16.11.2003

Kristni í fjölmenningarsamfélagi.

Hallgrímskirkja,16. nóvember, 2003.

 

 

 

Við komum hér saman til að ræða kristni í fjölmenningarsamfélagi á degi íslenskrar tungu, þegar minnst er fæðingardags listaskáldsins góða, Jónasar Hallgrímssonar, með því að halda fram hlut móðurmáls okkar Íslendinga.

Dagur íslenskrar tungu er hátíðisdagur móðurmálsins og var fyrst haldinn hátíðlegur 16. nóvember 1996. Hann er dagur, sem Íslendingar nota til að íhuga sérstöðuna, sem endurspeglast í tungunni. Dagurinn er merki um hina staðfestu vissu Íslendinga, að þeir eiga sér eigin sögu og menningararfleifð. Sagan og arfleifðin eru nátengd kristinni trú. Ef Biblían hefði ekki verið þýdd á íslensku við siðaskiptin, væri staða íslensku þjóðarinnar önnur í hinu alþjóðlega samfélagi.

Áhugi á því að leggja rækt við tunguna er mjög mikill. Sjást þess víða merki, að staða hennar er sterkari nú en áður í sögu þjóðarinnar.

Áreitið á tunguna er þó meira en nokkru sinni fyrr. Upplýsingar streyma að okkur eftir nýjum leiðum og engum dettur í hug að stífla þær. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að minna á þá staðreynd, að tungumálið er tækið, sem við nýtum til að miðla þekkingu og afla hennar. Hún er öflugasta, þjóðlega verkfæri okkar. Íslenskan mótar handbragð okkar Íslendinga í þekkingarsamfélaginu og hún gefur framlagi okkar til þess sérstakt gildi. Með því að leggja rækt við sérkenni tungunnar styrkjum við hlut okkar í hinu alþjóðlega samfélagi.

Á sama tíma og samstarf þjóða eykst og auðveldara verður að koma skoðunum sínum hindrunarlaust á framfæri við heiminn allan, leggja einstaklingar og þjóðir meiri rækt en áður við uppruna sinn og sögu. Ætti það ekki að koma okkur Íslendingum á óvart, því að við lítum þannig á, að sagan, landið og tungan skapi okkur helst sérstöðu í samfélagi þjóðanna. Töpum við þessum sérkennum, mun ekki líða á löngu, þar til við glötum viljanum til þeirrar baráttu, sem hefur á ótrúlega skömmum tíma breytt íslenska þjóðfélaginu úr bændasamfélagi í háþróað og auðugt þekkingar-, þjónustu- og iðnaðarsamfélag, án þess að menningararfleifð okkar hafi lotið í lægra haldi fyrir erlendum menningarstraumum.

Við vitum öll, að án tungunnar hverfur íslenska þjóðin inn í stærra samfélag eins og Jónas Hallgrímsson og aðrir Fjölnismenn töldu á sínum tíma. Raunar blasir við, að það yrði inn í hinn enskumælandi heim, því að Norður-Atlantshafið, sem umlykur okkur, er menningarlegt yfirráðasvæði hinna öflugu enskumælandi nágranna okkar í austri og vestri.

Sé litið til ríkja heims, er almennt talið, að Kanadamenn hafi lagt grunn að fjölmenningarlegu ríki eða samfélagi af mestri alúð og líkja þeir stefnu sinni við mósaik, þar sem fólk af ólíku þjóðerni myndar eina heildarmynd.

Kanada er byggt landnemum, sem hafa komið þangað úr öllum heimshornum og þótt þeir líti á sig sem Kanadamenn er þeim ljúft að leggja rækt við uppruna sinn og menningarlegar rætur utan landamæra Kanada eins og við Íslendingar þekkjum vel af kynnum okkar af Vestur-Íslendingum.

Raunar er það skoðun margra, sem sækja Vestur-Íslendinga heim, að þar fái þeir tækifæri til að kynnast rómantískri þjóðernisstefnu, sem stendur að ýmsu leyti nær tíma Jónasar Hallagrímssonar í viðleitni sinni til að viðurkenna það, sem íslenskt er, en það, sem við gerum hér heima fyrir til að leggja rækt við hin sameiginlegu menningarlegu og sögulegu tákn Íslendinga.

