6.2.2021

Samhljómur á þingi um Bandaríkin

Morgunblaðið, 6. febrúar 2021

Við stjórn­ar­skipt­in í Banda­ríkj­un­um láta sér­fræðing­ar á öll­um sviðum ljós sitt skína og veita nýj­um vald­höf­um góð ráð. Í þeim hópi er Heather A. Conley sem fer meðal ann­ars með norður­slóðamál í áhrifa­miklu hug­veit­unni Center for Stra­tegic and In­ternati­onal Studies.

Hún hvatti til þess á vefsíðunni ArcticToday 1. fe­brú­ar að Ant­ony Blin­ken, nýr ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna, staðfesti við ís­lensk stjórn­völd, sem nú fara með for­mennsku í Norður­skauts­ráðinu, að hann ætlaði að sækja ráðherra­fund ráðsins hér á landi í maí og hefði einnig John Kerry, fyrr­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherra, nú­ver­andi sér­leg­an lofts­lags­full­trúa Bidens, með sér. Þá ætti banda­ríska ut­an­rík­is­ráðuneytið að hvetja til þess að Íslend­ing­ar byðu ut­an­rík­is­ráðherr­um norður­skautsland­anna átta til óform­legs fund­ar utan ramma Norður­skauts­ráðsins til að ræða geópóli­tísk viðfangs­efni og þróun ör­ygg­is­mála á norður­slóðum.

Minnti Conley á að á óform­leg­um fundi fyr­ir ut­an­rík­is­ráðherra­fund ráðsins fyr­ir tveim­ur árum í Rovaniemi í Finn­landi hefði Mike Pom­peo, þáv. ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna, valdið nokkru upp­námi með harðorðum um­mæl­um um hernaðar­um­svif Rússa og kröf­ur Kín­verja um að fá að gera sig gild­andi á norður­slóðum sem ná­grannaþjóð þeirra. Vill Conley að Blin­ken og Kerry vindi ofan af orðum Pom­peos og tali við norður­skauts­rík­in af meiri vin­semd og sam­starfs­vilja einkum í lofts­lags­mál­um.

Hvort farið verði að þess­ari til­lögu vegna norður­skauts­fund­ar­ins í Reykja­vík í maí eða hvort al­mennt verður unnt að halda hann vegna COVID-19 kem­ur í ljós. Hitt er þó ljóst eft­ir sér­staka umræðu um „sam­skipti Íslands og Banda­ríkj­anna eft­ir valda­skipt­in 20. janú­ar sl.“ á alþingi fimmtu­dag­inn 4. fe­brú­ar að kæmi fram banda­rísk ósk í þá veru sem að ofan er lýst yrði henni vel tekið af rík­is­stjórn Íslands og já­kvæð viðbrögð við henni nytu stuðnings þing­manna allra flokka.

Rósa Björk Brynj­ólfs­dótt­ir, nýorðin þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, bað um þessa sér­stöku umræðu. Að nokkru virðist ósk henn­ar sprott­in af innri þörf fyr­ir að fara niðrandi orðum um Don­ald Trump, fyrr­ver­andi Banda­ríkja­for­seta. Rósa Björk taldi aug­ljós­an áhuga Trumps á norður­slóðum hafa verið „drif­inn áfram af karllæg­um yf­ir­gangi og gam­aldags valda­brölti frek­ar en ein­læg­um áhuga á því að tryggja góð og friðsam­leg sam­skipti“.

Nú væri nýr tími kom­inn og lag til „að skerpa á sam­bandi okk­ar Íslend­inga við ný banda­rísk stjórn­völd sem eru með allt aðra sýn en þau fyrri; leggja það niður fyr­ir okk­ur hvað það er sem við sem full­valda sjálf­stætt ríki vilj­um leggja áherslu á við rík­is­stjórn Bidens for­seta og í sam­skipt­um okk­ar við Banda­rík­in með nýj­um for­seta með allt aðrar áhersl­ur en sá fyrri,“ sagði Rósa Björk.

Í stuttu máli birt­ist þessi já­kvæða afstaða til Banda­ríkj­anna í ræðum þing­manna sem tóku þátt í umræðunum.

