16.11.2018

Þjóðaröryggi leggur skyldur á stjórnvöld

Morgunblaðið föstudagur, 16. nóvember 2018

Fyrsta skýrslu þjóðaröryggisráðs um framkvæmd þjóðaröryggisstefnu Íslands var birt 1. nóvember sl.

Þar er á 44 bls. og í 10 köflum farið yfir þá þætti sem eru ráðandi við mótun þjóðaröryggisstefnunnar. Efni þeirra er lýst og hvað við blasir. Þessir tíu þættir eru: Alþjóðalög og friðsamleg lausn deilumála; umhverfis- og öryggishagsmunir á norðurslóðum; Atlantshafsbandalagið; varnarsamningurinn; norræn samvinna; almannavarna- og öryggismál; netöryggi; aðrar ógnir og friðlýsing fyrir kjarnavopnum.

Forsida_-_skarpari_.width-720
Hver kafli þessarar skýrslu skiptir miklu og án þess að litið sé til þessara þátta allra er ekki unnt að fá heildarmynd af stöðunni. Í skýrslunni er fjallað um hvernig unnið er að markmiðum þjóðaröryggisstefnunnar. Hún endurspeglar „breiða sýn á þjóðaröryggi“. Með öðrum orðum, öryggi tekur til fleiri og flóknari þátta en áður hefur verið talið. Undir hugtakið falla innri og ytri ógnir, af mannavöldum eða vegna náttúruhamfara. Skýrslan er um framkvæmd einstakra þátta þjóðaröryggisstefnunnar en í henni felst ekki hættu- eða ógnarmat.

Lykilhlutverk landhelgisgæslunnar


Hér á landi er öll öryggisgæsla á vegum ríkisins borgaraleg. Lögregla og landhelgisgæsla gegna þar lykilhlutverki.

Við blasir af skýrslunni að Landhelgisgæsla Íslands hefur þróast á annan veg en menn sáu endilega fyrir en þó er heimilað í lögum um hana frá árinu 2006.

Sérfræðingar frá sprengjudeild  landhelgisgæslunnar fara  til  þjálfunarverkefna í Jórdaníu og nú nýlega í Írak í samstarfi við vinaþjóðir. Sprengjudeildin sinnir reglulega sprengjueyðingu, friðargæslu og kennslu á vegum Atlantshafsbandalagsins víðs vegar í  heiminum. Deildin gengst árlega fyrir NATO-æfingu hér á landi og vex þátttaka í henni stöðugt, komast nú færri að en vilja.

Landhelgisgæslan kemur að framkvæmd loftrýmiseftirlits NATO hér á landi. Verkefnið er unnið af  starfsmönnum gæslunnar undir  stjórn  stjórnstöðvar  bandalagsins  í Uedem  í  Þýskalandi. Samtals hafa níu aðildarþjóðir Atlantshafsbandalagsins lagt til orrustuþotur og liðsafla vegna loftrýmisgæslu frá Keflavíkurflugvelli.

Í skýrslunni segir:

„Starfsmenn varnarmálasviðs Landhelgisgæslu Íslands búa yfir víðtækri sérfræðiþekkingu sem einnig hefur komið Atlantshafsbandalaginu og aðildarþjóðunum að gagni. Varnarmálasvið  Landhelgisgæslunnar  tekur  virkan  þátt  í  störfum  stofnana  og  undirnefnda Atlantshafsbandalagsins.“

Það er rétt niðurstaða í skýrslunni að auka beri áherslu á málefni þar sem sérþekking Íslands getur nýst Atlantshafsbandalaginu. Í þátttökunni felst virðisauki fyrir íslenska sérfræðinga, einkum á sviði almannavarna, netvarna og viðnámsgetu.

Í kaflanum um varnarmannvirki segir að mikilvægt sé að tryggja viðveru og rekstur löggæslu- og eftirlitsflugvélarinnar TF-SIF. Er vélinni lýst sem öflugasta eftirlitstækinu á stórum hluta norðurskauts- og Norður-Atlantshafssvæðisins. Enn fremur þurfi að fjölga varðskipum sem sinna eftirliti á hafsvæðum umhverfis Ísland úr einu í tvö. Þannig sé unnt að fjölga úthaldsdögum og stórauka eftirlit á hafinu.

Minnt er á að stjórnvöld hafi samþykkt kaup á þremur nýjum björgunarþyrlum fyrir landhelgisgæsluna. Reiknað er með að þær verði teknar í notkun á árunum 2021–2023. „Trygg viðvera björgunarþyrlna sem þola aðstæður á norðurhveli jarðar er undirstöðuatriði allra öryggis- og varnartengdra verkefna í lofti og á sjó,“ segir í skýrslunni.