Þegar rætt er um fjölmenningu eru aðstæður í Kanada og á Íslandi gjörólíkar. Innan Kanada eru enska og franska til dæmis jafnrétthá tungumál. Mósaik-stefnan miðar ekki að því að skapa menningarlega einsleitni heldur byggist hún á því að raða mismunandi brotum í eina heild.[1] Hér er leitast við að beina sem flestum í sameiginlegan menningarlegan farveg, þótt fjölbreytni fái að njóta sín innan hans.

Í umræðum líðandi stundar um þjóðerniskennd okkar Íslendinga ber nokkuð á því, að menn telji landið vera að hafa betur en söguna eða tunguna, þegar Íslendingar skilgreina stöðu sína meðal þjóða. Við vitum, að nú er þeim að fjölga í landinu, sem hvorki þekkja tungu þess né sögu heldur festa hér rætur með því að skírskota til landsins, enda er landið, hvað sem öðru líður, sameiginlegt okkur öllum, sem hér eigum heimili, hvort sem við erum hér borin og barnfædd eða komum frá Póllandi, svo að dæmi sé tekið um fjölmennan hóp erlendra manna hér á landi um þessar mundir.

Við sem þekkjum þjóðarsöguna og Íslendingasögurnar vitum, að allt frá því að Gunnar á Hlíðarenda sneri aftur hefur blundað í þjóðarsál Íslendinga, að land þeirra hafi sterkt aðdráttarafl auk þess sem það auðveldi að greina okkur frá öðrum. Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri, hefur orðað þetta svo: „Ef á Njálu er minnzt, vita allir, við hvað er átt og „fögur er hlíðin“ merkir aðeins eitt: þá dýpstu og sönnustu ættjarðarást, sem er til.”[2]

Gunnar á Hlíðarenda hafði aðrar hugmyndir um stöðu sína í veröldinni en við, sem nú förum sem Íslendingar um Fljótshlíðina. Spurning er, hvort hann taldi sig hafa sérstakt þjóðerni eða leit á sig sem Íslending meðal þeirra, sem byggðu löndin og eyjarnar við austanvert Norður-Atlantshaf.[3] Hann þurfti að svara spurningunni á sínum forsendum ekki síður en við, sem lifum tíma, þegar fjarlægðir eru orðnar að engu og hlutur þjóðríkja tekur á sig nýja mynd í alþjóðasamstarfi.

En Gunnar horfir hlíðarbrekku móti,

hræðist þá ekki frægðarhetjan góða

óvinafjöld, þó hörðum dauða hóti...

Því Gunnar vildi heldur bíða hel

en horfinn vera fósturjarðarströndum.[4]

***

Frá því að Íslendingar settust að í landi sínu hefur þeim verið auðvelt að skilgreina rætur sínar. Þeir hafa ekki þurft að sanna þjóðerni sitt fyrir sjálfum sér eða öðrum nema með því að vísa til lands, tungu og sögu. Færð hafa verið fyrir því rök, að þjóðernishyggja sé svo samofin hugsunarhætti Íslendinga, að menn hafi ekki lagt sig mikið eftir því að brjóta hana til mergjar – meta hana sem sérstakt mótunarafl samfélagsins.[5] Hvað sem því líður er nauðsynlegt að átta sig á því, hvað felst í hugtakinu þjóð. Nú á tímum er talið, að hópur fólks verði að fullnægja fjórum skilyrðum til þess að kallast þjóð:

Í fyrsta lagi þarf hópurinn að vera svo fjölmennur, að innan hans þekki ekki allir alla, heldur aðeins einhvern minnihluta hans. Með þessu eru þjóðir skildar frá samfélögum, sem eru fámenn og tengsl allra innan þeirra tiltölulega náin.

