11.12.2003

Brautskráning lögreglunema

Lögregluskóli ríkisins, Bústaðakirkju, 11. desember, 2003.


 


Mikilvægum áfanga er náð hjá ykkur, sem eruð brautskráð frá Lögregluskóla ríkisins við þessa hátíðlegu athöfn. Mér er sönn ánægja að óska ykkur innilega til hamingju með daginn og árna ykkur heilla í framtíðarstörfum.

"Lögreglustarf reynir mjög á andlegt ekki síður en líkamlegt atgervi manna," sagði Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, í samtali við Tímarit Morgunblaðsins um síðustu helgi. Hefðu menn hið andlega atgervi ekki í lagi, gripu þeir oft til misráðinna skyndilausna í von um að geta flúið þann raunveruleika, sem blasir við lögreglumanninum í starfi hans. Áður hefði meira verið talað um það en nú, að lögreglumaðurinn þyrfti að vera svo sterkur, að hann þyldi allt, en hann væri í raun bara maður.

Já, öll erum við bara menn, en kjósum að taka að okkur ólík verkefni. Þið, sem brautskráist á þessari aðventu hér í Bústaðakirkju, hafið ákveðið að gæta öryggis meðborgara ykkar. Leggja ykkar skerf af mörkum til að gera íslenskt þjóðlíf öruggara en það ella væri. Fyrir það færi ég þakkir og vænti þess, að Lögregluskólinn hafi búið ykkur vel undir að taka réttar ákvarðanir við hinar erfiðustu aðstæður, þar sem rétt viðbrögð geta skilið á milli feigs og ófeigs.

Lögreglustarfið er mikils metið meðal Íslendinga og fáar stofnanir þjóðfélagsins njóta meira trausts en lögreglan. Í því felst þess vegna ekki lítil ábyrgð, að slást í hóp þeirra, sem hafa aflað lögreglunni þessa trausts. Er mikið í húfi, að ekki falli blettur á hinn góða starfsheiður lögreglunnar.
Löggæsla byggist á tveimur meginstoðum, almennri löggæslu og rannsóknum. Á milli þessara stoða verða að vera greiðar leiðir, þótt starfsaðferðir séu að ýmsu leyti ólíkar. Þessi skipting og tenging er lögð til grundvallar í því starfi, sem nú er að hefjast á vegum dómsmálaráðuneytisins í því skyni að tryggja sem best að framkvæmd löggæslu sé í samræmi við kröfur tímans.
Í umræðum um framtíð lögreglu hefur athygli lengi beinst að umdæmaskiptingu landsins, litlum einingum andspænis stærri og flóknari verkefnum en áður.
Samstarf milli umdæma á grundvelli sameiginlegrar fjarskiptamiðstöðvar hefur á tiltölulega skömmum tíma sannað gildi sitt. Nýlegt dæmi um góðan árangur af skjótvirku samstarfi er handtaka á vopnuðum ræningjum við Hafravatn síðastliðinn mánudag.

Vegna þessa atburðar og til að bregðast við vaxandi hörku í afbrotum hef ég í dag fengið heimild formanna ríkisstjórnarflokkanna og fjármálaráðherra til að efla styrk lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Tillögur um það eru í smíðum og lít ég þar sérstaklega til sérsveitar lögreglunnar
Undanfarið hef ég víða rætt um framtíð löggæslu, ný viðfangsefni og ný vinnubrögð. Tel ég, að væntingar manna á vettvangi lögreglu standi fremur til þess, að gerðar séu meiri breytingar en minni. Augljóst er, að fleiri sjá tækifæri í breytingunum en fyllast ótta vegna þeirra.
Verkefnið er í raun tvíþætt:
Í fyrsta lagi að koma á nýju skipulagi með það að markmiði að styrkja og efla starfsemi lögreglu og sýslumanna auk þess að bæta nýtingu fjármuna.
Í öðru lagi að móta löggæsluáætlun til næstu ára, þar sem kynnt er forgangsröð við úrlausn verkefna og sett eru mælanleg markmið fyrir löggæsluna.
Markmiðið er að löggæsla og ákæruvald eigi í fullu tré við þá sem gerast brotlegir við lögin og standi þeim helst feti framar. Efnahagsbrot eru fleiri og stærri en áður og rafrænum aðferðum er beitt af vaxandi þunga við brotastarfsemi. Þörf fyrir sérmenntað fólk til rannsókna verður sífellt meiri. Menntun, búnaður og tækjabúnaður lögreglu verður að vera í samræmi við markmið og kröfur á hverjum tíma, þjálfun sveita lögreglumanna á að taka mið af verkefnum og áhættu sem þeir verða oft að taka í mikilvægum störfum sínum.
Forystumenn Landssambands lögreglumanna hafa lýst miklum áhuga á því, að breytingar nái fram að ganga og eindregnum stuðningi við, að lögregluumdæmi verði stækkuð.
Til umbóta í löggæslu er mikils virði að fá hugmyndir frá lögreglunni sjálfri og lögreglumenn taki góðum hugmyndum vel og séu fúsir til að tileinka sér nýja starfshætti andspænis nýjum verkefnum og kröfum. Ungir og ferskir lögreglumenn eiga hiklaust að láta að sér kveða við mótun framtíðarinnar á starfsvettvangi sínum.
Langþráð markmið er að nást. Í landinu er lögreglumenntað fólk fyrir hendi til að skipa allar stöður lögreglumanna. Kynni mín af Lögregluskólanum, metnaði stjórnenda hans og kennara, áhuga nemenda skólans og sífellt meira framboði á símenntun segja mér, að af alúð, dugnaði og kappsemi sé unnið að því að mennta lögreglumenn.
Hér hef ég það ánægjulega hlutverk, að afhenda bókaverðlaun og bikar fyrir góðan árangur í íslensku. Nú ber svo við, að fjórir nemendur fengu 10 í þessari grundvallargrein, á lokaprófi. Verða þeir að koma sér saman um, að bikarinn gangi á milli þeirra á þriggja mánaða fresti næsta árið en hver fær sína verðlaunabók.

Góðir áheyrendur!
Ég þakka skólastjóra, skólanefnd, kennurum og öllu starfsliði Lögregluskólans vel unnin störf. Skipulag og starf skólans þarf sífellt að taka mið af öllu starfsumhverfi hans. Hin mikla reynsla og þekking innan skólans þarf að nýtast sem flestum, sem sinna öryggis- björgunar- og gæslustörfum á vegum dómsmálaráðuneytisins.
Ég ítreka heillaóskir til ykkar, ágætu nemendur. Megi gæfa fylgja ykkur í mikilvægum störfum. Gangið fram af stolti og virðingu fyrir starfsheiðri lögreglunnar.