18.12.2003

Veik forysta leiðir til skuldasöfnunar.

Borgarstjórnarfundur 18. desember, 2003.

 

 

 

 

Fyrir mig var sérstaklega lærdómsríkt í upphafi starfs míns sem borgarfulltrúi að fá tækifæri til setu í stjórnkerfisnefnd borgarinnar. Ekki síst var þetta mikilvægt vegna þess, að í kosningabaráttunni vorið 2002 hafði R-listinn gengið fram undir þeim merkjum, að gripið skyldi til sérstakra aðgerða í því skyni að efla samskipti við borgarbúa og fara inn á nýjar brautir með svonefndri hverfavæðingu. En snemma árs 2002 voru starfsreglur þessara ráða samþykkt og skyldi starfsemi þeirra hrundið í framkvæmd á nýju kjörtímabili.

 

Meðal fyrstu verkefna okkar í stjórnkerfisnefndinni var að fara í kynnisferð til Bergen, Ósló, Stokkhólms og Kaupmannahafnar síðsumars 2002. Lærðum við mikið af þeirri ferð og sáum þar, að annað hvort yrði að gjörbylta öllu stjórnkerfi borgarinnar og færa pólitískt vald út til hverfanna eða halda stjórnkerfinu óbreyttu. Hverfastjórn án pólitísks umboðs, sem markað væri í landslögum, væri í raun ekki annað en samráðsvettvangur, þar sem menn kæmu saman til skrafs og ráðagerða.

 

Eftir heimkomu mótaði stjórnkerfisnefnd tillögur um breytingar á starfsreglum hverfaráðanna og einnig á landamerkjum þeirra innan borgarmarkanna. Voru þessar breytingar samþykktar í góðri sátt hér í borgarstjórn og eru komnar til framkvæmda.

 

Ljóst er að hverfaráðin í Reykjavík eru samráðsvettvangur án pólitísks valds. Til að þau fái slíkt vald er nauðsynlegt að breyta sveitarstjórnarlögum. Aðeins í grunnskólalögum er að finna lagaheimild til að færa pólitískt vald á verksviði borgarstjórnar út í hverfi Reykjavíkur, því að þar er heimild til að skipta Reykjavík í fleiri en eitt skólahverfi og höfum við sjálfstæðismenn flutt tillögu um, að það verði gert og er enn beðið eftir, að umsagnarferli um hana innan borgarkerfisins ljúki á grundvelli samþykktar borgarstjórnar.

 

Innan stjórnkerfisnefndar var ákveðið, að áfram skyldi litið til hverfavæðingar innan stjórnkerfis borgarinnar. Var þá einkum hugað að reynslunni af Miðgarði í Grafarvogi. Nú sit ég ekki lengur í stjórnkerfisnefnd en af lestri fundargerða og annarra gagna, sem ég hef aflað mér um framgang þessara mála, sýnist mér þau vera komin í blindgötu. Endurtek ég það, sem ég hef áður sagt, hugmyndafræðin um greiðar götur hefur leitt okkur út í ógöngur.

 

Ég tel brýnt að vekja máls á þessu hér við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2004, því að ég er sannfærður um, að verði haldið áfram á þessari sömu braut muni það leiða til útgjaldaauka fyrir borgarsjóð. Þess vegna er nauðsynlegt að sýna mikla fyrirhyggju í þessu máli.

 

Í stjórnkerfisnefnd benti ég ítrekað á nauðsyn þess, að fyrst áttuðu menn sig á kostnaðinum við aukna hverfavæðingu þjónustuþátta borgarinnar og leggðu síðan mat á, hvort kostnaðurinn réttlætti þessa uppstokkun á öllum meginþáttum í allri stjórnsýslu borgarinnar.

 

Því miður sé ég engin merki um neitt kostnaðarmat vegna þessa. Á hinn bóginn mátti lesa það haft eftir borgarstjóra í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag, að nú sé komið að endurskipulagningu þjónustu Reykjavíkurborgar – komið sé að „Nýju Reykjavík“ eins og haft er eftir borgarstjóra.