1112374Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á alþingi (mynd: mbl.is).

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra sagði:

„Hvað mig varðar þá staldra ég ekki síst við þá staðreynd að und­an­farn­ar vik­ur hafa sýnt hversu sterk lýðræðis­hefðin er í Banda­ríkj­un­um þegar til kast­anna kem­ur. Það sem við okk­ur blas­ir er að lýðræðis­stofn­an­ir og stjórn­skipu­lag stóðust þau álags­próf sem segja má að fram­ganga fyrr­ver­andi for­seta hafi leyst úr læðingi. Þessu fagna auðvitað all­ir sann­ir vin­ir Banda­ríkj­anna, ekki síst þessi eig­in­leiki banda­rísks sam­fé­lags ger­ir það að verk­um að við Íslend­ing­ar höf­um litið á Banda­rík­in sem vinaþjóð okk­ar og banda­menn á vett­vangi alþjóða- og ör­ygg­is­mála.“

Ut­an­rík­is­ráðherra sagði okk­ur líta til Banda­ríkj­anna sem „öfl­ug­asta lýðræðis­rík­is heims“ og það væri mik­il­vægt að Banda­rík­in yrðu áfram í for­ystu á vett­vangi alþjóðamála. Fyr­ir okk­ur og önn­ur lýðræðis­ríki skipti veru­legu máli að Banda­rík­in væru virk­ir þátt­tak­end­ur í fjölþjóðasam­starfi, ekki síst núna þegar grafið væri und­an ýms­um rétt­ind­um og gild­um sem við teld­um svo mik­il­væg.

Sama dag og þing­menn staðfestu vináttu Íslands og Banda­ríkj­anna hélt Joe Biden for­seti fyrstu stefnuræðu sína um ut­an­rík­is­mál og sagði: „Boðskap­ur minn til heims­ins í dag er: Banda­rík­in eru kom­in aft­ur.“ Hann sagðist hafa rætt við leiðtoga Bret­lands, Þýska­lands, Frakk­lands og NATO um að styrkja að nýju stoðir lýðræðis­legra banda­laga sem hefðu veikst und­an­far­in ár vegna hirðuleys­is og þess sem hann kallaði „misþyrm­ingu“.

Slag­orðið sem Biden notaði America is back boðar annað en slag­orð Don­alds Trumps America first sem marg­ir töldu end­ur­spegla kulda í garð banda­manna og sam­starfs­ríkja Banda­ríkja­manna. Joe Biden er af­drátt­ar­laus­ari í gagn­rýni sinni á Vla­dimir Pút­in og stjórn hans en Trump var.

Heit­streng­ing­ar ís­lenskra þing­manna úr öll­um flokk­um um að treysta sam­bandið við Banda­rík­in hafa sjald­an verið jafn sam­hljóma og í umræðunum á þingi fimmtu­dag­inn 4. fe­brú­ar 2021.

Í stjórn­artíð Don­alds Trumps skipuðu ís­lensk stjórn­völd sér í sveit með rík­is­stjórn­um ann­ars staðar á Norður­lönd­un­um þegar þær styrktu þá all­ar tengsl sín við Banda­rík­in í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Nor­ræn­ar rík­is­stjórn­ir fylgja jafn­framt all­ar hernaðarlegri lág­spennu­stefnu á norður­slóðum.

Stór­veldakapp­hlaupið í norðri er staðreynd og einnig hitt að Norður­skauts­ráðið fjall­ar ekki um varn­ar­mál. Til þess vís­ar Heather A. Conley sem vitnað var til í upp­hafi þegar hún hvet­ur til fund­ar utan ráðsins um ör­ygg­is­mál­in á fundi í Reykja­vík í maí áður en Íslend­ing­ar af­henda Rúss­um for­mennsku í Norður­skauts­ráðinu. Til­lög­unni er beint til nýs ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna. Hún á ekki síður er­indi til ís­lenskra og nor­rænna stjórn­valda.

---
Greinina var ég beðinn að skrifa með skömmum fyrirvara vegna veikinda Styrmis Gunnarssonar sem er fastur dálkahöfundur Morgunblaðsins á laugardögum