11.12.2004

Fjárlög, mannréttindi, sannsögli.

Morgunblaðsgrein, 11. desember, 2004.

Í baráttu fyrir mannréttindum skiptir sköpum að hafa sannleikann að leiðarljósi; að gæta þess að láta ekki blekkjast af þeim, sem vilja síður virða hið sem sannara reynist. Sagan geymir fjölmörg dæmi um mistök við að ná háleitum markmiðum í nafni mannréttinda vegna þess að aðferð og málflutningur baráttumanna stóðst ekki gagnrýni. Trúverðugleiki og traust eru lykilorð, þegar metið er, hvort einstaklingar eða samtök þeirra búi yfir styrk til að ná árangri í nafni mannréttinda

Fjárlög

Nokkrar umræður hafa orðið um þá ákvörðun við gerð og samþykkt fjárlaga fyrir árið 2005, að hætta að nefna Mannréttindaskrifstofu Íslands sérstaklega sem móttakanda 4 milljóna króna frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu annars vegar og 4 milljóna króna frá utanríkisráðuneytinu hins vegar, eða samtals 8 milljóna króna úr ríkissjóði. Í stað þess að nefna Mannréttindaskrifstofu Íslands sérstaklega er í fjárlögum ársins 2005 gert ráð fyrir, að 8 milljónum króna verði varið til mannréttindamála og það verði í höndum ráðuneytanna tveggja að úthluta þessu fé.

Ástæðan fyrir því, að orðalagi um þennan málaflokk var breytt í fjárlögum, er einföld og skýr og lýsti ég henni á alþingi hinn 3. nóvember síðastliðinn, þegar ég svaraði fyrirspurnum Kolbrúnar Halldórsdóttur. Spurningarnar og svör mín birtast hér í heild:

"1. spurning: Hverjar eru ástæður þess að ekki er gert ráð fyrir fjárframlagi frá dómsmálaráðuneyti til Mannréttindaskrifstofu Íslands í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005?

Svar: Því er til að svara að undanfarin fimm ár hafa fjárframlög sem merkt hafa verið Mannréttindaskrifstofu á fjárlögum skipst á milli skrifstofunnar og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, en að Mannréttindastofnuninni standa Háskóli Íslands, Dómarafélag Íslands og Lögmannafélag Íslands.

Þessi skipting fjárframlaganna byggðist á skriflegum samningi milli þessara mannréttindasamtaka sem gerður var að tilhlutan dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins, en bæði ráðuneytin styrkja starfsemi þessara samtaka.

Samkvæmt 2. gr. samnings þessa sem tók gildi 1. janúar 1999 var við það miðað að 15% af almennum fjárveitingum hins opinbera til skrifstofunnar rynnu til Mannréttindastofnunar til fræðilegra rannsókna. Eftir þessu samningsákvæði hefur verið farið undanfarin ár þangað til á þessu ári að Mannréttindastofnunin fær enga hlutdeild í fjárveitingunni. Það byggist á því að samningnum var sagt upp af hálfu Mannréttindaskrifstofu miðað við árslok 2003 og telur Mannréttindaskrifstofan sig ekki lengur bundna af því að deila fjárveitingunni með Mannréttindastofnuninni.

Þessi uppsögn bindur hins vegar ekki hendur ráðuneytisins og þegar Mannréttindastofnunin ritaði ráðuneytinu fyrr á þessu ári og óskaði eftir að fá beina fjárveitingu til sín í stað niðurfallinnar hlutdeildar í fjárveitingu Mannréttindaskrifstofunnar - Mannréttindaskrifstofan ritaði einnig ráðuneytinu og bað um hærri fjárframlög - varð að ráði að hætta að eyrnamerkja fjárveitinguna ákveðnum samtökum heldur ætla hana mannréttindamálum þannig að bæði þessi samtök gætu sótt um fé til verkefna á sviði mannréttindamála af þessum fjárlagalið.

2. spurning: Er það ásetningur ríkisstjórnarinnar að Mannréttindaskrifstofu Íslands verði lokað?