 

Mörgum lesendum hefur vafalaust dottið í hug, að með þessu nýja hugtaki um Reykjavík væri borgarstjóri að snúast til varnar gegn þeim dómi forseta Íslands, að Reykjavík væri borg eymdarinnar eftir tæplega tíu ára stjórn R-listans.

 

Nei, borgarstjóri var að vísa til samstarfs við fulltrúa frá Ósló og Stokkhólmi um hverfavæðingu á þjónustu – hann ætlaði að læra af reynslu þessa fólks. Með nýju Reykjavík yrði borgin leiðandi í að skipuleggja þjónustu svo borgarbúar vissu rétt sinn og hvert þeir sæktu hann. Borgarstjóri líkti þjónustu Reykjavíkurborgar við íbúa við þjónustu fyrirtækja við viðskiptavini og sagði orðrétt með leyfi forseta: „Reykjavíkurborg á að reka þjónustuver með símaþjónustu og verður það undirbúið á næsta ári.“ Þá á að nota vefinn og loks samhæfðar hverfamiðstöðvar til að stuðla að því að hægt sé að veita vel skilgreinda, góða þjónustu á sem hagkvæmastan hátt.

 

Góðir borgarfulltrúar!

 

Borgarstjóri segir, að í hinni nýju Reykjavík eigi að reka þjónustuver með símaþjónustu. Þetta eru mikil og góð tíðindi og einnig að nota skuli vefinn til að miðla upplýsingum.

 

Varla þurfti þó að fá fólk frá borgarstjórnunum í Ósló og Stokkhólmi til að átta sig á, að þessi tækni sé góð til að eiga samskipti við almenning? Síst af öllu fyrir fyrrverandi forstjóra símafyrirtækis.

 

Í Ósló og Stokkhólmi felst styrkur nýjunganna í því að færa pólitískt vald út í hverfin. Frá slíkri pólistískri valddreifingu var hins vegar ákveðið að hverfa hér í borgarstjórn Reykjavíkur – að vísu áður en Þórólfur Árnason var ráðinn borgarstjóri sem embættismaður.  Nú hefur borgarstjóri hins vegar ritað undir samstarfsyfirlýsingu um hverfabundna þjónustu við Ósló og Stokkhólm.

 

Af þessu tilefni og vegna ummæla borgarstjóra um hina nýju Reykjavík er ástæða til að spyrja R-listann: Hvert er pólitískt umboð borgarstjóra í þessu efni? Hefur verið ákveðið að stokka upp stjórnkerfi borgarinnar eftir fyrirmynd frá Ósló og Stokkhólmi? Er ætlunin að fara sömu leið og gert hefur verið í þessum borgum við hverfavæðingu Reykjavíkurborgar?

 

Nauðsynlegt er, að þessum spurningum sé svarað hér í borgarstjórn við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2004 og jafnframt upplýst, hvar ætlað sé fyrir kostnaði vegna þessarar uppstokkunar og framkvæmdar á hugmyndinni um hina nýju Reykjavík.

 

Yfirbragðið á þessu máli öllu ber vott um ákaflega veika stjórnsýslu og leit að einhverjum viðfangsefnum, sem leiða athyglina frá því, sem brýnast er að gera í stjórn Reykjavíkurborgar, það er að stöðva útgjaldaþensluna og hina hrikalegu skuldasöfnun.

 

Í öðru orðinu fagnar R-listinn því, að skoðanakannanir sýni meiri ánægju en áður með þjónustu á vegum borgarinnar en í hinu orðinu talar borgarstjóri um nýja Reykjavík með endurskipulagðri þjónustu.

