Styttan af Snorra og framtíðin
Ræða í Reykholti 15. júlí 2017
Þegar hátíðin mikla var hér fyrir 70 árum
sleit íslenska lýðveldið enn barnskónum, aðeins þriggja ára. Koma norska
ríkisarfans hingað jók sjálfstraust Íslendinga og styrkti stöðu unga
lýðveldisins.
Styttan af Snorra sýndi að Norðmenn viðurkenndu hann sem Íslending.
Þetta var því sannkölluð gleðihátíð eftir myrk styrjaldarár.
Í Reykholti vildu menn að öflugur héraðsskóli tryggði staðnum sess sem menntasetur við hlið kirkjunnar. Snorra yrði minnst með að heimsækja laug hans og sjá göngin þar sem hann var veginn, þá yrði hér trjágarður, Snorragarður, auk styttunnar góðu.
Kirkjan stendur enn og hefur styrkst með nýjum byggingum. Héraðsskólanum var hins vegar lokað fyrir tveimur áratugum.
Í stað skólans kom Snorrastofa, safn um Snorra Sturluson og sögu Reykholts sem stuðlar að rannsóknum og veitir fræðslu um norræna sögu og bókmenntir sem tengjast Snorra Sturlusyni og Reykholti. Stofnuninni er einnig ætlað að kynna sögu Borgarfjarðarhéraðs sérstaklega.
Á undanförum 20 árum hefur Snorrastofa í skjóli kirkjunnar og í samstarfi við hana náð miklum árangri við að skapa minningu Snorra Sturlusonar verðuga umgjörð hér í Reykholti.
Fræða- og rannsóknastarf, fornleifarannsóknir, bókaútgáfa, rækt við sögu Borgarfjarðarhéraðs auk sýningar um Snorra hefur skapað Reykholti nýjan sess og leitt til tengsla um heim allan og rannsóknarverkefna annars staðar á landinu eins og á Þingeyrum í Húnaþingi.
Hér hefði aldrei verið ráðist í miklar framkvæmdir við nýtt hótel nema vegna þess hve vel hefur til tekist við alla endurreisn og alúð þeirra sem hér starfa við að taka vel á móti gestum, miðla og fræða.
Nú þarf að leggja á ráðin um hvernig staðurinn eflist enn frekar samhliða minningunni um Snorra.
Snorrastofa vill hefja hugmyndavinnu um þróun Reykholts með þátttöku allra sem að slíku stórverkefni þurfa að koma.
Þegar ákvarðanir voru teknar um framtíð Reykholts fyrir 20 árum var heimavist héraðsskólans seld undir hótel. Skólahúsið sjálft er enn eign ríkisins og er að hluta bókageymsla, sá hluti hússins sem stendur næst Snorralaug – aðdráttarafli hundruð þúsunda ferðamanna ár hvert.
Æskilegt er að skólahúsið allt verði lifandi hluti þess starfs sem tengir Reykholt við minningu Snorra og verk hans.
Við getum séð Snorralaug enn þann dag í dag og fornleifarannsóknirnar hafa dregið fram bústað Snorra betur en áður. Allt er þetta áþreifanlegt og skapar Reykholti einstaka sérstöðu, ekki aðeins á Íslandi heldur þótt víðar sé leitað.
Það er ekki víða á jarðarkringlunni þar sem menn geta komið og lesið texta sem þar var skráður fyrir níu hundruð árum eins og hann hafi verið ritaður í gær og síðan séð hvar höfundurinn baðaði sig og var tekinn af lífi.
Hvergi annars staðar má skoða umhverfi neistans að Niflungahringnum, Hringadróttinssögu og Krúnuleikjum svo að aðeins sé minnst á dropa af öllu því sem rekja má til Snorra í skapandi verkum samtímans.
Við verðum að tryggja verðuga kynningu á þessu öllu, hér á hún heima. Finnum leiðina til þess. Góð byrjun yrði að nýta bókasafnshluta skólahússins til að sýna Snorra í verkum samtímans.
Góðir gestir!
Þeirra bíða mörg stórhuga verkefni sem vilja leggja rækt við minninguna um Snorra Sturluson.
Það var gert á sögulegan hátt hér fyrir 70 árum.
Höldum áfram á sömu braut!