20.3.2021

Varað við óreiðu

Morgunblaðið, laugardagur 20. mars 2021.

Á fyrstu mánuðum heims­far­ald­urs­ins setti Þjóðarör­ygg­is­ráð á lagg­irn­ar hóp manna til að fjalla um það sem kallað var upp­lýs­inga­óreiða. Hóp­ur­inn skilaði skýrslu í októ­ber 2020 og þar sagði meðal ann­ars:

„Upp­lýs­inga­óreiða, miðlun rangra eða mis­vís­andi upp­lýs­inga, t.d. með föls­un­um eða með því að höfða mark­visst til til­finn­inga, get­ur orðið að kerf­is­bundnu tæki til þess að grafa und­an staðreynd­um, ala á sundr­ungu eða laska orðspor keppi­nauta. [...] Þegar skipu­lega er stuðlað að upp­lýs­inga­óreiðu get­ur það verið liður í að tvístra sam­heldni og sam­fé­lags­gerð með því að draga úr trausti al­menn­ings á milli hópa, og á rík­inu sjálfu og stofn­un­um þess.“

Þessi ábend­ing er sí­gild og á ekki síður við núna þegar siglt er út úr far­aldr­in­um með bólu­setn­ing­um en þegar hann lagðist yfir án þess að nokk­ur vissi hvernig og hvenær tæk­ist að snúa vörn í sókn.

Afstaða til bólu­efna mót­ast mjög af því sem að okk­ur er haldið í fjöl­miðlum. Al­mennt kunn­um við lík­lega ekki að meta bylt­ing­una sem varð með því að á undra­skömm­um tíma tókst að fram­leiða bólu­efni á allt öðrum grunni en áður. Á inn­an við ári var þróað og fengið leyfi eft­ir­lits­stofn­ana fyr­ir notk­un tveggja bólu­efna í mönn­um. Ferlið tek­ur venju­lega nær 10 ár.

Tvær meg­in­gerðir bólu­efna hafa verið kynnt­ar til sög­unn­ar (1) fitu­hjúpaðar mRNA-öragn­ir, ekki hafði áður feng­ist leyfi til að sprauta þeim í menn (Pfizer, 95% vernd, Moderna, 94,1% vernd) (2) veiru­ferju­bólu­efni, lítið notuð í mönn­um til þessa (AstraZeneca, 70% vernd, Gam­a­leya, 91,6% vernd eft­ir einn skammt, J&J/​Jans­sen, 66% vernd eft­ir einn skammt).

„Aðal­kost­ur mRNA og veiru­ferju­bólu­efna er að þau virkja T-dráps­frum­ur, sem eyða veiru­sýkt­um frum­um og koma í veg fyr­ir veiru­fjölg­un, bet­ur en aðrar gerðir bólu­efna, svo sem dauðra veira, auk þess að vekja mót­efna­mynd­un og frumu­bundið ónæm­is­svar. Ann­ar kost­ur er hve ein­falt er að breyta mRNA eða DNA í veiru­ferju sem brodd­pró­tínið mynd­ast eft­ir, til að bæta vernd gegn nýj­um af­brigðum veirunn­ar,“ seg­ir Ingi­leif Jóns­dótt­ir, pró­fess­or í ónæm­is­fræði við lækna­deild HÍ, í grein í Lækna­blaðinu .

MRNA-vaccines-open-graphSkýringarmynd Pfizer á mRNA-bóluefninu.

Sé rétt skilið ger­ir mRNA-tækn­in kleift að end­urstilla virkni bólu­efn­is­ins, sé þess þörf vegna breyt­inga á veirunni. Bók­staf­ur­inn „m“ fyr­ir fram­an RNA stend­ur fyr­ir enska orðið messenger – boðberi – og gef­ur til kynna að senda megi RNA, systkini DNA, gegn óvinaveiru og granda henni.