Í öðru lagi er þjóð samfélag manna, sem eiga tengsl við sérstakt landsvæði og líta á það sem ættjörð sína. Sérhver þjóð á rætur í einhverju landsvæði, jafnvel þótt meirihluti þeirra, sem teljast til þjóðarinnar, búi utan landsvæðisins. Stundum gera fleiri en einn hópur tilkall til sama landsvæðisins og getur það leitt til langvinnra deilna eins og á Norður-Írlandi, í Palestínu og Kashmir, svo að alkunn dæmi séu nefnd.

Í þriðja lagi skilgreina þjóðir sig með áherslu á menningarleg sérkenni, sem skilja þær frá öðrum þjóðum. Þessi sérkenni kunna að felast í tungumáli, siðum, listsköpun, trú, kynþætti eða einhverju öðru. Þjóðir tengja þessi sérkenni venjulega sameiginlegri menningararfleifð eða samstöðu um að tryggja framtíð slíkrar arfleifðar.

Í fjórða lagi finnur þjóð til samkenndar á þann veg, að hún getur dregið skil á milli sín og „útlendinga”. Auk þess hafa þjóðir gjarnan gert ráðstafanir til að tryggja sig gegn innrás, „ytri” íhlutun eins og hernaðarárás eða nýlendukúgun. Þá hafa þjóðir leitast við að efla innbyrðis tengsl þeirra, sem til þeirra heyra, með sérstökum réttindum, eins og ríkisborgararétti eða almannatryggingum, sem aðeins hinir „innvígðu” njóta.[6]

Á tímum Gunnars á Hlíðarenda höfðu menn ekki skýrt hugtakið þjóð, enda ekki fyrr en á 19. öld, sem það var gert. Augljóst er, að Íslendingar uppfylla öll skilyrðin fjögur hér að ofan.

***

Mikil ögrun felst í samtímanum fyrir þjóð, sem á jafnauðvelt með að greina sjálfsmynd sína í samfélagi þjóðanna og Íslendingar auk þess að hafa um aldir búið við landfræðilega einangrun. Ögrunin felst í hnattvæðingunni og birtist í gjörbreytingu í fjarskiptum, ferðalögum og flutningi fólks á milli landa.

Hinn 31. desember 2002 áttu lögheimili hér á landi 19. 072 íbúar fæddir erlendis. Þetta eru 6,6% landsmanna eða því sem næst 15. hver maður. Árið 1992 var þessi tala einungis 3,9% þannig að ljóst er, að Ísland vekur nú meiri áhuga annarra en áður. Af þeim 6,6% sem fædd eru erlendis hafa 3,5% erlent ríkisfang. Þeim hefur fjölgað um helming á áratug og eru nú hlutfallslega litlu færri en á hinum Norðurlöndunum. Í Noregi er hlutfallið 4,1%, í Danmörku 4,8%.[7]

Íslensk stjórnvöld og almenningur eru smám saman að átta sig á þeirri breytingu, sem er að verða á þjóðfélagi þeirra. Í upphafi þessa árs tóku ný lög um útlendinga gildi, byggjast þau á evrópskum grunni vegna aðildar okkar að evrópska efnahagssvæðinu og Schengen-samkomulaginu um sameiginleg landamæri aðildarlandanna og samræmdar reglur um gæslu þeirra.

Meðal nýmæla í útlendingalögunum er ákvæðið um, að til að fá búsetuleyfi hér á landi þurfi útlendingur að sækja námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Umsækjandi um búsetuleyfi skal hafa sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga, að lágmarki samtals 150 stundir. Hann skal leggja fram vottorð til staðfestingar á þátttöku í slíku námskeiði og um ástundun sína, og skal tímasókn vera að lágmarki 85%.

Krafan um kunnáttu í íslensku byggist á þeim meginrökum, að gera eigi markvissar ráðstafanir til að rjúfa sem mest einangrun þess fólks, sem flyst hingað og hefur ekki vald á íslensku. Krafan endurspeglar einnig viðleitni til að tryggja áfram menningarlega einsleitni. Er þetta leið til þess, sem verið er að lögleiða í sífellt fleiri löndum. Af umræðum um málefni útlendinga í Þýskalandi má til dæmis ráða, að þar í landi telji menn, að skylda útlendinga til að leggja stund á þýsku, hafi verið lögfest alltof seint. Þar er þess nú krafist, að útlendingar sæki 600 stunda námskeið í þýsku en í reglunum hér er miðað við 150 stunda íslenskunám, eins og áður sagði.