 

Endurskipulagning borgarstjóra lýtur hins vegar ekki að þeim þáttum, sem síst njóta ánægju meðal borgarbúa. Allar kannanir sýna, að borgarbúar sætta sig verst við ástandið í samgöngumálum. Þeir una því verst, hvernig staðið hefur verið að úrlausn þeirra mála á vegum borgaryfirvalda. Hvernig er brugðist við þeirri óánægju í þessari áætlun? Nýjasta dæmið um áhugaleysi R-listans er tillaga hans í borgarráði síðastliðinn þriðjudag  um 50 milljón króna niðurskurð á framlögum til samgöngumála og á gatnamáladeild að útfæra hana, sem þýðir ekki annað en dregið verður enn frekar úr framkvæmdum í þágu samgöngumála.

 

Almenningssamgöngur hér á höfuðborgarsvæðinu ná aðeins til 4% íbúanna og nú hafa menn sett sér það mark að ná til 6% og líta á það sem meiri háttar afrek, ef það tekst. Þetta á meðal annars að gera með því að leggjast af meiri þunga en áður gegn notkun einkabílsins, en eins og við vitum hefur baráttan gegn honum meðal annars byggst á því að tefja fyrir mislægum gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar.

 

Ef neikvæðar aðgerðir eins og þær að auka slysahættu með því að leggjast gegn mislægum gatnamótum er úrræði R-listans til að fjölga þeim, sem nýta sér almenningssamgöngur, er ekki von að vel gangi. Hitt er þó enn furðulegra að leggja á ráðin um svokallaðar léttlestir og halda að tal um fjárfestingu í slíkum farartækjum muni valda hér þáttaskilum – miklu nær er að fjárfesta í góðum umferðarmannvirkjum, draga úr slysum og greiða fyrir umferð þeirra farartækja, sem fólk kýs að nota.

 

Sumarið 2002 gafst varla tími til að ljúka umræðu í borgarráði um bílastæði undir Tjörninni, hér við hliðina á Ráðhúsinu, svo mikið lá á því að tilkynna á blaðamannafundi, að haustið 2002 yrði hafist handa við framkvæmdir við Tjarnarkjallarann svonefnda. Nú eru um það bil átján mánuðir liðnir frá því óðagoti, án þess að nokkur ákvörðun hafi verið tekin.  Í starfsáætlun bílastæðasjóðs fyrir næsta ár segir, að unnið sé að endurskoðun Tjarnarkjallarans og því sé ekki gert ráð fyrir því að varið verði fjármunum til verkefnisins á næsta ári! Á manna máli þýðir þetta, að hætt sé við framkvæmdina fyrir fullt og allt. Hvað skyldi allt þetta brölt hafa kostað? Æskilegt væri að borgarstjóri upplýsti það.

 

Um svipað leyti sumarið 2002 og rætt var af ákefð um Tjarnarkjallarann ákvað R-listinn að kaupa Stjörnubíóreitinn svonefnda af Jóni Ólafssyni kaupsýslumanni, sem kenndur er við Skífuna, og hefur nú selt allar eigur sínar á Íslandi í skjóli nætur, eins og frægt er orðið. Lóðin var keypt  fyrir 140 milljónir króna á grundvelli deiliskipulags, sem sýndi 100 bílastæða kjallara undir húsum, sem þar skyldu rísa, og átti kjallarinn að mæta bílastæðakröfum húsbyggingarinnar á reitnum.

 

Þegar kaupin voru gerð lá fyrir skýrt mótuð tillaga um, að stefnt skyldi að því að stofna til samstarfs við eigendur að Laugavegi 77 um gerð bílastæðahúss. Byggðist starfsáætlun Bílastæðasjóðs á þeim áformum og hið sama kemur fram í þriggja ára áætlun fyrir árin 2003 til 2005. Samkvæmt henni skyldi bílastæðahús verða við Laugaveg 77.  

 

Í fjárhagsáætlun Bílastæðasjóðs fyrir árið 2004 kemur hins vegar fram, að ætlunin er að verja 740 milljónum króna til að gera bílastæðakjallara  á Stjörnubíóreit og framkvæmdir hefjist á fyrsta ársfjórðungi næsta árs auk þess sem ráðist verði í endurgerð Laugavegar milli Snorrabrautar og Barónsstígs.

