25.6.2021

Viðurkennd sérstaða landbúnaðarframleiðslu

Morgunblaðið, föstudag 25. júní 2021

 

Nokk­ur hiti hef­ur hlaupið í umræður um fríversl­un­ar­samn­ing Breta og Ástr­ala sem kynnt­ur var á dög­un­um. Ágrein­ing­ur­inn er ekki nýr af nál­inni þegar um slíka samn­inga er að ræða, hann snýst um land­búnaðar­mál. Því fer víðs fjarri að ís­lensk­ir bænd­ur eða fyr­ir­tæki í land­búnaðarfram­leiðslu skapi sér sér­stöðu með fyr­ir­vör­um og and­stöðu þegar fríversl­un er á döf­inni. Hvarvetna er talið að önn­ur lög­mál gildi um viðskipti með land­búnaðar­vör­ur milli landa en ann­an varn­ing.

Sérstaða land­búnaðar er til dæm­is viður­kennd á skýr­an hátt í sátt­mál­um Evr­ópu­sam­bands­ins. Fjár­hags­leg­ur stuðning­ur við land­búnað inn­an þess er mik­ill eins og sést á út­gjöld­um á sam­eig­in­leg­um fjár­lög­um sam­bands­ins og marg­vís­leg­um und­anþágum sem land­búnaður nýt­ur, þar á meðal frá sam­keppn­is­regl­um.

Kola- og stál­sam­bandið, for­veri ESB, lagði með þátt­töku sex ríkja grunn að sam­eig­in­leg­um markaði með kol og stál og rauf í upp­hafi sjötta ára­tug­ar­ins póli­tíska og viðskipta­lega eingangr­un Þjóðverja. Um miðjan ára­tug­inn ákváðu rík­in sex að stofna til sam­eig­in­legs markaðar um fleiri vör­ur. Að tekið yrði ríkt til­lit til hags­muna land­búnaðar réð úr­slit­um um stuðning Frakka. Fjórðung­ur vinnu­afls í Frakklandi starfaði þá við land­búnað og full­trú­ar bænda réðu miklu á franska þing­inu. Þessi staðreynd setti árið 1957 svip sinn á gerð Róm­arsátt­mál­ans, stofn­skrá þess sem nú er Evr­ópu­sam­bandið. Sam­eig­in­leg­ur evr­ópsk­ur land­búnaðarmarkaður í skjóli toll­vernd­ar og niður­greiðslna hélt lífi í frönsk­um smá­bænd­um. Nú má rekja 18% land­búnaðarfram­leiðslu inn­an ESB til Frakk­lands og eru um­svif fransks land­búnaðar meiri en þýsks eða ít­alsks.

Frakk­ar hafa alla tíð staðið vörð um hags­muni land­búnaðar inn­an ESB. Í gild­andi sátt­mál­um ESB er ESB-þing­inu veitt mjög víðtæk heim­ild til að ákveða að hvaða marki ákvæði laga og reglna eiga við um land­búnaðar­kerfið inn­an sam­bands­ins. Veita má und­anþágur að því gefnu að tekið sé mið af fimm meg­in­mark­miðum sam­eig­in­legu land­búnaðar­stefn­unn­ar sem upp­haf­lega var mótuð 1962.

Sam­kvæmt 42. gr. sátt­mál­ans um starfs­hætti ESB (TFEU) ákveður lög­gjafi ESB hve þungt sam­keppn­is­regl­ur vega á sviði land­búnaðar­mála með til­liti til land­búnaðar­stefnu ESB. Dóm­stóll ESB hef­ur úr­sk­urðað að sam­keppn­is­regl­ur víki stang­ist þær á við mark­mið land­búnaðar­stefn­unn­ar.

Þetta er mik­il­væg meg­in­stefna sem skap­ar for­skot fyr­ir fram­leiðend­ur inn­an ESB gagn­vart er­lend­um mörkuðum. Stór- og smáfram­leiðend­ur land­búnaðar­vara hér á landi standa höll­um fæti gagn­vart inn­flutn­ingi frá ESB-lönd­um þegar kem­ur að svig­rúm­inu inn­an ESB í krafti land­búnaðar­stefnu.

Til að starfs­skil­yrði land­búnaðar hér séu sam­bæri­leg og í ná­granna­lönd­un­um ber að tryggja svig­rúm inn­lendra fram­leiðenda land­búnaðar­vara inn­an þess ramma sem EES-aðild­in heim­il­ar. Á þetta skort­ir. Þá ætti að sjá til þess að sam­hengi sé milli laga­skil­yrða afurðastöðva og vinnslu­stöðva í land­búnaði til hagræðing­ar í rekstri og þess hvernig toll­um er beitt til að vernda inn­lend­an land­búnað. Sé ekki stigið til jarðar í þessu efni á rétt­an hátt verða kollsteyp­ur eins og gerðist með mis­ráðnum tolla­samn­ingi við ESB árið 2015.

 

Samið við Breta

Bret­ar voru aðilar að ESB þegar tolla­samn­ing­ur­inn var gerður árið 2015. Við úr­sögn þeirra úr sam­band­inu breytt­ust for­send­ur samn­ings­ins og er nú unnið að end­ur­skoðun hans í viðræðum við ESB.

