Stórvirki um heimsstríð
Bækur - Sagnfræði Morgunblaðið, þriðjudagur 28. desember 2021.
Vítislogar – heimur í stríði 1939-1945 *****
Eftir Max Hastings. Magnús Þór Hafsteinsson þýddi.
Innbundin, 880 bls., myndir og kort.
Ugla útgáfa, Reykjavík 2021.
Vítislogar – heimur í stríði 1939-1945 eftir Max Hastings er stórvirki sem hlotið hefur lof um heim allan. Þýðing Magnúsar Þórs Hafsteinssonar á þessari 880 bls. bók frá 2011 er einnig stórvirki. Ugla útgáfa á lof skilið fyrir að standa myndarlega að íslensku útgáfunni. Í bókinni eru arkir með myndum úr síðari heimsstyrjöldinni, þar er einnig fjöldi korta. Þá eru þar skrár yfir tilvísanir, heimildir og nöfn.
Max Hastings (75 ára) var ritstjóri bresku blaðanna The Daily Telegraph og Evening Standard og hefur auk þess sent frá sér 29 bækur. Bókin Vítislogar kom út árið 2011 í Bretlandi undir heitinu All Hell Let Loose en í Bandaríkjunum heitir hún Inferno . Síðan hefur Hastings sent frá sér bækur um fyrri heimsstyrjöldina; njósnir og skæruliða 1939-45; Víetnam-stríðið; orrustuna um Japan 1944-45; orrustuna um Möltu; loftárásir á stíflur í Rín og hermannasögur, alls sjö bækur á 10 árum.
Hér fer því enginn meðalmaður höndum um þetta mikla efni heldur þrautþjálfaður blaðamaður með yfirburðaþekkingu á hernaðarsögu. Þótt bókin sé löng einkennist textinn hvergi af málalengingum, gengið er beint til verks og efnið borið fyrir lesandann á markvissan og skýran hátt. Atburðirnir tala og dregnar eru ályktanir af þeim auk aragrúa samtímalýsinga úr bréfum eða öðru sem liggur eftir einstaklinga sem tóku þátt í hildarleiknum. Sorg og hörmungar af öllu tagi setja sterkan svip á textann.
Dregin er heildarmynd en farið í saumana á atburðum eða atriðum þegar höfundi finnst þörf á því. Brugðið er upp leiftrandi skyndimyndum af herforingjum eða stjórnmálamönnum. Höfundur hikar ekki við að segja kost eða löst á þeim sem hann nefnir. Í sumum sagnfræðibókum er umgjörðin svo viðamikil að kjarni þess sem ætlunin er að koma til skila týnist. Stíll Hastings er beinskeyttur og án útúrdúra. Hann heldur hiklaust áfram án þess að minna lesandann á það sem áður er sagt eða benda honum á eitthvað sem birtist síðar í bókinni. Við erum í textanum „hér og nú“ sem auðveldar að grípa niður í þessa stóru bók. Efnistökin eru þannig að kveikir áhuga á að kynna sér ítarefni.
Til dæmis má nefna það sem segir um skipalestirnar frá Hvalfirði til Múrmansk. Þar er engu rými varið til að fjalla um Ísland eða Hvalfjörð sérstaklega heldur leiðir textinn lesandann beint þangað. Hann snýst um skipalestirnar sem héðan fóru. Hörmulegustu ferðina fór skipalestin PQ17. Talið er að sex Íslendingar hafi verið í henni. Einn þeirra, Albert Sigurðsson, skrifaði minningabrot um siglinguna og gaf dóttir hans Kolbrún þau út í bók árið 2018. Hastings segir að vegna þessarar ferðar sem hófst í Hvalfirði 27. júní 1942 hafi breski sjóherinn mátt „þola mestu vansæmd sína í stríðinu“ (359). Breska ríkisstjórnin lét ritskoða allt sem sagði um skipalestina og örlög hennar. Hastings segir að fagmennska og hugrekki hafi einkennt frammistöðu breska flotans í þessum aðgerðum fyrir utan PQ17. Breski flotinn sjálfur taldi „skipalestirnar til Sovétríkjanna meðal dirfskufyllstu verkefna sjóhersins í stríðinu“ (363).
Hastings ber almennt mikið lof á flota Breta og Bandaríkjamanna. Lýsingar hans á sjóorrustum á Kyrrahafi eru magnaðar en þar leiddi sigur bandaríska flotans í átökunum um Midway í byrjun júní 1942 til þáttaskila. Afrek bandaríska flotans og flughersins á Kyrrahafi verða seint metin til fulls vegna þess hve allar vegalengdir eru illskiljanlegar þeim sem ekki hafa reynt þær sjálfir.
Sjóorrustur voru ekki nýmæli tengd síðari heimsstyrjöldinni. Öðru máli gegndi um lofthernað af því tagi sem þá þróaðist og skipti að lokum sköpum fyrir Vesturveldin til að draga úr mannfalli og stuðla að sigri eftir að landhernaður hófst á meginlandi Evrópu sumarið 1944. Í aðdraganda sóknarinnar í átt að Þýskalandi höfðu gegndarlausar sprengjuárásir verið gerðar á þýskar borgir, flugvelli, stíflur og önnur mannvirki til að lama baráttuþrek og eyðileggja sem mest af verksmiðjum og vígtólum.