 

Þegar litið er á töflur um nýtingu bílastæða í starfsáætlun Bílastæðasjóðs sést, að tölur um nýtingu á Ráðhúskjallaranum eru frá 70 upp í 94% og á Tjarnargötustæði frá 84 til 102%. Með vísan til þessara talna má færa fyrir því rök, að þörf sé á auknum bílastæðum á þessum slóðum, hvað sem líður að öðru leyti réttmæti þess að gera Tjarnarkjallarann.

 

Töflur Bílastæðasjóðs sýna hins vegar ekki neina þörf fyrir mörg hundruð milljón króna fjárfestingu sjóðsins á Stjörnubíóreitnum. Í um 300 metra fjarlægð frá reitnum er bílastæðahúsið Vitatorg og þar er nýtingin aðeins 35 til 42%.  Sýna þær tölur, að brýnasta verkefni Bílastæðasjóðs sé að fjölga bílastæðum um 250 fyrir 740 milljónir króna í næsta nágrenni þessa vannýtta bílastæðahúss? Svarið getur ekki orðið annað en nei. Þessum peningum er unnt að verja mun betur í þágu samgöngumála fyrir Reykvíkinga.

 

Að það skuli hætt við Tjarnarkjallara, sem var talið brýnasta verkefni Bílastæðasjóðs á sama tíma og Stjörnubíóreiturinn var keyptur og þess í stað ráðist í gerð óþarfs bílastæðakjallara á reitnum áréttar aðeins enn frekar það, sem við sjálfstæðismenn höfum alltaf sagt um þessi viðskipti R-listans við Jón Ólafsson kaupsýslumann– tilgangur þeirra var aldrei að Bílastæðasjóður tæki þetta vandræðabarn R-listans að sér – tilgangurinn var sá að losa seljandann við eign sína, án þess að borgin vissi, hvað hún ætlaði við hana að gera en í vandræðagangingum fann síðan Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi, þáverandi borgarstjóri, þá leið undan harðri gagnrýni um meðferð á fjármunum skattgreiðenda að gera Bílastæðasjóð að skálkaskjóli – dæmið er nú komið í 880 milljónir króna í óþarfri fjárfestingu fyrir gjaldendur í Reykjavík og eru þó ekki öll kurl enn komin til grafar.

 

 

Herra forseti!

 

Enn ber allt að sama brunni. Hér er um vonda meðferð á opinberu fé og lélega stjórnsýslu að ræða, þar sem eitt er sagt í dag og annað á morgun og ráðskast með fjármuni Reykvíkinga eftir því sem vindurinn blæs hverju sinni. Minni ég á umræður um þessi viðskipti við Jón Ólafsson hér í borgarstjórn hinn 6. mars síðastliðinn, þegar ég vakti athygli á þeirri staðreynd, að Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður skipulags- og bygginganefndar, treysti sér ekki til að axla pólitíska ábyrgð vegna viðskiptanna við Jón Ólafsson heldur talaði á þann veg við Morgunblaðið, að embættismenn hefðu þar sagt R-listanum fyrir verkum.

 

Er ég þá kominn að lokaþættinum í máli mínu vegna þessarar fjárhagsáætlunar og lýtur hann að menningarmálum. Þar hefur R-listinn ekki heldur axlað pólitíska ábyrgð með neinni sæmd. Við vitum öll að R-listinn hefur klofnað vegna framgöngu sinnar í menningarmálum með afsögn Steinunnar Birnu Ragnarssonar varaborgarfulltrúa. Henni var misboðið og nóg boðið vegna metnaðarleysisins.