Eitt er að kenna fullorðnum útlendingum íslensku og annað að taka á móti börnum af erlendum uppruna í skólakerfinu. Árið 2001 töluðu leikskólabörn í Reykjavík yfir 50 ólík tungumál og voru af 90 mismunandi þjóðernum. Tvítyngd börn voru þá rúmlega 400 og hefur þeim síður en svo fækkað síðan. Þá stækkar einnig erlendur hópur starfsmanna á leikskólum jafnt og þétt.

Í viðtali við Morgunblaðið 22. desember 2002 sagði Kolbrún Vigfúsdóttir, leikskólafulltrúi hjá Leikskólum Reykjavíkur:

„Ísland hefur á fáum árum breyst í fjölmenningarlegt samfélag. Þess vegna er kannski ekki nema von að leikskólarnir séu svolítið leitandi í tengslum við framkvæmd fjölmenningarlegs starfs innan leikskólanna.“

Í þessu efni reynir ekki síður mikið á grunnskólann, en í Reykjavík er kynningarbæklingur um hann gefinn út á 12 tungumálum. Í Morgunblaðinu 30. mars síðastliðinn birtist viðtal við Friðbjörgu Ingimarsdóttur,  kennsluráðgjafa í nýbúafræðslu í grunnskólum Reykjavíkur, sem sagði, að fjölgun nemenda af erlendum uppruna samsvaraði því að reykvískum grunnskólum hefði fjölgað um einn til tvo á árabilinu 1999 til 2003.  Friðbjörg sagðist sammála áherslu stjórnvalda á að útlendingar lærðu íslensku. Tungumálið væri mikilvægur liður í því að fólk gæti tekið virkan þátt í samfélaginu. „Ég veit að krakkarnir í móttökudeildarskólunum eru alveg sammála mér um að setja íslenskunámið í öndvegi. Mörg þeirra finna mjög til með foreldrum sínum sem oft hafa ekki náð tökum á tungumálinu," sagði Friðbjörg.

Það eru ekki aðeins skólarnir, sem hafa tekið á móti nýjum íbúum landsins á skipulegan hátt. Hið sama má til dæmis segja um þjóðkirkjuna.

Innan hennar starfar prestur innflytjenda, séra Toshiki Toma, með það hlutverk að aðstoða innflytjendur, flóttamenn, hælisleitendur og langtímagesti, sem búsettir eru á Íslandi, auðvelda þeim og fjölskyldum þeirra að byrja nýtt líf hérlendis og vernda mannréttindi þeirra.  Presturinn á einnig að vinna að því að koma á gagnkvæmum skilningi milli mismunandi trúarbragða til að fyrirbyggja óþarfa fordóma, sem geta komið upp gegn öðrum trúarbrögðum en kristni. Miðast þjónustan ekki við að aðskilja innflytjendur frá Íslendingum og íslensku samfélagi, heldur að losna við vandkvæði, sem liggja á milli þeirra.[8]

Undir handarjaðri kirkjunnar er einnig unnið að ýmsum verkefnum, sem eiga að stuðla að því að brúa bilið milli Íslendinga og innflytjenda og má þar til dæmis nefna verkefnið Adrenalín á vegum miðborgarprests séra Jónu Hrannar Bolladóttur, en markhópur þess eru Íslendingar og innflytjendur á aldrinum 14 til 20 ára. Leitað er leiða til að ungir innflytjendur finni sig heima í íslensku þjóðfélagi og að ungir Íslendingar finni sig heima í fjölþjóðasamfélaginu í því skyni að koma í veg fyrir óæskilegar hópamyndanir og ofbeldi vegna fordóma. Rætt er við unga fólkið um raunveruleg lífsgildi, siðferði og leiðir til að efla frið og gagnkvæma virðingu.[9]

Herra Karl Sigurbjörnsson biskup hefur vikið að trúarlegri hlið þessa viðfangsefnis í ræðum sínum og prédikunum og meðal annars sagt á prestastefnu:

„Hvernig mætum við framsókn Íslam í hinni gömlu, kristnu Evrópu? Á Bretlandseyjum t.d. iðka fleiri múslimar trú sína en kristnir menn, og í Danmörku sækjast múslímar eftir að kaupa kirkjur sem þjóðkirkjan hefur ekki lengur not fyrir, og breyta þeim í moskur. Það eru djúpstæð viðmiðahvörf á Vesturlöndum. Ísland fer ekki varhluta af því. Á sama tíma vex almennt kunnáttuleysi, eða öllu heldur ólæsi á hinn kristna arf okkar á meðal. Og við, vígðir þjónar, leiðtogar og hirðar kirkjunnar verðum að halda vöku okkar.“[10]

Góðir áheyrendur!

Hér gæti ég í raun sett punkt. Ég hef með aðstoð þeirra, sem ég hef nefnt hér til sögunnar, leitast við að draga upp mynd af því, hvernig þjóðfélag okkar er að breytast og hvernig brugðist er við breytingunum meðal annars innan skóla og kirkna. Ég hef sérstaklega staldrað við tungumálið í tilefni dagsins og vegna þess hve miklu þekking á því skiptir til að njóta sín í mannlegu samfélagi. Við lítum á tungumálið sem lykil að því að kynnast innviðum íslensks samfélags og tengjast því.

Á hinn bóginn erum við ekki þeirrar skoðunar, að gera skuli þá kröfu að útlendingar, sem flytjast til Íslands, taki kristna trú og því síður, að þeir skrái sig í þjóðkirkjuna.

Í umræðum um þessi viðkvæmu en brýnu mál þurfum við að átta okkur á rammanum til að sjá, hvort myndin rúmast innan hans. Ramminn um íslenska þjóðfélagið mótast af skýrum þáttum og þar skiptir hinn kristni strengur ekki minna máli, þegar grannt er skoðað, en sagan og tungan. Við gerum þó ekki kröfu til þess, þegar fólk óskar eftir leyfi til búsetu í landi okkar, að það kasti trú sinni og taki upp þann sið, sem við aðhyllumst og er nefndur í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Væri sú krafa lögbundin, yrði hún talin brjóta í bága við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og alþjóðasamninga um mannréttindamál.

Allt frá því kristni var lögtekin á Íslandi hefur það verið þráður í trúariðkun okkar, að sýna þeim, sem aðhyllast annan sið skilning. Íslendingasögur og gamlar frásagnir geyma lýsingar á því, hvernig tekið var á viðfangsefnum þeirra tíma, sem nú yrðu kennd við fjölmenningu.

Tengsl ríkis og þjóðkirkju grundvallast á sögulegri hefð, þar sem margir þræðir hafa verið samofnir. Tengslin sækja styrk sinn til gagnkvæmrar virðingar milli hins veraldlega og andlega valds.

Ákvæði stjórnarskrárinnar um stöðu hinnar evangelísku lútersku kirkju endurspegla sögulega þróun og kristna lífæð íslensku þjóðarinnar í þúsund ár.  Þau staðfesta, að þjóðskipulag okkar byggist á kristnum gildum.

Með kristnitökuhátíðinni árið 2000 var áréttað gildi samheldni í Íslandssögunni undir merkjum kristinnar trúar, frá því að sáttargjörðin mikla var kynnt á Lögbergi. Þá voru einnig ítrekuð  meginviðhorfin, sem eru þjóðinni helst til heilla um ókomin ár. Kristnitakan lagði hinn trausta grunn, sem ekki hefur haggast í aldanna rás og stendur af sér allar stefnur og strauma.

Í þessum anda en ekki varnarstöðu gagnvart breytingum og aukinni fjölbreytni ber skilgreina stöðu kristni í samfélagi okkar á líðandi stundu. Að túlka stjórnarskrána er lögfræðilegt og pólitískt úrlausnarefni en ekki guðfræðilegt eða trúarlegt. Það er einnig lögfræðilegt og pólitískt viðfangsefni að tryggja öllum jafna stöðu í landi okkar án tillits til trúarskoðana eða uppruna.

