11.1.1997

Ljósmyndasýningar Blaðamannafélags Íslands

Ávarp við upphaf Ljósmyndasýningar Blaðamannafélags Íslands
Gerðarsafni, 11. janúar 1997.

Í ár er þess minnst, að 100 ár eru liðin frá því að Blaðamannafélag Íslands var stofnað. Ljósmyndasýningin, sem verður opnuð hér í dag, er fyrsti viðburðurinn tengdur afmælinu. Er ánægjulegt, að Blaðamannafélagið og Blaðaljósmyndarafélag Íslands skuli hafa tekið höndum saman um að sýna hér bestu blaðaljósmyndir ársins 1996 og úrval blaðaljósmynda frá liðnum áratugum.

Fyrir 100 árum hefði fáa órað fyrir þeim stórstígu tæknibreytingum, sem orðið hafa síðan á starfsvettvangi blaðamanna, svo að ekki sé minnst á byltinguna að því er myndbirtingar í blöðum varðar. Raunar var það svo fyrir einni öld, að fréttamyndir voru með öllu óþekktar í íslenskum blöðum.

Það var ekki fyrr en með Morgunblaðinu, sem hóf göngu sína á árinu 1913, að menn réðust í að skera í línóleum myndamót, sem prentuð voru, bæði mannamyndir og aðrar.

Það gerðist í minni tíð sem fréttastjóri erlendra frétta á Morgunblaðinu fyrir áratug eða svo, að við fórum að fá ljósmyndir frá Reuter inn á tölvu og gátum sent þær þaðan beint inn á umbrotna síðu blaðsins, án þess að fara höndum um myndina, fyrr en hún var prentuð í blaðinu sjálfu.

Nú hef ég séð, að tæknin við töku og framleiðslu á myndum er kominn á stafrænt stig - gömlu framköllunarherbergin heyra sögunni til, því að unnt er að bregða myndinni á tölvuskjá, eftir að hún hefur verið tekin. Ljósmyndari getur því verið í beinu sambandi við ritstjórnina frá vettvangi og sjálfur sent myndina milliliðalaust inn á umbrotna síðu í blaðinu.

Tæknin auðveldar okkur störfin en hún nýtist ekki fyrir lesandann nema ljósmyndarinn hafi áfram auga fyrir hinu rétta sjónarhorni. Honum takist á réttu sekúndubroti að ná þeirri mynd af atburðinum, að hann blasi síðan ljóslifandi og orðalaust við þeim, sem fær blaðið í hendur. Kröfurnar til þeirra, sem velja og raða myndum á síðuna, eru einnig allt aðrar og meiri en áður. Velgengni blaða ræðst ekki síður af útliti þeirra en því, sem í þeim stendur.

Leyfið mér á þessari stundu að nefna gamlan samstarfsmann og ljósmyndara, Ólaf K. Magnússon, sem hefur oft fundið hið rétta sjónarhorn. Í tæpa hálfa öld hefur hann verið ljósmyndari við Morgunblaðið en lætur nú af störfum fyrir aldurs sakir. Það er rétt, sem sagt hefur verið, að hann hefur skráð Íslandssöguna með myndavél sinni. Myndasafn Ól. K. M. er og verður ómetanleg heimild um samtíma hans. Það verður mikil fróðleiksnáma fyrir alla, sem vilja kynna sér stóratburði og mannlíf á löngum og farsælum starfsárum hans.

Nokkrar umræður fara nú fram um framtíð ljósmyndasafna í Reykjavík og í landinu öllu. Það hefur oft skapað óhagræði, að þeir, sem þurfa á myndefni að halda, verði að leita til margra aðila í leit að því. Þá er ekki góð trygging fyrir, að höfundarréttur sé virtur, ef útlán ljósmynda eru í höndum margra. Að því yrði vafalaust mikið hagræði, að einn aðili hefði yfirsýn yfir ljósmyndasöfn og gætti að rétti höfunda.

Hin nýja tölvutækni, sem hefur gjörbreytt vinnuaðstöðu blaðamanna og ljósmyndara, auðveldar geymslu á ljósmyndum eins og öðru efni, sem í blöðum birtist. Hún auðveldar okkur einnig að finna það, sem með tækninni hefur verið skráð. Ég tel að gera eigi áætlun um, hvernig stóru ljósmyndasöfnin verði best varðveitt með hinni nýju upplýsingatækni og síðan taki einkaaðilar, sveitarfélög og ríki höndum saman um framkvæmd slíkrar áætlunar. Raunar væri verðugt að setja sér það markmið á 100 ára afmæli Blaðamannafélags Íslands, að allt lesefni í blöðum á starfstíma þess yrði fært inn á tölvu.

Eins og áður sagði er ljósmyndasýningin, sem nú er opnuð, tvíþætt. Hún bregður annars vegar birtu á störf blaðaljósmyndara undanfarna áratugi og sýnir okkur hins vegar bestu myndirnar á síðasta ári og á þeim vettvangi keppa menn einnig um bestu mynd ársins. Flokkun keppnismyndanna í fréttir, daglegt líf, skop, landslag, mannamyndir og íþróttir minnir okkur á, að ljósmyndarar leita víða fanga. Án þeirra þætti okkur blöðin daufleg og heimildagildi þeirra væri allt annað og minna.

Gleymum því ekki heldur, að tilveran hefur margar bjartar hliðar og blaðamennska eða fréttaljósmyndun snýst ekki síður um að lýsa þeim en hinu, sem miður fer.

Með þessum orðum lýsi ég þessa sýningu opna og óska Blaðaljósmyndarafélagi Íslands til hamingju með hana og einnig 100 ára afmælisbarninu, Blaðamannafélagi Íslands.