30.11.2003

Ábyrgð að vera maður.

Aðventuræða í Grensáskirkju,30. nóvember, 2003.

Yfirlit

Þegar ég íhugaði, hvað ég ætti að ræða við ykkur hér á aðventukvöldi, kom mér enn hið sama í hug og sækir jafnan á við vangaveltur um slíkar ræður, hve erfitt getur verið fyrir okkur hvert og eitt að breyta um stellingar – fara úr okkar daglega fari og hversdagsverkefnum inn á nýjan vettvang, að þessu sinni í heim aðventunnar, tíma eftirvæntingar og fullvissu.

Slíkri áskorun ber þó að taka með gleði og er mér sérstök ánægja að fá að vera hér með ykkur í kvöld, en í ár er þess minnst, að Grensássöfnuður er 40 ára. Fyrsti sóknarpresturinn séra Felix Ólafsson var vígður til starfa í desember 1963. Hér á þessum stað hefur kirkjulegt starf safnaðarins farið fram síðan 1972, í safnaðarheimilinu í 24 ár, þar til kirkjan var vígð og tekin í notkun 8. desember 1996.

Hef ég átt margar góðar stundir við messur hér í safnaðarheimilinu hjá séra Halldóri Gröndal og einnig notið þess að heimsækja þetta glæsilega guðshús. Er mér þakklæti fyrir það allt ofarlega í huga á þessari stundu og einnig er gleðilegt fyrir söfnuðinn, að séra Ólafur Jóhannsson valdist hér til starfa, forystumaður hinnar merku hreyfingar KFUM og K, auk þess sem honum hafa verið falin trúnaðarstörf fyrir presta þjóðkirkjunnar eins og ég hef kynnst af samskiptum mínum við hann, eftir að ég varð kirkjumálaráðherra.

Prestar og stjórnmálamenn eiga það sameiginlegt að eiga töluvert undir því, hvernig þeim tekst að ná til fólks með ræðum sínum og málflutningi. Sá er hins vegar munurinn, að stjórnmálamenn starfa á þeim forsendum að semja til að ná markmiðum sínum en prestar boða kenningu, sem er hrein og tær. Minnast má þess, sem séra Bjarni sagði um hlutverk prestanna: „Við erum ekki ráðnir sem mælskusnillingar, en kallaðir af Drottni, sem vottar.“

Andstæða trúar og stjórnmála felst í því, að í stjórnmálum leita menn málamiðlana til að ná árangri, trúin krefst þess hins vegar, að menn vitni um og viðurkenni ákveðnar kenningar, sem ekki verður hnikað.

Markmið í stjórnmálum þurfa að vera skýr og einföld. Raunar er minna deilt um stjórnmálaleg markmið heldur en leiðir að þeim. Öll viljum við búa í haginn fyrir þá, sem minna mega sín. Við viljum stuðla að sátt í þjóðfélagi okkar og leggja lóð á vogarskál friðar á alþjóðavettvangi.  Á hinn bóginn erum við ekki endilega á einu máli um það, hvernig best verði staðið að því að ná þessu takmarki.

Stjórnmálamenn leggja það með sér í kosningum, sem þeir hafa gert, og bjóða fram krafta sína til að leysa mál á grundvelli stefnu sinnar. Sumir trúa á frelsi einstaklingsins og telja að svigrúm hans til orða og athafna eigi að vera sem mest. Aðrir leggja meiri áherslu á heildina og vilja, að ríkið eigi sem mesta hlutdeild í stóru og smáu. Að baki stjórnmálastefnu  búa oft kristin sjónarmið en á stjórnmálavettvangi starfa þeir einnig, sem gera ekkert með guðstrú, ef þeir beita sér ekki beinlínis gegn henni.