 

Formaður menningarmálanefndar taldi hér í ræðustól, að Steinunn Birna hefði horfið héðan, af því að henni hefði ekki tekist að fá nægilega mikið fé til tónlistarfræðslu. Gaf formaðurinn raunar til kynna, að í þeirri kröfugerð hefði hún gengið einum of langt vegna eigin hagsmuna sem tónlistarkennari, þó var henni sérstaklega fagnað sem slíkri á framboðslista R-listans vorið 2002.

 

Ég ætla enn og aftur að ítreka andstöðu mína við það, að landnámsbærinn við Aðalstræti sé falinn í hótelkjallara og tel að hundruðum milljóna króna úr borgarsjóði sé illa varið í því skyni. Er það aðeins enn til marks um menningarlegt metnaðarleysi R-listans að verða vitni að framgöngu hans í þessu máli. Með því að loka þessar minjar niður í kjallara er útilokað, að þær komist á heimsminjalista UNESCO. Er líklega einsdæmi á heimsmælikvarða, að borgaryfirvöld ákveði að verja stófé til að útiloka svo merkar minjar frá þessum lista.

 

Metnaðarleysið eitt setur ekki svip sinn á framgöngu R-listans í menningarmálum. Framkoma við viðmælendur borgaryfirvalda á þessu sviði er einnig fyrir neðan allar hellur. Birtist það hvað skýrast í afstöðu R-listans til Borgarleikhússins og Leikfélags Reykjavíkur.

 

Formaður menningarmálanefndar er jafnframt formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Hún hélt landsfund sinn fyrir nokkrum vikum. Í tilefni af fundinum sendi stjórn  Félags íslenskra leikara þetta bréf til fundarmanna:

 

„Ágæti Samfylkingarfélagi.

 

Eins og kunnugt er hefur Leikfélag Reykjavíkur átt við gífurlegan fjárhagsvanda að etja. Stöðugildum leikara hefur fækkað úr 28 fastráðnum leikurum niður í 13. Lausráðnir leikarar höfðu u.þ.b. 15 stöðugildi á ári en hafa nú 10. Fastráðnir leikmynda- og búningahöfundar finnast ekki lengur. Fjöldi annarra starfsmanna leikhússins hefur misst vinnuna. Þetta er gífurleg blóðtaka fyrir leikhúslistamenn á Íslandi sem hingað til hafa ekki haft of mikið starfsöryggi. Núverandi ráðamenn borgarinnar hafa kosið að loka augum sínum fyrir því mikilvæga hlutverki sem Borgarleikhúsið gegnir sem annar stærsti vinnuveitandi listamanna á Íslandi.

 

Borgarleikhúsið er glæsilegasta og best búna leikhús landsins og þrátt fyrir að síðasta leikár hafi tekist afar vel og áhorfendur á leiksýningar og aðra viðburði í Borgarleikhúsinu hafi verið á annað hundrað þúsund manns þá dugar það ekki til. Samningur Leikfélags Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar er til ársins 2012 og hafa stjórnendur LR gert sem í þeirra valdi stendur til að uppfylla samninginn, en allt kemur fyrir ekki, borgaryfirvöld eru ekki til viðtals um lagfæringu á framlagi borgarinnar. Við segjum lagfæringu því framlagið er of lágt.

 

Í tíð fyrrum borgarstjóra ríkti gagnkvæmur skilningur og þegar sá mikli vandi sem við blasti var ljós þá fékk þáverandi borgarstjóri samþykki borgarráðs fyrir aukafjárveitingu og vildi í framhaldi af því skoða málið og finna viðunandi lausn því að samningurinn væri greinilega óhagstæður Leikfélagi Reykjavíkur. Ef sú aukafjárveiting sem var veitt af fyrrum borgarstjóra fengist til frambúðar væru störf fjölda listamanna tryggð, sem og öflugt listrænt starf í Borgarleikhúsi.

 

Borgarleikhúsið er einn af þremur vinnuveitendum leikhúslistamanna sem greiðir laun skv. kjarasamningum. Ef leiklist á að þrífast á Íslandi er nauðsynleg að viðhalda öflugu Borgarleikhúsi.

