28.10.2023

Ungir bændur blása til sóknar

Morgunblaðið, 28. október 2023

Á málefnalegum og vel undirbúnum baráttufundi Samtaka ungra bænda í þéttsetnum Salnum í Kópavogi fimmtudaginn 26. október bentu ræðumenn, konur og karlar, á mikið misvægi milli fjárhagsvandans sem við blasir í íslenskum landbúnaði á líðandi stundu og tækifæranna sem felast í góðum búskaparháttum samhliða skynsamlegri nýtingu íslensks landbúnaðarlands.

Forystumenn ungra bænda hafa vafalaust verið tvístígandi þegar þeir réðu ráðum sínum um hvort halda ætti fundinn. Áhætta fælist í að kalla fólk saman á höfuðborgarsvæðinu undir heitinu: Laun fyrir lífi – ungra bænda og íslenskra sveita. Þeir stigu skrefið og fylltu Salinn þar sem fluttar voru 10 ræður við mjög góðar undirtektir og stjórnmálamenn sátu í pallborði.

4645346870057564098

Steinþór Logi Arnarsson, formaður samtakanna, bóndi í Stórholti í Dölum, las tillögu að ályktun fundarins, Seinna er of seint, og gaf dúndrandi lófatakið til kynna að hún væri fundargestum mjög að skapi.

Í ályktuninni er núverandi rekstrarskilyrðum í landbúnaði lýst sem ókleifum hamri fyrir ungt fólk á sama tíma og íslenskur landbúnaður standi frammi fyrir „stórkostlegum nýjum tækifærum á heimsmarkaði“. Þau felist í „aukinni umhverfisvitund jarðarbúa í öllum heimshornum, nýjum kröfum um heilnæmi matvæla, vistvæna orkugjafa í framleiðslunni og heilbrigða búskaparhætti“.

Ungir bændur fullyrða réttilega að í þessum efnum séum við „í allra fremstu röð“. Þá felist „fjölmörg tækifæri“ í „framsækinni nýsköpun í krafti þekkingar og nýrrar tækni“. Þessi tækifæri verði ekki nýtt nema stjórnvöld ryðji brautina og opni „ungu fólki ný og spennandi tækifæri jafnt til búskapar sem rannsóknar-, vísinda- og þróunarstarfa á sviði landbúnaðar“.

Það er enginn uppgjafartónn í þessum orðum enda var fundurinn haldinn til að hvetja til sóknar. Núverandi aðstæður eru einstakar að því leyti að nú er í fyrsta sinn unnið að nýjum búvörusamningi með opinbera landbúnaðarstefnu að leiðarljósi. Alþingi samþykkti í fyrsta sinn landbúnaðarstefnu 1. júní 2023 á grundvelli víðtæks samstarfs við bændur undir slagorðinu Ræktum Ísland!

Í stefnunni segir að samhæfa beri opinberan stuðning „með það að markmiði að styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun“.

Áherslur skuli breytast í styrkjakerfi landbúnaðar. Styðja á fjölbreyttari framleiðslu landbúnaðarafurða og líta sérstaklega á jarðrækt og aðra landnýtingu, skógrækt, endurheimt vistkerfa, náttúruvernd og landvörslu.

Þá verði hugað að því að auðvelda kynslóðaskipti og nýliðun í landbúnaði.

Við framkvæmd þeirra ráðstafana sem nú eru nauðsynlegar til að endurskapa rekstrarskilyrði landbúnaðarins hljóta þessi markmið að verða virt. Báðir aðilar búvörusamninganna hafa samþykkt þau.

Skilyrði opinbers stuðnings yrðu þar með ekki alfarið bundin við mjólkurlítra eða fallþunga dilka heldur yrði jarðrækt og önnur landnýting lögð til grundvallar með loftslagsmál, umhverfi, náttúruvernd og fjölbreytni í ræktun sem leiðarljós.

Sé litið til framtíðar má kynna til sögunnar tvö hugtök sem setja sterkan svip á alþjóðlegar landbúnaðarumræður um þessar mundir: kolefnisbúskap (e. carbon farming) og nákvæmnisbúskap (e. precision farming).

Með kolefnisbúskap er stefnt að því að binda sem mest kolefni í jarðvegi og gróðri. Aðferðir sem hafa verið þróaðar í því skyni gefa vonir um að þær mildi loftslagsbreytingar og auki gæði jarðvegs. Þar er meðal annars litið til beitar sem tryggi fjölbreytni gróðurs og breyti lítt grónu landi í gull eins og íslenska sauðkindin hefur gert um aldir, þjóðinni til lífs.

Æskilegt er að meta áhrif beitar á uppskeru beitilands og þar með uppsöfnun kolefnis og magn kolefnis í afurðum landsins. Með úthagabeit sauðfjár er gróðri breytt í verðmæta afurð án þess að notaður sé áburður eða olía við fóðurframleiðsluna, lífrænna verður kjötið ekki. Kolefnishagkvæmni þess að nýta úthaga við framleiðslu lambakjöts samanborið við áborið land, svo að ekki sé minnst á heygjöf, þarf að kanna. Þetta verður ekki gert án samvinnu bænda og vísindamanna. Það yki gildi sauðfjárræktar ef í ljós kæmi að sauðkindin stuðlaði að vottaðri kolefnisjöfnun – auk lambakjöts og ullar gæfi hún af sér verðmætar kolefniseiningar.

Frá árinu 2020 hefur verið unnið hér að verkefni um loftslagsvænan landbúnað með þátttöku ráðuneyta, Ráðsgjafamiðstöðvar landbúnaðarins, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Nú eru 56 bú í verkefninu, í sauðfjár- og nautgriparækt. Einnig er fimm garðyrkjuframleiðendum nú boðin aðild.

Nákvæmnisbúskapur felst í að nota upplýsingatækni til að tryggja að ræktun og jarðvegur fái nákvæmlega það sem þörf er á til að heilbrigði og framleiðni sé sem mest. Tekið er mið af gerð jarðvegs, landslagi, veðri, gróðurfari og afrakstri við stjórn ræktunar. Mjög örar framfarir eru í þessum búskap og með vaxandi notkun gervigreindar vex breytingarhraðinn. Íslenskir bændur munu örugglega nýta sér þessa tækni og hafa einstæða aðstöðu til þess með ljósleiðara um land allt, nú síðast í Árneshrepp á Ströndum.

Ríkisstjórnin hefur falið þremur ráðuneytisstjórum að leggja mat á stöðuna í landbúnaði vegna endurtekinna hækkana á stýrivöxtum og verðhækkana á aðföngum. Í þessu felst mikilvæg viðurkenning á vandanum sem varð kveikjan að fundi ungra bænda. Lausn vandans verður að tryggja bændum laun fyrir lífi.