Andstæða trúar og stjórnmála felst í því, að í stjórnmálum leita menn málamiðlana til að ná árangri, trúin krefst þess hins vegar, að menn viðurkenni ákveðnar kenningar, sem ekki verði hnikað. Í nútímaþjóðfélögum, þar sem allt er talið afstætt, er brýnna en áður að hafa fótfestu. Leitin að henni er meðal þess, sem vekur menn til trúar. Jóhannes Páll páfi II hefur oft sagt, að saga Evrópu í tvö árþúsund sé samofin sögu kristninnar. Þótt allir Evrópubúar telji sig ekki kristna hafi þeir orðið fyrir svo miklum áhrifum af kristnum boðskap, að án hans væri tæplega unnt að tala um Evrópu. Hin kristna menning skapi sameiginlegar rætur okkar Evrópubúa. Leitin að sannleikanum sé grundvöllur allrar menningarviðleitni, í því felist virðing fyrir manninum og rétti hans, einkum beri að virða málfrelsi hans og trúfrelsi. Í heimi, þar sem tekist sé á við mörg vandamál, opni boðskapur Krists óravíddir, veiti óviðjafnanlegan kraft, ljós í þekkingarleit, viljanum afl og hjartanu kærleika.

Við getum heimfært þessi orð páfa til Íslands og sagt, að hinar kristnu rætur tryggi samheldni í sögu íslensku þjóðarinnar en þær opni einnig óravíddir á grundvelli orða Krists. Páll postuli vann hið mikla afrek að opna hinum kristna boðskap leið inn í menningarheim Evrópu og þar með leggja grunn að þeirri Evrópu, sem varð vagga kristni fyrir veröldina alla.

Nú um 2000 árum eftir daga Páls postula er unnið að því á pólitískum vettvangi Evrópusambandsins að setja því eina stjórnarskrá og þá vakna deilur um, hvort í texta hennar skuli vísað til hins kristna uppruna Evrópu, hvort þar skuli minnst á Guð kristinna manna. Málsvarar þess segja, að Evrópa byggist á kristinni arfleifð og með vísan til hennar sé skerpt á sérkennum álfunnar. Með því sé ekki verið að takmarka trúfrelsi heldur halda fram sögulegum staðreyndum, sem ekki megi gleymast. Andstæðingarnir segja, að í slíkri tilvísun fælist viðleitni til að setja múslíma og aðra, sem ekki eru kristnir, eða eru trúlausir til hliðar.

Niðurstaða þessara umræðna varð sú málamiðlun, að í inngangi að stjórnarskránni er vísað til þess, að hún sæki inntak sitt til menningarlegrar, trúarlegrar og mannúðlegrar arfleifðar Evrópu en gildi hennar megi enn sjá í menningarlegum verðmætum, sem einkenni þjóðlíf álfunnar, tryggi höfuðhlutverk mannsins, ófrávíkjanlegan rétt hvers og eins án tillits til kynferðis og virðingu fyrir lögum og rétti.

Þetta er hins pólitíska lausn samtímans á deilum innan Evrópu um það, hvort minnst skuli á Guð kristinna manna í stjórnarskrá Evrópusambandsins. Augljóst er, að hún er langt frá hinu ótvíræða orðalagi í íslensku stjórnarskránni eða stjórnarskrám þeirra landa, þar sem beint er vísað til kristindómsins, eins og til dæmis Ítalíu og Þýskalands.

Meðal röksemdanna gegn því, að minnast beint á kristna trú í þessu skjali Evrópusambandsins, er, að þar með sé verið að útiloka múslímaríkið Tyrkland frá því að gerast aðili að sambandinu. Barátta kristinna manna og múslíma er snar þáttur í sögu Evrópu og sé deilan um þetta mál liður í því stríði.