Breska rík­is­stjórn­in fet­ar sig hins veg­ar skref fyr­ir skref til viðskipta­samn­inga við önn­ur ríki eft­ir ESB-úr­sögn­ina og brott­hvarfið af EES-markaðnum. Vegna ESB-aðild­ar­inn­ar hafði þekk­ing og reynsla við gerð fríversl­un­ar­samn­inga við aðrar þjóðir glat­ast inn­an breska stjórn­kerf­is­ins. Í tæp­lega hálfa öld sáu emb­ætt­is­menn ESB um gerð slíkra samn­inga fyr­ir hönd Bret­lands. Meðal lyk­ilraka úr­sagn­arsinna var að Bret­ar ættu að semja sjálf­ir á grund­velli eig­in hags­muna beint við aðrar þjóðir um viðskipti og það á skemmri tíma en þegar 27 önn­ur ríki ættu einnig hlut að máli og hvert og eitt vildi að eig­in hags­muna yrði gætt sér­stak­lega. Inn­an ESB dug­ar ekki lausn gagn­vart ríkj­um utan sam­bands­ins hún verður einnig að nást inn­byrðis. Leitað er mála­miðlana þótt yfirþjóðlegt vald og at­kvæði ráði að lok­um á sviði land­búnaðar- og sjáv­ar­út­vegs­mála.

Bret­ar fengu æf­ingu við að standa á eig­in fót­um með fríversl­un­ar­samn­ingi við EES/​EFTA-rík­in, Ísland, Liechten­stein og Nor­eg, sem kynnt­ur var 4. júní 2021. Í til­kynn­ingu ís­lenska ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins um samn­ing­inn seg­ir að hann sé „fram­sæk­inn“ og nái „til flestra sviða viðskipta á milli ríkj­anna og reglna sem hafa áhrif á þau“. Kjarna­hags­mun­ir Íslands séu tryggðir fyr­ir út­flutn­ing, þ.m.t. fyr­ir sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðar­vör­ur. Samn­ing­ur­inn auðveldi þjón­ustu­viðskipti milli ríkj­anna auk þess sem ís­lensk fyr­ir­tæki hafi aðgang að op­in­ber­um útboðum í Bretlandi. Þá sé tekið á lofts­lags­mál­um auk þess sem í fyrsta sinn í fríversl­un­ar­samn­ingi sem Ísland ger­ir sé „að finna sér­stak­an kafla um jafn­rétt­is­mál og vald­efl­ingu kvenna í viðskipt­um“.

Samningsskjalið sem birtist á vef stjórnarráðsins er 271 bls. Það kann að taka breytingum við lögfræðilega yfirferð. Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, sagði við Morgunblaðið 7. júní að við fyrstu sýn virtist sér að bændur gætu „unnið með þennan viðskiptasamning“. Samningurinn þjónaði hagsmunum Íslendinga.

 

 

Dairy-2Í stærsta kúabúi Ástralíu eru 17.800 kýr. Breskir bændur óttast samkeppni við slíka stórframleiðendur

Smá­ræði miðað við Ástr­ala

Samn­ing­ur­inn við Breta gef­ur Íslend­ing­um tæki­færi til auk­ins út­flutn­ings á lamba­kjöti og skyri með toll­frjáls­um inn­flutn­ingskvót­um, 692 tonn­um fyr­ir lamba­kjöt og 329 tonn­um í skyri. Seg­ir ut­an­rík­is­ráðuneytið að þetta stækki Evr­ópu­markað fyr­ir ís­lensk­ar land­búnaðar­af­urðir veru­lega – án þess að aðrar þjóðir fái meiri heim­ild­ir til inn­flutn­ings hingað. Íslend­ing­ar veiti Bret­um toll­frjálsa inn­flutn­ingskvóta fyr­ir 19 tonn­um af osti og 18,3 tonn­um af unn­um kjötvör­um.

Eng­ar lík­ur eru á að þess­ar heim­ild­ir til út­flutn­ings á ís­lensk­um land­búnaðar­vör­um til Bret­lands valdi þar upp­námi, að minnsta kosti ekki miðað við fjaðrafokið vegna fríversl­un­ar­samn­ings­ins við Ástr­ala, bestu banda­menn Breta. Ótti við ástr­alskt nauta­kjöt kann að stofna fríversl­un­ar­samn­ingn­um í hættu.

Til að milda áhrif ástr­alska samn­ings­ins er gert ráð fyr­ir að hann komi ekki að fullu til fram­kvæmda fyrr en 15 árum eft­ir að hann er full­gilt­ur. Þrátt fyr­ir þetta spá ein­hverj­ir gjaldþroti naut­griparækt­ar í Bretlandi og að samn­ing­ur­inn grafi und­an öll­um bú­skap með auk­inni sam­keppni. Varað er við vaxt­ar­horm­ón­um í áströlsku kjöti. Þá sé ekki unnt að keppa við jafn­stór bú og séu í Ástr­al­íu. Tals­menn samn­ings­ins segja alltof mikið gert úr horm­óna­hætt­unni og eng­in rök sýni að skepn­ur hagi sér á ann­an veg á stór­um búum en smá­um. Gagn­rýni í þessa veru sé fast­ur liður umræðu við gerð fríversl­un­ar­samn­inga. Höfuðmáli skipti að Bret­ar hafi frelsi og getu til að gera slíka samn­inga á eig­in for­send­um. Það verði þeim til minnk­un­ar að klúðra því vegna nauta­kjöts.

Bret­ar lutu sam­eig­in­legri land­búnaðar­stefnu ESB og máttu ekki gera eig­in fríversl­un­ar­amn­inga. Viðbrigðin eru því mik­il nú fyr­ir breska bænd­ur og marg­ir þeirra ótt­ast frelsið.

Íslensk stjórn­völd gera fríversl­un­ar­samn­inga og stunda viðskipti með land­búnaðar­vör­ur á EES-markaðnum án þess að lúta ESB-land­búnaðar­stefn­unni. Íslensk land­búnaðar­stefna á að styðja inn­lend­an land­búnað inn­an fríversl­un­ar­samn­inga. Hér gilda sömu lög­mál í þessu efni og ann­ars staðar.