25.2.2023

Tvær ólíkar forsetaræður

Morgunblaðið, laugardagur 25. febrúar 2923.

Yf­ir­bragðið var ólíkt þegar Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seti og Joe Biden Banda­ríkja­for­seti fluttu ræður sín­ar þriðju­dag­inn 21. fe­brú­ar og at­hygli beind­ist að ársaf­mæli inn­rás­ar Rússa í Úkraínu.

Pútín talaði yfir þing­mönn­um, emb­ætt­is­mönn­um og her­for­ingj­um í sýn­ing­ar- og markaðshúsi í næsta ná­grenni Kreml­ar­k­astala við Rauða torgið í Moskvu. Grám­inn féll vel að bragðdauf­um upp­lestri Pútíns, svip­laus­um and­lit­um áheyr­enda og staðlaus­um sam­særis­kenn­ing­um ræðutext­ans. Risa­stórt skjald­ar­merki minnti á vald Pútíns og fána­borg­ir til beggja hliða við einmana ræðupúltið áréttuðu há­tign­ina.

Biden talaði utan dyra í hjarta Var­sjár, í kast­a­lag­arðinum við Vist­ula­ána. Sögu­frægi kast­al­inn var end­ur­reist­ur úr rúst­um annarr­ar heims­styrj­ald­ar­inn­ar og nú iðaði garður­inn af mann­lífi, ljósa­dýrð og fán­um Pól­lands, Banda­ríkj­anna og Úkraínu. For­ystu­menn Pól­lands og er­lend­ir gest­ir sátu til hliðar á palli. All­ir voru hlý­lega klædd­ir enda svalt í veðri eft­ir að sól sett­ist. Að lok­inni ræðu Bidens hópuðust börn að hon­um, glöð í bragði með fána sína.

ImagesbbJoe Biden flytur ræðu sína í Varsjá 21. febrúar 2023.

Ef til vill verður litið til þess­ar­ar ræðu Bidens sem sögu­legr­ar. Hún fái sess með ýms­um ræðum síðustu ald­ar þegar rifjuð eru upp stór­póli­tísk at­vik úr kalda stríðinu.

John F. Kenn­e­dy Banda­ríkja­for­seti sagði í Berlín 26. júní 1963, tæp­um tveim­ur árum eft­ir að komm­ún­ista­stjórn­in í Aust­ur-Berlín reisti Berlín­ar­múr­inn: Ich bin ein Berl­iner! – Ég er Berlín­ar­búi! Hann vildi minna bæði Sov­ét­menn og íbúa Vest­ur-Berlín­ar á að það væri sér og Banda­ríkja­mönn­um að mæta, færðu komm­ún­ist­ar sig frek­ar upp á skaftið í Berlín.

Ronald Reag­an Banda­ríkja­for­seti var í Berlín 12. júní 1987 og flutti ræðu sem síðan er kennd við þessa setn­ingu í henni: Mr. Gor­bachev, tear down this wall! – Hr. Gor­bat­sjov, brjóttu þenn­an múr!

Þá var ekki ár liðið frá því að Reag­an og Mik­haíl Gor­bat­sjov Sov­ét­for­seti hitt­ust í Höfða og voru ráðgjaf­ar Reag­ans alls ekki á einu máli um skyn­semi þess að for­set­inn ögraði Gor­bat­sjov á þenn­an hátt.

Múr­inn féll 9. nóv­em­ber 1989 og Sov­ét­rík­in rúm­um tveim­ur árum síðar. Gor­bat­sjov varð að láta sér hvort tveggja lynda – Sov­ét­valdið mátti sín einskis.

Þegar Kenn­e­dy og Reag­an fluttu ræður sín­ar var ástand heims­mála með öðrum blæ en núna. Evr­ópa var vissu­lega klof­in milli aust­urs og vest­urs og keppni var háð milli stór­velda með vís­an til ólíkra stjórn- og stjórn­mála­kerfa. Það ríkti þó friður í álf­unni 1963 og 1987. Ríki viður­kenndu leik­regl­ur sem mótuðust í eld­raun­inni sem kennd er við Kúbu­deil­una í októ­ber 1962 þegar bæði Banda­ríkja­stjórn og Sov­ét­stjórn­in skóku kjarna­vopn sín. Strax árið 1963 ákváðu kjarn­orku­veld­in þrjú, Banda­rík­in, Sov­ét­rík­in og Bret­land, að hætta öll­um til­raun­um með kjarna­vopn of­anj­arðar.