 

Við skorum á þig, kæri samfylkingarfélagi, að þrýsta á fulltrúa þína hjá R-listanum svo að borgaryfirvöld hefji alvöru viðræður við stjórnendur Leikfélags Reykjavíkur með það að takmarki að tryggja áframhaldandi rekstur öflugs leikhúss og listastofnunar í Borgarleikhúsi.“

 

Í þessu bréfi er því lýst á skýran hátt, hvernig málefni Borgarleikhússins og Leikfélags Reykjavíkur hafa þróast undanfarin misseri frá sjónarhóli leikara. Hvað hefur gerst á vettvangi borgaryfirvalda? Ég ætla að stikla á stóru.

 

Hinn 11. apríl síðastliðinn bókuðum við sjálfstæðismenn þessa fyrirspurn í borgarráði:

 

„Borgarráð samþykkti 1. október sl., að tillögu fulltrúa í samráðsnefnd Reykjavíkurborgar og Leikfélags Reykjavíkur (LR), að fela samráðsnefndinni ásamt fjármálastjóra Reykjavíkur að undirbúa tillögu til borgarráðs um hugsanlegar breytingar á samkomulagi borgarinnar og LR.  Síðan hafa forsvarsmenn og starfsmenn LR ítrekað lýst yfir því að rekstrarstaða félagsins sé löngu orðin óviðunandi og framtíð leikfélagsins óljós.  Borgarráði hafa ekki verið kynntar neinar tillögur um mál LR, þó svo að í bréfi frá fulltrúum samráðsnefndar Reykjavíkur og LR frá því 30. september sl.  komi fram að rekstur félagsins stefni ,,að óbreyttu í þrot" og því sé nauðsynlegt að ,,fjármál LR og leikstarfsemi í Borgarleikhúsinu verði tekið til endurskoðunar á næstu vikum." Þegar rúmir sex mánuðir eru liðnir frá þessari samþykkt borgarráðs óska borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir upplýsingum um stöðu málsins nú og hvert stefnir í málefnum Leikfélags Reykjavíkur.“

Á fundi borgarráðs 29. apríl var lögð fram greinargerð Örnólfs Thorssonar og Hjörleifs Kvarans, fulltrúa borgarinnar í samráðsnefnd leikfélagsins og borgarinnar. Þeir segjast hafa ítrekað nauðsyn þess að leikfélagið aðlagi starfsemi sína að áætluðum tekjum að teknu tilliti

til framlags borgarinnar. Á móti sé borgin tilbúin til að draga úr

samningsbundnum skyldum félagsins svo sem um fjölda leiksýninga. Í

greinargerðinni segir að þörfum félagsins fyrir aukafjárveitingu verði ekki

sinnt á þessu ári og það verði að laga reksturinn að þeirri fjárveitingu

sem fyrir er. Þá geti félagið ekki gert áætlanir um næsta leikár sem hefjist

í lok sumars með það í huga að framlagið verði hækkað frá því sem nú er.

Ræddar hafi verið ýmsar breytingar á rekstri hússins, m.a. að stofna

sérstakt félag um rekstur þess. Fulltrúar borgarinnar séu þó andsnúnir

hugmyndum um breytingar á núverandi samkomulagi milli borgarinnar og félagsins en vilji bíða niðurstöðu könnunar á því hvort það sé hagkvæmt að flytja rekstur Íslensku óperunnar í Borgarleikhúsið.

 

Af þessu tilefni létum við sjálfstæðismenn í borgarráði bóka, að í greinargerðinni fælist krafa um uppsagnir starfsfólks leikfélagsins og samdrátt í starfseminni. Hefja þurfi formlegar viðræður milli borgarinnar og leikhússins um efni greinargerðarinnar og leiðir til að metnaðarfull starfsemi leikfélagsins haldi áfram. Fulltrúar Reykjavíkurlistans létu bóka að viðræður væru í gangi og lögð yrði áhersla á að hraða þeim til að eyða óvissu um málefni leikhússins.

