19.12.2017

Það sem ekki má liggja í þagnargildi

Morgunblaðið 19. desember 2017

 

Erlendur landshornalýður?

Eftir Snorra G. Bergsson.

375 bls., innb. Almenna bókafélagið 2017.

 

Útlendingamál og deilur um þau eru ekkert nýmæli hér á landi. Þau hafa lengi sett svip á Íslandssöguna. Aldrei hefur verið jafnmikill straumur útlendinga til landsins og um þessar mundir, bæði lögmætur og ólögmætur. Snorri G. Bergsson sagnfræðingur, höfundur bókarinnar Erlendur landshornalýður? tekur fram að flóttamannavandinn á fjórða tug 20. aldar hafi í „grundvallaratriðum“ verið „afar ólíkur og frábrugðinn þeim sem nú gengur yfir“.

Hvað sem því líður sýnir bókin að í grunninn er vandinn sem þingmenn og önnur yfirvöld glíma við í útlendingamálum sá sami nú og áður: að draga mörk til þess annars vegar að hafa stjórn á straumi fólks til landsins og skapa hins vegar svigrúm fyrir þá sem talið er æskilegt að setjist að í landinu. Þá er einnig enn tekist á um hvaða reglur skuli gilda um kaup útlendinga á fasteignum. Hvort gera eigi mun á jörðum og húseignum. Loks eru brottvísunarmál oft hitamál eins og áður var.

Bók Snorra er ómetanleg heimild fyrir þá sem vilja kynna sér sögu íslenskra útlendingamála. Undirtitill hennar er: Flóttamenn og framandi útlendingar á Íslandi, 1853-1940.

Hvers vegna árið 1853? Þá glímdu þeir sem sátu ný-endurreist alþingi við boð frá konungi um að hér skyldu gilda dönsk lög um framandi gyðinga. Í þingumræðunum  var sagt að óþarft væri að setja lög um þetta efni því að gyðingum væri þegar heimilt að setjast að í landinu, hitt væri óráð að „samþykkja slíkt heimboð sérstaklega“.

Hafnaði þingið tillögu konungs árið 1853 en snerist hugur árið 1855. Andúðin á gyðingum vék fyrir konungshollustunni. Snorri leiðir líkur að því að við afgreiðslu málsins 1855 hafi sjónarmið Jóns Sigurðssonar forseta orðið undir á alþingi. Jón hafi „orðið fyrir áhrifum af kenningum þýskra þjóðernissinna um að júðar þættu öðrum kaupmönnum slægari og ósvífnari og væru jafnan saman í félagi gegn öðrum kaupmönnum“.

Afstaðan hér og víðar til gyðinga er meginþráðurinn í bók Snorra og hefur hann safnað miklum fróðleik um efnið meðal annars með rannsóknum í Bandaríska helfararsafninu í Washington DC og rannsóknarferðum til Jerúsalem.

Frásögn Snorra sýnir að margt sem snertir andúð Íslendinga á gyðingum hefur vísivitandi verið látið liggja í þagnargildi. Má þar sérstaklega nefna hlut Hermanns Jónassonar, lögreglustjóra í Reykjavík, síðar formanns Framsóknarflokksins, forsætis- og dómsmálaráðherra á fjórða áratug 20. aldar. Hann bendir á að hvorki Hermann sjálfur né málsvarar hans í málgagni Framsóknarflokksins, Tímanum, hafi farið með rétt mál þegar þeir fjölluðu um andúð Hermanns á gyðingum og hvernig hún birtist í embættisverkum hans.

Snorri segir heimildir ekki gefa „tilefni til að ætla að hér hafi verið almenn óvild í garð gyðinga“. Hér var stjórnsýslu hins vegar háttað á þann veg að það var í raun í höndum Hermanns Jónassonar að ráða „hverjir fengu að vera hér og hverjir ekki“. Hjá honum hafi greinilega gætt andúðar á gyðingum eins og Snorri sýnir með dæmum og fjöldi landsmanna hafi veitt honum „þögult samþykki fyrir því að snúa frá landi fólki sem var í lífshættu og reka aðra úr landi, aftur til ofsækjenda þeirra“.

Gagnasöfnun Snorra er mikil að vöxtum. Á skilmerkilegan hátt lýsir hann ekki aðeins lögum, reglum og stjórnsýsluákvörðunum heldur birtir nöfn og persónusögu margra tuga manna, einkum gyðinga, sem lögðu leið sína hingað eða reyndu að gera það.

Við lokagerð bókarinnar hefði má huga meira að lesandanum, auðvelda honum að skilja sem best meginstrauma og meginniðurstöður. Sumu þarf lesandinn að raða saman eins og púsluspili.

Líklegt er að sögur einstakra flóttamanna þyki mörgum forvitnilegastar og hefði mátt gera bókina auðveldari aflestrar með því að afmarka persónusögurnar betur og rekja ævi helstu flóttamanna til enda.

Nokkrar myndir eru í bókinni en bæta í sjálfu sér ekki miklu við hana. Ítarleg heimildaskrá fylgir en neðanmálsgreinar eru á svo smáu letri að erfitt er að lesa þær. Þá fylgir nafnaskrá megintextanum.

Þetta er grundvallarrit um þátt í Íslandssögunni sem ekki má liggja í þagnargildi. Þarna er að finna efnivið sem vonandi verður nýttur til frekari rannsókna og skýringa á þróun sem gat að lokum af sér helförina undir forystu nasista.