Ég gleymi því ekki, þegar ég kom til þýsku borgarinnar Leipzig, skömmu eftir að Berlínarmúrinn féll, og mér var bent á, að gömul Maríukirkja á höfuðtorgi borgarinnar hefði verið sprengd í loft upp undir lok sjöunda áratugarins til að rýma fyrir ljótu menningarhúsi í því skyni að árétta andstöðu stjórnvalda við kristindóminn.  Í Leipzig stendur þó Tómasarkirkjan enn, þar sem Bach var organisti og síðan reyndar Páll Ísólfsson.

Lýsti ég heimsókninni til Leipzig þannig í blaðagrein snemma árs 1990:

„Yfirbragðið var einna frjálslegast í Leipzig og í skjóli Tómasarkirkjunnar eru vinaleg kaffihús í evrópskum stíl, sem við sáum ekki annars staðar, ekki einu sinni í Austur-Berlín, þar sem áhersla sýnist lögð á að apa eftir verslunarhverfunum í Vestur-Berlín. Við fórum í Nicolai-kirkjuna í Leipzig, þar sem fólkið hópaðist upphaflega saman til að mótmæla stjórnvöldum og gerir enn á mánudagskvöldum. Hún er hvítmáluð að innan og falleg. Þar eru spjöld með upplýsingum um flokka eða félög og ljósmyndir úr einu af fangelsum öryggislögreglunnar, Stasi.“

Svona var andrúmsloftið, þegar þetta var skrifað og þarna kynntist ég með öðrum orðum umbreytingu á þjóðfélagi, þar sem markvisst hafði verið unnið að því í marga áratugi að útrýma kristnum áhrifum en þjóðin leitaði engu að síður inn í kirkjurnar, þegar þáttaskil urðu í sögu hennar og henni var kastað inn upplausn og óvissu.

Frá Leipzig og svæðinu þar um kring er margt komið, sem setur svip sinn á íslenska þjóðfélagið, menningu, trú okkar og stjórnarhætti.

Þarna var snillingurinn Johann Sebastian Bach og enn lifum við ekki stórbrotnari stundir í kirkjulegri tónlist heldur en þegar við heyrum verk hans. Þarna var siðbótamaðurinn Marteinn Lúther, sem lagði grunn að hinni lútersku evangelísku kirkju, þjóðkirkju okkar. Þarna var einnig í lok nitjándu aldar lögfræðingurinn og samfélagsfræðingurinn Max Weber, en skilgreining hans á innviðum frjálsra þjóðfélaga hefur mótað viðhorf og lausnir á vettvangi þjóðfélagsmála og á erindi við okkur enn þann dag í dag.

Weber ritaði í upphafi síðustu aldar fræga ritgerð um siðfræði mótmælenda og kapítalismann eða auðhyggjuna. Hugmynd Webers er í stuttu máli sú, að uppruna þess hagkerfis, sem nú hefur sigrað í keppni sósíalisma og kapítalisma, megi að verulegu leyti rekja til siðgæðis og trúarhugmynda mótmælenda og þá sérstaklega þeirra, sem birtast í kenningum Kalvíns og fylgismanna hans.

Samkvæmt þessari kenningu stendur hver maður aleinn frammi fyrir guði, Jesús dó fyrir hina útvöldu eina. Trúin veitir ekkert yfirnáttúrulegt samband við guð. Í ritgerð um Weber kemst Siguður Líndal prófessor þannig að orði um þennan trúarboðskap:

„Kalvínstrúarmaðurinn hefur engin úrræði til að bæta fyrir þær syndir, sem honum verður á að drýgja. Þetta felur í sér, að hann verður að þrautskipuleggja líf sitt í þjónustu guðs og hverfa umsvifalaust frá öllu fálmi og stefnuleysi, sem aðrar kirkjudeildir umbera með því að veita endurtekin tækifæri.”[1]

Fyrir kalvinista er syndsamlegt að velta fyrir sér, hvort hann sé meðal hinna útvöldu eða ekki. Aðeins eitt kemur honum að gagni: sleitulaust starf. Þetta er með öðrum orðum guðsótti, sem tengir saman kröfur kalvinisima og kapitalisma um góða siði.