Þetta var hinn 29. apríl 2003. Hinn 8. maí komu leikarar að Ráðhúsinu og afhentu borgarstjóra bréf til að lýsa áhyggjum sínum og skora á hann að finna lausn á vanda Bogarleikhússins. Þórólfur Árnason borgarstjóri  sagði af því tilefni í samtali við Stöð 2, að samningaviðræður við Leikfélag Reykjavíkur væru í gangi og ljóst væri að hækka yrði framlög Reykjavíkurborgar og finna rekstrargrundvöll til framtíðar.

Orðrétt sagði borgarstjóri:  „Og viljum með Leikfélagi Reykjavíkur leysa rekstrarmál, bæði leikfélagsins og sundurgreina þá líka. Er það húsið virkilega sem er svona dýrt eða er það rekstur félagsins?“

Frétt sjónvarps ríkisins var þannig um þetta mál 8. maí 2003:

 

„Borgarstjóri, Þórólfur Árnason, tók við áskoruninni fyrir utan Ráðhúsið í dag og bauð síðan leikurum í kaffi og til frekari viðræðna um málið. Hann sagði það gagnlegt að hafa hitt leikarana sjálfa að máli. Það hefur komið í ljós að tónninn hjá þeim væri sá sami og hjá honum og enginn meiningarmunur. Þörf væri á að leysa málið og finna lausn þar sem jafnvægi væri milli faglegs metnaðar og kostnaðarþátta. Viðræður hafa staðið yfir um framtíð Leikfélagsins síðan uppsagnir voru tilkynntar í síðustu viku.“

 

Hinn 11. maí 2003 skrifaði Hrafnhildur Theodórsdóttir framkvæmdastjóri Félags íslenskra leikara grein í  Morgunblaðið og sagði meðal annars:

„Viðræður milli borgaryfirvalda og stjórnenda LR hafa staðið yfir lengi, starfshópar hafa verið gerðir út af örkinni til að leita lausna og ég er þess fullviss að LR-stjórnendur gera allt til að geðjast borgaryfirvöldum svo samningar náist, en á meðan er öll starfsemi LR í uppnámi, enginn veit hvað verður og áhyggjur mínar snúa að því að umtalsverður fjöldi listamanna og annarra leikhússtarfsmanna, s.s. sýningarstjórar, ljósa- og hljóðmenn, hárgreiðslu- og förðunarfólk, smiðir, sviðsmenn og starfsmenn saumastofu, hafi misst vinnu sína til frambúðar. Ég hvet borgarstjóra til að hraða samningaviðræðum við LR svo að þessari óvissu verði eytt. Það er gott að heyra að borgaryfirvöld kunna að meta það starf sem unnið er í Borgarleikhúsinu en spurningin er engu að síður sú - hvað er borgin tilbúin til að borga þannig að sá faglegi metnaður og gæði menningarstarfsemi í Borgarleikhúsinu sem borgaryfirvöld meta svo mikils (Þórólfur Árnason Mbl. 9. maí 2003), fái áfram glatt hug og hjarta Reykvíkinga og landsmanna allra.“

Góðir borgarfulltrúar!

Þessi orðaskipti áttu sér stað í borgarráði og á opinberum vettvangi í apríl og maí 2003 og þá lá í loftinu, að lausn væri að finnast í viðræðum Reykjavíkurborgar og forráðamanna Leikfélags Reykjavíkur. Síðan gerist það eins og áður er sagt í lok október að neyðarkall er sent til landsfundar Samfylkingarinnar, þar sem skorað er á fundarmenn að þrýsta á fulltrúa hjá R-listanum svo að borgaryfirvöld hefji alvöru viðræður við stjórnendur Leikfélags Reykjavíkur með það að takmarki að tryggja áframhaldandi rekstur öflugs leikhúss og listastofnunar í Borgarleikhúsi.

