27.11.2021

Torfæra frá Borgarnesi til Strassborgar

Morgunblaðið, laugardagur 27. nóvember 2021.

Í lög­um um kosn­ing­ar til alþing­is seg­ir að séu þeir gall­ar á fram­boði eða kosn­ingu þing­manns sem ætla megi að hafi haft áhrif á úr­slit kosn­ing­ar­inn­ar úr­sk­urði þingið kosn­ingu hans ógilda.

Meiri­hluti kjör­bréfa­nefnd­ar alþing­is taldi að ekki hefðu komið fram vís­bend­ing­ar sem gæfu til­efni til að ætla að sá ann­marki hefði verið á vörslu kjör­gagna í NV-kjör­dæmi að hann hefði haft áhrif á úr­slit kosn­ing­anna og leitt til breyt­inga sem urðu á at­kvæðatöl­um fram­boðslista við seinni taln­ingu at­kvæða þar. Niðurstaðan var að vilja kjós­enda bæri að virða þrátt fyr­ir galla á fram­kvæmd kosn­ing­anna.

Und­ir for­mennsku Birg­is Ármanns­son­ar, for­manns þing­flokks sjálf­stæðismanna, kannaði und­ir­bún­ings­nefnd fyr­ir rann­sókn kjör­bréfa í 125 klukku­stund­ir á 34 fund­um og í þrem­ur vett­vangs­ferðum í Borg­ar­nes frá 4. októ­ber til 23. nóv­em­ber 2021 fram­kvæmd kosn­inga í NV-kjör­dæmi í þing­kosn­ing­un­um 25. sept­em­ber 2021. Skrifuðu full­trú­ar allra þing­flokka nema Pírata und­ir 91 bls. grein­ar­gerð nefnd­ar­inn­ar sem birt var á vefsíðu alþing­is 23. sept­em­ber.

Á þing­setn­ing­ar­degi 23. nóv­em­ber voru þeir sem sátu í und­ir­bún­ings­nefnd­inni kjörn­ir í kjör­bréfa­nefnd og lögðu þeir fram þrjár til­lög­ur á þing­fundi 25. nóv­em­ber (1) um að loka­töl­ur eft­ir end­urtaln­ingu í Borg­ar­nesi giltu; (2) um að kosið yrði á ný í NV-kjör­dæmi; (3) um að kosið yrði á ný í öll­um kjör­dæm­um. Fyrsta til­lag­an var samþykkt með 42 at­kvæðum og alþingi varð starf­hæft rétt­um tveim­ur mánuðum eft­ir að það var kjörið.

Að kvöldi 23. nóv­em­ber var rætt um grein­ar­gerð und­ir­bún­ings­nefnd­ar­inn­ar við Katrínu Jak­obs­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra sem sagði við rík­is­sjón­varpið að án til­lits til niður­stöðu þings­ins um kjör­bréf­in teldi hún „all­ar lík­ur“ á að ákvörðun þings­ins yrði vísað til Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu. „Ég held að þannig [sé] það bara,“ sagði Katrín og minnti svarið á kjör­orð fram­sókn­ar­manna: Ætli það sé ekki bara best að kjósa Fram­sókn?

1304166Vettvangskönnun þingnefndar í Borgarnesi (mynd: mbl.is)

Er þetta bara svona? Dr. Davíð Þór Björg­vins­son lands­rétt­ar­dóm­ari sat um skeið í Mann­rétt­inda­dóm­stóli Evr­ópu (MDE). Skömmu eft­ir þing­kosn­ing­arn­ar, 3. októ­ber, skrifaði hann pist­il á netið þar sem hann velti ágrein­ingi um úr­slit kosn­ing­anna fyr­ir sér í ljósi mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu (MSE).

Sátt­mál­inn veiti ríkj­um mikið svig­rúm til að ákveða sjálf lagaum­gjörð um kosn­ing­ar og fram­kvæmd þeirra. Ráðist nán­ari út­færsla meðal ann­ars af sögu­leg­um aðstæðum, hefðum, venj­um og stjórn­skipu­leg­um hug­mynd­um í hverju landi. Lagt sé til grund­vall­ar að borg­ar­ar sátt­mála­ríkj­anna búi við lýðræði og kosið sé til lög­gjaf­arþings auk þess hafi borg­ar­arn­ir rétt til að bjóða sig fram.

