11.5.2024

Nýsköpun í heilbrigðiskerfum

Morgunblaðið, laugardagur 11. maí 2024.

Ein­ar Stef­áns­son, fyrr­ver­andi pró­fess­or í augn­lækn­ing­um og meðstofn­andi fyr­ir­tækj­anna Ocul­is og Retinari­sk, seg­ir við ViðskiptaMogga 8. maí að heil­brigðis­kerfið sé ekki mót­tæki­legt fyr­ir ís­lensk­um tækni­lausn­um. Af þess­um sök­um sé ann­ars veg­ar dregið úr ný­sköp­un­ar­ár­angri hér og hins veg­ar verði ís­lenskt heil­brigðis­kerfi, og slík kerfi um heim all­an, af „al­veg stór­kost­leg­um fram­fara­skref­um“.

Við inn­leiðingu ým­issa kerf­is­lausna í net­heim­um á tí­unda ára­tugn­um, til dæm­is inn­an stjórn­sýsl­unn­ar, áttu alþjóðleg fyr­ir­tæki sam­vinnu við upp­lýs­inga­tækni­menn í ráðuneyt­um hér. Lausn­ir inn­an lít­illa stjórn­kerfa urðu til þess að opna leiðir til að leysa sam­bæri­leg verk­efni í mun stærri kerf­um. Á þetta til dæm­is við um mála­skrá stjórn­ar­ráðsins sem gjör­breytti starfs­hátt­um inn­an ráðuneyta og op­in­berra stofn­ana á sín­um tíma.

Á þess­um árum hefði áhuga­leysi eða bein­lín­is andstaða við sam­starf op­in­berra aðila við einkaaðila getað orðið til þess að sam­vinna við er­lenda þró­un­araðila hefði aldrei dafnað. Íslenski sprot­inn varð hins veg­ar tengd­ur inn í stærri heild og til varð eitt­hvað nýtt, kerfið GoPro sem lif­ir enn góðu lífi.

Í nóv­em­ber 2022 var skrifað und­ir samn­ing um kaup ís­lenskra ráðuneyta á nýju mála- og sam­skipta­kerfi sem reist er á á GoPro For­is frá Hug­viti hf. Fyr­ir­tækið hef­ur komið að þróun þessa kerf­is í rúm 30 ár. Þetta nýja kerfi var keypt í fram­haldi af viðamiklu útboðsferli á EES-svæðinu með þátt­töku inn­lendra og er­lendra aðila.

Í kynn­ingu sagði þá að GoPro For­is-kerfið væri ís­lenskt og eitt stærsta þró­un­ar­verk­efni ís­lensks hug­búnaðarfyr­ir­tæk­is. Um væri að ræða um­fangs­mikla lausn sem fæli í sér skjala- og mála­vinnslu ásamt funda­kerfi fyr­ir ráðuneyti og rík­is­stjórn­ina. Teng­ing­ar væru við Microsoft 365-lausn­ir eins og Office og Teams auk samþætt­ing­ar við aðra stjórn­sýsluþætti. Kerfið er notað víða um lönd og hjá alþjóðastofn­un­um.

Hér er um að ræða hug­búnað sem snýr að hjarta stjórn­sýsl­unn­ar og þarf sí­fellt að stand­ast meiri áraun vegna inn­brot­stilrauna tölvuþrjóta eða gíslatöku­manna. Kaup­in sýna að stjórn­ar­ráðið eða þeir sem þar ráða eru ekki and­víg­ir sam­vinnu einkaaðila og op­in­berra við þróun tækni­lausna og nýt­ingu hug­búnaðar. Sjálfsþurft­ar­bú­skap­ur rík­is eða sveit­ar­fé­laga á þessu sviði er dæmd­ur til að mistak­ast.

Ai-healthcare-title-image-2560x1365

Í fyrr­greindu viðtali við Ein­ar Stef­áns­son seg­ist hann hafa talað ár­ang­urs­laust við fjóra heil­brigðisráðherra í röð um lausn­ir fyr­ir­tæk­is­ins Retinari­sk sem miða að því að skipu­leggja og sinna þjón­ustu við syk­ur­sjúka ein­stak­linga vegna augnskoðana og blindu­varna.