Já, hefji alvöru viðræður – allt talið í vor reyndist sjónarspil af hálfu borgarstjóra. Það sannast enn á fjárghagsáætluninni, sem hér er til umræðu, þar sem ekki er minnst einu orði á vanda Leikfélags Reykjavíkur og því síður minnst á niðurstöður viðræðnanna – enda fóru þær aldrei fram í neinni alvöru.

 

Forseti!

Ég er kominn að lokum máls míns.

Í fyrsta lagi hef ég sýnt fram á, að algjör óvissa ríkir um framtíðarskipan á yfirstjórn Reykjavíkurborgar. Þar hefur verið farið í hring á rúmu ári – horfið frá hugmyndum um að hverfavæða pólitískt stjórnkerfi borgarinnar og síðan gert samkomulag við stjórnvöld í Ósló og Stokkhólmi, þar sem póltísk hverfavæðing ríkir, um samstarf að sameiginlegum markmiðum.

Við gerð fjárhagsáætlana þarf að ríkja öryggi og vissa innan hvaða stjórnkerfis á að framkvæma þær. Í Reykjavík ríkir algjört öryggisleysi að þessu leyti.

Í öðru lagi hef ég beint athygli, að áhugaleysi R-listans um umbætur í samgöngumálum. Með vísan til ráðstöfunar á fé Bílastæðasjóðs er auðvelt að færa rök fyrir því, að alúð við gæluverkefni ræður ferðinni en ekki mat byggt á hlutlægum rökum.

Í þriðja lagi hef ég fært fram rök um menningarlegt metnaðarleysi R-listans, sem endurspeglast í fjárhagsáætluninni og birtist hvað skýrast í því skeytingarleysi ef ekki hreinum dónaskap, sem forystumenn borgarinnar hafa sýnt Leikfélagi Reykjavíkur og starfseminni í Borgarleikhúsinu.

Ef þetta er það, sem á að einkenna hina nýju Reykjavík, gef ég ekki mikið fyrir það, sem í því hugtaki felst. Að borgarstjóri skuli ekki hafa risið upp til mótmæla gegn þeim ummælum forseta Íslands, að Reykjavík sé borg eymdarinnar eftir tæplega tíu ára stjórn R-listans, er með miklum ólíkindum. Hafði hann þó tækifæri til þess hér í borgarstjórn fyrir tveimur vikum.

Eins og við vitum var Egill Helgason, þáttarstjórnandi í sjónvarpi, ritstjóri kosningablaðs R-listans fyrir tæpum 10 árum. Þessi sami Egill ritar grein í DV í dag og lítur yfir farinn veg R-listans. Hann velur grein sinni fyrirsögnina: Borg duftkeranna og segir meðal annars:

„Þegar borgarstjórnin lét byggja eitthvert fokdýrasta stórhýsi í borginni, hús Orkuveitunnar, var það reist á ystu mörkum bæjarins, í ótótlegu verksmiðjuhverfi. Þetta var staðfesting á því að ekkert væri að marka talið um þéttingu byggðar.“

Enn segir Egill:

„Með árunum áttar maður sig verr á því hvaðan R-listinn sækir grundvöll sinn; þetta er eins og uppvakningur sem var gefið líf í tilraunaglasi og er farinn að hafa óháða tilveru, óháð skapara sínum. Það eru til dæmis aldrei haldnir landsfundir R-listans...“

Og loks segir Egill:

„Eftir árin tíu er svo margt orðið torkennilegt í fari þeirra. Þeir sem hvöttu fólk til að skilja bílinn sinn eftir heima á bíllausa deginum fóru sjálfir út í bíl og keyrðu í vinnuna. Það er valdhroki sem erfitt er að slá út. Þið skuluð ganga, en það fer betur á að ég keyri!“

Með þessari tilvitnun lýk ég máli mínu í vissu þess, að við munum fá staðfestingu á þessu viðhorfi í málflutningi fulltrúa R-listans hér í dag.