Ashkenazy leitaði eftir íslenskum ríkisborgararétti á sjöunda áratugnum, þegar hann ákvað að flýja frá Sovétríkjunum. Í upphafi áttunda áratugarins töldu ýmsir það óhæfilega ögrun við Kremlverja, þegar hópur Íslendinga tók sér fyrir hendur að berjast fyrir því, að faðir Ashkenazys fengi að heimsækja son sinn hér á landi.

Þetta var þó á svonefndu slökunarskeiði í samskiptum austurs og vesturs, þegar lagt var kapp á að nálgast Sovétmenn með rökum sátta og vinsemdar samhliða varðstöðu um mannréttindi. Helsinki-samþykktin frá 1975 endurspeglar andrúmsloft þessara ára en hún féll að þeirri stefnu NATO, að slökun í samskiptum austurs og vesturs og öflugar varnir ættu samleið.

SS-20 flaugarnar bundu enda á slökunartímann og spennunni lauk ekki að nýju fyrr en Berlínarmúrinn féll í nóvember 1989.

Allt frá upphafi Atlantshafsbandalagsins hafa Bandaríkin verið þar forystuþjóð, hernaðarmáttur þeirra og kjarnorkuherafli hefur verið þungamiðjan í styrk bandalagsins og varnarkerfi þess. 

Vestur-Þýskaland varð ekki meðal stofnríkja NATO og gerðist ekki aðili fyrr en árið 1955 en í aðdraganda þess hafði verið gerð tilraun til að stofna sameiginlegan evrópskan herafla. Hún var gerð að frumkvæði Frakka en sú tilraun  rann út í sandinn. Hins vegar þróaðist kola- og stálsambandið, sem stofnað var til að tengja efnahagslíf  Þjóðverja og Frakka og draga úr líkum á nýjum ófriði milli þjóðanna, yfir í Efnahagsbandalag Evrópu og kom það til sögunnar árið 1957.

Charles De Gaulle, Frakklandsforseti, hafnaði aðild Breta að efnahagsbandalaginu í upphafi sjöunda áratugarins og þá var einnig fyrst rætt um, hvort Íslendingar ættu að slást í hóp aðildarríkja að bandalaginu. Svo varð þó ekki og Íslendingar urðu ekki heldur aðilar að hinum ríkjahópnum, EFTA, sem myndaðist um fríverslun í Evrópu, fyrr en árið 1970.

De Gaulle lét sér ekki nægja að segja nei við Breta heldur ákvað hann árið 1966 að segja Frakka frá hernaðarlegu samstarfi innan NATO og  reka höfuðstöðvar bandalagsins frá París og voru þær þá fluttar í byggingar belgíska flughersins í úthverfi Brussel, þar sem þær eru enn. Má segja, að einingum hafi verið bætt við lágreistan húsakost bandalagsins eftir því sem aðildarríkjunum hefur fjölgað, en nú á afmælisfundi NATO bætast Albanía og Króatía í hópinn og verða þau þá alls 28.

Í lok sjöunda áratugarins var töluverð spenna innan NATO vegna valdatöku herforingja í Grikklandi og stríðs Bandaríkjanna í Víetnam. Frægt hefur orðið hér á landi, að lögreglan í Reykjavík óskaði eftir heimild til símahlerana í tengslum við utanríkisráðherrafund NATO  sumarið 1968 af ótta við pólitískar óeirðir vegna fundarins meðal annars með þátttöku grískra útlaga.

Nú dregur enginn í efa, að lýðræðislegir stjórnarhættir ráða í öllum aðildarríkjum bandalagsins. Raunar hefur það orðið einskonar gæðastimpill á stjórnarfar hjá Evrópuþjóðum, sem hafa losnað undan einræðisherrum, að fá aðild að NATO. Með henni á til dæmis að vera tryggt, að herafli viðkomandi ríkja lúti borgaralegri yfirstjórn.