AstraZeneca lenti í mikl­um mót­byr. Fyrst vegna þess að bólu­efnið dygði ekki fyr­ir 65 ára og eldri og síðan af ótta við að það kynni að leiða til blóðtappa. Fjöl­miðlar fluttu frétt­ir um þetta, rík­is­stjórn­ir lokuðu á notk­un bólu­efn­is­ins. Í báðum til­vik­um sner­ust hlut­laus­ir rann­sak­end­ur til varn­ar fyr­ir bólu­efnið. Sér­fræðing­ar Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­ar­inn­ar (WHO) sögðu að lokn­um fundi þriðju­dag­inn 16. mars að „ekk­ert benti“ til að blóðtapp­ar tengd­ust bólu­efn­inu. Lyfja­stofn­un Evr­ópu komst að sömu niður­stöðu fimmtu­dag­inn 18. mars. Taf­ir vegna hræðslu­frétta um efnið settu áætlan­ir margra rík­is­stjórna í upp­nám, meðal ann­ars hér á landi.

Eitt er að nýta hik­laust bólu­efni sem eru í boði, annað að finna réttu leiðina frá far­aldr­in­um. Mörg­um varð létt hér á landi þriðju­dag­inn 16. mars þegar rík­is­stjórn­in ákvað að viður­kenna ætti bólu­efna­vott­orð frá lönd­um utan Schengen-svæðis­ins og slaka á banni við ónauðsyn­leg­um ferðum til og frá land­inu. Öðrum var nóg boðið.

Bret­land og Banda­rík­in, helstu markaðslönd ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu, eru utan Schengen-svæðis­ins og for­ráðamenn þjón­ust­unn­ar létu eins og Schengen-sam­starfið héldi vottuðum flug­f­arþegum þaðan frá land­inu. Þetta var meira að segja full­yrt hér eft­ir 11. mars þegar ferðamálaráðherra Grikk­lands, Harry Theohar­is, til­kynnti að frá og með 14. maí yrðu grísku landa­mær­in opin öll­um sem hefðu verið bólu­sett­ir eða reynst nei­kvæðir við sýna­töku. Ferðamenn yrðu þó að sæta því að slemb­iaðferð yrði beitt við sýna­töku úr hópi þeirra.

Í sam­ræmi við minn­is­blað sótt­varna­lækn­is til­kynnti rík­is­stjórn­in 16. mars um breyt­ing­ar á sótt­varnaaðgerðum á landa­mær­un­um. Í minn­is­blaði sótt­varna­lækn­is til heil­brigðisráðherra sagði:

„Bólu­setn­ing­ar­vott­orð og vott­orð um fyrri Covid-sýk­ingu utan EES-svæðis­ins verði tek­in gild eins og vott­orð inn­an EES-svæðis­ins. Sömu kröf­ur verði gerðar til allra vott­orða.“

Þegar Svandís Svavars­dótt­ir heil­brigðisráðherra flutti Alþingi skýrslu um heil­brigðismál 17. mars sagði hún til skýr­inga á fram­kvæmd til­lögu sótt­varna­lækn­is: „Reglu­gerð um för yfir landa­mæri sem heyr­ir und­ir dóms­málaráðherra verður breytt þannig að al­mennt bann við til­efn­is­laus­um ferðum þriðja rík­is­borg­ara yfir ytri landa­mæri nær ekki til ein­stak­linga sem eru með um­rædd vott­orð. Það er jafn­framt al­ger­lega í sam­ræmi við til­lögu sótt­varna­lækn­is.“

Næst hófst tíma­bil sem ber merki um upp­lýs­inga­óreiðu.

Í há­deg­is­frétt­um rík­is­út­varps­ins 18. mars sagði að þá um morg­un­inn hefði dóms­málaráðuneytið birt reglu­gerð um að ferðamenn frá lönd­um utan Schengen-svæðis­ins mættu nú koma til lands­ins fram­vísuðu þeir bólu­setn­ing­ar­vott­orði – reglu­gerðin hefði þegar tekið gildi.

Á vis­ir.is sagði sama dag að reglu­gerðin varðandi þetta hefði ekki tekið gildi. Þá birt­ist á ruv.is að sótt­varna­lækn­ir segði til­mæli sín „hugsuð fyr­ir þá sem eiga brýnt er­indi hingað til lands“ en ekki að opnað yrði fyr­ir landa­mæri í aukn­um mæli, eins og aðgerð dóms­málaráðherra fæli í sér.

Úr þess­ari óreiðu þarf að greiða.