Í ræðu sinni 21. fe­brú­ar 2023 hótaði Vla­dimir Pútín að hefja til­raun­ir með kjarna­vopn að nýju. Ræða Pútíns var stríðsæs­ingaræða án þess að hann nefndi þó einu orði hvað her hans mundi gera næst í inn­rás­ar­stríðinu í Úkraínu sem hófst 24. fe­brú­ar 2022.

Í til­efni af ársaf­mæli inn­rás­ar­inn­ar og þess­ari ræðu Pútíns spáðu marg­ir stór­sókn Rússa í Úkraínu svo að for­set­inn gæti gortað af ein­hverju á víg­vell­in­um. Þessi sókn er kannski haf­in, rúss­neski her­inn mjak­ast þó aðeins áfram í aust­ur­hluta Úkraínu. Pútín fórn­ar lífi um 2.000 her­manna sinna fyr­ir hverja 90 metra sem sótt er fram.

Rúss­lands­for­seti lýg­ur blákalt að þjóð sinni þegar hann seg­ir Vest­ur­lönd hafa hafið stríðið og Rúss­ar verði að beita hervaldi til að stöðva það. Hann tal­ar ekki aðeins um að hefja til­raun­ir með kjarna­vopn að nýju held­ur hleyp­ur frá síðasta samn­ingi milli Rússa og Banda­ríkja­manna um tak­mörk­un kjarna­vopna.

Joe Biden sagði í Var­sjár­ræðu sinni að með inn­rás­inni í Úkraínu hefðu Rúss­ar ekki aðeins ögrað Úkraínu held­ur allri heims­byggðinni. Hætta væri á að meg­in­regl­urn­ar, horn­steinn friðar, far­sæld­ar og stöðug­leika í ver­öld­inni í meira en 75 ár, yrðu hafðar að engu. For­set­inn sagði:

„Enga nauðsyn bar til þessa stríðs; það er harm­leik­ur.

Pútín for­seti hafði í hendi sér að hefja þetta stríð. Hver dag­ur stríðsins er í hans hendi. Orð frá hon­um dug­ar til að binda enda á stríðið.

Þetta er ein­falt. Hætti Rúss­ar inn­rás í Úkraínu, lýk­ur stríðinu. Hætti Úkraínu­menn að verj­ast Rúss­um, verða það enda­lok Úkraínu.“

Að heims­styrj­öld­un­um tveim­ur und­an­skild­um er jafn­an vísað til kalda stríðsins sem hættu­leg­asta tím­ans í sögu síðustu ald­ar og allt til nú­tím­ans. Auðvelt er að færa fyr­ir því rök að í kalda stríðinu hafi aldrei ríkt sam­bæri­legt hættu­ástand í okk­ar heims­hluta og ein­mitt um þess­ar mund­ir.

Eitt ár hernaðarátaka er liðið, mörg hundruð þúsunda hafa fallið í val­inn og lík­lega enn fleiri særst að auki. Stór­ir hlut­ar Úkraínu eru rjúk­andi rúst og millj­ón­ir manna hafa lagt þaðan á flótta. Bar­áttuþrek þjóðar­inn­ar hef­ur þó ekki verið brotið á bak aft­ur.

„Lyddu­leg fíkn Pútíns for­seta í land og vald skil­ar engu. Og ætt­j­arðarást Úkraínu­manna hef­ur bet­ur,“ sagði Biden.

Í Úkraínu hef­ur enn einu sinni verið dreg­in lína milli frels­is og ófrels­is, lýðræðis og ein­ræðis, far­sæld­ar og fá­tækt­ar. Hver þjóð sem er friðarmeg­in við þessa línu fagn­ar hverj­um degi best með því að leggja þeim lið sem fórna lífi sínu fyr­ir frelsið.

Í lok­in skal enn vitnað í Banda­ríkja­for­seta sem sagði að nú stæði Pútín frammi fyr­ir því sem hann taldi óhugs­andi fyr­ir ári. Lýðræðis­rík­in hefðu styrkst en ekki veikst. Alræðis­herr­arn­ir hefðu veikst en ekki styrkst.