Í áranna rás hefur oft reynt á innviði NATO vegna atburða á vettvangi alþjóðastjórnmála. Aldrei hefur þó tekist að reka fleyg í samstarfið og á 60 ára ferli bandalagsins hefur engin þjóð sagt sig úr því. Nú síðast hefur það á hinn bóginn gerst, að Frakkar hafa að nýju hafið þátttöku í hernaðarlegu samstarfi og herstjórnum innan NATO. Einangrunarstefnu De Gaulles gagnvart NATO hefur verið hafnað af Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseta, rúmum 40 árum, eftir að henni var hrundið í framkvæmd.

Íslendingar sátu utan hermálanefndar NATO og töldu sig ekki eiga þangað erindi, herlaus þjóðin. Þetta breyttist í tíð Geirs Hallgrímssonar sem utanríkisráðherra um miðjan níunda áratuginn. Þá sótti sendiherra Íslands einnig í fyrsta sinn fund í kjarnorkuáætlananefnd bandalagsins.

Hér hefur lengst af verið treyst á mat annarra og þá einkum Bandaríkjastjórnar á þeim hættum, sem steðjuðu að öryggi þjóðarinnar.  Sjálfstæð rannsóknarstarfsemi í öryggismálum hefur ekki fest hér rætur.  Oftar en einu sinni hafa stjórnvöld þó beitt sér fyrir athugunum á eigin vegum.

Undir lok viðreisnaráratugarins ræddi Bjarni Benediktsson forsætisráðherra við Alistair Buchan, forstjóra  Alþjóðahermálastofnunarinnar í London, og með aðstoð hans var fenginn kanadískur sérfræðingur til að leggja mat á öryggishagsmuni Íslands.

Vinstri stjórnin, sem tók við af viðreisnarstjórninni, fékk Åke Sparring, sænskan öryggismálafræðing, til að skrifa skýrslu um öryggismál Íslands og var hún gefin út á sænsku.

Í upphafi áttunda áratugarins beitti Johan Jörgen Holst, helsti öryggismálasérfræðingur Norðmanna og síðar varnarmálaráðherra og utanríkisráðherra, sér fyrir þátttöku Íslendinga í norrænum og alþjóðlegum ráðstefnum um þróun öryggismála á Norður-Atlantshafi og voru gefnar út nokkrar bækur með ritgerðum um það efni.

Öryggismálanefnd var stofnuð hér á landi með vísan til stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar árið 1978 og var Benedikt Gröndal, utanríkisráðherra og síðar forsætisráðherra, höfundur þeirrar tillögu. Nefndin starfaði til ársins 1991 undir formennsku Björgvins Vilmundarsonar bankastjóra, sem jafnframt var virkur félagi og stjórnarmaður í Samtökum um vestræna samvinnu. Með nefndinni tengdist Ísland fjölþjóðlegum rannsókna- og fræðaheimi á þessu sviði, en þeir Gunnar Gunnarsson og Albert Jónsson, sem báðir urðu síðar sendiherrar, leiddu fræðilegt starf á vegum nefndarinnar.

Eftir hrun Sovétríkjanna í upphafi tíunda áratugarins setti ríkisstjórn Davíðs Oddssonar á laggirnar nefnd stjórnmálamanna úr Alþýðuflokki og Sjálfstæðisflokki og embættismanna til að leggja mat á áhrif  breytinga í alþjóðastjórnmálum á öryggishagsmuni Íslands. Nefndin birti skýrslu í mars 1993.

Þá hefur utanríkisráðuneytið láti gera hættumat og lauk því með skýrslu 1999 og einnig nú í mars 2009, þegar fjölmenn nefnd undir formennsku Vals Ingmundarsonar, prófessors, skilaði áhættumatsskýrslu fyrir Ísland, þar sem rætt er um hnattræna, samfélagslega og hernaðarlega þætti.

Innan Háskóla Íslands hafa fræðimenn látið sig öryggismál varða en einkum frá stjórnmálafræðilegum og sagnfræðilegum sjónarhóli.  Þess hefur gætt, að herfræðilegar rannsóknir kunni að vera hættulegar í sjálfu sér eða fyrir neðan það, sem Íslendingum beri að sinna.