Svar: Að sjálfsögðu ekki og ég vil minna á að Mannréttindaskrifstofan hefur notið fjárframlaga frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu árlega frá árinu 1996. Þó að fjárveiting til mannréttindamála sé ekki lengur eyrnamerkt Mannréttindaskrifstofu Íslands kemur ekkert í veg fyrir að hún geti notið stuðnings af þeirri fjárveitingu sem af ráðuneytinu er ætluð til að styrkja verkefni á sviði mannréttindamála. Það getur hins vegar ekki verið á valdi Mannréttindaskrifstofu Íslands að ákveða að Mannréttindastofnun Háskóla Íslands fái ekki lengur hlutdeild í fjárveitingu ráðuneytisins til mannréttindamála, og eins og ég hef rakið er það ástæðan fyrir því að ákveðið var að leggja til að umrædd fjárveiting dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mannréttindamála væri ekki lengur eyrnamerkt Mannréttindaskrifstofu Íslands eingöngu.

3. spurning: Með hvaða hætti vilja stjórnvöld þróa samstarf við frjáls félagasamtök á sviði mannréttindamála og fjárhagsleg samskipti þessara aðila?

Stjórnvöld vilja eiga gott samstarf við öll þau frjálsu félagasamtök sem stuðla vilja að varðveislu og eflingu mannréttinda hér á landi. Það verður best gert með því að styðja t.d. með fjárframlögum verkefni sem unnin eru á vegum slíkra samtaka og ætla má að horfi til eflingar fræðslu og vitundar almennings um grundvallarréttindi sín.

Í tilefni af orðum fyrirspyrjanda um að í þessari ákvörðun fælist einhver andúð á störfum Mannréttindaskrifstofu þá er það algjörlega úr lausu gripið og á ekki við nein rök að styðjast. Þá vil ég einnig geta þess að ráðuneytið gerði Mannréttindaskrifstofu grein fyrir því með bréfi hinn 11. júní síðastliðinn að ekki væri sjálfgefið að Mannréttindaskrifstofan hefði fasta áskrift á fjárlagaliðinn þannig að það er ekki þannig að Mannréttindaskrifstofan hafi ekki vitað að þarna kynnu að verða breytingar.

Loks vil ég láta þess getið að ég hef átt viðræður við forráðamenn Mannréttindaskrifstofunnar og greint þeim frá afstöðu ráðuneytisins þannig að það hefur ekki með neinum hætti af hálfu ráðuneytisins verið farið leynt með þessar ákvarðanir."

Mannréttindaskrifstofa Íslands sendi mér bréf dagsett 17. nóvember 2004, þar sem hún sækir um styrk til starfsemi sinnar frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og nefnir ýmis verkefni. Ekki hefur verið tekin afstaða til bréfsins, enda lýsti ég yfir því á alþingi 3. nóvember, að auglýst yrði eftir umsóknum um styrki, ef frumvarpstextinn yrði að lögum.

Aðdragandinn

Ég fer þess á leit við Morgunblaðið, að það birti þessi svör mín í heild, því að svo virðist, að þeir, sem hafa látið sig þetta mál varða, meðal annars með bréfasendingum til alþingismanna, hafi einfaldlega látið undir höfuð leggjast að kynna sér málavexti.

Þegar stjórnarformaður Mannréttindaskrifstofunnar, framkvæmdastjóri hennar og einn stjórnarmanna hennar komu á fund minn og ráðuneytisstjóra dóms- og kirkjumálaráðuneytisins ræddu þau meðal annars upphaf þess, að tekið var að nefna skrifstofuna í fjárlögum, en hún var stofnuð 12. mars 1994 og hlaut fé af fjárlagalið undir dóms- og kirkjumálaráðuneytinu frá árinu 1996.

Ég minnist þess, að á árinu 1998 ræddu fulltrúar utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra og menntamálaráðherra, hvernig best yrði staðið að fjárhagslegum stuðningi við skrifstofuna auk þess sem hugað yrði að stuðningi við Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, en stofnunin fékk einnig opinberan stuðning.

Lögðum við þrír ráðherrar á árinu 1998 tillögu fyrir ríkisstjórnina um þá skipan, sem gilti um fjárveitingar til Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, þar til skrifstofan rifti samningnum einhliða, eins og áður er getið. Með vísan til þeirrar riftunar þótti mér eðlilegt að breyta orðalagi í fjárlögum, til að svigrúm gæfist til að styrkja fleiri aðila, sem sinna mannréttindamálum, en Mannréttindaskrifstofu Íslands. Halldór Ásgrímsson hefur einnig sagt, að eftir samstarfsslit þessara aðila væri málið í raun komið á byrjunarreit aftur.

Sannsögli

Ég árétta undrun mína yfir því, að þeir, sem leituðust við að hafa áhrif á þingmenn með bréfum fyrir lokaafgreiðslu fjárlaga ársins 2005 á þingi laugardaginn 4. desember, skuli kjósa að hafa þessa forsögu að engu. Virðist svo sem lélegum eða jafnvel röngum upplýsingum hafi verið komið á framfæri erlendis, jafnvel við þá, sem vinna að mannréttindamálum í nafni Sameinuðu þjóðanna.