Og Sigurður Líndal segir einnig:

„Varanlegustu áhrif Kalvínstrúar á hagþróunina voru þau að veita sálarlausri, vélrænni vinnu og kaldri reikningslist í viðskiptum trúarlega réttlætingu. Líklegast er, að þetta hafi ráðið úrslitum um, að fjármagnskerfi Vesturlanda varð til. Hliðstætt hafði reyndar gerzt áður. Skipulegt meinlætalíf í munkareglum miðalda hafði leitt til auðsöfnunar, og andi hennar vikið brott hinum fornu hugsjónum. Þá risu upp siðbótarhreyfingarnar hver eftir aðra, til dæmis betlimunkareglan, og þegar sama gerðist innan Kalvínstrúarinnar, reis einnig upp siðbótarhreyfing: meþódisminn á 18. öld. Í báðum tilvikum var stefnt að því að hefja meinlætalífið til vegs á ný.“[2]

Góðir áheyrendur!

Þessi tenging milli kristni og stjórnmála minnir á þá staðreynd, að um aldir hafa straumar í þjóðlífinu verið misjafnlega sterkir. En að lokum er leitað jafnvægis á forsendum, sem skírskota til þess, að ekki skuli það rifið upp með rótum, sem best reynist. Í kristnum þjóðfélögum er þá fótfestu að finna í boðskap Biblíunnar.

Lagt er út af þeim boðskap á mismunandi hátt í tímans rás, þótt þráðurinn slitni aldrei og ekki verði neitt úrelt, sem þar er sagt. Í hita umræðna síðustu daga vakti athygli, þegar Davíð Oddsson lagði áherslu á mál sitt með því að vitna í Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Var þetta meðal hans gegn heimsósómanum svo sterkt, að  það fór fyrir brjóstið á einhverjum og heyrði ég til dæmis í útvarpsspjalli, að stjórnanda viðræðuþáttar þótti þessi vísan til séra Hallgríms „gamaldags“.

Ef það sem er sígilt og tengir best samheldni í kristnum menningararfi okkar Íslendinga þykir gamaldags, er illa fyrir okkur komið. Raunar hefur hin síðari ár fremur virst vakning um lifandi gildi Passíusálmanna en að á þá sé litið sem gamalt sögulegt góss. Við vitum þó aldrei hvert tíðarandinn leiðir okkur, síst af öllu nú á þeim tíma, sem kenndur er við póst-módernisma og þegar allt er lagt að jöfnu og alla hluti á að skoða í afstæðu ljósi en ekki með vísan til inntaks þeirra og eðlis.

Enginn hefur lagt sig meira fram um að skýra það fyrir okkur en Kristján Kristjánsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, hvað felst í póst-módernismanum. Hann segir í einni ritgerða sinna:

„Ég hef reynt að skýra aðdráttarafl póstmódernismans með þrá fólks eftir kraftaverkum, leyndardómum og valdi í stað hversdagssanninda og frelsis. Sú þrá er hvergi betur krufin en í Karamazov-bræðrunum og þá samhliða lýsingu á leyndarvæðingu trúarinnar í áttina frá hinum einfalda kærleiksboðskap Krists. Önnur líking við trúarlegt minni liggur hér nærri: sagan um Mörtu sem mæddist í hversdagsverkunum á meðan María naut leyndardómanna. Ef til vill má líkja andófinu sem ég hef lagt lið, andófinu gegn rökleysis- og afstæðiskenningunni er kristallast í póstmódernismanum, við að Marta sé nú loksins að jafna metin við Maríu. Sá er þó höfuðmunurinn að bæði Marta og María voru kærleiksríkar konur þó að þær nálguðust veruleikann hvor á sinn hátt. Hatur póstmódernista á húmanisma og sameiginlegu manneðli, blástur þeirra á vonarglætuna um betri og skilningsríkari heim, fær mann hins vegar til að efast um að þeir séu upp til hópa góðir menn. Og er það ekki á endanum eina ófyrirgefanlega syndin?“[3]

Hér er fast að orði kveðið og sé rétt, að skotið hafi rótum lífsviðhorf í samtíma okkar, sem hafnar kærleiksboðskapnum, er vá fyrir dyrum. Max Weber benti á að hverdagsverkin, að vera trúr yfir því, sem manni er falið, gæta þess og rækta það, væri inntak lífs hins sanntrúaða manns og hornsteinn agaðs þjóðfélags. Hitt skiptir ekki minna máli, að kærleikurinn sé  hafður í heiðri, þegar tekist er á við viðfangsefni daglegs lífs.