Hvað sem slíkri afstöðu líður verða Íslendingar að taka mið af hnattstöðu eigin lands, hún breytist ekki, hvernig sem stjórnmálavindar blása.

Atlantshafsbandalagið hefur orðið að laga sig að breyttri heimsmynd og nýju hernaðarlegu mati. Við hrun kommúnismans töldu margir, að bandalagið hefði runnið sitt skeið. Á utanríkisráðherrafundi NATO í Reykjavík 2002 var ákveðið, að bandalagið skyldi láta að sér kveða við hvers konar hættu og hvar sem er, ógnaði hún öryggi bandalagsþjóðanna. Nú stjórnar NATO hernaði í Afganistan. Heldur úti skipum undan strönd Sómalíu til að verjast sjóræningjum og flotadeild undir merkjum NATO er við landamæragæslu á Miðjarðarhafi til að aftra flóttafólki frá Afríku að komast til Evrópu.

Á leiðtogafundi NATO í tilefni 60 ára afmælisins er hrundið af stað endurskoðun á hernaðar- og varnarstefnu  bandalagsins  frá 1999. Við endurskoðunina verður spurt, hve langt bandalagið eigi að ganga í þá átt að verða virkur þátttakandi í borgaralegum aðgerðum við endurreisn ríkja á borð við Afganistan.

Þá munu enn vakna deilur um verkskil milli NATO og annarra alþjóðastofnana.  Meðal annars verður spurt, hvort NATO eigi að verða smækkuð útgáfa af Sameinuðu þjóðunum og þá hvers vegna. Eða hvort NATO eigi að skerpa enn frekar skilin milli sín og Evrópusambandsins í utanríkis- og öryggismálum, en þessi skil eru óljós í mörgu tilliti.

Eftir hrun Sovétríkjanna bundu margir vonir við, að Rússar myndu laga sig að meginstraumum í stjórnmálum og öryggismálum Evrópu. Hið gagnstæða hefur gerst og æ betur skýrist, að rússnesk stjórnvöld hafa vaxandi óbeit á samstarfi ríkja undir merkjum NATO. Birtist hún í mörgu og þó hvað skýrast í andstöðu við stækkun bandalagsins með aðild Úkraínu og Georgíu. Þá eru Kremlverjar enn sömu skoðunar og Gorbatsjov í Höfða árið 1986, að Bandaríkjamenn megi ekki eignast eldflaugavarnir í Evrópu.

Hvort tekst að endurstilla samskiptin við Rússa eftir innrás þeirra í Georgíu í ágúst 2008 eins og Barack Obama, Bandaríkjaforseti, vill er enn óljóst. Hitt er skýrt, að það er undir Rússum einum komið, hvernig þeir vilja haga samskiptum sínum við nágranna sína í Evrópu eða Bandaríkjamenn.

Með hlýnun jarðar og bráðnun íshellunnar á Norður-Íshafi eru hugmyndir manna um þróun mála á norðurslóðum að breytast. Rússar hafa til dæmis ákveðið að leggja höfuðkapp á að byggja upp norðurskautsherafla til tryggja hagsmuni sína á þessum slóðum sem best. Bandaríkjamenn, Kanadamen, Danir og Norðmenn, sem eiga auk Rússa, land að Norður-Íshafi hafa mótað nýja stefnu um auðlindir, yfirráð og siglingar. Evrópusambandið hefur einnig nýlega kynnt norðurskautsstefnu sína.

Við brottför bandaríska varnarliðsins héðan í september 2006 var haft eftir embættismanni hjá NATO, að Ísland væri komið á hjara í hernaðarlegu tilliti.  Hafi þetta verið rétt þá, hafa vindar blásið á annan veg síðan. Ísland er ekki lengur á þessum hjara. Hin miklu umskipti á Norður-Íshafi breyta matinu á gildi hnattstöðunnar.