Þjóðaröryggisstefnan leggur skyldur á herðar stjórnvalda. Þeim verður ekki sinnt án fjárveitinga, mannafla og tækja sem duga til þess sem gera skal.

Netöryggi


Í kaflanum um netöryggi segir:
 
„Vitundarvakning hefur orðið undanfarin ár. Flestir átta sig nú á að netnotkun geti fylgt hættur, en mörgum reynist erfitt að átta sig á hvar þær leynast og hvað er til ráða. Umfjöllun fjölmiðla um árásir, veilur og aðra misnotkun á netinu hefur aukist verulega. Stefnt er að því að auka samvinnu um upplýsingamiðlun og vitundarvakningu á þessu sviði á vettvangi netöryggisráðs með ýmsum hagsmunaaðilum í þjóðfélaginu og á vettvangi samstarfshóps um net- og upplýsingaöryggi.“
 

Allt er þetta skynsamlegt en þegar netöryggiskaflinn er lesinn er erfitt að fikra sig til niðurstöðu um hlutverk ráðuneyta, stofnana, nefnda og ráða. Umræðurnar eru á fræðilegum grunni. Netöryggismálin eru enn í of flóknum stjórnsýslulegum farvegi. Óhjákvæmilegt er að slípa og skerpa ábyrgðarkeðjuna.

Þetta snertir að sjálfsögðu það sem fellur undir aðrar ógnir en í þeim kafla er sérstaklega vikið að því að á árinu 2016 hafi ríkislögreglustjóri lagt mat á hættuna af völdum netglæpa og sagt meðal annars brýnt að auka menntun og fræðslu fyrir lögreglumenn varðandi tölvu- og netglæpi, svo og að auðvelda aðgengi lögreglu að sérfræðiþekkingu og samvinnu við fagaðila í málum sem varða þennan flokk afbrota. Þá hafi Europol, Evrópulögreglan í Haag í Hollandi, lagt mat á þróun skipulagðrar brotastarfsemi á komandi árum, hún taki nú stakkaskiptum, ekki síst vegna þess að brotastarfsemi færist í vaxandi mæli yfir á netið.

 Landamæravarsla

Brýnt er að huga að landamæravörslu. Í skýrslunni segir að stjórnvöld bregðist nú „við alvarlegum athugasemdum um að styrkja landamæravörslu sem fram komu í kjölfar Schengen-úttektar á árinu 2017,“ eins og það er orðað.  Unnið sé að aðgerðum sem snúi m.a. að stjórnskipulagi, fjölda starfsmanna, menntun og þjálfun, greiningarstarfi og tækjabúnaði á landamærastöðvum.

Og ennfremur þetta: „Skipulögð glæpastarfsemi er ein mesta ógnin sem steðjar að landamæravörslu og reyndar að öryggi samfélagsins í heild. Líta má á landamæravörslu sem fyrstu varnir gegn skipulagðri glæpastarfsemi en hér ber þó einnig að nefna alþjóðlegt samstarf lögreglu og tollgæslu við erlendar systurstofnanir. Mikilvægi þeirrar samvinnu hefur sannað sig á undanförnum árum.“

Þetta eru alvarleg viðvörunarorð. Stundum er því haldið fram að aðild að Schengen-samstarfinu sé veiki hlekkurinn þegar að þessum þætti öryggis okkar kemur. Þar er um hættulegan misskilning að ræða. Þvert á móti mætti halda því fram að stæðu Íslendingar utan Schengen væri hér á landi skjól fyrir afbrotamenn eða glæpahópa. Stjórnvöld hefðu enga heimild til að nýta þá öflugu gagnarunna sem samstarfinu fylgja.

Nýta verður nýjustu tækni og fjölga fólki við greiningarstarf á Keflavíkurflugvelli. Það er skilvirkasta leiðin til að efla landamæravörsluna.

Forvirkar aðgerðir

Hryðjuverkaógnar er getið í skýrslunni. Til að sporna við henni skipta mestu aðrar aðferðir en íslenskum yfirvöldum er heimilt að beita.

Nýlega var skýrt frá því að danska leyniþjónustan PET hefði lagt fram upplýsingar sem leiddu til þess að lögreglan handtók mann frá Noregi af írönskum ættum. Talið var að hann væri útsendur launmorðingi Íransstjórnar, sendur til að granda írönskum andófsmönnum búsettum í Danmörku. Í fréttum var sagt að PET hefði fengið upplýsingar frá ísraelsku leyniþjónustunni Mossad um hættuna á þessum launmorðum.

Íslensk stjórnvöld verða ekki hluti af slíkri atburðarás. Hér getur hún ekki orðið vegna skorts á heimildum lögreglu til forvirkra rannsókna og athugana. Þessa brotalöm verður að taka til meðferðar á fundum þjóðaröryggisráðs.