Spyrja má, hvort samtíminn mótist af því að menn telji kraftaverkin felast í takmarkalausum tækifærum til að afla sér fjár og ekki þurfi að taka tillit til neins annars en eigin hags og ekki þurfi að huga að neinu öðru en leiðum til að ná til sín sem mest af veraldlegum gæðum.

Á slíkum tímum er brýnt að halda boðskap og eftirvæntingu aðventunnar hátt á loft. Minnumst orðanna í Matteusarguðspjalli, þar sem segir:

Þá kom til hans maður og spurði: ,,Meistari, hvað gott á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?``

Jesús sagði við hann: ,,Hví spyr þú mig um hið góða? Einn er sá hinn góði. Ef þú vilt inn ganga til lífsins, þá haltu boðorðin.``

Hann spurði: ,,Hver?`` Jesús sagði: ,,Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, heiðra föður þinn og móður, og þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.``  

Þá sagði ungi maðurinn: ,,Alls þessa hef ég gætt. Hvers er mér enn vant?``

Jesús sagði við hann: ,,Ef þú vilt vera fullkominn, skaltu fara, selja eigur þínar og gefa fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan, og fylg mér.``

Í þessum orðum felst mikil og skilyrðislaus krafa og hún minnir enn á skilin milli stjórnmála og trúar. Í stjórnmálum hreykja menn sér af því að gefa eigur annarra. Kristna kærleikskrafan er, að menn gefi eigin eigur. 

Hinn sígildi kristni boðskapur er aldrei gamaldags, nema menn hafni inntaki hans, leggi allt að jöfnu í ímyndaðri veröld, geri lítið úr hversdagsverkunum og þyki engu skipta að vera trúir yfir því, sem þeim er falið, gæta þess og rækta.

Aðventan gefur okkur tilefni til að skoða þetta allt sífellt í nýju ljósi en jafnframt viðurkenna óslitna þráðinn til barnsins í jötunni, sem vekur eftirvæntingu og von.

Ég flyt Grensássöfnuði heillaóskir á 40 ára afmæli hans. Megi hér enn um langan aldur verða lögð rík rækt við að boða kærleiksríka trú í fullvissu þess, að því fylgir mikil ábyrgð að vera maður. Enginn fær skorast undan þeirri ábyrgð.

Aðventuljósið, sem er kveikt hér í kvöld, minnir á hið eilífa ljós og ljósið, sem þarf að loga innra með okkur hverju og einu til að við metum að verðleikum, að við erum guðs börn. „Ég er ljós heimsins. Sá, sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“segir Jesús Kristur. Megi þetta ljós lýsa okkur öllum á aðventu jóla og endranær og vera okkur sú birta, sem veitir lífinu sanna gleði.

Ævintýri jólanna rætist á hverju ári, séum við tilbúin að taka á móti boðskap þeirra. Aðventan á að auðvelda okkur það. Ég þakka stundina með ykkur hér í kvöld. Megi gleði, birta og minningar jólanna fylla huga okkar og hjörtu. Ég óska ykkur velfarnaðar í lífi og starfi með blessun Jesú Krists.


[1] Menn og máttur, Max Weber, Lærdómsrit bókmenntafélagsins,  Reykjavík 1978, inngangur eftir Sigurð Líndal, bls. 28.

[2] Ibid, bls. 30 til 31.

[3] Mannkostir, útgefandi Háskólaútgáfan, Rvk. 2003, eftir Kristján Kristjánsson bls. 239.