Nokkrir þingmenn gerðu grein fyrir afstöðu sinni til málsins, þegar atkvæði féllu um fjárlögin. Samfylkingarmennirnir Lúðvík Bergvinsson og Björgvin G. Sigurðsson voru í þeim hópi. Lúðvík sagði meðal annars, að fyrir nokkrum árum hefði Halldór Ásgrímsson ritað minnisblað til ríkisstjórnarinnar, þar sem hann hefði talið að til þess að tryggja sjálfstæði Mannréttindaskrifstofu Íslands yrðu framlög til hennar að koma beint frá Alþingi. Það gengi ekki, að þau kæmu frá einhverju tilteknu ráðuneyti. Björgvin óskaði eftir skýrri afstöðu Framsóknarflokksins til málsins sérstaklega með tilliti til þess minnisblaðs, sem hann sagði, að Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, hefði skrifað ríkisstjórn Íslands árið 1997.

Voru þessi ummæli þingmannanna tíunduð í fjölmiðlum og í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins 4. desember hófst löng frétt um málið á þessum orðum:

"Halldór Ásgrímsson, þá utanríkisráðherra, lagði til í ríkisstjórn fyrir sjö árum að Mannréttindaskrifstofa Íslands fengi fjárveitingu beint frá Alþingi en ekki frá dómsmálaráðherra eins og raunin varð. Ráðherrann taldi þetta mikilvægt til að leggja áherslu á sjálfstæði stofnunarinnar. Nú var þetta breytingartillaga stjórnarandstöðunnar á Alþingi við fjárlagafrumvarpið gegn ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Tillagan var felld á Alþingi nú rétt fyrir hádegi."

Að kvöldi 4. desember hófst frétt sjónvarps ríkisins um þetta mál á þennan veg:

"Það er eitthvað rotið í innviðum þess stjórnkerfis sem ekki vill styðja við starfsemi sjálfstæðrar mannréttindaskrifstofu sagði þingmaður Samfylkingarinnar í atkvæðagreiðslu á Alþingi í dag. Breytingartillaga stjórnarandstöðunnar um að Mannréttindaskrifstofa Íslands væri áfram á fjárlögum var felld. Sjö ára gamalt minnisblað Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra þar sem hann lagði til í ríkisstjórn að Mannréttindaskrifstofan fengi fjárveitingu beint frá Alþingi til að tryggja sjálfstæði hennar kom til umræðu við atkvæðagreiðsluna. Lúðvík Bergvinsson, Samfylkingunni, sagðist sammála gömlu tillögunni og vonaði að framsóknarmenn væru það líka. Stjórnarandstaðan sagði stefnubreytingu stjórnvalda órökstutt hneyksli sem hefði vakið athygli langt út fyrir landsteinana."

Af nokkurri reynslu hefði verið skynsamlegt hjá fréttamönnum ríkisins að sannreyna orð þingmannanna tveggja, áður en þeir sömdu fréttir sínar með þau að leiðarljósi. Þótt þingmenn kjósi að beita óvönduðum vinnubrögðum á slíkt ekki að rata óbrenglað inn í fréttir fjölmiðla, sem vilja vera vandir að virðingu sinni. Í hinum tilvitnuðu fréttum er enginn fyrirvari varðandi gildi þessa svonefnda "minnisblaðs".

Halldór Ásgrímsson hefur upplýst, að þeir Lúðvík og Björgvin fóru að sjálfsögðu með rangt mál.

Þegar forráðamenn Mannréttindaskrifstofu Íslands komu á fund okkar ráðuneytisstjórans í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu voru þeir með blað í höndunum, sem þeir töldu vera minnisblað utanríkisráðherra til ríkisstjórnarinnar, en á því má lesa dagsetninguna 15. apríl 1998 og einnig orðin "Drög frá H.Á. skv. samtali fundi 15/5."

Af þekkingu okkar á slíkum skjölum sáum við ráðuneytisstjórinn strax, að hér var ekki um minnisblað til ríkisstjórnar að ræða heldur einskonar óskalista í líki minnisblaðs. Töldum við skjalið komið frá fulltrúum Mannréttindaskrifstofu í viðræðum þeirra við embættismenn utanríkisráðuneytisins. Lýstum við þeirri skoðun við forráðamenn Mannréttindaskrifstofunnar og töldum þetta blað marklaust skjal um afstöðu stjórnvalda. Þeir Lúðvík Bergvinsson og Björgvin G. Sigurðsson kusu hins vegar að líta skjalið öðrum augum og blekkingin varð að höfuðmáli í fréttum um afgreiðslu fjárlaganna!