Tækn­in á ekki ein­ung­is við um augn­sjúk­dóm syk­ur­sjúkra held­ur einnig hjarta­sjúk­dóm og nýrna­sjúk­dóm auk hjarta- og æðasjúk­dóma og mjög stór­an hluta af lang­vinn­um sjúk­dóm­um sem mynda tvo þriðju hluta af heil­brigðisþjón­ust­unni. Með tækn­inni er spáð af ótrú­legri ná­kvæmni fyr­ir um þróun sjúk­dóma. Lækn­isþjón­ustu má sníða að þörf­um hvers ein­stak­lings. Með hug­búnaðinum má draga úr fjölda skoðana um 40%.

Seg­ir Ein­ar það ganga „óskap­lega seint og illa“ að ýta þess­um mál­um áfram. Það sé „stór­kost­lega ergi­legt að kerfið“, emb­ætt­is­menn, stjórn­end­ur og „allt þetta fólk“, mæti þess­um lausn­um „af kurt­eis­legu áhuga­leysi“.

Þegar viðtalið við Ein­ar Stef­áns­son er lesið vakna spurn­ing­ar um hvort annað gildi um ný­sköp­un­ar­sam­vinnu um heil­brigðismál milli einkaaðila og hins op­in­bera en um önn­ur verk­efni. Hér skulu nefnd nokk­ur sjón­ar­mið sem koma til álita á heil­brigðis­sviðinu.

Sé einkaaðilum haldið frá heil­brigðismál­um nú á tím­um gervi­greind­ar er farið á mis við fjár­magn sem þeir hafa til að fjár­festa í bestu tækni og inn­leiða hana á skömm­um tíma. Fjár­hags­leg­ar skorður og skriffinnska kann á hinn bóg­inn að ráða hraða hins op­in­bera. Þar get­ur tekið lang­an tíma að rétt­læta nauðsyn þess að for­gangsraða út­gjöld­um í þágu nýrra lausna.

Einkaaðilar verða að fara að op­in­ber­um heil­brigðis­regl­um en vilji þeirra til að láta reyna á þanþol þeirra og breyta þeim í þágu góðra lausna er meiri en hjá op­in­ber­um stofn­un­um sem geta átt hlut að íþyngj­andi reglu­verki sér í hag.

Meg­in­hvat­inn að baki sókn af hálfu ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækja er kynn­ing á góðum eig­in lausn­um og hagnaðar­von, áhersl­an er því á skil­virkni og hag­kvæmni. Inn­an op­in­berra kerfa er áhersl­an sögð á skjól­stæðing­inn, gæði umönn­un­ar og ár­ang­ur heil­brigðisþjón­ustu án hagnaðar­von­ar.

Hjá einkaaðilum er al­mennt meira svig­rúm til að taka áhættu en hjá hinu op­in­bera þegar unnið er að ný­sköp­un. Einkaaðilar eru oft til­bún­ir til að gera til­raun­ir með nýja tækni til að ná sam­keppn­is­for­skoti.

Inn­an op­in­berra heil­brigðis­kerfa forðast menn al­mennt að taka áhættu. Þeir velja ör­yggi og reynd­ar aðferðir í stað þess að leyfa tækni án mik­illa til­rauna.

Þótt Ein­ar Stef­áns­son beini ósk­um um um­bæt­ur til stjórn­mála­manna er rétt­mætt að spyrja hvort hann glími ekki í raun við tregðu og nýj­unga­ótta meðal lækna og stjórn­enda heil­brigðis­kerf­is­ins.

Hér er trú­in á að all­ir þræðir heil­brigðisþjón­ust­unn­ar séu best komn­ir í hönd­um rík­is­ins meiri en í flest­um lönd­um.

Ný­sköp­un verður að ná inn í heil­brigðis­kerfið sjálft á sama hátt og varð í stjórn­sýsl­unni fyr­ir 30 árum. Nú eins og þá á það við að gervi­greind­ar­lausn­ir sem eru mótaðar af einkaaðila í litlu, lokuðu sam­fé­lagi geta síðan orðið að þjón­ustu­tæki í miklu stærri og marg­brotn­ari kerf­um sem þjóna fjöl­breytt­um og fjöl­menn­um hóp­um fólks.

Það er hættu­legra að hindra ný­sköp­un á þessu sviði en leyfa hana.