Torfæra frá Borgarnesi til Strassborgar
Morgunblaðið, laugardagur 27. nóvember 2021.
Í lögum um kosningar til alþingis segir að séu þeir gallar á framboði eða kosningu þingmanns sem ætla megi að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar úrskurði þingið kosningu hans ógilda.
Meirihluti kjörbréfanefndar alþingis taldi að ekki hefðu komið fram vísbendingar sem gæfu tilefni til að ætla að sá annmarki hefði verið á vörslu kjörgagna í NV-kjördæmi að hann hefði haft áhrif á úrslit kosninganna og leitt til breytinga sem urðu á atkvæðatölum framboðslista við seinni talningu atkvæða þar. Niðurstaðan var að vilja kjósenda bæri að virða þrátt fyrir galla á framkvæmd kosninganna.
Undir formennsku Birgis Ármannssonar, formanns þingflokks sjálfstæðismanna, kannaði undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa í 125 klukkustundir á 34 fundum og í þremur vettvangsferðum í Borgarnes frá 4. október til 23. nóvember 2021 framkvæmd kosninga í NV-kjördæmi í þingkosningunum 25. september 2021. Skrifuðu fulltrúar allra þingflokka nema Pírata undir 91 bls. greinargerð nefndarinnar sem birt var á vefsíðu alþingis 23. september.
Á þingsetningardegi 23. nóvember voru þeir sem sátu í undirbúningsnefndinni kjörnir í kjörbréfanefnd og lögðu þeir fram þrjár tillögur á þingfundi 25. nóvember (1) um að lokatölur eftir endurtalningu í Borgarnesi giltu; (2) um að kosið yrði á ný í NV-kjördæmi; (3) um að kosið yrði á ný í öllum kjördæmum. Fyrsta tillagan var samþykkt með 42 atkvæðum og alþingi varð starfhæft réttum tveimur mánuðum eftir að það var kjörið.
Að kvöldi 23. nóvember var rætt um greinargerð undirbúningsnefndarinnar við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem sagði við ríkissjónvarpið að án tillits til niðurstöðu þingsins um kjörbréfin teldi hún „allar líkur“ á að ákvörðun þingsins yrði vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu. „Ég held að þannig [sé] það bara,“ sagði Katrín og minnti svarið á kjörorð framsóknarmanna: Ætli það sé ekki bara best að kjósa Framsókn?
Vettvangskönnun þingnefndar í Borgarnesi (mynd: mbl.is)
Er þetta bara svona? Dr. Davíð Þór Björgvinsson landsréttardómari sat um skeið í Mannréttindadómstóli Evrópu (MDE). Skömmu eftir þingkosningarnar, 3. október, skrifaði hann pistil á netið þar sem hann velti ágreiningi um úrslit kosninganna fyrir sér í ljósi mannréttindasáttmála Evrópu (MSE).
Sáttmálinn veiti ríkjum mikið svigrúm til að ákveða sjálf lagaumgjörð um kosningar og framkvæmd þeirra. Ráðist nánari útfærsla meðal annars af sögulegum aðstæðum, hefðum, venjum og stjórnskipulegum hugmyndum í hverju landi. Lagt sé til grundvallar að borgarar sáttmálaríkjanna búi við lýðræði og kosið sé til löggjafarþings auk þess hafi borgararnir rétt til að bjóða sig fram.
Davíð Þór segir að fyrir MDE hafi oft reynt á réttinn til að kjósa án þess að nokkrum dytti í hug að ágreiningurinn drægi niðurstöður kosninga í efa. Einnig hafi reynt á réttinn til framboðs án þess að það raskaði úrslitum kosninga.
Af greinargerð undirbúningsnefndarinnar má ráða að í störfum hennar hafi hún verið með annað augað á hugsanlegu málskoti til dómstólsins í Strassborg. Birtist það skýrast í því sem nefndin segir um dóm MDE í málinu Mugemangango gegn Belgíu frá 10. júlí 2020.
Við gerð eigin verklagsreglna hafði nefndin annars vegar hliðsjón af form- og efnisreglum stjórnsýsluréttar og hins vegar þessum dómi MDE þar sem ríkar kröfur eru gerðar til vandaðrar málsmeðferðar við yfirferð kosningakæra með hliðsjón af meginreglunni um frjálsar kosningar. Nefndin telur að lögfesta verði frekari ákvæði um störfin sem henni eru falin og verði þá litið til reglna sem settar voru af héraðsþingi Vallóníu í Belgíu um málsmeðferð vegna dóms MDE.
Stundum mætti ætla að 4. dómstig Íslands sé í Strassborg. Svo er ekki. Skilyrði þess að mál sé tækt fyrir MDE er „að leitað hafi verið til hlítar leiðréttingar í heimalandinu“. Þá verður kærandi að sýna að hann hafi orðið fyrir „umtalsverðu óhagræði“ nema hann telji vegið að virðingu mannréttinda sinna. Að vegið hafi verið að mannréttindum með mistökum í Borgarnesi er langsótt.
Lögreglustjóri Vesturlands hefur boðið yfirkjörstjórn NV-kjördæmis að ljúka kærumáli vegna framkvæmd kosninganna með greiðslu sektar. Var því hafnað af kjörstjórninni. Af þessu kann að spretta dómsmál sem einhverjum dytti kannski í hug að fara með til Strassborgar. Eitt er víst að tæma verður allar leiðir hér á landi áður en haldið er fyrir dómara í Frakklandi.
Af belgíska málinu sést að dómstólar þar hafa oft neitað afskiptum af framkvæmd þingkosninga. Þess vegna fór Mugemangango-málið milliliðalaust til MDE. Er eitthvert sambærilegt fordæmi hér?
Héraðsþing Vallóníu kemur ekki fram fyrir Belga á sama hátt og alþingi fyrir Íslendinga. Felur aðild að mannréttindasáttmála Evrópu í sér vald MDE til að vega að fullveldi alþingis með fyrirmælum um hvernig framkvæmd stjórnarskrárvarins valds þess skuli háttað? Mundi MDE gefa breska, þýska eða franska þinginu slík fyrirmæli?
Þjóðþingin setja MDE skorður. Víða í lýðfrjálsum löndum Evrópu vex gagnrýni á inngrip dómaranna í Strassborg í stjórnarhætti ríkja. Það er óvarlegt fyrir alla að nota orðið „bara“ um þessar afleiðingar klúðurs yfirkjörstjórnarinnar. Málskot til Strassborgar breytir engu um úrslit kosninganna. Að grípa til þess núna ber meiri vott um meinfýsi en vilja til bættra vinnubragða við framkvæmd kosninga. Rökstuddar tillögur um nauðsynlegar umbætur má sjá í greinargerð undirbúningsnefndarinnar.