Í Evrópu er gjarnan litið þannig á, að nútímavæðing þjóðfélaga leiði til afsiðunar þeirra. Þetta á hins vegar ekki við um Bandaríkin. Þjóðernisleg og menningarleg einsleitni byggð á kristnum gildum setur sterkan svip á Bandaríkin. Þar býr trúaðasta þjóðin meðal ríkustu þjóða heims, þótt þar sé engin þjóðkirkja, eins og víða í Evrópu. Meira en 80% Bandaríkjamanna játa trú á Guð og 39% segjast hafa endurfæðst í Kristi. Bandaríkjamenn skiptast í kirkjudeildir eða söfnuði, sem keppa sín á milli um hylli fólks. Sterkustu trúarstraumana þar er að finna meðal þeirra, sem skírast að nýju og hvítasunnuhreyfingin verður til dæmis sífellt öflugri. Prédikarar láta víða að sér kveða og vilja, að siðferðisboðskapur sinn setji svip á stjórnmálalífið. Er auðvelt fyrir okkur Íslendinga að kynnast þessum straumum í Bandaríkjunum með því að kveikja á sjónvarpsstöðinni Omega. Þeir vekja ugg í hugum margra Evrópumanna og með vísan til þeirra sést oft talað niður til Bandaríkjamanna í evrópskum umræðum stjórnmálamanna og fjölmiðlamanna

Góðir áheyrendur!

Tungumálið er tæki til mannlegra samskipta en trúin markar inntak þessara samskipta og því skiptir sköpum fyrir frið og jafnvægi, að tillit sé tekið til hennar. Páll postuli sagði í Efesus-bréfi (4:31-32):

„Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.“

Sé þessi boðskapur hafður að leiðarljósi, er víst, að fjölmenningarlegt samfélag þróast í friði. Samtíminn og sagan kennir okkur hins vegar, að of víða gleymast þessi ráð. Umræður um stríð og frið í heiminum taka ekki lengur jafnmikið mið af veraldlegum ágreiningi og áður, athyglin beinist í ríkari mæli að trúarbrögðum. Átök milli múslíma og gyðinga eru blóðug fyrir botni Miðjarðarhafs og þau teygja anga sína víða.

Eftir árásina á Bandaríkin 11. september 2001 óttuðust margir, að átakatími menningar- og trúarlegra ríkjahópa væri að hefjast. Dró ekki úr þeim ótta, þegar ráðist var gegn talibönum, öfgasinnuðum múslímum, í Afganistan í því skyni að uppræta hryðjuverkamenn. Var því þá spáð, að milljarður múslíma mundi rísa til mótmæla og svipuð sjónarmið heyrðust, þegar snúist var með hervaldi gegn Saddam Hussein, einræðisherra í Írak.

Í stað hatrammra hernaðarátaka milli menningarheilda erum við nú vitni að skæruhernaði í Afganistan og Írak og hryðjuverkum, sem teygja sig meira að segja inn í Sádí-Arabíu.

Trúarlegt umburðarlyndi er til umræðu hvarvetna í lýðræðisríkjum og þar er tekist á um ýmis tákn, sem tengjast ólíkum siðum og trúarbrögðum. Víða í hinum kristna heimi hafa verið stigin skref til að afmá merki um kristna trú úr skólum og öðrum opinberum mannvirkjum vegna krafna þeirra, sem telja sér misboðið með táknum á borð við róðukrossa. Hér hafa birst fréttir um, að matseðli hafi verið breytt í grunnskóla til að koma til móts við þá, sem ekki vilja borða svínakjöt vegna trúar sinnar.[11]

Deilur um höfuðslæður múslímakvenna eru víða taldar sýna, hve þanþolið er mikið í vestrænum þjóðfélögum. Í þýska sambandsríkinu Baden-Württenberg komst hæstiréttur að þeirri niðurstöðu í september, að kennslukona mætti ganga með höfuðslæðu. Eftir að dómurinn féll, var lagt fram frumvarp til laga á þingi sambandríkisins um að höfuðslæður kvenna skyldu bannaðar í skólum.

Mannréttindasamtök segja, að bannið takmarki trúfrelsi, en talið er, að í sex öðrum sambandsríkjum verði lögð fram svipuð frumvörp um bann við höfuðslæðum í skólum. Málsvarar bannsins segja, að slæðurnar séu til marks um stjórnmálaviðhorf og eigi þess vegna ekki heima innan veggja skóla auk þess minni þær á menningarlegan ágreining og minni á sögulega viðleitni til að kúga konur. Bannið á ekki að gilda, þegar kennd eru trúarbrögð, og þá má einnig sýna kristin og gyðingleg trúartákn.