Davíð Þór seg­ir að fyr­ir MDE hafi oft reynt á rétt­inn til að kjósa án þess að nokkr­um dytti í hug að ágrein­ing­ur­inn drægi niður­stöður kosn­inga í efa. Einnig hafi reynt á rétt­inn til fram­boðs án þess að það raskaði úr­slit­um kosn­inga.

Af grein­ar­gerð und­ir­bún­ings­nefnd­ar­inn­ar má ráða að í störf­um henn­ar hafi hún verið með annað augað á hugs­an­legu mál­skoti til dóm­stóls­ins í Strass­borg. Birt­ist það skýr­ast í því sem nefnd­in seg­ir um dóm MDE í mál­inu Mugemangango gegn Belg­íu frá 10. júlí 2020.

Við gerð eig­in verklags­reglna hafði nefnd­in ann­ars veg­ar hliðsjón af form- og efn­is­regl­um stjórn­sýslu­rétt­ar og hins veg­ar þess­um dómi MDE þar sem rík­ar kröf­ur eru gerðar til vandaðrar málsmeðferðar við yf­ir­ferð kosn­ingakæra með hliðsjón af meg­in­regl­unni um frjáls­ar kosn­ing­ar. Nefnd­in tel­ur að lög­festa verði frek­ari ákvæði um störf­in sem henni eru fal­in og verði þá litið til reglna sem sett­ar voru af héraðsþingi Vallón­íu í Belg­íu um málsmeðferð vegna dóms MDE.

Stund­um mætti ætla að 4. dóm­stig Íslands sé í Strass­borg. Svo er ekki. Skil­yrði þess að mál sé tækt fyr­ir MDE er „að leitað hafi verið til hlít­ar leiðrétt­ing­ar í heima­land­inu“. Þá verður kær­andi að sýna að hann hafi orðið fyr­ir „um­tals­verðu óhagræði“ nema hann telji vegið að virðingu mann­rétt­inda sinna. Að vegið hafi verið að mann­rétt­ind­um með mis­tök­um í Borg­ar­nesi er lang­sótt.

Lög­reglu­stjóri Vest­ur­lands hef­ur boðið yfir­kjör­stjórn NV-kjör­dæm­is að ljúka kæru­máli vegna fram­kvæmd kosn­ing­anna með greiðslu sekt­ar. Var því hafnað af kjör­stjórn­inni. Af þessu kann að spretta dóms­mál sem ein­hverj­um dytti kannski í hug að fara með til Strass­borg­ar. Eitt er víst að tæma verður all­ar leiðir hér á landi áður en haldið er fyr­ir dóm­ara í Frakklandi.

Af belg­íska mál­inu sést að dóm­stól­ar þar hafa oft neitað af­skipt­um af fram­kvæmd þing­kosn­inga. Þess vegna fór Mugemangango-málið milliliðalaust til MDE. Er eitt­hvert sam­bæri­legt for­dæmi hér?

Héraðsþing Vallón­íu kem­ur ekki fram fyr­ir Belga á sama hátt og alþingi fyr­ir Íslend­inga. Fel­ur aðild að mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu í sér vald MDE til að vega að full­veldi alþing­is með fyr­ir­mæl­um um hvernig fram­kvæmd stjórn­ar­skrár­var­ins valds þess skuli háttað? Mundi MDE gefa breska, þýska eða franska þing­inu slík fyr­ir­mæli?

Þjóðþing­in setja MDE skorður. Víða í lýðfrjáls­um lönd­um Evr­ópu vex gagn­rýni á inn­grip dóm­ar­anna í Strass­borg í stjórn­ar­hætti ríkja. Það er óvar­legt fyr­ir alla að nota orðið „bara“ um þess­ar af­leiðing­ar klúðurs yfir­kjör­stjórn­ar­inn­ar. Mál­skot til Strass­borg­ar breyt­ir engu um úr­slit kosn­ing­anna. Að grípa til þess núna ber meiri vott um mein­fýsi en vilja til bættra vinnu­bragða við fram­kvæmd kosn­inga. Rök­studd­ar til­lög­ur um nauðsyn­leg­ar um­bæt­ur má sjá í grein­ar­gerð und­ir­bún­ings­nefnd­ar­inn­ar.