Í þessu ljósi er ákvörðun Bandaríkjamanna að loka Keflavíkurstöðinni skammsýn og ill skiljanleg. Innan við ár leið frá því, að Bandaríkjamenn fóru héðan, þar til Rússar hófu að senda sprengjuflugvélar að nýju reglulega út á Norður-Atlantshaf.  Hér endurtekur sagan sig enn, því að nýju birtast kort á borð við þau, sem við sáum fyrst fyrir 40 árum um ferðir vígdreka frá Rússlandi umhverfis Ísland.

Að ósk íslenskra stjórnvalda hefur herstjórn NATO brugðist við með loftrýmiseftiriliti frá Íslandi og er það stundað með þátttöku íslenskra stjórnvalda og að nokkru á kostnað Íslendinga. 

Norður-Atlantshafsbandalagið, eins og NATO heitir fullu nafni, stendur ekki undir þessu nafni gleymi það gæslu öryggis á því svæði, sem gefur bandalaginu nafn, þótt verkefni séu brýn annars staðar jafnvel í fjarlægum heimsálfum.

Góðir áheyrendur!

Sagan endurtekur sig og hnattstaðan er hin sama. Rússar vilja ekki friðmælast við NATO, mæla gegn stækkun þess og halda í andstöðu við eldflaugavarnir. Þeir líta á Norður-Íshaf og leiðir til og frá því sem forgangsmál í hernaðarlegu tilliti vegna mikilla auðlinda. Dustað er rykið af 40 ára gömlum kortum um stigvaxandi sókn Rússa út á Norður-Atlantshaf. Þjóðir á norðurvæng NATO eru einnig teknar til við að minna á sig og hvað hér er að gerast í hernaðarlegu tilliti. Í lok janúar efndu íslensk stjórnvöld til málþings í samvinnu við NATO um gæslu öryggis á norðurslóðum.

Ríkisstjórnir Norðurlanda fjalla nú um skýrslu eftir Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi ráðherra í Noregi, um norrænt samstarf í öryggis- og varnarmálum vegna breyttra aðstæðna á norðurslóðum. Þar er meðal annars hvatt til þess, að Finnar og Svíar, þjóðir utan NATO, komi að loftrýmiseftirliti á Norður-Atlantshafi í samvinnu við NATO.

Með þetta allt í huga ber að skoða 60 ára sögu NATO og leggja rækt við hana. Læri menn ekki af reynslunni, er veruleg hætta á því, að þeir verði að takast á við sömu erfiðleika og forfeður þeirra.  Sé ekki dreginn réttur lærdómur af sögu Atlantshafsbandalagsins er sjálfur heimsfriðurinn í húfi.

Íslendingum er áfram fyrir bestu að eiga aðild að Atlantsbandalaginu og stuðla áfram að náinni samvinnu ríkja Evrópu og Norður-Ameríku í öryggismálum.

Á Íslandi á áfram að vera aðstaða fyrir NATO-ríki og samstarfsþjóðir þeirra til að halda úti öllu nauðsynlegu eftirliti, svo að enginn efist um, að Norður-Atlantshaf og Noregshaf lúti forsjá þessara ríkja í öryggis- og varnarmálum.

Undir merkjum Landhelgisgæslu Íslands eiga Íslendingar að leggja fram sinn skerf við gæslu borgaralegs öryggis á hafinu við Ísland og vegna siglinga og nýtingar á Norður-Íshafi.

Áfram ber að nýta vettvang Atlantshafsbandalagsins til gæta mikilvægra pólitískra hagsmuna Íslands. Þar á til dæmis að mótmæla hinni dæmalausu ósvífni bresku ríkisstjórnarinnar að beita Íslendinga hryðjuverkalögum vegna bankahruns á heimsvísu.

Íslendingar stóðu rétt að málum með því að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Þess vegna komum við hér saman í dag og fögnum þessum tímamótum af stolti.

Látum raunsæi og festu ráða áfram mótun stefnu þjóðarinnar í öryggismálum. Sé það gert er ekkert að óttast.