Sálrænn hernaður af þessum toga var grimmdarlegur fyrir almenna borgara og að stríði loknu voru loftárásir á þýsku borgina Dresden teknar sem dæmi um ómannúðlega, tilgangslausa hefnigirni Breta. Sagt var að hundruð þúsunda almennra borgara hefðu farist. Neðanmáls bendir Hastings á að nýjar rannsóknir sýni að um 25.000 manns hafi farist í loftárásum í Dresden 13. og 14. febrúar 1945. Það breyti ekki neinu í deilum um hvort árásirnar hafi verið nauðsynlegar en setji þær í annað ljós og sýni að þær kostuðu mun færri mannslíf en árásir á Hamborg 1943 eða Tókýó 1945. (731)
Þessi athugasemd minnir á að Hastings styðst við nýjustu rannsóknir á gangi og afleiðingum styrjaldarinnar við ritun bókar sinnar. Hann hikar ekki við að fella dóma um það hvort ákveðnar aðgerðir eða orrustur sem sumar kostuðu hundruð þúsunda mannslífa hafi þjónað hernaðarlegum tilgangi eða ekki.
Í bókinni er fjöldi korta sem auðveldar lesandanum að átta sig á aðstæðum sem lýst er í textanum. Á blaðsíðu 713 sýnir kort sókn bandamanna að Þýskalandi árið 1944 úr austri og vestri. Þetta kort segir í raun allt um aðstöðumuninn sem var milli Vesturveldanna annars vegar og Sovétríkjanna hins vegar og hvers vegna Rússar kalla heimsstyrjöldina föðurlandsstríðið mikla og halda minningardag hennar mjög hátíðlegan 9. maí ár hvert.
Kortið lýsir hins vegar ekki því sem segir í textanum um grimmdina og hörkuna sem einkenndi átök Hitlers og Stalíns eftir að griðasáttmáli þeirra varð að engu og við tóku fyrirmæli um að barist skyldi til síðasta manns. Uppgjöf jafngilti dauðadómi. Sama hugarfar ríkti innan hers Japana:
„Það vakti viðurstyggð hjá hermönnum Bandamanna hvernig Japanir voru reiðubúnir til að berjast upp á líf og dauða frekar en gefast upp, jafnvel þótt allt væri vonlaust, ósigurinn vís og ekkert á því að græða að veita frekari mótspyrnu. Hermenn Bandaríkjanna og Bretlands höfðu alist upp við þá evrópsku sögulegu stríðshefð að þegar siðmenntaðir heiðursmenn stæðu frammi fyrir augljósum ósigri væri sjálfsagt að gefast upp til að fyrirbyggja tilgangslausar blóðsúthellingar.“ (532)
Hugleiðingar af þessu tagi eða stuttir palladómar um hershöfðingja og stjórnmálamenn birtast af og til í textanum. Í lokakafla bókarinnar dregur Max Hastings ályktanir sínar og leggur dóm á menn, málefni og einstakar hernaðaraðgerðir.
Í upphafi sagði að þýðing Magnúsar Þórs Hafsteinssonar væri stórvirki. Það eitt að taka sér fyrir hendur að íslenska texta um hernað krefst nokkurs áræðis vegna þess hve þar er oft um framandi viðfangsefni tungu herlausrar þjóðar að ræða. Magnús Þór leysir þennan vanda á fumlausan hátt. Textinn er fjölbreyttur vegna þess hve víða er leitað fanga: í ræðum, bréfum, vísum og ljóðum. Blæbrigði skila sér en þar ræður að sjálfsögðu smekkur. Ræður Churchills þegar hann talar til bresku þjóðarinnar verða hátíðlegar í íslenska textanum og ef til vill of fjarlægar almennum borgurum. Hér er því miður viðtekið að borgir eða lönd tali saman, Moskva og Lundúnir, Frakkland og Bretland í stað ráðamanna í Moskvu og Lundúnum eða Frakka og Breta. Þegar mikið er um dagsetningar er gott að setja ártöl aftan við þær, til glöggvunar fyrir lesandann.
Bókin Vítislogar segir ekki aðeins sögu síðari heimsstyrjaldarinnar heldur auðveldar hún einnig skilning á sögunni sem síðan hefur mótað heimsmynd okkar. Þarna er lagður grunnur að henni með upplausn nýlenduvelda, spennu milli þjóða á Kyrrahafssvæðinu og rússneska sársaukanum sem nú brýst fram 30 árum eftir hrun Sovétríkjanna yfir því hve rússneskt heimsveldi má sín lítils. Þeir sem íhuga nú hernað á sléttum Úkraínu ættu að rifja upp blóðbaðið sem þar varð í átökum Hitlers og Stalíns og láta sér það að kenningu verða.