Þegar við ræðum þessi mál í okkar friðsæla landi, lítum við á þau, sem fjarlæg ágreiningsefni án beinna áhrifa á okkur. Í því felst hins vegar óskhyggja eða tregða til að viðurkenna, að fyrr en síðar stöndum við frammi fyrir svipuðum vanda og nágrannaþjóðir okkar, ef ekki hinum sama.

Miklu skiptir að ræða mál af þessum toga af raunsæi og þótt þau séu jafnan þrungin tilfinningum, að láta þær ekki ná yfirhöndinni. Hér er auðvelt að setja sig í spor faríseans og berja sér á brjóst og þykjast betri en aðrir. Hitt er sönnu nær, að skapist spenna hér eins og annars staðar í samskiptum fólks af ólíku þjóðerni, gleymast heilræði Páls postula í Efesus-bréfinu furðu fljótt.

Góðir áheyrendur!

Ég lýk máli mínu á sömu forsendum og ég hóf það með því að skírskota til þess, sem stendur á bak við vitund okkar Íslendinga um stöðu okkar sem þjóðar við nýjar aðstæður í heiminum. Styrkur okkar byggist á tungunni og fullvissunni um landið og menninguna, þar sem trúin er snar þáttur.

Við skulum leggja rækt við þessa þætti og jafnframt standa óttalaus gagnvart nýjum alþjóðlegum straumum.

 


 


[1] Á fundinum í Hallgrímskirkju kom fram hjá séra Ingþóri Indriðasyni, sem hefur verið búsettur í 40 ár í Kanada, að kanadísk fjölmenningarstefna sætti vaxnadi gagnrýni heima fyrir í Kanada og margir óttist, að þjóðin muni liðast í sundur vegna hennar auk þess sem sífellt sé gengið meira á hlut kristinna manna. Nefndi hann sem dæmi, að við minngarathöfn eftir að Swiss Air vél fórst utan við strönd Nova Scotia hafi kanadíska forsætisráðuneytið farið þess á leit við presta, að þeir minntust ekki á Jesú Krist við athöfnina, en múslímsum og gyðinglegum kennimönnum var boðið að taka þátt í athöfninni.

[2]  Matthías Johannessen, Njála í íslenskum skáldskap,  Rvk, 1958 bls. 167.

[3]  Sigurður Nordal, Íslenzk menning I (Arfur Íslendinga),  Rvk. 1942, bls. 97-98.

[4]  Jónas Hallgrímsson: Gunnarshólmi, Ritverk Jónasar Hallgrímssonar, I. bindi, Svart á hvítu, Rvk. 1989, bls. 78-79.

[5] Guðmundur Jónsson: Þjóðernisstefna, hagþróun og sjálfstæðisbarátta, Skírnir 169 ár (vor 1995) bls. 65.

[6] Jan Aart Scholte: Globalization, a critical introduction, Macmillan Press, London, 2000, bls. 161 – 162.

[7]Rúnar Helgi Vignisson: Landnámsmenn nútímans, Lesbók Morgunblaðsins, 26. apríl, 2003.

[8] Toshiki Toma: Prestur innflytjenda, Árbók kirkjunnar 2002, bls. 135.

[9]  Jóna Hrönn Bolladóttir: Miðborgarprestur, Árbók kirkjunnna 2002, bls. 128.

[10]  Karl Sigurbjörnnsson: Prestastefna Íslands 2003, Árbók kirkjunnar 2002, bls. 14

[11]  Þegar ég nefndi þetta  í Hallgrímskirkju kom til mín starfsmaður í mötuneyti Austurbæjarskóla, en þessi frétt birtist um þann skóla, og sagði hana algjörlega úr lausu lofti gripna og  skólafólkið væri undrandi á því, hve lífseig hún væri. Vissulega væri reynt að verað við óskum nemenda um skólamáltáðir en alls ekki rétt, að svínakjöt hefði verið tekið af matseðli skólans.