Síðan hefur Halldór Ásgrímsson skýrt frá því, að fangamarkið H.Á. á skjalinu sé ekki sitt heldur Helga Ágústssonar, sem var ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins á þessum tíma.

Alvörumál

Vegna þessa máls hef ég verið opinberlega sakaður um að hafa látið óvild í garð Mannréttindaskrifstofu Íslands ráða ákvörðunum á vettvangi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Mér sé í nöp við skrifstofuna vegna umsagna hennar um lagafrumvörp mín og annarra ráðherra. Gott ef ég á ekki að vera andvígur mannréttindum, og er það helst Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri/grænna, sem heldur þessum sjónarmiðum á loft. Yfirlýsingar af þessu tagi styðjast ekki við neitt annað en innræti höfunda þeirra.

Ég dreg ekki í efa, að umsagnir Mannréttindaskrifstofu Íslands um lagafrumvörp og hvaðeina annað, sem inn á hennar verksvið kemur, séu unnar af alúð. Ég er á hinn bóginn alls ekki fær um að fella dóma um efni þeirra, því að þær hafa ekki verið sendar til mín og ég hef ekki sérstaklega borið mig eftir þeim. Þær skipta einfaldlega engu máli í þessu efni.

Þegar forráðamenn skrifstofunnar ræddu við okkur ráðuneytisstjórann var höfuðáhersla lögð á mikilvægi þess starfs hennar, sem lyti að alþjóðlegu samstarfi. Það yrði að gera framkvæmdastjóranum kleift að vera þar virkur þátttakandi fyrir hönd lands og þjóðar í nafni skrifstofunnar.

Ég tel baráttu fyrir mannréttindum mikið alvörumál og hef látið mig hana skipta bæði sem blaðamaður og stjórnmálamaður. Á sínum tíma lá ég undir ámæli áhrifamikilla manna og fyrirtækja vegna skrifa minna um stjórnarhætti í Sovétríkjunum og var ég þá meðal annars sakaður um að spilla viðskiptahagsmunum Íslands með því að lýsa einræði kommúnista tæpitungulaust, reiddust ekki síst síldarseljendur og olíukaupendur þeirri skoðun.

Skömmu eftir að ég var kjörinn á þing settist ég í nefnd á vegum Þorsteins Pálssonar, þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, til að vinna að lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu hér á landi. Þá sat ég eitt kjörtímabil á þingi Evrópuráðsins og tók þar oft þátt í umræðum um mannréttindamál.

Grein þessa skrifa ég til að mótmæla harðlega árásum á mig og aðra ráðherra vegna þessa máls. Árásirnar eiga ekkert skylt við umhyggju fyrir mannréttindum. Málflutningurinn er á þann veg, að hann stenst ekki kröfur um traust og trúverðugleika.

Að lokum minni ég á, að alls ekki er sjálfgefið, að unnendur mannréttinda eigi að vera háðir fjárveitingum úr ríkissjóði. Á vefsíðu Íslandsdeildar Amnesty International má lesa:

"Amnesty International er óháð öllum stjórnvöldum, stjórnmálastefnum, efnalegum hagsmunum og trúarbrögðum. Samtökin hvorki styðja né eru andsnúin nokkrum stjórnvöldum eða stjórnmálakerfi, né styðja þau endilega viðhorf þeirra einstaklinga, sem eru viðfang mannréttindabaráttu samtakanna. Til að tryggja sjálfstæði sitt leitar Amnesty International hvorki eftir né þiggur fé frá ríkisstjórnum eða stjórnmálaflokkum í starf sitt við að skrásetja og berjast gegn mannréttindabrotum. Fjáröflun samtakanna byggir á framlögum félaga þeirra um heim allan, og annarri fjáröflun."

Mér finnst þetta virðingarvert viðhorf samtaka í baráttu fyrir mannréttindum og skil vel þá hugsun, sem býr því að baki.

Ég vil að lokum lýsa þeirri von minni, að sú fjárveiting til mannréttindamála, sem alþingi hefur með fjárlögum falið dóms- og kirkjumálaráðuneytinu að úthluta, nýtist vel til að efla mannréttindi og skilning á gildi þeirra.